Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 217. máls.

Þskj. 294  —  217. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 88 12. júní 2008, um meðferð sakamála.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    232. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða VII og VIII.

2. gr.

    A-liður ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum fellur brott.

3. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða VII í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir fyrirmæli 232. gr. koma ákvæði laga þessara um héraðssaksóknara, embætti hans og verksvið ekki til framkvæmdar fyrr en 1. janúar 2010. Fyrir þann tíma skal þó dómsmálaráðherra auglýsa laus til umsóknar embætti héraðssaksóknara, varahéraðssaksóknara og saksóknara og skipa í þau, svo og hefja undirbúning að því að embætti héraðssaksóknara taki til starfa.
    Fram til 1. janúar 2010 eru ákærendur ríkissaksóknari og lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri, og að auki, í umboði þeirra, vararíkissaksóknari, saksóknarar, aðstoðarsaksóknarar, saksóknarfulltrúar og löglærðir aðstoðarlögreglustjórar. Um verkaskiptingu milli ríkissaksóknara og lögreglustjóra fer samkvæmt því sem í 3.–5. mgr. segir.
    Ríkissaksóknari höfðar sakamál ef um er að ræða eftirgreind brot á almennum hegningarlögum:
     a.      brot á ákvæðum X.–XVI. kafla laganna,
     b.      brot á ákvæðum XVII. kafla laganna, öðrum en 155.–158. gr.,
     c.      brot á ákvæðum XVIII.–XXII. kafla laganna,
     d.      brot á ákvæðum XXIII. kafla laganna, öðrum en 215. og 219. gr., ef brot tengist broti á umferðarlögum, og 217. gr. og 1. mgr. 218. gr.,
     e.      brot á ákvæðum XXIV. og XXV. kafla laganna, öðrum en 231., 232. og 233. gr.,
     f.      brot á 251. og 252. gr. laganna.
    Ef háttsemi felur í sér annað eða önnur brot en tilgreind eru í 3. mgr., auk brots eða brota sem þar eru greind, tekur ríkissaksóknari ákvörðun um það hvort hann höfðar málið sjálfur eða hvort lögreglustjóri gerir það.
    Lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri, höfða önnur sakamál en þau sem ríkissaksóknari höfðar skv. 3. og 4. mgr.
    Fram til 1. janúar 2010 gegnir ríkissaksóknari því hlutverki sem héraðssaksóknara er ætlað í 2. málsl. 3. mgr. 23. gr., 2.–4. mgr. 24. gr., 2.–4. mgr. 26. gr., 2. mgr. 40. gr., 5. og 6. mgr. 52. gr., 2. mgr. 85. gr., 1. mgr. 92. gr., 5. mgr. 146. gr., 2. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. 147. gr., 3. mgr. 148. gr., 4. mgr. 149. gr., 6. mgr. 150. gr. og 3. mgr. 163. gr.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Héraðssaksóknari skal taka við sókn máls sem höfðað hefur verið fyrir 1. janúar 2010 af lögreglustjóra, þar með talið ríkislögreglustjóra, ef þá er ekki lengur heimild fyrir ákæruvaldi lögreglustjórans í ákvæðum III. kafla, sbr. ákvæði til bráðabirgða VII.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að embætti héraðssaksóknara verði sett á stofn 1. janúar 2010 í stað 1. janúar 2009. Frumvarpið er liður í sparnaðaraðgerðum dóms- og kirkjumálaráðuneytis vegna komandi fjárlagaárs.
    Lög um meðferð sakamála, nr. 88 12. júní 2008, taka gildi 1. janúar 2009 og leysa þau af hólmi lög um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum. Í hinum nýju lögum er meðal annars mælt fyrir um að sett skuli á fót embætti héraðssaksóknara, og verður það nýtt stjórnsýslustig innan ákæruvaldsins. Í kostnaðarmati því, sem fylgdi frumvarpi til laga um meðferð sakamála (þskj. 252, 233. mál 135. löggjafarþings) kemur fram að ef frumvarpið verði að lögum leiði það til 62 millj. kr. hækkunar rekstrarkostnaðar á þessu sviði dómsmálaráðuneytisins. Einnig var gert ráð fyrir að við stofnun embættisins félli til tímabundinn stofnkostnaður sem næmi um 10 millj. kr. Kostnaðarumsögnin miðaðist því við 72 millj. kr. viðbótarútgjöld á ársgrundvelli.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir 35 millj. kr. fjárveitingu. Að auki fer nú fram endurskoðun á fjárlagafrumvarpinu með því markmiði að ná fram sparnaði á útgjöldum ríkissjóðs.
    Í ljósi framangreinds er það tillaga dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að frestað verði um eitt ár að setja embætti héraðssaksóknara á fót. Ákvæði laga um meðferð sakamála taki að öðru leyti gildi 1. janúar 2009.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1.–3. gr.


    Gert er ráð fyrir að lög um meðferð sakamála taki gildi 1. janúar 2009 en ákvæði laganna um embætti héraðssaksóknara komi þó ekki til framkvæmdar fyrr en 1. janúar 2010. Fyrir þann tíma skuli dómsmálaráðherra auglýsa laus til umsóknar embætti héraðssaksóknara, varahéraðssaksóknara og saksóknara þar og skipa í þau, svo og hefja undirbúning að því að embættisskrifstofan taki til starfa.
    Lagt er til að miðað verði við núgildandi skipan þegar kemur að verkaskiptingu milli ríkissaksóknara og lögreglustjóra, þar á meðal ríkislögreglustjóra, um meðferð ákæruvalds, sbr. 3. gr. frumvarpsins, en ákvæðin um það eru sama efnis og 3. og 4. mgr. 27. gr. og 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Um 4. gr.


    Ákvæðið er efnislega hið sama og það sem lagt er til að falli niður í 2. gr. frumvarpsins.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að stofnun sérstaks embættis héraðssaksóknara verði frestað um eitt ár. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir 35,4 m.kr. fjárveitingu til embættisins og var gert ráð fyrir því að embættið tæki formlega til starfa er liði á árið 2009. Vegna þeirra efnahagsáfalla sem dunið hafa yfir liggur fyrir að forsendur fjárlagafrumvarpsins eru gerbreyttar og að draga þarf verulega úr útgjöldum næstu árin. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu framangreind útgjöld ekki falla til á næsta ári.