Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 57. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 57  —  57. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002, með síðari breytingum.

Flm.: Jón Magnússon, Guðjón A. Kristjánsson, Birgir Ármannsson,


Bjarni Harðarson, Illugi Gunnarsson, Jón Gunnarsson,
Kjartan Ólafsson, Pétur H. Blöndal.


1. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein,7. mgr., sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu reykingar leyfðar á veitinga- og skemmtistöðum samkvæmt beiðni eiganda, í aðskildu herbergi sem sérstaklega er ætlað til reykinga, að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
     1.      Herbergi sem ætluð eru til reykinga eru minni hluti veitingarýmis viðkomandi veitinga- eða skemmtistaðar eða létt mannvirki utan húss sem veitir skjóli fyrir regni og vindi.
     2.      Herbergi eða aðstaða sem ætluð eru fyrir reykingar eru aðskilin frá veitingarými þannig að gestir þurfi ekki að ganga þar um.
     3.      Starfsfólk þarf ekki að dveljast í herbergi eða mannvirki utan húss meðan reykt er þar.
     4.      Sala veitinga og þjónustu eða ámóta starfsemi má ekki fara fram í reykherberginu.
     5.      Loftræsting í reykherbergi og aðstöðu utan húss verður að vera fullnægjandi, sbr. 4. mgr.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með setningu laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, var stigið stórt skref í þá átt að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að freista þess að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks.
    Flutningsmenn frumvarps þessa eru sammála þeim markmiðum sem stefnt er að í lögum um tóbaksvarnir og telja mikilvægt að notkun reyktóbaks verði sem minnst og fari þannig fram að það valdi ekki vandamálum hjá þeim sem ekki reykja tóbak.
    Spurning er hversu langt á að ganga í að setja lög um hegðun og lífsvenjur fulltíða einstaklinga, til að mynda um tóbaksreykingar, þó að meiri hlutinn samfélagsins telji þær óæskilegar, en viðurkennt er að þó að neysla tóbaks sé leyfð er hún skaðleg. Talið er að um fimmti hver fulltíða Íslendingur reyki. Sem betur fer hefur hlutfall þeirra sem reykja farið minnkandi og vonandi heldur sú þróun áfram. Samt sem áður verður að virða rétt þeirra sem reykja tóbak þó að þeir séu í minni hluta og gæta þarf þess að ekki séu sett lög eða reglur sem setja reykingafólki óeðlilegar takmarkanir.
    Flutningsmenn frumvarpsins telja að vel hafi tekist til með tóbaksvarnalögin að flestu leyti en þó hafi verið gengið of langt í að takmarka tóbaksreykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Nauðsynlegt hefði verið að heimila reykingar á afmörkuðum svæðum á og/eða við veitinga- og skemmtistaði þar sem svo væri búið um hnúta að þeir sem vinna á umræddum stöðum eða eru þar gestkomandi og reykja ekki sjálfir verði ekki fyrir óþægindum vegna reykinga.
    Nokkrir hnökrar hafa komið upp við framkvæmd reykingabanns á veitinga- og skemmtistöðum. Í ljósi reynslunnar er því mikilvægt að mati flutningsmanna að gera þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu svo að almenn sátt geti ríkt í þjóðfélaginu um meginmarkmið tóbaksvarnalaganna en með því er líklegra að sá árangur náist sem að var stefnt með sérstakri lagasetningu um tóbaksvarnir.
    Að mati flutningsmanna eru settar reglur ónauðsynlegar og óþarflega íþyngjandi fyrir þá sem vilja neyta reyktóbaks. Í því sambandi er nauðsynlegt að gætt sé meðalhófs og ekki settar strangari reglur til að ná fram markmiðum tóbaksvarnalaganna en nauðsynlegar eru. Fortakslaust bann við því að koma upp sérstökum reykherbergjum á veitinga- og gististöðum er óþarflega ströng regla og fyrst og fremst fallið til þess að setja þeim sem vilja reykja íþyngjandi skilyrði og þeim sömuleiðis sem stunda veitingarekstur og vilja láta alla viðskiptavini sína njóta góðrar þjónustu. Skilyrði þess að heimilað verði að setja upp reykherbergi eru að þess sé gætt að gestir veitinga- og gististaða þurfi ekki að fara um eða dveljast í slíku herbergi nema þeir vilji það sjálfir. Þá er það líka skilyrði að starfsfólk þurfi ekki að vinna í reykherbergi meðan reykt er í því. Þá er vísað til ákvæða 4. mgr. 9. gr. laganna varðandi loftræstingu og ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengun af tóbaksreyk.
    Umburðarlynt lýðræðisþjóðfélag styðst jafnan við meðalhófsreglu í lagasetningu en á það skorti að mati flutningsmanna varðandi réttindi þeirra sem reykja við setningu tóbaksvarnalaganna og þess vegna er nauðsynlegt gera að lágmarki þær breytingar sem lagðar eru til í lagafrumvarpi þessu. Í lýðræðisþjóðfélagi umburðarlyndis verður að gæta þess að minnihlutahópar séu ekki kúgaðir eða beittir óþarfa harðræði í samræmi við skoðanir meiri hlutans.
