Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 180. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 335  —  180. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Ásmundur Helgason frá Alþingi, Ragnhildur Helgadóttir og Sigurður Tómas Magnússon frá Háskólanum í Reykjavík, Bryndís Hlöðversdóttir frá Háskólanum á Bifröst, Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson, Gunnar Helgi Kristinsson, Trausti Fannar Valsson, Vilhjálmur Árnason og Pétur Pétursson frá Háskóla Íslands, Haraldur Ingi Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur og Jóhannes Karl Sveinsson hrl.
    Umsagnir um frumvarpið bárust frá Viðskiptaráði Íslands, Lögmannafélagi Íslands og Persónuvernd.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til að leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Þá skal nefndin leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.
    Frumvarp þetta á sér sérstöðu en það er lagt fram af forseta Alþingis og formönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi og er afrakstur samkomulags um skipun sérstakrar rannsóknarnefndar. Skal nefndin skipuð dómara úr Hæstarétti sem jafnframt verði formaður, umboðsmanni Alþingis og einum háskólamenntuðum sérfræðingi, sem hafi víðtæka þekkingu á efnahagsmálum og/eða starfsemi fjármálamarkaða. Auk þess getur nefndin skipað sérstaka vinnuhópa innlendra og/eða erlendra sérfræðinga. Forsætisnefnd skipi auk þess sérstakan þriggja manna vinnuhóp einstaklinga með háskólamenntun á sviði hug- og félagsvísinda sem vinni í samráði við rannsóknarnefndina að athugun á starfsháttum og siðferði viðskiptalífsins.

Hlutverk rannsóknarnefndarinnar.
    Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að rannsakaðar verði orsakir og aðdragandi þess vanda sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir. Í því sambandi þarf að líta til þess að hve miklu leyti megi rekja vandann til innlendra ástæðna og einnig þess hver hafi verið áhrif og afleiðingar alþjóðlegrar fjármálakreppu. Afla þarf upplýsinga um og meta þjóðhagslega þætti, atriði sem varða stjórnun fjármálafyrirtækja, lagaumhverfi og fleira. Með vísan til eftirlitshlutverks Alþingis samkvæmt stjórnarskránni og þingræðisreglunni er einnig ætlunin að nefndin rannsaki þátt stjórnvalda og eftirlitsaðila í aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna.
    Á fundum sínum ræddi nefndin einnig um tengsl við frumvarp til laga um sérstakan saksóknara, 141. mál, þskj. 156, sem dómsmálaráðherra lagði fram og orðið er að lögum. Nefndin telur nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á þessum málum. Embætti sérstaks saksóknara er ætlað að annast sakamálarannsókn, þ.e. rannsókn á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og tengslum við fjárþrot fjármálafyrirtækja. Hinni sérstöku rannsóknarnefnd á vegum Alþingis er hins vegar ætlað að vinna að rannsókn á ástæðum hruns bankanna og efnahagsáfallanna og leggja m.a. mat á hvort mistök hafi verið gerð við stjórn efnahagsmála og eftirlit með bönkunum. Rannsóknin getur þannig t.d. beinst að aðgerðum ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra, stjórnendum og eigendum fjármálafyrirtækja og stjórnendum stofnana. Samkvæmt frumvarpinu er ekki ætlunin að taka hugsanlega refsiábyrgð einstaklinga til athugunar en komi fram vísbendingar um refsiverð brot í rannsókn nefndarinnar skal hún tilkynna ríkissaksóknara og hlutaðeigandi stjórnendum hjá ríkinu um það. Rannsóknarnefndinni er ætlað að skila áliti í skýrsluformi til Alþingis þar sem tekið er á þeim atriðum er rannsóknin beinist að.
    Í ljósi þessa er það skýrt hlutverk rannsóknarnefndarinnar að henni er ekki ætlað að rannsaka hugsanlega refsiábyrgð einstaklinga. Í athugasemdum í greinargerð með 14. gr. er tekið fram að við rannsókn nefndarinnar kunni að koma fram upplýsingar sem vakið geta grunsemdir um að slíkt brot hafi verið framið enda teljist brotið að mati nefndarinnar alvarlegt. Það er skilningur nefndarinnar að með þessu sé átt við hvers konar brot sem varðað geti refsiviðurlögum og leggur nefndin því til að mat nefndarinnar á því hvort brot teljist alvarleg verði fellt brott. Í greininni er rannsóknarnefndinni falið að tilkynna ríkissaksóknara um það. Þá telur nefndin rétt að leggja til að kveðið verði skýrt á um það í greininni að ríkissaksóknari eigi að taka ákvörðun um hvort rannsaka beri mál í samræmi við lög um meðferð sakamála.

