Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 292. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 584  —  292. mál.
Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um skoðun á Icesave-ábyrgðum.


     1.      Hefur ráðherra látið skoða á innlendum eða erlendum vettvangi hvort Íslendingum beri lagaleg skylda til að greiða Icesave-ábyrgðirnar og ef svo er, hver er niðurstaða þeirrar skoðunar?
    Já. Fyrir liggur allnokkur fjöldi lögfræðilegra álitsgerða sem unnar hafa verið bæði af innlendum og erlendum aðilum að beiðni utanríkisráðuneytisins og á vegum ríkisstjórnarinnar vegna Icesave. Eins liggja fyrir álitsgerðir Breta, Hollendinga og Evrópusambandsins. Í þessum greinargerðum eru reifuð ýmis sjónarmið er lúta að ábyrgð ríkisins. Utanríkisráðuneytið og þau ráðuneyti önnur sem koma að Icesave-viðræðunum hafa kynnt sér efni þessara greinargerða gaumgæfilega og stuðst við þær í viðræðunum. Rétt er að taka fram að þær standa enn yfir og því takmörkunum bundið hversu ítarleg svör er hægt að gefa í svari sem þessu. Með vísan til 24. gr. þingskapalaga hafa helstu gögn málsins, þ.m.t. lögfræðilegar álitsgerðir, verið afhentar utanríkismálanefnd í trúnaði.
    Þrátt fyrir nauðsynlegan trúnað um einstakar álitsgerðir er þó hægt að upplýsa að þungvæg lögfræðileg rök eru talin hníga að því að túlka tilskipunina um innstæðutryggingar þannig að íslenska ríkið verði að hlaupa undir bagga með tryggingarsjóðnum til að greiða lágmarkstryggingar samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar. Þó hafa verið færð lögfræðileg rök fyrir gagnstæðri skoðun, þ.e. að með því að hafa komið tryggingarsjóði innstæðna á laggirnar sé Ísland búið að fullnægja skyldum sínum og að ekki sé við íslenska ríkið að sakast þótt eignir tryggingarsjóðsins dugi ekki fyrir þeim kröfum er á hann falli.
    Á öllum samningafundum sem fram hafa farið hafa íslensk stjórnvöld haldið því sjónarmiði fram af miklum þunga að tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar hafi verið innleidd í íslenskan rétt á fullnægjandi hátt og án athugasemda og að íslenska ríkinu beri ekki að ábyrgjast innstæður umfram þá upphæð sem var í tryggingarsjóði innstæðueigenda.
    Í ljósi mikilvægis málsins hefur Ísland engu að síður leitað eftir því að úr málinu yrði skorið fyrir dómi eða með öðrum viðunandi lögfræðilegum hætti. Skemmst er frá því að segja að allar leiðir til þess mundu krefjast sammælis allra málsaðila um að leggja málið í dóm eða gerð. Ríkin þrjú sem hlut eiga að máli hafa til þessa þvertekið fyrir slíkan málarekstur og eru studd af öllum Evrópusambandsríkjunum auk Noregs. Rök þeirra eru samhljóða. Takmörkun ábyrgðar við eignir tryggingarsjóða sé fráleit lögfræðileg túlkun og málarekstur um slíkt sé til þess eins fallinn að grafa undan, ef ekki kollvarpa, trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja. Í þessu samhengi má einnig geta þess að tryggingarsjóðirnir í Evrópu eru að meira eða minna leyti fjármagnaðir eftir á.
    Á tímabili leit út fyrir að fyrrverandi fjármálaráðherra hefði með samkomulagi náð að leggja málið í gerðardómsmeðferð þar sem að málum kæmu ráðherraráð og framkvæmdastjórn ESB, Seðlabanki Evrópu, Eftirlitsstofnun EFTA og fulltrúi tilnefndur af Íslandi undir hatti EFTA. Þegar í ljós kom að málsmeðferð þessa gerðardóms yrði fjarri því að vera fagleg og lögfræðileg var talið óforsvaranlegt að Ísland tilnefndi gerðardómsmann. Hópur sérfræðinga (4) tilnefndra af hinum stofnununum kom engu að síður saman og gaf hann samdóma álit eftir rúmlega sólarhringsskoðun að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslu lágmarkstrygginga samkvæmt tilskipuninni dygðu eignir tryggingarsjóðsins ekki til.

     2.      Hvert er mat ráðherra á stöðu Íslands ef við
                  a.      borgum,
                  b.      borgum ekki?

    Í aðild Íslands að EES felast rík réttindi en jafnframt ríkar skyldur. Litið er á Ísland auk hinna EFTA/EES-ríkjanna sem nánustu samstarfslönd ESB-ríkjanna og eru þau einu ríkin utan sambandsins sem treyst hefur verið til fullrar þátttöku á innri markaði og fá notið þeirra sérréttinda sem sú þátttaka veitir.
    Eins og að framan er getið eru hvorki stofnanir ESB né nokkurt aðildarríki þess, þ.m.t. Norðurlöndin auk Noregs sem er í EES, reiðubúin að fallast á að lagaóvissa ríki um það hvort ábyrgð á bankainnstæðum sé fyrir hendi. ESB-ríkin og framkvæmdastjórn ESB virtust í október sl. meta það svo að Ísland væri ekki í stakk búið að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt reglum EES og að í aðgerðum íslenskra stjórnvalda gæti falist mismunun á grundvelli þjóðernis. Bretland krafðist þess raunar af framkvæmdastjórn ESB að gripið yrði til sérstakra verndaraðgerða samkvæmt EES-samningnum gagnvart Íslandi, en það var þó ekki gert.
    ESB-ríkin hafa mjög skýra afstöðu til þess hverjar skyldur Íslands eru í máli þessu og hafa skoðanir verið látnar í ljós um að Ísland sé að virða að vettugi skyldur sínar á innri markaði sambandsins. Það gæti valdið uppnámi á EES-samningum.
    Að auki verður að geta þess að ein af forsendum fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeirra ríkja sem að henni koma var að samkomulag næðist við Breta, Hollendinga og Þjóðverja vegna uppgjörs innlána í útibúum íslenskra banka í viðkomandi ríkjum.
    Það er því mat núverandi ríkisstjórnar, og þeirrar fráfarandi einnig, að lausn deilunnar með aðstoð alþjóðasamfélagsins og þeirra ríkja sem næst okkur standa, fyrst og fremst Norðurlandanna, sé ein af forsendum endurreisnar íslensks efnahagslífs. Því má ekki gleyma að samkvæmt hinum umsömdu viðmiðum sem samþykkt voru í Brussel skal í viðræðunum,,tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt“. Verði slíkt ekki gert munu samningar ekki nást.

     3.      Hefur farið fram víðtækt hagsmunamat á leið 2a og 2b?
    Sjá svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.