Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 231. máls.

Þskj. 317  —  231. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, lögum um virðisaukaskatt,
nr. 50/1988, og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað b-liðar 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna koma þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
     b.      Varningur sem ferðamenn, búsettir hér á landi, hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun hér á landi umfram það sem greinir í a-lið, að verðmæti allt að 65.000 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Verðmæti einstaks hlutar skal þó að hámarki vera 32.500 kr. Börn yngri en 12 ára skulu njóta réttinda samkvæmt þessum lið að hálfu.
     c.      Varningur sem skipverjar og flugverjar, búsettir hér á landi, hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun umfram það sem greinir í a-lið, að verðmæti allt að 24.000 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað, hafi þeir verið skemur en 15 daga í ferð, en 48.000 kr., hafi þeir verið lengur í ferð. Verðmæti einstaks hlutar skal þó að hámarki vera 24.000 kr.
     d.      Matvæli, þ.m.t. sælgæti sem ferðamenn og farmenn hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun, að verðmæti allt að 18.500 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Þyngd matvæla skal þó að hámarki vera 3 kg. Matvæli skulu talin með varningi skv. b- og c-lið.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna:
     a.      1. og 2. málsl. a-liðar orðast svo: Af bifreiðum sem eru skráðar erlendis eða keyptar nýjar og óskráðar á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum ef innflytjandi eða eftir atvikum kaupandi hennar hefur eða hefur haft fasta búsetu erlendis hyggst dvelja hér á landi tímabundið og nota bifreiðina í eigin þágu. Það er jafnframt skilyrði að bifreiðin sé flutt til landsins eða eftir atvikum keypt ný og óskráð innan mánaðar frá því að viðkomandi kom til landsins til tímabundinnar dvalar.
     b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Af bifreiðum, skráðum erlendis, sem vinnuveitandi með staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum sér starfsmanni sínum fyrir, enda sé bifreiðin nauðsynleg til þess að starfsmaðurinn geti sinnt starfsskyldum sínum. Það er jafnframt skilyrði að notkun bifreiðarinnar hér á landi sé tímabundin og ekki meiri en notkun hennar erlendis. Bifreiðin telst vera notuð tímabundið hér á landi ef hún er ekki notuð lengur en samtals 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili. Notkun bifreiðarinnar telst vera meiri hér á landi en erlendis ef hún er á 12 mánaða tímabili notuð meira hér á landi í einkaerindum og í atvinnuskyni en hún er notuð erlendis í atvinnuskyni, í kílómetrum talið.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „15.000 evrum“ í 2. mgr. kemur: 10.000 evrum.
     b.      Á eftir orðinu „reiðufé“ í 2. mgr. kemur: eða handhafabréfum, þ.m.t ferðatékkum.
     c.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Sérhver farmaður skal ótilkvaddur gera tollgæslu skriflega grein fyrir öllum varningi sem hann hefur fengið erlendis eða í ferðinni, hvort sem varningurinn er tollskyldur eður ei.

4. gr.

    Í stað orðsins „Ráðherra“ í lokamálslið 2. tölul. 2. mgr. 48. gr. laganna kemur: Tollstjóra.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 91. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „öðrum“ í 2. málsl. kemur: ótengdum aðilum.
     b.      Við bætist nýr málsliður er verður 3. málsl. og orðast svo: Tollstjóra er þó heimilt að veita öðrum starfsleyfi ef leyfishafi uppfyllir kröfur tollstjóra um fullnægjandi aðstöðu og bókhaldslega aðgreiningu og stenst áhættumat.
     c.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í lokamálslið 2. tölul. kemur: Tollstjóra.

6. gr.

    Við 122. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tollstjóra er heimilt, á grundvelli umsóknar, að fresta gjalddaga skuldfærðs virðisaukaskatts skv. 2. mgr. fram að uppgjöri virðisaukaskatts fyrir sama uppgjörstímabil, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda sé aðili að jafnaði með lægri útskatt en innskatt þar sem verulegur hluti veltunnar er undanþeginn virðisaukaskatti skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Heimild, útgefin af tollstjóra, skal gilda í 12 mánuði í senn.

