Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 186. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 378  —  186. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um dýravernd, nr. 15/1994, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Loga Kjartansson og Þorstein Sæmundsson frá umhverfisráðuneyti, Sigríði Björnsdóttur frá tilraunadýranefnd, Sigurborgu Daðadóttur frá dýraverndarráði, Sif Traustadóttur frá Dýralæknafélagi Íslands, Grétar Hrafn Harðarson frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Ólaf R. Dýrmundsson frá Bændasamtökum Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Íslenskri erfðagreiningu ehf., Landbúnaðarháskóla Íslands, Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins, Bændasamtökum Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 16. gr. laga um dýravernd sem ætlað er að skýra nánar hlutverk og valdsvið tilraunadýranefndar. Verkefni nefndarinnar hafa vaxið á undanförnum árum og því er lagt til að skerpt sé á hlutverki hennar. Þá er tilraunadýranefnd veitt lagaheimild til að innheimta gjald til að standa undir kostnaði við leyfisveitingar og eftirlit vegna dýratilrauna.
    Nefndin telur mikilvægt að tilraunadýranefnd hafi lagalega stoð sem tryggi henni fjármagn og lagalegt umhverfi til að sinna starfi sínu og gæta þess að þeir sem geri tilraunir á dýrum fari eftir settum reglum, tilraunir séu gerðar á mannúðlegan og réttan hátt og meðferð dýranna sé lögum samkvæmt. Sú breyting sem lögð er til á hlutverki nefndarinnar er að mestum hluta til útfærsla sem nú er í reglugerð nr. 279/2002, um dýratilraunir. Sú reglugerð var sett með hliðsjón af tilskipun Evrópusambandsins, 86/609/EBE um samræmingu á ákvæðum í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildaríkjanna um verndun dýra sem notuð eru í tilrauna- og vísindaskyni, með síðari breytingum.
    Nefndin leggur til breytingar á b-lið 1. gr. frumvarpsins þar sem segir að kröfur um menntun og þjálfun þeirra sem nota dýr í tilraunaskyni skuli taka mið af menntun í vísindagrein eða námskeiði tengdu dýratilraunum. Reglugerð um dýratilraunir mælir aftur á móti fyrir um að bæði skuli einstaklingur hafa menntun og hafa sótt réttindanámskeið í meðferð tilraunadýra. Þá er sambærilega kröfu að finna í 14. gr. tilskipunar 86/609/EBE en þar er kveðið á um þær lágmarkskröfur sem aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins ber að innleiða. Lögunum er ætlað að tryggja dýravernd og því mikilvægt að gerðar séu strangar kröfur til þeirra sem stunda dýratilraunir. Því verður að telja eðlilegt skilyrði að leyfisbeiðandi hafi lokið slíku námskeiði til að honum sé veitt leyfi til dýratilrauna en ekki sé nægilegt að sækja námskeiðið. Að sama skapi verður ekki séð að þær kröfur sem lögin kveða á um gangi lengra en nauðsyn krefur og því leggur nefndin til að 2. efnismálsl. b-liðar falli brott.
    Tilraunadýranefnd hefur nokkra sérstöðu sem eftirlitsaðili og útgefandi leyfa þar sem nefndin heyrir undir Umhverfisstofnun en er vistuð hjá Matvælastofnun. Af þessari ástæðu virðast hafa verið vandkvæði með fjármögnun vinnu tilraunadýranefndar. Nefndin leggur ekki til breytingar á ákvæðum sem miða að því að veita tilraunadýranefnd gjaldtökuheimild þar sem augljóst er að eigi nefndin að sinna lögboðnum verkefnum sínum þurfi að koma fjármagn til þess. Nefndin áréttar þann skilning sinn að með því að kveða á um að gjaldið skuli ekki vera hærra en nemur eðlilegum kostnaði við eftirlit eða útgáfu sé gert ráð fyrir mishárri gjaldtöku eftir umfangi við vinnu leyfisins og eftirlits, enda nefndinni verið kynnt dæmi þar sem eftirlit getur verið mjög umfangsmikið. Með þessu móti er jafnframt hægt að innheimta lægra gjald fyrir endurnýjun leyfa þegar ekki þarf að fara í umfangsmikla og tímafreka gagnaöflun. Þó telur nefndin rétt að beina því til ráðuneytisins að skoða stöðu og hlutverk tilraunadýranefndar við yfirstandandi endurskoðun laga um dýravernd með það í huga að tryggja henni stöðu innan stjórnsýslunnar og eðlilega leið að fjármagni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    B-liður 1. gr. orðist svo: Við 5. mgr., er verður 6. mgr., bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Kröfur um menntun og þjálfun þeirra sem nota dýr í tilraunaskyni skulu taka mið af menntun í vísindagrein sem tekur til þeirrar tilraunastarfsemi er um ræðir. Þá skal einnig gera kröfu um að námskeiði í meðferð tilraunadýra hafi verið lokið.

    Katrín Júlíusdóttir og Kjartan Ólafsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Kolbrún Halldórsdóttir og Árni Þór Sigurðsson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Kristinn H. Gunnarsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 17. des. 2008.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Ólöf Nordal.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.



Illugi Gunnarsson.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.


Árni Þór Sigurðsson,


með fyrirvara.



Valgerður Sverrisdóttir,


með fyrirvara.