Ráðherraábyrgð.
    Nefndin ræddi nokkuð um ráðherraábyrgð á fundum sínum og telur rétt að leggja áherslu á að Alþingi er handhafi ákæruvalds gagnvart ráðherrum vegna embættisreksturs þeirra skv. 14. gr. stjórnarskrár, lögum um ráðherraábyrgð og lögum um Landsdóm. Komist rannsóknarnefndin að því að ráðherra hafi gert mistök eða sýnt af sér vanrækslu í starfi, sbr. 1. mgr. 1. gr., skal hún gera grein fyrir því í skýrslu til Alþingis sem hefur það hlutverk að meta hvort tilefni sé til að ráðherra sæti ábyrgð fyrir það. Í því sambandi vill nefndin taka sérstaklega fram að á vegum þingsins hefur vinnuhópur sérfræðinga verið að störfum í nokkra mánuði sem hefur það hlutverk að gera úttekt á gildandi reglum um þingeftirlit og gera tillögur að hugsanlegum úrbótum. Undir það falla m.a. lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm. Nefndin telur þó skýrara að tekið sé fram í frumvarpinu að um ráðherraábyrgð fari samkvæmt sérstökum lögum og leggur til breytingu þess efnis.

Verkefni nefndarinnar.
    Nefndin ræddi nokkuð um það hvort verkefni nefndarinnar væri of þröngt afmarkað þegar litið er til þess að starfsemi fjármálafyrirtækja er víðfeðm og margt í starfsemi annarra í viðskiptalífinu sem tengist þeim og getur skýrt þann vanda sem þau eru komin í, svo sem endurskoðun, fjármögnun og útlánastarfsemi þeirra, eignarhald og tengsl þeirra við atvinnulífið. Nefndin leggur því til að við 1. mgr. 1. gr. bætist nýr töluliður sem undirstriki þennan skilning nefndarinnar á hlutverki rannsóknarnefndarinnar. Þá telur nefndin einnig rétt að leggja til sambærilega breytingu á 2. tölul., sem verður 3. tölul., þannig að við úttekt á reglum íslenskra laga um fjármálamarkaðinn bætist „og tengda atvinnustarfsemi“.
    Nefndin áréttar að í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er rannsóknarnefndinni heimilt að því marki sem hún telur nauðsynlegt að láta rannsókn sína taka til atburða eftir gildistöku laga nr. 125/2008 eða gera tillögu um frekari rannsókn á slíkum atburðum. Nefndin vill taka það fram að rétt getur verið að rannsóknarnefndir rannsaki atburði sem áttu sér stað eftir setningu laga nr. 125/2008 og tengjast með einum eða öðrum hætti falli bankanna.
    Í 3. mgr. 1. gr. kemur fram að í tengslum við athugun rannsóknarnefndarinnar skuli enn fremur fara fram rannsókn þar sem lagt verði mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði á fjármálamarkaði. Nefndin telur hugsanlegt að það sé of þröng afmörkun að takmarka starf þess vinnuhóps sem á að fjalla um þennan þátt í samráði við rannsóknarnefndina við starfshætti og siðferði á fjármálamarkaði og leggur því til að orðið fjármálamarkaður falli brott.

