Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 137. máls.

Þskj. 150  —  137. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.

    Á eftir 7. tölul. 9. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Að leigja eða fela öðrum með samningi að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið á nauðungaruppboði samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „15 ára“ í 1. mgr. kemur: 30 ára.
     b.      Í stað orðanna „15 ár“ í 4. mgr. kemur: 30 ár.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilaður lánstími skuldbreytingarlána sem Íbúðalánasjóði er heimilt að veita lánþegum sínum vegna tímabundinna greiðsluerfiðleika verði lengdur úr 15 árum í 30 ár. Jafnframt er lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að lengja upphaflegan lánstíma lána sjóðsins vegna greiðsluerfiðleika um allt að 30 ár í stað 15 ára eins og nú er.
    Þá er í frumvarpinu lagt til að Íbúðalánasjóði verði veitt heimild til að leigja eða fela öðrum með samningi að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið á nauðungaruppboði. Er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að heimildin verði nýtt til að gefa leigjendum íbúðarhúsnæðis sem Íbúðalánasjóður hefur eignast á nauðungaruppboði kost á því að leigja íbúð áfram um tiltekinn tíma með því að yfirtaka leigusamning við viðkomandi eða gera nýjan eftir atvikum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður geti við sérstakar aðstæður boðið fyrrum eiganda íbúðarhúsnæðis að búa í húsnæðinu áfram í tiltekinn tíma gegn greiðslu leigu hafi hann fjárhagslegt bolmagn til þess og framboð af öðru leiguhúsnæði í byggðarlagi eða hverfi viðkomandi er takmarkað. Í þriðja lagi er heimildin hugsuð til að tryggja að Íbúðalánasjóður geti gætt hagsmuna sinna og haft arð af íbúðarhúsnæði sem kemst í eigu sjóðsins og ekki er unnt að selja á almennum markaði. Að jafnaði er ekki gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður eigi og leigi íbúðarhúsnæði til lengri tíma heldur sé hér fyrst og fremst um skammtímaúrræði að ræða sem nota ber í þágu leigjenda sem búa í íbúðarhúsnæði á grundvelli leigusamnings við nauðungarsölu og við sérstakar aðstæður í þágu fyrri eiganda og loks eins og áður segir sem þátt í eðlilegri eignastýringu sjóðsins. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um þessa heimild Íbúðalánasjóðs í reglugerð.
    Tillögur þessar eru þáttur í aðgerðum sem félags- og tryggingamálaráðherra hefur gripið til í samvinnu við Íbúðalánasjóð til að rýmka heimildir og fjölga úrræðum sem Íbúðalánasjóður hefur til að koma til móts við lántakendur sem lenda í greiðsluvanda en viðbúið er að þeim muni fjölga mjög sem þurfa á einhverjum slíkum úrræðum að halda á næstu mánuðum vegna þeirrar erfiðu stöðu sem komin er upp í efnahagslífi þjóðarinnar og á vinnumarkaði.
    Íbúðalánasjóður hefur í þessu skyni þegar breytt verklagi sínu við innheimtu vangoldinna skulda hjá lántakendum sínum með því að bíða með sendingu greiðsluáskorunar til skuldara í fjóra og hálfan mánuð frá gjalddaga í stað tveggja og hálfs mánaðar áður. Einnig getur lántakandi nú komist hjá nauðungarsölu með greiðslu þriðjungs af vanskilum sínum en áður var miðað við greiðslu helmings vanskila. Þá hefur verið lengdur sá tími sem fólk hefur til að flytja úr íbúð sem það hefur misst á nauðungaruppboði, úr einum mánuði í þrjá.
    Þá getur lántakandi nú, að skilyrðum uppfylltum, fengið frest á greiðslu afborgana lána ef hann getur ekki í kjölfar kaupa á nýju íbúðarhúsnæði selt eldra íbúðarhúsnæði sitt vegna sölutregðu á fasteignamarkaði.
    Loks hefur Íbúðalánasjóði nú verið veitt heimild að bjóða viðskiptavinum sínum upp á þann möguleika að greiða eingöngu vexti af láni og verðbætur af vöxtum í tiltekinn tíma ef það þykir líklegt til að leysa úr greiðsluerfiðleikum lántakenda.
    Fyrrgreindar heimildir koma til viðbótar eldri úrræðum sem geta m.a. falist í skuldbreytingu vanskila, lengingu lána og frystingu afborgana í allt að þrjú ár.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998,


um húsnæðismál, með síðari breytingum.


    Meginmarkmið með frumvarpinu er að lánstími skuldbreytingalána sem Íbúðalánasjóði er heimilt að veita lánþegum sínum vegna tímabundinna greiðsluerfiðleika verði lengdur úr 15 árum í 30 ár. Jafnframt er lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að lengja upphaflegan lánstíma lána sjóðsins vegna greiðsluerfiðleika um allt að 30 ár í stað 15 ára. Í frumvarpinu er einnig lagt til að Íbúðalánasjóði verði veitt heimild til að stunda eða fela öðrum með samningi að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið á nauðungaruppboði. Megintilgangur þessarar heimildar er annars vegar að gefa fyrrverandi eigendum íbúðarhúsnæðis kost á því að búa áfram í húsnæðinu gegn greiðslu leigu í tiltekinn tíma og hins vegar að tryggja að Íbúðalánasjóður geti gætt hagsmuna sinna og haft arð af íbúðarhúsnæði sem kemst í eigu sjóðsins og ekki er unnt að selja á almennum markaði.
    Ekki er gert ráð fyrir að breyting á lánstíma úr 15 árum í 30 ár leiði til beins kostnaðar fyrir Íbúðalánasjóð. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má þó gera ráð fyrir að ákvæðið hafi áhrif á fjárstreymi Íbúðalánasjóðs þar sem endurgreiðslur lána munu dreifast á lengri tíma. Íbúðalánasjóður þarf væntanlega með fjárstýringu að stilla saman lánstíma inn- og útlána að einhverju marki. Vegna óvissu sem ríkir í þjóðfélaginu í dag er mjög erfitt að meta hvaða áhrif breytingin muni hafa í för með sér á sjóðstreymi Íbúðalánasjóðs til skamms og langs tíma. Ákvæðið um heimild til Íbúðalánasjóðs til að stunda leigumiðlun eða fela það öðrum með samningi er einnig mjög erfitt að meta. Óvissuþættirnir eru margir, til að mynda umfang, hvort leiguverð fyrir íbúðirnar muni verða nægilega hátt til þess að standa undir kostnaði, vanskil leigjenda, viðhald og ýmis annar kostnaður sem getur fallið til. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má þó gera ráð fyrir að rekstrarkostnaður Íbúðalánasjóðs aukist um rúmar 21,5 m.kr. vegna umsýslu með þeim íbúðum sem sjóðurinn eignast og útleigu þeirra ef hann annast um það sjálfur. Áætlað er að störf hjá Íbúðalánasjóði muni aukast um 2–2,5 stöðugildi vegna þessa. Gera má ráð fyrir að leigutekjur standi undir fjárskuldbindingum Íbúðalánasjóðs sem bundnar eru í íbúðunum og eftir atvikum viðhaldi þeirra.
    Framangreindar breytingar snúa að fjárreiðum Íbúðalánasjóðs í C-hluta fjárlaga en ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til aukinna útgjalda fyrir A-hluta ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.