    Þess verður ávallt að gæta að farið sé varlega í að gera neysluvenjur fólks refsiverðar þó að það sé í verndarskyni, hvort heldur það á við vísindaleg rök að styðjast eða ekki. Almennt verða einstaklingarnir að fá að ráða sjálfir lífi sínu og neysluvenjum án afskipta ríkisvaldsins, svo fremi sem það skaðar ekki aðra og leiðir ekki til hegðunar sem telst samfélagslega óæskileg. Í því efni verður líka að fara varlega en það sem einum finnst óæskileg hegðun kann öðrum með gildum rökum að finnast eðlileg starfsemi í lýðræðisþjóðfélagi.
    Tóbaksvarnalögin voru höfð svo ströng sem raun ber vitni m.a. með vísan til öryggis starfsfólks á veitinga- og gististöðum. Verði frumvarp þetta að lögum breytir það engu af því að öryggis starfsfólks á veitinga- og gististöðum er gætt með sama hætti og áður. Miðað er við að engin sala fari fram í reykherbergjum og starfsfólk gangi ekki þar um meðan reykt er, nema þá í algerum undantekningartilvikum. Ljóst er því að margvísleg starfsemi sem nú er leyfð ógnar meira öryggi starfsfólks en um gæti orðið að ræða þó að þær breytingar næðu fram sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Meðan reykingar eru ekki bannaðar verður að gæta þess að þeir sem reykja geti gert það við sæmilegar aðstæður en þess gætt að tóbaksreykur trufli ekki annað fólk.
    Miðað við þau vandamál sem upp hafa komið varðandi framkvæmd tóbaksvarnalaganna í þeirri mynd sem þau eru nú má ætla að víðtækari sátt mundi nást um tóbaksvarnalögin næðu þær breytingar fram að ganga sem hér eru lagðar til. Þá yrði síður hætta á því að lögin væru brotin vegna þeirra ágalla sem á þeim eru og takmarkaðra möguleika til að stöðva ólögmætt athæfi og beita refsiviðurlögum. Þá er líka ljóst að mörgum finnst réttur brotinn á sér með svo hörkulegum ákvæðum um reykingabann sem nú gildir á veitinga- og gististöðum. Mikilvægt er að ná fram víðtækri sátt um tóbaksvarnir en einungis þannig mun nást það meginmarkmið laganna að draga úr tóbaksreykingum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Miðað er við að ný undantekningarregla verði tekin upp í lögin þar sem reykingar á veitinga- og skemmtistöðum verði heimilaðar samkvæmt beiðni eigenda í aðskildu herbergi sérstaklega ætluðu til reykinga við ákveðnar aðstæður. Meginreglan verður eftir sem áður að reykingar eru ekki leyfðar nema farið sé í hvívetna eftir þeim skilyrðum sem eru sett fyrir því að heimilað verði að leyfa reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Skilyrðin eru eftirfarandi:
    Að beiðni eiganda hafi verið sett fram um að setja upp sérstakt reykherbergi.
    Reykherbergið verður að vera minni hluti veitingarýmis viðkomandi veitingastaðar. Spurning getur verið í þessu sambandi hvort miða á við tiltekið hlutfall af rýminu eða ákveðna fermetratölu en við nánari skoðun þykir sú skipan ekki heppileg, m.a. vegna þess hversu misjafnir skemmti- og veitingastaðir eru og mögulegt er að settir yrðu óþarfa tálmanir á starfsemi ákveðinna staða og samkeppni á markaðnum rugluð ef lengra er gengið í takmörkunum á stærð reykherbergis en hér er lagt til.
    Reykherbergið verður að vera aðskilið frá veitingasölunni og öðru húsnæði veitinga- og/eða skemmtistaðarins. Það þarf auk þess að vera aðskilið frá veitingarýminu svo að gestir þurfi ekki að koma í reykherbergið eða ganga um það. Þetta felur í sér að þeir gestir veitinga- og skemmtistaða sem ekki vilja reykja verða aldrei fyrir ónæði af neysluvenjum þeirra gesta staðarins sem nýta sér reykherbergið.
    Þá er það skilyrði sett að starfsfólk þurfi ekki að vera í herbergi sem ætluð eru til reykinga meðan reykt er. Með því móti er öryggi starfsfólks tryggt að mestu gagnvart óbeinum reykingum og miðað við ákvæði um loftræstingu og annað væri starfsfólki búin minni hætta en fylgir margvíslegri starfsemi sem nú er heimiluð.
    Ekki má selja veitingar eða hafa þjónustu í reykherbergi. Með því að setja slíkt skilyrði liggur fyrir að reykherbergið er sérstakt og eingöngu ætlað fyrir þá sem það vilja nota til skemmri eða lengri dvalar meðan þeir nota reyktóbak en aðrir þurfa ekki og mundu almennt ekki vera í reykherginu, þá sérstaklega ekki starfsfólk.
    Vísað er til ákvæða 4. mgr. 9. gr. laganna um loftræstingu en þar segir að loftræsting skuli fullnægja kröfum heilbrigðiseftirlits og þess gætt að reykingar mengi ekki andrúmsloftið þar sem þær eru ekki leyfðar.
    Rétt er að taka fram að bygging létts mannvirkis utan húss þarf að sjálfsögðu að lúta byggingarreglum og þarfnast hefðbundins leyfis viðkomandi bæjar- eða sveitarstjórnar.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.