Skipun nefndarinnar.
    Þá ræddi nefndin nokkuð um skipun rannsóknarnefndarinnar en samkvæmt frumvarpinu skal skipa einn dómara Hæstaréttar Íslands samkvæmt ákvörðun réttarins, umboðsmann Alþingis og hagfræðing, löggiltan endurskoðanda eða háskólamenntaðan sérfræðing, sem hefur víðtæka þekkingu á efnahagsmálum og/eða starfsemi fjármálamarkaða og skal sá síðastnefndi tilnefndur af forsætisnefnd Alþingis. Kom fram að markmiðið með þessari skipun sé að tryggja sjálfstæði rannsóknarnefndarinnar. Þannig er gert ráð fyrir að þeir sem stýri þessari viðamiklu rannsókn verði sjálfstæðir og óháðir og búi yfir mikilli reynslu og þekkingu.
    Samkvæmt 1. tölul. 1. gr. frumvarpsins skal skipa í nefndina dómara Hæstaréttar samkvæmt ákvörðun dómara réttarins og skal hann vera formaður. Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að þar sem rannsóknarnefndin er á vegum Alþingis færi betur á því að forsætisnefnd Alþingis skipaði dómara. Nefndin fellst á þau sjónarmið og leggur til breytingu á ákvæðinu í þá veru.
    Nefndin ræddi nokkuð hvort samsetning rannsóknarnefndarinnar væri of lögfræðilega miðuð með því að tveir nefndarmenn séu lögfræðimenntaðir. Telur nefndin rétt að benda á í því sambandi að þau verkefni sem nefndinni eru falin eru að talsverðu leyti lögfræðileg. Er henni ætlað að gera úttekt á reglum íslenskra laga um fjármálamarkaðinn, leggja mat á hvernig staðið hafi verið að eftirliti með fjármálastarfsemi, koma með tillögur um breytingar á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu og gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum.
    Samkvæmt frumvarpinu er það rannsóknarnefndarinnar að skipa vinnuhópa og ráða starfsmenn sér til aðstoðar. Þá getur rannsóknarnefndin leitað sérfræðilegrar aðstoðar innlendra og erlendra aðila við mat á einstökum þáttum rannsóknarinnar. Með aðkomu sérfræðinga og starfshópa er mætt því sjónarmiði að fá færustu sérfræðinga, innlenda sem erlenda, til að fjalla um mismunandi þætti, sem að sjálfsögðu kalla á mismunandi sérþekkingu. Þannig telur nefndin augljóslega þörf á að leita til sérfræðinga á sviði þjóðhagfræði og viðskiptafræði til að fjalla um ákveðin mál, sérfræðinga í rekstri, ekki síst bankarekstri, til að fjalla um aðra þætti og svo framvegis. Einnig getur krafan um hlutlægni og hlutleysi kallað á aðkomu erlendra aðila að rannsókn málsins sem nefndin telur eðlilegt að rannsóknarnefndin nýti sér. Eðlilegt er að löggjafinn veiti nefndinni talsvert svigrúm til að meta þetta og er svo gert eins og frumvarpið lítur nú út. Með þessum heimildum nefndarinnar um að leita til sérfræðinga og skipa vinnuhópa á tilteknum sviðum er tryggt að fjölþætt menntun og reynsla verði nýtt í þessari rannsóknarvinnu.
    Þá skipar forsætisnefnd Alþingis enn fremur þriggja manna vinnuhóp einstaklinga með háskólamenntun í heimspeki, sagnfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði eða öðrum skyldum greinum sem fjallar í samráði við rannsóknarnefndina um þann þátt rannsóknarinnar sem getið er í 3. mgr. 1. gr. og varðar siðferðishluta rannsóknarinnar. Nefndin ræddi nokkuð um þær háskólagreinar sem nefndar eru og telur nokkra þörf á að auka við upptalninguna sem þó er ekki tæmandi og bæta fjölmiðlafræði við hana, sérstaklega þegar litið er til þess hve fjölmiðlar gegna veigamiklu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi.

