Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 235. máls.

Þskj. 326  —  235. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.

    Í stað orðanna „1. júlí 2008 til 1. janúar 2009“ í 11. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 1. janúar 2009 til 1. janúar 2010.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Alþingi samþykkti á síðasta þingi lög nr. 17/2008, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum. Þar er m.a. kveðið á um hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára úr rúmlega 27 þús. kr. í 100 þús. kr. á mánuði frá og með 1. júlí 2008. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að framkvæmdanefnd forsætisráðherra um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar vinni að tillögum um framkvæmd sem ætlað er að ná svipuðum markmiðum hvað varðar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og hvetja einstaklinga til vinnu. Þá kemur fram að tillögur sem miði að því að tryggja örorkulífeyrisþegum 100 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða ígildi þess verði síðar lagðar fyrir Alþingi.
    Með lögum nr. 57/2008, um breytingu á lögum um almannatryggingar, bættist við lögin nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega er hækkað til samræmis við frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára, eða í 100 þús. kr. á mánuði. Ákvæðið er sett til bráðabirgða og gildir frá 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að vegna fyrirhugaðra breytinga á örorkulífeyriskerfinu með áherslu á starfshæfnismat og starfsendurhæfingu gildi hækkun frítekjumarks örorkulífeyrisþega til bráðabirgða þar til nýtt kerfi með nýjar viðmiðunarreglur hafi verið tekið upp.
    Framkvæmdanefnd forsætisráðherra vinnur nú að endurskoðun örorkumats sem byggist m.a. á markmiðum um starfshæfnismat og eflingu starfsendurhæfingar með áherslu á að skoða frekar getu fólks til starfa en vangetu. Nú er ljóst að vinnu framkvæmdanefndarinnar verður ekki lokið fyrir 1. janúar 2009, eins og stefnt var að, m.a. í ljósi efnahagsástands þjóðarinnar og fjölmargra verkefna sem því tengjast.
    Í samræmi við framangreint er með frumvarpi þessu lagt til að 11. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar gildi áfram óbreytt og gildistímabil þess, þ.e. 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009, verði framlengt um eitt ár eða til ársloka 2009. Er það einnig í samræmi við markmið laga nr. 57/2008 um hækkun frítekjumarks örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna.
    Eftir breytinguna mun 11. tölul. ákvæðis til bráðabirgða orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 3. málsl. b-liðar 2. mgr. 16. gr. laganna skal örorkulífeyrisþegi á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. janúar 2010 geta valið um að hafa 100.000 kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 100/2007,
um almannatryggingar, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að tímamörkum verði breytt í lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 sem felur í sér að örorkulífeyrisþegi geti valið um að hafa 100.000 kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Samkvæmt núgildandi ákvæði gildir þessi bótaréttur fyrir tímabilið 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009 en frumvarpið gerir ráð fyrir að framlengja það tímabil 1. janúar 2009 til 1. janúar 2010. Áður var frítekjumarkið 25.000 kr. á mánuði. Þessi hækkun á greiðslum bóta til öryrkja sem hafa atvinnutekjur tók gildi í fyrsta sinn 1. júlí sl. og var ákvörðuð tímabundið í ljósi yfirstandandi vinnu nefndar á vegum forsætisráðuneytisins að endurskoðun örorkumats, sem byggist m.a. á markmiðum um starfshæfnismat og eflingu starfsendurhæfingar. Talið var að í framhaldi af niðurstöðu þeirrar vinnu yrði með einum eða öðrum hætti komið á sambærilegri ívilnun fyrir þessa bótaþega. Nú er hins vegar orðið ljóst að þessari vinnu verður ekki lokið fyrir 1. janúar 2009 eins og ráðgert var, m.a. vegna aðsteðjandi efnahagsþrenginga.
    Megin tilgangurinn með hækkun frítekjumarksins var að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku og gera lífeyrisþegum kleift að afla sér aukinna tekna af atvinnu án þess að bætur skerðist. Miðað við núverandi horfur á vinnumarkaði er hins vegar ekki útlit fyrir að mikil þörf verði fyrir aukið vinnuframboð á næstunni.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009 var gert ráð fyrir að kostnaður við þennan nýja bótarétt gæti orðið um 400 m.kr.