Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 261. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 589  —  261. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um bifreiðahlunnindi starfsmanna hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve margir bankastarfsmenn voru á bifreiðum í eigu nýju og gömlu ríkisbankanna 1. desember sl., sundurliðað eftir bönkum?
     2.      Hve margir fyrrverandi starfsmenn ríkisbankanna voru á slíkum bílum 1. desember sl., sundurliðað eftir bönkum?
     3.      Hvert er skattalegt hlunnindamat á hverja bifreið á mánuði?
     4.      Hver tekur ákvörðun um hver fái slík bifreiðahlunnindi?
     5.      Tíðkast slík hlunnindi almennt í öðrum ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum, t.d. hjá Ríkisútvarpinu, Landsvirkjun, Veðurstofunni, Byggðastofnun o.s.frv.?


    Fjármálaráðuneytið hefur ekki haft undir höndum upplýsingar um bifreiðahlunnindi þau sem spurt er um í fyrirspurn þessari og heyra undir önnur ráðuneyti. Til að afla þessara upplýsinga var öllum ráðuneytum ásamt ríkisbönkunum og skilanefndum bankanna ritað bréf þar sem óskað var eftir að umræddir aðilar létu fjármálaráðuneytinu í té framangreindar upplýsingar. Jafnframt var óskað eftir viðbótarsvarfresti þar sem ljóst var að tiltekin ráðuneyti þyrftu að afla þessara upplýsinga hjá einstökum stofnunum og ríkisfyrirtækjum sem undir þau heyra. Hér á eftir fara svör þeirra ráðuneyta og ríkisstofnana sem fyrirspurnin beindist að.

Forsætisráðuneytið.
    Í bréfi forsætisráðuneytisins kemur fram að bifreiðahlunnindi séu ekki fyrir hendi hjá ráðuneytinu eða stofnunum þess að frátöldum Seðlabanka Íslands.
    Í bréfi Seðlabanka Íslands til forsætisráðuneytisins kemur eftirfarandi fram:
     1.      Bankastjórar Seðlabanka Íslands eru einu starfsmenn bankans sem njóta bifreiðahlunninda. Bankinn á og rekur bifreiðar sem þeir hafa til afnota.
     2.      Engir fyrrverandi starfsmenn Seðlabanka Íslands nutu bifreiðahlunninda 1. desember sl.
     3.      Skattalegt mat á bifreiðahlunnindum fer eftir ákvörðun ríkisskattstjóra. Árið 2008 voru bifreiðahlunnindi bankastjóra metin til tekna eftir bifreiðategund og árgerð á eftirfarandi hátt:
        Subaru Tribeca 2005, 96.151 kr. á mánuði,
        Ford Explorer 2005, 81.002 kr. á mánuði,
        Subaru Outback 2006, 79.947 kr. á mánuði.
     4.      Ákvarðanir um kjör bankastjóra, þ.m.t. bifreiðahlunnindi, eru teknar af bankaráði Seðlabanka Íslands. Bankastjórar taka ákvarðanir um kjör annarra starfsmanna.

Menntamálaráðuneytið.
    Í bréfi menntamálaráðuneytisins kemur fram að útvarpsstjóri sé eini aðilinn sem sé með bifreið til fullra afnota hjá stofnunum og fyrirtækum ráðuneytisins. Stjórn RÚV tekur ákvörðun um bifreiðahlunnindi útvarpsstjóra.
    Aðrar bifreiðar í eigu stofnana menntamálaráðuneytisins eru eingöngu notaðar í þágu viðkomandi stofnunar og til þeirra verkefna er þær sinna. Starfsmenn hafa ekki heimild til að nota þær í öðrum tilgangi.

Utanríkisráðuneytið.
    Í bréfi utanríkisráðuneytisins kemur fram að stofnanir ráðuneytisins séu tvær, Varnarmálastofnun og Þróunarsamvinnustofnun. Hvorug þeirra leggur starfsmönnum sínum til bifreiðar til einkanota.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
    Í bréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis kemur fram að enginn starfsmaður ráðuneytisins hafi bifreið í eigu ríkisins til eigin nota. Það sé stefna ráðuneytisins að slík hlunnindi séu ekki veitt, hvorki að því er varðar ráðuneytið né stofnanir þess.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.
    Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins kemur fram að forstöðumenn stofnana og embætta dómsmálaráðuneytisins hafi ekki afnot af bifreiðum í eigu ríkisins til einkanota.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið.
    Í bréfi félags- og tryggingamálaráðuneytisins kemur fram að í stofnunum ráðuneytisins njóti enginn starfsmaður bifreiðahlunninda.

Heilbrigðisráðuneytið.
    Í bréfi heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið hafi gert könnun á þessum málum árið 2007. Almennt tíðkist ekki að starfsmenn stofnana ráðuneytisins hafi bíla sem stofnanirnar eiga eða leigja til eigin nota. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er þar undantekning þar sem forstjóri og framkvæmdastjóri fjármála hafa slík afnot. Þau afnot eru gefin upp til skatts eins og lög gera ráð fyrir. Ráðuneytið kveðst ekki hafa kannað þessi mál hjá fleiri stofnunum þar sem könnunin frá 2007 hafi ekki gefið tilefni til þess.