7. gr.

    Við 10. tölul. 1. mgr. 195. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Jafnframt er gjaldtaka heimil til að standa straum af kostnaði við gerð innsigla vegna farmverndar, sbr. 7. gr. laga um siglingavernd, nr. 50/2004.

II. KAFLI


     Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

8. gr.


    Við 36. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Áfengi og tóbak skv. 5., 6. og 7. tölul. 1. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

III. KAFLI

     Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

9. gr.

    Í stað 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna koma þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
     5.      Af áfengi sem ferðamenn hafa meðferðis til landsins sem hér segir:
             a.    1 lítra af sterku áfengi og 1 lítra af léttvíni, eða
             b.    3 lítra af léttvíni, eða
             c.    1 lítra af sterku áfengi eða 1,5 lítra af léttvíni og 6 lítra af öli.
     6.      Af áfengi sem skipverjar á íslenskum skipum eða skipum í leigu íslenskra aðila hafa meðferðis eftir að hafa verið 15 daga eða lengur í ferð, sem hér segir:
                  a.      1,5 lítra af sterku áfengi og 3 lítra af léttvíni, eða
                  b.      1,5 lítra af sterku áfengi eða léttvíni og 24 lítra af öli.
                  Ef sömu aðilar hafa verið skemur en 15 daga í ferð skulu þeir njóta að hálfu réttinda samkvæmt þessum lið. Skipstjóra, yfirstýrimanni, yfirvélstjóra og bryta, svo og matsveinum á farþega- og vöruflutningaskipum, er jafnframt heimilt að taka gjaldfrjálst aukalega til risnu um borð jafnstóran skammt og þeir mega hafa gjaldfrjálst samkvæmt þessum lið.
     7.      Af áfengi sem flugverjar, þ.m.t. flugverjar í aukaáhöfn, hafa meðferðis, eftir að hafa verið 15 daga eða lengur í ferð, sem hér segir:
                  a.      1 lítra af sterku áfengi og 0,75 lítra af léttvíni, eða
                  b.      lítra af sterku áfengi eða 0,75 lítra af léttvíni og 6 lítra af öli.
                  Hafi ferð varað skemur en 15 daga er sömu aðilum heimilt að hafa meðferðis gjaldfrjálst:
                  a.      0,375 lítra af sterku áfengi og 0,75 lítra af léttvíni, eða
                  b.      0,375 lítra af sterku áfengi eða 0,75 lítra af léttvíni og 3 lítra af öli.

10. gr.

