Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 220. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 370  —  220. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Völu Rebekku Þorsteinsdóttur frá fjármálaráðuneyti.
    Í frumvarpinu er lagt til að fjármögnun á þeirri starfsemi sem IcePro, samstarfsvettvangur um rafræn viðskipti, hefur haft með höndum verði breytt. Er gert ráð fyrir að verkefnið fái beina fjárveitingu úr ríkissjóði í fjárlögum í stað hlutfalls af skattstofni tryggingagjalds.
    Á fundum nefndarinnar var óskað eftir upplýsingum um þá starfsemi IcePro. Fram kom að framlög til verkefnisins hefðu byggst á heimild í fjárlögum sem merkt er rafrænum viðskiptum. Hefði þeim lið verið ráðstafað til IcePro í samræmi við ákvæði laga um tryggingagjald.
    Nefndin fékk upplýsingar um starfsemi IcePro og reikninga fyrir árið 2007. Var fjárveiting til starfseminnar 6,6 millj. kr. á því ári. Ekki stendur til að skerða framlög til málaflokksins heldur mun afnám ákvæðisins hafa í för með sér að svigrúm Alþingis til að ráðstafa fjármunum til þessa með fjárlagafrumvarpi verður meira. Kom fram að til greina komi að viðskiptaráðuneytið bjóði út hluta þeirrar þjónustu sem IcePro veitir.
    Meiri hlutinn fagnar frumvarpinu og telur það samræmast betur fjárveitingarvaldi Alþingis að framlög til málaflokka séu ákveðin í fjárlögum fremur en almennum lögum. Mörg dæmi eru í lagasafninu um hið síðarnefnda.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Gunnar Svavarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. des. 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Bjarni Benediktsson.



Lúðvík Bergvinsson.


Kjartan Ólafsson.