Rannsóknarheimildir nefndarinnar.
    Fram hafa komið athugasemdir umsagnaraðila um að heimildir nefndarinnar til upplýsingaöflunar, um meðferð gagna og um skýrslutökur gagnvart einstaklingum gangi nærri þeirri réttindavernd sem leiðir af 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Nefndin telur rétt að árétta það að rannsóknarnefndin verður ávallt í störfum sínum bundin af grundvallarreglum stjórnarskrárinnar, þar á meðal um friðhelgi einkalífs, þegar einstakar ákvarðanir eru teknar um skýrslutökur, gagnaöflun og meðferð upplýsinga. Er það meðal annars ein af ástæðum þess að nefndin fellst á það að hæstaréttardómari og umboðsmaður Alþingis, sem hafa mikla sérþekkingu á samspili mannréttindaákvæða og starfa af þessu tagi, sitji í nefndinni. Nefndin verður þannig að gæta stjórnskipulegs meðalhófs og gæta varfærni við mat á því hvort tiltekin skýrslugjöf sé nauðsynleg, einkum þegar með henni yrði vikið frá þagnarskyldu samkvæmt öðrum lögum. Það er mat nefndarinnar að rannsóknarheimildir nefndarinnar brjóti ekki gegn mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, en sem fyrr getur verður nefndin að gæta þess í ríkum mæli við töku einstakra ákvarðana að ekki sé hverju sinni gengið lengra en nauðsyn krefur í þágu þeirra mikilvægu þjóðfélagslegu markmiða sem stefnt er að með nefndarstarfinu.

Upplýsingaskylda fyrir nefndinni og þagnarskylda.
    Nefndin ræddi þau ákvæði frumvarpsins sem fjalla um upplýsingaskyldu fyrir nefndinni og afnám þagnarskylduákvæða. Í 6. gr. frumvarpsins er ákvæði sem skyldar sérhvern sem þess er krafinn að afhenda rannsóknarnefnd upplýsingar, gögn og skýringar sem hún fer fram á. Með gögnum er m.a. átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samninga og önnur gögn sem nefndin óskar eftir. Samkvæmt greininni er nefndinni heimilt að kalla einstaklinga til fundar við sig og krefja þá um munnlegar upplýsingar í þágu rannsóknarinnar og er þeim skylt að veita nefndinni upplýsingar, þó að þær séu háðar þagnarskyldu samkvæmt lögum. Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við að þannig sé undantekningarlaust vikið frá þagnarskylduákvæðum laga og að skylda til að láta nefndinni í té upplýsingar sé með frumvarpinu þannig gerð þagnarskylduákvæðum laga yfirsterkari. Nefndin ræddi í þessu sambandi þagnarskyldu ýmissa starfsstétta, svo sem lögmanna og endurskoðenda sem hafa trúnaðarskyldur gagnvart skjólstæðingum sínum og búa oft yfir upplýsingum um einkahagi þeirra. Kom fram að með afnámi þessarar þagnarskyldu væri þeim í raun gert ókleift að sinna starfi sínu. Nefndin fellst á að það geti verið varhugavert að veikja þetta trúnaðarsamband. Nefndin skoðaði í þessu sambandi hvaða reglur gilda um rannsóknarnefndir á vegum danska þingsins. Þar víkur þagnarskylda almennt fyrir skyldu til að láta nefnd í té upplýsingar og gefa skýringar. Ekki þarf þó að láta í té upplýsingar eða skýra frá hlutum sem ekki væri skylt að gefa skýrslu um fyrir dómi.
    Nefndin leggur því til að lögmönnum, endurskoðendum og öðrum slíkum starfsstéttum sem hafa trúnaðarskyldur gagnvart skjólstæðingum sínum verði gert mögulegt að þegja yfir upplýsingum um einkahagi manna sem þeim hefur verið trúað fyrir. Dómara yrði fengið vald til að meta hvort trúnaðurinn ætti að víkja fyrir almannahagsmunum sem tengjast því að markmiðum laganna verði náð. Sú heimild næði þó ekki til upplýsinga sem verjanda í sakamáli hefði verið trúað fyrir af skjólstæðingi sínum um málsatvik. Jafnframt væri tryggt að nefndin gæti ekki leitað upplýsinga hjá aðstoðarmanni um atriði sem honum hefði verið trúað fyrir í tengslum við rannsókn nefndarinnar. Nefndin leggur því til að við 6. gr. bætist ný málsgrein er verði 4. mgr. um að lögmaður, endurskoðandi eða annar aðstoðarmaður verði þó ekki krafinn upplýsinga, sem honum hefur verið trúað fyrir út af rannsókn nefndarinnar, nema með leyfi þess sem í hlut á. Ákvæði a- og b-liðar 2. mgr., ásamt 3. og 4. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála gilda, enn fremur um upplýsingagjöf þeirra sem þar eru tilgreindir. Dómari sker úr um upplýsingaskyldu þeirra og verður mál af því tagi rekið skv. 6. mgr. þessarar greinar. Um upplýsingaskyldu nefndra aðila fyrir nefndinni gilda því sömu reglur og um meðferð sakamála.
    Nefndin ræddi nokkuð um ákvæði 4. mgr. 4. gr. þar sem segir að rannsóknarnefndin geti birt upplýsingar, sem annars væru háðar þagnarskyldu, ef rannsóknarnefndin telur slíkt nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður sínar. Hún skal þó því aðeins birta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga, þ.m.t. fjármál þeirra, að hún telji að verulegir almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á. Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að eðlilegt væri að breyta ákvæði 4. mgr. 4. gr. á þann veg að í stað þess að um ræði undanþágur frá þagnarskyldu, sem nefndin telur nauðsynlegar, verði rætt um undanþágur sem séu nauðsynlegar af tilteknum ástæðum. Fellst nefndin á að slík breyting er til þess fallin að auka traust á málsmeðferð samkvæmt ákvæðum frumvarpsins og eyða vafa um að geðþótti geti ráðið ákvörðun um að birta tilteknar upplýsingar.

