Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 193. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 307  —  193. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 88/2005, og fleiri lögum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Snorra Olsen tollstjóra og Guðbjörn Guðbjörnsson frá Tollvarðafélagi Íslands. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá ríkisskattstjóra, tollstjóranum í Reykjavík, Félagi íslenskra stórkaupmanna, sýslumanninum í Bolungarvík, sýslumanninum í Vestmannaeyjum, Samtökum atvinnulífsins, Sýslumannafélagi Íslands, Tollvarðafélagi Íslands og Samtökum verslunar og þjónustu.
    Í frumvarpinu er lagt til að landið verði gert að einu tollumdæmi sem stjórnað verði af einu embætti, tollstjóranum í Reykjavík, sem eftir breytinguna mun heita embætti tollstjóra. Embættinu verði heimilt að fela sýslumönnum og lögreglustjórum að annast tilgreinda þætti tollframkvæmdar í umdæmum þeirra.
    Fram kom að almenn samstaða væri um breytingar frumvarpsins. Markmið þeirra væri að hagræða í stjórnsýslu tollframkvæmdar og koma ábyrgð á málaflokknum alfarið undir fjármálaráðuneytið.
    Nefndin ræddi rökin fyrir því að yfirstjórn tollamála væri færð til tollstjórans í Reykjavík og var því til stuðnings vísað til umfangs starfseminnar auk þess sem embættið hefði í dag með höndum sérstakt hlutverk, sbr. 43. gr. tollalaga.
    Þá ræddi nefndin hvort frumvarpið mundi hafa í för með sér niðurskurð og fækkun starfa á landsbyggðinni. Kom fram að það stæði ekki til, heldur ætti að efla þjónustu þar sem hennar væri þörf. Frumvarpið mundi auðvelda færslu starfa til landsbyggðarinnar og að því gefnu að það væri álitið hagkvæmt og skynsamlegt.
    Á fundum nefndarinnar var undirstrikuð þörf fyrir náið samstarf löggæslu og tollgæslu og mikilvægi þess að tryggja virka miðlun upplýsinga milli þessara embætta, sbr. 12. og 45. gr. frumvarpsins. Nefndin tekur undir það sjónarmið.
    Nefndin fagnar sérstaklega 5. tölul. 8. gr. frumvarpsins og bendir á að hann er í samræmi við áherslur sem fram komu í áliti nefndarinnar frá 4. des. 2007 á 135. löggjafarþingi (þskj. 448, 229. mál).
    Nefndin vill taka af tvímæli um að tollstjóri annist lögskráningu í umdæmi sýslumannsins í Keflavík og leggur til breytingu þess efnis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. efnismgr. 29. gr. orðist svo:
    Tollstjóri er lögskráningarstjóri í Reykjavík og í umdæmi sýslumannsins í Keflavík. Sýslumenn eru lögskráningarstjórar hver í sínu umdæmi.

    Ögmundur Jónasson og Katrín Jakobsdóttir gera fyrirvara við álitið.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.


Alþingi, 9. des. 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Bjarni Benediktsson.


Gunnar Svavarsson.


Birkir J. Jónsson.



Lúðvík Bergvinsson.


Katrín Jakobsdóttir,


með fyrirvara.


Rósa Guðbjartsdóttir.