Fjármálaráðuneytið.
    Bifreiðahlunnindi fyrirfinnast hjá tveimur fyrirtækjum og einni stofnun á ábyrgðasviði fjármálaráðuneytisins.
    Landsvirkjun leggur forstjóra og staðgengli hans til bifreið til umráða í starfi sínu samkvæmt ráðningarsamningi. Framkvæmdastjórar fyrirtæknisins, fjórir talsins, eiga auk þess rétt á bifreið samkvæmt ráðningarsamningi, en hafa þó val um að fá greiddan sérstakan bifreiðastyrk og launaauka í stað bifreiðar. Einn framkvæmdastjóri kaus á síðasta ári að fá bifreið til umráða í stað greiðslna. Í öllum framangreindum tilvikum eru einkaafnot heimiluð og skattalegt mat á þeim hlunnindum fer eftir reglum ríkisskattstjóra. Skattalegt hlunnindamat forstjóra Landsvirkjunar nam 87.761 kr. á mánuði, staðgengils forstjóra 107.515 kr. á mánuði og framkvæmdastjóra 108.117 kr. á mánuði. Tíu aðrir starfsmenn Landsvirkjunar nutu bifreiðahlunninda á síðasta ári vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar. Hlunnindamat þeirra var breytilegt eftir vegalengd, frá 804 kr. á mánuði upp í 32.175 kr. á mánuði. Samtals námu þessi hlunnindi 124.066 kr. á mánuði. Ákvörðun um bifreiðahlunnindi forstjóra er tekin af stjórn Landsvirkjunar. Forstjóri ákveður bifreiðahlunnindi annarra starfsmanna fyrirtækisins.
    Forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins hefur einnig takmörkuð bifreiðahlunnindi. Auk ferða hans í tengslum við þjónustu á vegum stofnunarinnar samþykkti fjármálaráðuneytið afnot hans af bifreiðinni, svo sem vegna ferða í og úr vinnu, allt að 4.000 km á ári. Skattalegt hlunnindamat umræddrar bifreiðar er 23.830 kr. á mánuði.
    Framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. hefur bifreið til fullra afnota samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins. Bifreiðahlunnindi á mánuði reiknast 144.030 kr.
    Ekki er um önnur bifreiðahlunnindi að ræða hjá stofnunum og ríkisfyrirtækjum á ábyrgðarsviði fjármálaráðuneytisins.
    Sérstaklega er fjallað um ríkisbankana hér á eftir.

Samgönguráðuneytið.
    Í bréfi samgönguráðuneytisins kemur fram að starfsmenn eftirfarandi stofnana og fyrirtækja á vegum samgönguráðuneytisins hafi bifreið til eigin afnota:
    Þrír starfsmenn Umferðarstofu, einn starfsmaður Flugstoða ohf. og einn starfsmaður Keflavíkurflugvallar ohf.

Iðnaðarráðuneytið.
    Í bréfi iðnaðarráðuneytisins kemur fram að forstjóri Byggðastofnunar og Framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hafi bifreiðar til umráða í eigu viðkomandi stofnana.
    Skattalagt hlunnindamat fer samkvæmt þeim reglum sem ríkisskattstjóri setur á hverjum tíma.
    Stjórn Byggðastofnunar og stjórn Nýsköpunarsjóðs taka ákvarðanir um bifreiðahlunnindi þessi.
    Bifreiðahlunnindi sem þessi tíðkast almennt ekki í öðrum stofnunum iðnaðarráðuneytis.

Viðskiptaráðuneytið.
    Í bréfi viðskiptaráðuneytisins kemur fram að hvorki ráðuneytið sjálft né undirstofnanir þess láti starfsmönnum í té bifreiðar til eigin afnota.

Umhverfisráðuneytið.
    Í bréfi umhverfisráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið hafi sent fyrirspurnina til allra stofnana sinna. Í svörum þeirra kom fram að engir starfsmenn stofnana hefðu bifreiðar til einkanota. Ef til þess kæmi mundu forstöðumenn taka ákvarðanir þar að lútandi nema hjá Vatnajökulsþjóðgarði þar sem það yrði stjórn og framkvæmdastjóri.

Nýi Kaupþing banki hf.
    Í bréfi Nýja Kaupþings banka hf. kemur fram að enginn fyrrverandi starfsmaður Kaupþings hafði til afnota bifreið 1. desember 2008.
    Allir núverandi starfsmenn Nýja Kaupþings sem höfðu afnot af bifreið 1. desember 2008 samkvæmt ráðningarsamningi við gamla Kaupþing og voru endurráðnir til Nýja Kaupþings munu skila bifreiðum samkvæmt nýjum ráðningarsamningum fyrir 1. febrúar 2009.