    2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Tóbak sem ferðamenn eða farmenn hafa meðferðis til landsins skal undanþegið gjaldi skv. 1. mgr. að því hámarki sem hér segir:
     1.      100 vindlingar eða 125 g af öðru tóbaki sem flugverjar er hafa verið skemur en 15 daga í ferð hafa meðferðis.
     2.      200 vindlingar eða 250 g af öðru tóbaki sem ferðamenn, skipverjar á íslenskum skipum eða skipum í leigu íslenskra aðila er hafa verið skemur en 15 daga í ferð hafa meðferðis og flugverjar, þ.m.t. flugverjar í aukaáhöfn, er hafa verið 15 daga eða lengur í ferð hafa meðferðis.
     3.      400 vindlingar eða 500 g af öðru tóbaki sem skipverjar á íslenskum skipum eða skipum í leigu íslenskra aðila er hafa verið 15 daga eða lengur í ferð hafa meðferðis.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á tollalögum, lögum um virðisaukaskatt og lögum um gjald af áfengi og tóbaki. Í frumvarpinu er brugðist við athugasemdum sem borist hafa frá eftirlitsstofnun EFTA (ESA), umboðsmanni Alþingis og Ríkisendurskoðun. Þá er að finna í frumvarpinu fáeinar minni háttar breytingar á ákvæðum tollalaga.
    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að ákvæði um afmörkun heimilda ferðamanna og farmanna til innflutnings á varningi, þ.m.t. áfengi og tóbaki, verði færð í lög. Hingað til hafa umræddar heimildir verið birtar í reglugerð sem fjármálaráðherra setur.
    Í öðru lagi er lagt til að heimild til tímabundins innflutnings bifreiða skv. a-lið 4. tölul. nái jafnframt til nýrra og óskráðra bifreiða sem fluttar eru inn frá öðru EES-ríki, aðildarríki stofnsamnings fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Þá er lagt til að fyrirtækjum, sem eru staðsett í sömu ríkjum, verði heimilt að flytja tímabundið inn bifreiðar fyrir starfsfólk þeirra hér á landi, óháð búsetu þess, vegna sérstakra verkefna. Lagt er til að heimildin verði bundin tilteknum skilyrðum um notkun þeirra hér á landi og erlendis á tilteknu tímabili.
    Í þriðja lagi er lagt til að ferðamenn og farmenn skuli ótilkvaddir gera grein fyrir hærri fjárhæðum en sem nemur 10.000 evrum í stað 15.000 evra í núgildandi lögum. Þá er lagt til að tekinn verði af vafi um að skyldan taki jafnframt til handhafabréfa, þ.m.t. ferðatékka, líkt og fram kom í athugasemdum við frumvarp sem varð að tollalögum, nr. 88/2005.
    Í fjórða lagi er lagt til að kveðið verði á um það í lögum að farmenn geri skriflega grein fyrir öllum þeim varningi sem þeir hafa meðferðis til landsins. Slíkur háttur er byggður á áratugalangri framkvæmd.
    Í fimmta lagi er lagt til að heimilt verði að fresta gjalddaga á greiðslufresti í tolli vegna virðisaukaskatts fram að uppgjöri almennra virðisaukaskattsskila þegar aðilinn sem um ræðir er að jafnaði með hærri innskatt en útskatt.
    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að ákvæði um hámarksverðmæti þess varnings sem ferðamönnum og farmönnum er heimilt að flytja til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda verði færð í lög. Fram til þessa hefur fjármálaráðherra ákvarðað tollfrelsi varnings sem ferðamenn og farmenn flytja til landsins að tilteknu hámarki í reglugerð, nú síðast í reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, með síðari breytingum. Breytingin er lögð til vegna álits umboðsmanns Alþingis í máli 5141/2007, þar sem umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði b-liðar 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, nr. 88/2005, sem mælir fyrir um að ráðherra ákvarði tollfrelsi varnings að tilteknu hámarki í reglugerð samrýmist ekki ákvæðum 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Um 2. gr.


    Samkvæmt núgildandi a-lið 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga geta þeir sem hyggjast dvelja hér á landi tímabundið, hvort sem er við leik eða störf, annaðhvort haft með sér til landsins ökutæki sem skráð er erlendis eða fest kaup á nýju, óskráðu ökutæki hér á landi án greiðslu aðflutningsgjalda. Með greininni er lagt til að ákvæðið taki með sömu skilyrðum til ökutækja sem keypt eru ný og óskráð á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyjum. Breytingin er lögð til vegna athugasemdar ESA, en stofnunin telur að seljendur nýrra og óskráðra ökutækja í þessum ríkjum eigi að sitja við sama borð og þeir íslensku að þessu leyti.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að kveðið verði á um heimild til tímabundins innflutnings bifreiðar án greiðslu aðflutningsgjalda í þeim tilvikum þegar vinnuveitandi, staðsettur í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum, sér starfsmanni sínum, sem er heimilisfastur hér á landi, fyrir bifreið þegar bifreiðin er nauðsynleg til þess að starfsmaðurinn geti uppfyllt starfsskyldur sínar hér á landi. Það er jafnframt skilyrði að notkun bifreiðarinnar hér á landi sé tímabundin og ekki meiri en notkun hennar erlendis. Bifreiðin telst vera notuð tímabundið hér á landi ef hún er ekki notuð lengur en samtals 183 daga á sérhverju 12 mánaða tímabili. Notkun bifreiðarinnar telst vera meiri hér á landi en erlendis ef hún er á sama 12 mánaða tímabili notuð meira hér á landi í einka- og atvinnuerindum en hún er notuð erlendis í atvinnuerindum, í kílómetrum talið. Hugtakið starfsmaður er hér notað í víðtækum skilningi þar sem gert er ráð fyrir að hugtakið nái einnig til sjálfstæðra atvinnurekenda sem uppfylla að öðru leyti skilyrði tollfrelsisins. Skammtímaráðningarsamband getur einnig gefið einstaklingi stöðu starfsmanns en sambandið má þó ekki vera það takmarkað að það teljist vera aukastarf. Öll skilyrði greinarinnar þurfa að vera uppfyllt til þess að undanþágan taki gildi og hún gildir á meðan viðkomandi uppfyllir skilyrðin. Gert ráð fyrir að sá sem uppfyllir skilyrðin, þ.e. starfsmaðurinn, þurfi að sækja um sérstakt leyfi til þess að heimildin öðlist gildi. Í löndum innan Evrópusambandsins, sem og í hinum EFTA-ríkjunum, er að finna sambærileg ákvæði um tollfrelsi fyrirtækjabíla. Breytingarnar eru lagðar til vegna athugasemda ESA um að reglur um að fyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu geti ekki séð starfsmönnum sínum fyrir bifreiðum tímabundið án greiðslu aðflutningsgjalda séu andstæðar ákvæðum 28. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem mælt er fyrir um afnám allrar mismununar milli launþega í aðildarríkjum ESB- og EFTA-ríkjum sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum. Með breytingunum er komið til móts við ábendingar ESA í þá átt. Við útfærslu þessa liðar frumvarpsins var höfð hliðsjón af norskum réttarheimildum um sama efni.

