Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 288. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 629  —  288. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar um fjölþáttameðferð utan höfuðborgarsvæðisins.

     1.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja að komið sé til móts við þarfir stórra þéttbýliskjarna utan höfuðborgarsvæðisins, svo sem á Norðurlandi, þannig að tryggt sé að íbúum þar verði boðið upp á fjölþáttameðferð (MST)?
    
Það meðferðarúrræði sem vísað er til í fyrirspurninni hefur ýmist verið nefnt „fjölþáttameðferð“ eða „fjölkerfameðferð“ og hefur fagfólk á þessu sviði kosið að nota frekar síðarnefnda heitið í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á samvinnu ólíkra þjónustukerfa við framkvæmd meðferðarinnar. Verður því hugtakið fjölkerfameðferð (MST) notað í svari þessu.
    Fjölkerfameðferð hefur verið í boði fyrir ákveðinn hóp Barnaverndarstofu frá því í nóvember 2008. Svokölluð meðferðarteymi eru grunneiningar í framkvæmd meðferðarinnar þar sem starfa þrír til fjórir sérfræðingar á sviði heilbrigðis- og félagsgreina. Eitt slíkt teymi er starfandi á Suðvesturlandi en staðsetningin var einkum valin með hliðsjón af hvaðan flestar umsóknir um dvöl barna á meðferðarheimilum hafa borist til Barnaverndarstofu undanfarin ár. Um sólarhringsvöktun er að ræða og er gert ráð fyrir að eitt teymi sinni 35.40 fjölskyldum á ári. Markmið meðferðarinnar er að koma börnum á aldrinum 12.18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda til aðstoðar án stofnanavistunar.
    Verkefnið er enn á reynslustigi en viðtökur barnaverndarnefnda þar sem meðferðin er í boði hafa reynst mjög góðar. Þegar meiri reynsla hefur fengist á verkefnið er gert ráð fyrir að farið verði yfir hvernig unnt verði að þróa það áfram og standa vonir til að sú vinna geti hafist þegar á þessu ári. Þá verður meðal annars metið hvernig haganlegast er að bjóða þetta meðferðarúrræði óháð búsetu enda ljóst að börn sem kunna að tilheyra þeim markhópi sem fjölkerfameðferð er ætluð búi í öðrum þéttbýliskjörnum landsins en á Suðvesturlandi, svo sem á Norðurlandi.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að Barnaverndarstofa geri þjónustusamning, t.d. við barnaverndarnefnd Eyjafjarðar, um að koma upp fjölþáttameðferðarteymi fyrir íbúa á Norðurlandi?
    
Eins og fram kemur í svari við fyrsta lið fyrirspurnarinnar er talið ráðlegt að bíða frekari reynslu fjölkerfameðferðarinnar enda einungis tæpir fjórir mánuðir frá því meðferðin var fyrst í boði hér á landi. Barnaverndarstofa leggur áherslu á að eiga gott samstarf við barnaverndarnefndir á landsbyggðinni þar sem ávallt er leitast við að fara leiðir við hæfi þeirra sem þurfa á þjónustu stofunnar að halda. Sem dæmi hefur Barnaverndarstofa átt í ágætu samstarfi við fulltrúa barnaverndarnefndar Eyjafjarðar og skóla- og heilbrigðisþjónustunnar á Akureyri á síðastliðnum vikum um að kanna hvaða aðrir kostir komi þar til greina meðan ekki er unnt að bjóða fjölkerfameðferðina þar. Hefur meðal annars verið rætt að æskilegt þyki að styrkja og útfæra það áhugaverða starf sem nú þegar er komið til framkvæmda í samvinnu fyrrnefndra aðila á svæðinu og lýtur að eflingu foreldrafærni, svonefnds PMT-kerfis ( Parent Management Training). Var við það miðað að Barnaverndarstofa annars vegar og barnaverndarnefnd Eyjarfjarðar hins vegar gerðu með sér þjónustusamning um útfærslu þessarar þjónustu og skyldi hún einkum miða að þörfum barna á unglingsaldri. Við gerð rekstraráætlunar fyrir yfirstandandi ár lagði Barnaverndarstofa það til við félags- og tryggingamálaráðuneytið að varið yrði allt að 10 millj. kr. af fjárveitingu til stofunnar til gerðar slíks samnings og féllst ráðuneytið á áætlunina með bréfi sem barst stofunni hinn 3. febrúar sl. Viðræður vegna þessa samnings munu hefjast síðar í þessum mánuði.

     3.      Hefur farið fram mat á meðferðarheimilum, faglegu starfi þeirra og árangri, og því hvaða áhrif breytingar á meðferðarúrræðum hafa haft á þjónustu við íbúa á landsbyggðinni?
    
Varðandi það atriði er lýtur að mati á faglegu starfi og árangri meðferðarheimila er því til að svara að Barnaverndarstofa hefur á liðnum árum látið fara fram mat á einstökum meðferðarheimilum og faglegu starfi þeirra. Má í þeim efnum nefna meðferðarheimilin í Skagafirði, Meðferðarstöð ríkisins, Stuðlum, og heimili sem nú hafa hætt starfsemi, svo sem að Torfastöðum. Þá liggja fyrir matsskýrslur óháðs eftirlitsmanns með öllum meðferðarheimilum á vegum stofunnar sem gerðar eru reglulega samkvæmt samningi við Barnaverndarstofu þar að lútandi. Jafnframt liggja fyrir skýrslur starfsmanna stofunnar um eftirlitsheimsóknir, þ.m.t. viðtöl við börn í meðferð. Auk þess er unnið að rannsókn um starfsmenn og starfsmannaumhverfi á meðferðarheimilum, en um er að ræða meistaraverkefni sem starfsmaður stofunnar í námsleyfi vinnur nú að. Jafnframt er ástæða til að geta þess að verið er að ganga frá samningi við Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands um framkvæmd rannsóknar á afdrifum þeirra barna sem voru vistuð á langtímameðferðarheimilum á vegum Barnaverndarstofu á árunum 2000.2007 svo og mat á árangri meðferðar barna á árunum 2006.2008 með svonefndu ASEBA-mælitæki, en hafist var handa um skráningu upplýsinga um vanda barna samkvæmt þessu mælitæki í þessu skyni í byrjun árs 2006.
    Með vísun til svara við 1. og 2. lið fyrirspurnarinnar er ljóst að fjölkerfameðferðin hefur eingöngu náð til barna sem eiga lögheimili á Suðvesturlandi en í kjölfar meðferðarinnar hefur aðgengi barna sem búa annars staðar á landinu að meðferðarheimilum sem rekin eru á vegum Barnaverndarstofu orðið greiðara þar sem dregið hefur úr eftirspurn eftir meðferðarrýmum frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum Barnaverndarstofu höfðu áður 90% allra umsókna um dvöl barna á meðferðarheimilum á vegum stofunnar komið frá þeim sveitarfélögum þar sem fjölkerfameðferðin er í boði.