Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 289. máls.

Þskj. 515  —  289. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.

    Við 6. málsl. 1. mgr. 42. gr. laganna bætist: og húseiningum.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 42. gr. skal á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. júlí 2010 endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Jafnframt skal á sama tímabili endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald þess. Að öðru leyti gilda ákvæði 1. mgr. 42. gr. á umræddu tímabili.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Í fyrsta lagi er lagt til að endurgreiðsluhlutfall það sem kveðið er á um í 1. mgr. 42. gr. verði tímabundið hækkað úr 60% í 100%, þ.e. á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. júlí 2010. Byggjendur íbúðarhúsnæðis fá í dag endurgreidd 60% af þeim virðisaukaskatti sem þeir greiða af vinnu iðnaðar- og verkamanna á byggingarstað vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds. Ekki er endurgreiddur virðisaukaskattur af byggingarefni, vélavinnu eða sérfræðiþjónustu, t.d. vegna þjónustu verkfræðinga eða arkitekta. Það er skattstjóri, í því umdæmi þar sem umsækjandi er skráður með lögheimili, sem afgreiðir endurgreiðslubeiðnir þessar. Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts af þessu tagi var fyrst lögfest árið 1989. Til ársins 1996 var virðisaukaskattur vegna vinnu manna á byggingarstað endurgreiddur að fullu. Sú heimild var lækkuð niður í 60% með lögum nr. 86/1996, um breytingu á lögum nr. 50/1988, og var sú breyting rökstudd með vísan í breytingar á vörugjaldslögum, nr. 97/1987, sem orsökuðu skerðingu á tekjum ríkissjóðs. Endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði var lækkað til að mæta þessu tekjutapi ríkisins. Skömmu síðar var endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna við endurbætur og viðhald einnig lækkuð í 60%, sbr. lög nr. 149/1996, um breytingu á lögum nr. 50/1988.
    Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í efnahagslífi þjóðarinnar er með frumvarpinu lagt til að hlutfall þessara endurgreiðslna verði tímabundið hækkað úr 60% í 100% vegna vinnu manna á byggingarstað og endurgreiðslna til eigenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna við endurbætur og viðhald. Markmiðið með slíku ákvæði til bráðabirgða er að koma til móts við húsbyggjendur sem eiga í erfiðleikum vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga, sporna við svartri atvinnustarfsemi og hvetja til aukinnar starfsemi á byggingarmarkaði. Hækkað endurgreiðsluhlutfall hvetur til framkvæmda en það er mikilvægt þegar atvinnuástandið er jafnbágt og nú og horfur eru á á næstunni, m.a. í byggingargeiranum. Auk þess er almennt litið svo á að slík tímabundin breyting sé líkleg til að stuðla að minni undanskotum frá skatti og þar með minnka svarta atvinnustarfsemi. Að sama skapi getur hækkunin dregið úr greiðslum vegna atvinnuleysisbóta vegna aukinna framkvæmda.
    Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að auk verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa verði heimilt í reglugerð að kveða á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum húseiningum. Er lagt til að sú breyting verði ekki tímabundin. Samkvæmt núgildandi lagaákvæði nær þessi reglugerðarheimild í lokamálslið 1. mgr. 42. gr. eingöngu til endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum. Ýmsar breytingar hafa orðið á byggingarháttum frá þeim tíma þegar ákvæði 1. mgr. 42. gr. var sett. Byggingaraðferðir og byggingartækni hafa breyst og sala á steinsteyptum húseiningum hefur aukist töluvert, og fer nú bygging íbúðarhúsnæðis í auknum mæli fram annars staðar en á eiginlegum byggingarstað, í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 42. gr. Algengt er að húsbyggjendur kaupi verksmiðjuframleiddar einingar án þess að uppsetning sé innifalin eða að einingar séu keyptar af mismunandi framleiðendum. Til þess að koma á jafnræði milli byggingaraðferða, þ.e. hvort bygging íbúðarhúsnæðis fer fram á byggingarstað eða með öðrum hætti, er með frumvarpinu lagt til að heimilt verði í reglugerð að kveða á um endurgreiðslu ákveðins hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum húseiningum.
    Þar sem uppgjörstímabil virðisaukaskatts er tveir mánuðir vegna nýbygginga er með frumvarpinu lagt til að gildistaka miðist við upphaf næsta reglulega uppgjörstímabils, þ.e. 1. mars 2009.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að hlutfall endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað og vegna vinnu við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis verði hækkað úr 60% í 100%. Ákvæðið er tímabundið og gildir frá 1. mars 2009 til 1. júlí 2010. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að endurgreiða ákveðið hlutfall, sem ákveðið verði í reglugerð, virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum húseiningum. Markmiðið með frumvarpinu er að efla starfsemi á byggingamarkaði, efla atvinnuástandið almennt og þar með draga úr atvinnuleysi í því efnahagsástandi sem nú ríkir.
    Mikil þensla hefur verið á byggingamarkaði undanfarin tvö til þrjú ár og því erfitt að meta hvaða áhrif þessi lagasetning hefur á endurgreiðslu virðisaukaskatts á þessu og næstu árum. Miðað við þróunina undanfarin ár er valið að nota árið 2005 sem viðmið. Það ár námu endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds íbúðarhúsnæðis samtals 3,2 milljörðum króna á núvirði og stefnir í að árið 2008 verði nokkuð svipað en mjög hratt dró úr byggingarstarfsemi eftir mitt árið. Mikil óvissa er um þróun á byggingamarkaði á næstunni en komist jafnvægi á markaðinn á þessu og næsta ári má gera ráð fyrir að endurgreiðsla á virðisaukaskatti gæti hækkað um 2 milljarða króna árlega frá því sem annars hefði verið. Endurgreiðsla á virðisaukaskatti telst vera skattstyrkur sem færist til lækkunar á tekjum, en ekki sem útgjöld. Á móti kemur hins vegar að ef umsvif aukast á byggingamarkaði vegna tilkomu laganna þá skilar það sér í auknum veltusköttum. Að sama skapi eru forsendur til að ætla að í kjölfar breytingarinnar geti dregið úr svartri atvinnustarfsemi sem hefur í för með sér aukinn tekjuskatt fyrir ríkissjóð og lækkun á greiðslum vegna atvinnuleysisbóta. Hins vegar er erfitt að leggja nákvæmt mat á slíkt. Ekki er ástæða til að ætla að heimild til endurgreiðslu hlutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum húseiningum hafi teljandi áhrif.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er þannig ekki gert ráð fyrir að það hafi teljandi áhrif á útgjöld skattkerfisins.