Réttarstaða einstaklinga við skýrslutöku.
    Nefndin ræddi einnig um réttarstöðu einstaklinga sem koma fyrir nefndina til skýrslutöku en á það var bent að hugsanlega kæmu fram upplýsingar fyrir rannsóknarnefndinni um atriði sem síðar kynnu að fara til meðferðar hjá ákæruvaldinu. Í því sambandi telur nefndin rétt að taka skýrt fram að fyrir nefndinni fer ekki fram rannsókn samkvæmt lögum um meðferð sakamála heldur skal nefndin tilkynna ríkissaksóknara um meint refsiverð brot sem og tekur hann ákvörðun um hvort rannsaka beri mál. Var í þessu sambandi vísað til þess að upp hafa komið mál þar sem óljós skil milli hlutverks rannsóknaraðila hafa valdið vandkvæðum. Þannig var vísað til þess að við rannsókn samkeppnisyfirvalda á brotum olíufélaganna á ákvæðum samkeppnislaga komu fram upplýsingar sem lagðar voru fram í sakamáli gegn forstjórum félaganna. Í dómi Hæstaréttar 16. mars 2007 í máli nr. 92/2007 var málinu vísað frá á grundvelli þess að rétturinn taldi að mörkin á milli stjórnsýslurannsóknar og lögreglurannsóknar væru óljós. Þannig var hvorki gætt þagnarréttar í rannsókn samkeppnisyfirvalda né heldur tryggt að skýrslur sem menn gáfu þar samkvæmt lagaskyldu yrðu ekki síðar notaðar sem sönnunargögn gegn þeim í refsimáli. Samkeppnislögum var breytt í kjölfarið til þess að tryggja þessi grundvallarréttindi. Nefndin leggur því til breytingu á frumvarpinu sambærilega við þetta ákvæði samkeppnislaga þannig að við 14. gr. bætist ný málsgrein um að ekki verði heimilt að nota upplýsingar sem einstaklingur hefur veitt fyrir nefndinni sem sönnunargagn í sakamáli sem höfðað er gegn honum.

