Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 15:50:11 (2845)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:50]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er komið undir lok þessarar umræðu en ég ætla að segja nokkur orð.

Með því frumvarpi sem hér liggur fyrir eru lagðar til breytingar á eftirlaunakjörum alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara í því skyni að koma á meira samræmi í lífeyrismálum ráðamanna og almennings. Ég tel þetta vera skref í rétta átt og næsta skref er þá kannski að taka undir þær breytingartillögur sem minni hlutinn hefur lagt fram um að forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn, hæstaréttardómarar skuli meðan þeir gegna störfum greiða iðgjöld í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eftir þeim reglum sem um sjóðinn gilda.

Ég hef þá grundvallarafstöðu að það gangi einfaldlega ekki upp að alþingismenn séu á einhverjum sérkjörum. Upp á síðkastið hefur fólk verið að mótmæla á Austurvelli, fólk er að mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér eru höfð í frammi og ég tel að það sé fyrst og fremst vegna þess að ferlið er einfaldlega ekki nógu gegnsætt. Kannski er það þannig að útilokað sé að réttlæta sérkjör alþingismanna og ég held að umræðan um þetta mál hafi oft verið ósanngjörn og kannski ekki alveg rétt og undan þannig umræðu mega alþingismenn og ríkisstjórn ekki láta. En í prinsippatriðinu eiga alþingismenn að vera á sömu kjörum og aðrir opinberir starfsmenn, ég tel að það mundi auka gegnsæi.

Ef við förum út í það að breyta vinnubrögðum þá er kannski næsta skref að auka vald þingsins, auka eftirlitshlutverk þingmanna, að menn beri pólitíska ábyrgð og að ráðherrar taki og beri meiri ábyrgð á undirmönnum sínum og undirstofnunum. Það er önnur umræða sem við þurfum að taka upp hér á hinu háa Alþingi eftir áramót.

En ég harma það og verð að segja að það sem hefur því miður einkennt þá umræðu sem nú fer fram, og fleiri upp á síðkastið, er að þetta mál eins og önnur hefði þarfnast meiri tíma þannig að unnt væri að fara yfir það með fullnægjandi hætti og tryggja að frumvarpið næði tilgangi sínum. Svo tek ég undir álit minni hlutans þar sem segir að það sé mikilvægt að ekki gildi sérreglur fyrir forseta Íslands, ráðherra, alþingismenn og hæstaréttardómara hvað eftirlaun varðar, að eðlilegast sé að þeir greiði sambærileg iðgjöld og njóti sömu réttinda og opinberir starfsmenn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Slíkt fyrirkomulag er einfalt, auðskiljanlegt og, eins og ég hef áður sagt að sé mikilvægast að við innleiðum hér á Alþingi: fyrst og fremst gegnsætt.