Um 3. gr.


    Í greininni er lagt til að ferðamenn og farmenn skuli ótilkvaddir gera grein fyrir hærri fjárhæðum en sem nemur 10.000 evrum í stað 15.000 evra, eins og í núgildandi lögum. Breytingin er lögð til vegna athugasemda sem komu fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á ráðstöfunum gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna frá nóvember 2007. Í skýrslunni gerir Ríkisendurskoðun athugasemdir við að fjárhæðin í gildandi lögum sé of há og bendir á að innan Evrópusambandsins sé hámarkið 10.000 evrur og Noregi um 3.000 evrur. Lagt er til að fjárhæðin verði lækkuð til jafns við það sem gildir innan Evrópusambandsins.
    Í öðru lagi er lagt til að tilgreint verði með skýrum hætti að ákvæðið nái einnig til reiðufjár og handhafabréfa, þ.m.t. ferðatékka. Slík skilgreining kom fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að tollalögum, nr. 88/2005, en ekki í lögunum sjálfum. Með þessari breytingu er komið til móts við þær athugasemdir sem fram koma í skýrslu FATF (Financial Action Task Force) um aðgerðir gegn peningaþvætti á Íslandi frá 13. október 2006, þar sem bent var á að lagatextinn væri ekki skýr um það hvort handhafabréf teldust til reiðufjár eða ekki.
    Í þriðja lagi er í greininni lagt til að ný málsgrein bætist við 27 gr. þar sem kveðið verði á um skyldu farmanna til þess að gera skriflega grein fyrir öllum varningi sem þeir hafa meðferðis úr ferð, hvort sem varningurinn er tollskyldur eður ei. Framkvæmdin hefur verið sú að farmenn gera skriflega grein fyrir öllum varningi sem þeir hafa með sér úr ferð. Hingað til hefur verið kveðið á um skyldu til að gera skriflega grein fyrir öllum varningi í reglugerð nr. 526/2000, um tollmeðferð vara sem ferðamenn og farmenn hafa með sér við komu til landsins, en rétt þykir að ákvæðið verði fært í lög.

Um 4. gr.