Nýi Glitnir banki hf.
    Í bréfi Nýja Glitnis banka hf. kemur fram að hinn 1. desember 2008 voru 23 starfsmenn Nýja Glitnis á bifreiðum í eigu bankans, eða á rekstrarleigu á kostnað bankans.
    Skattalegt hlunnindamat bifreiðanna var 3,4 millj. kr. á mánuði 1. desember 2008.
    Fyrsta bankastjórn Nýja Glitnis tók ákvarðanir um það hver fengi slík hlunnindi. Bifreið er hluti af ráðningarkjörum bankastjóra en varðandi aðra starfsmenn er um að ræða starfsmenn sem höfðu bifreiðahlunnindi hjá Glitni banka hf. Ákveðið var að þeir héldu hlunnindum að hámarki í sex mánuði á meðan unnið væri að því að skila bifreiðum eða selja.
    Bankinn telur rétt að taka fram að við skil á rekstrarleigubifreiðum fellur til kostnaður sem í mörgum tilfellum er hærri en eftirstöðvar rekstrarleigu. Eigandi bifreiðar á rekstarleigu er viðkomandi bifreiðaumboð. Ef leigutaki vill skila rekstrarleigubifreið áður en samningur rennur út þarf að semja um það við eigandann (umboðið). Það er undir umboðinu komið hvort hægt er að skila bifreiðinni og getur umboðið þá krafið gjalds vegna skilanna og uppgjörs á rekstrarleigusamningi. Verið er að leita að bestu lausn vegna þessa í samstarfi við fjármögnunaraðila og bifreiðaumboð.

NBI hf.
    Í bréfi NBI hf. kemur fram að NBI hf. telur sér almennt ekki skylt að svara ráðuneytum vegna fyrirspurna alþingismanna um önnur málefni en þau sem teljast opinber. Að mati bankans hlýtur sama meginreglan að gilda um aðgang alþingismanna að upplýsingum um málefni hlutafélaga í eigu ríkisins og gildir um hlutafélög almennt, sem er að réttur til upplýsinga hlýtur einungis að gilda um upplýsingar sem eiga að vera opinberar lögum samkvæmt. Ljóst er á grundvelli þessa að ekki er unnt að veita upplýsingar sem tengjast einkamálefnum viðskiptamanna og starfsmanna eða viðskiptahagsmunum NBI hf. Fyrirspurnum almenns eðlis mun þó verða svarað eins og kostur er ef umbeðnar upplýsingar eru aðgengilegar án mikillar vinnu eða tilkostnaðar.
    Með vísan til fyrirspurnarinnar telur NBI hf. þó hægt að upplýsa eftirfarandi:
     1.      Í lok desember 2008 hafa átta starfsmenn NBI hf. til umráða bifreið á vegum bankans sem hluta af ráðningarkjörum sínum.
     2.      Engir fyrrverandi starfsmenn voru á bifreið í eigu NBI hf. í desember sl.
     3.      Bifreiðahlunnindi eru skattskyld samkvæmt bifreiðaskrá og skattmati RSK hverju sinni.
     4.      Ákvörðunarvald um bifreiðahlunnindi er hjá bankaráði og bankastjóra.

Skilanefnd Kaupþing banka hf.
    Í bréfi skilanefndar Kaupþings banka hf. kemur eftirfarandi fram:
     1.      Enginn núverandi starfsmaður gamla Kaupþings var með bíl 1. desember 2008.
     2.      Enginn fyrrverandi starfsmaður gamla Kaupþings var með bíl 1. desember 2008.
     3.      Á ekki við.
     4.      Skilanefnd er ábyrg fyrir starfssamningum starfsmanna gamla Kaupþings.

Skilanefnd Glitnis banka hf.
    Í bréfi skilanefndar Glitnis banka hf. kemur fram að það sé samið fyrir skilanefndina með þeim fyrirvara að hún þurfi að svara framkomnum spurningum.
    Glitnir banki hf. er ekki og var ekki ríkisbanki, jafnvel þótt skilanefnd hafi tekið við rekstri hans. Spurningar sem vísa í „gamla“ ríkisbanka eiga því ekki endilega við.
     1.      1. desember 2008 var einn starfsmaður Glitnis banka hf. á bifreið í rekstrarleigu á kostnað bankans. Um er að ræða núverandi framkvæmdastjóra bankans, en hann er fyrrverandi starfsmaður bankans og heldur tímabundið bifreiðahlunnindum á uppsagnarfresti eins og aðrir stjórnendur bankans.
     2.      1. desember 2008 var 21 fyrrverandi starfsmaður Glitnis banka hf. á bifreið í rekstrarleigu á kostnað bankans. Starfsmenn halda bifreiðahlunnindum á uppsagnarfresti.
     3.      Skattalegt hlunnindamat bifreiðanna var 2,6 millj. kr. á mánuði 1. desember 2008.
     4.      Bankastjórn, forstjóri og framkvæmdastjóri hvers sviðs bankans tóku ákvarðanir um bifreiðahlunnindi.

Skilanefnd Landsbanka Íslands hf.
    Í bréfi skilanefndar Landsbanka Íslands hf. kemur fram að skilanefndin sé hvorki ríkisstofnun eða ríkisfyrirtæki og félaginu því ekki skylt að svara fyrirspurninni.