Aðgangur að gögnum eftir að rannsókn er lokið.
    Þá ræddi nefndin einnig um aðgang að gögnum eftir að starfi nefndarinnar lýkur. Í 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins segir að ákvæði 18.–21. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, ákvæði upplýsingalaga og ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki um störf rannsóknarnefndarinnar. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að þörf væri á að taka skýrlega fram að þegar rannsókninni ljúki öðlist þeir einstaklingar, sem rannsóknin hefur beinst að, réttindi samkvæmt framangreindum ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga til vitneskju um vinnslu umræddra upplýsinga og skv. 9. gr. upplýsingalaga til aðgangs að gögnum. Nefndin fellst á þau sjónarmið en tekur fram að rétt sé að gera undantekningu frá því þegar mál hefur verið tekið til rannsóknar sem sakamál. Nefndin leggur því til að við 17. gr. bætist ný málsgrein sem verði 3. mgr., svohljóðandi: „Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skulu þeir sem rannsókn hefur beinst að njóta réttinda samkvæmt ákvæðum 18.–21. gr. laga nr. 77/2000 og 9. gr. upplýsingalaga að rannsókn nefndarinnar lokinni, enda hafi ákæruvaldið ekki tekið mál viðkomandi til meðferðar sem sakamál. Fer þá um rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæðum laga um meðferð slíkra mála.“

Varðveisla gagna o.fl.
    Þá komu einnig fram ábendingar fyrir nefndinni um að í frumvarpinu sé ekki fjallað um hvernig háttað skuli varðveislu þeirra gagna sem aflað er vegna rannsóknarinnar og aðgangi almennings að þeim. Nefndin leggur því til að skýrt verði kveðið á um hvernig fari um þessi atriði og leggur til að við 17. gr. frumvarpsins verði bætt ákvæði sem fjalli sérstaklega um það að gögn skuli færð á Þjóðskjalasafn Íslands að störfum nefndarinnar loknum, sem og að um aðgang að þeim þar fari eftir ákvæðum upplýsingalaga.
    Í framangreindu mundi m.a. felast að við ákvörðun Þjóðskjalasafns um veitingu aðgangs að umræddum gögnum yrði að meta hvort rétt væri að takmarka aðgang með vísan til 5. gr. upplýsingalaga um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Um aðgang að gögnum um slík málefni færi einnig eftir 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga þess efnis að takmarkanir á aðgangi að gögnum falli niður 80 árum eftir að þau urðu til. Við ákvörðun Þjóðskjalasafns um veitingu aðgangs að gögnum bæri og að virða ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þar á meðal ákvæði 7. gr. um sanngirni og meðalhóf.
    Nefndin telur rétt að vísa í frumvarpinu almennt til laga um meðferð sakamála sem taka munu gildi 1. janúar nk. og að vísa í lög um meðferð opinberra mála í ákvæði til bráðabirgða þar sem gildistími þeirra rennur senn út. Leggur nefndin því til nokkrar breytingar vegna þess.
    Að lokum leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að tryggðar verði nægar fjárveitingar til starfs rannsóknarnefndarinnar. Á þessu stigi eru ýmsir óvissuþættir í sambandi við umfang rannsóknarinnar, m.a. hvað varðar þörf á aðkeyptri aðstoð innlendra og erlendra sérfræðinga. Mikilvægt er að fjárskortur standi ekki í vegi þess að rannsóknarnefndin geti sinnt hlutverki sínu og skilað niðurstöðum bæði fljótt og vel.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. des. 2008.



Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Ágúst Ólafur Ágústsson.



Ellert B. Schram.


Jón Magnússon.


Karl V. Matthíasson.



Ólöf Nordal.


Sigurður Kári Kristjánsson.


Siv Friðleifsdóttir.