    Með lögum nr. 146/2006, um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, var tollstjóranum í Reykjavík falið að veita starfsleyfi til tollmiðlunar. Með greininni er lagt til að tollstjóra verði veitt heimild til að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum sem gerð eru fyrir starfsleyfi til tollmiðlunar í stað ráðherra.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. 91. gr. tollalaga er kveðið á um það að tollstjóri veiti þeim einum leyfi til reksturs tollvörugeymslu sem starfar í þeim tilgangi að veita öðrum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu. Með a-lið 5. gr. frumvarpsins er lagt til að skilyrðið verði þrengt þannig að leyfishafi geti eingöngu veitt öðrum ótengdum aðilum þjónustu í tollvörugeymslu. Er þetta gert til þess að komast hjá misnotkun.
    Í b-lið greinarinnar er þó lagt til að tollstjóra verði heimilt að veita undanþágu frá skilyrðinu um að eingöngu sé hægt að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu ef leyfishafi uppfyllir kröfur tollstjóra um fullnægjandi aðstöðu og bókhaldslega aðgreiningu og stenst áhættumat.
    Síðan að lög nr. 170/2007, um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, tóku gildi hefur tollstjórinn í Reykjavík farið með leyfisveitingarvald til reksturs tollfrjálsra geymslusvæða. Með c-lið greinarinnar er lagt til að tollstjóra verði veitt heimild til að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum sem gerð eru fyrir leyfi til reksturs tollfrjálsra geymslusvæða í stað ráðherra.

Um 6. gr.


     Með greininni er lagt til að heimilt verði að fresta gjalddaga á greiðslufresti í tolli vegna virðisaukaskatts fram að uppgjöri almennra virðisaukaskattsskila þegar aðilinn sem um ræðir er að jafnaði með hærri innskatt en útskatt. Þeir aðilar sem í dag eru í útflutningi á innlendri framleiðslu þurfa að greiða virðisaukaskatt og önnur gjöld við innflutning á hráefni sem þeir nota til framleiðslu sinnar en fá sömu upphæð svo endurgreidda við uppgjör virðisaukaskatts 20 til 35 dögum seinna. Tilgangur breytingarinnar er að takmarka þann fjármagnskostnað sem útflytjendur verða fyrir vegna núverandi fyrirkomulags.

Um 7. gr.


    Í greininni er lagt til að gjaldtaka verði heimil vegna kostnaðar við gerð innsigla sem notuð eru við farmvernd. Tollstjórinn hefur látið gera umrædd innsigli og hefur sá kostnaður verið lagður á notendur. Gert er ráð fyrir að tollstjóri muni útvega innsiglin.

Um 8. gr.


    Með greininni er lagt til að áfengi og tóbak sem ferðamenn og farmenn hafa meðferðis úr ferð verði undanþegið virðisaukaskatti upp að því hámarki sem kveðið er á um í 5., 6. og 7. tölul. 1. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki. Sjá nánar í umfjöllun um 1. gr.

Um 9.–10. gr.


    Sjá umfjöllun um 1. gr.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn breyting á tollalögum, nr. 88/2005, lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á tollalögum vegna athugasemda sem borist hafa frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), umboðsmanni Alþingis og Ríkisendurskoðun, auk fáeinna minni háttar breytinga á ákvæðum tollalaga. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að hámark verðmætis þess varnings sem ferðamönnum og farmönnum er heimilt að flytja til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda verði fært í lög. Hingað til hefur þessi heimild verið í reglugerð sem gefin hefur verið út af fjármálaráðherra. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að þeir sem dveljast hér á landi tímabundið geti haft með sér ökutæki sem skráð eru erlendis eða fest kaup á nýju, óskráðu ökutæki hér á landi án greiðslu aðflutningsgjalda. Með frumvarpinu er lagt til að lögin taki með sömu skilyrðum til ökutækja sem keypt eru ný og óskráð á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyjum. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að ferðamenn og farmenn geri ótilkvaddir grein fyrir hærri fjárhæð en 10.000 evrum í stað 15.000 evra í núgildandi lögum. Í fjórða lagi er lagt til að farmenn geri skriflega grein fyrir öllum þeim varningi sem þeir hafa meðferðis til landsins. Í fimmta lagi er lagt til að heimilt verði að fresta gjalddaga á greiðslufresti í tolli vegna virðisaukaskatts fram að uppgjöri almennra virðisaukaskattsskila þegar aðilinn sem um ræðir er að jafnaði með hærri innskatt en útskatt.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir því að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.