Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 406. máls.

Þskj. 688  —  406. mál.Frumvarp til laga

um listamannalaun.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.
Hlutverk.

    Í þeim tilgangi að efla listsköpun í landinu veitir Alþingi árlega fé af fjárlögum til þess að launa listamenn í samræmi við ákvæði laga þessara.

2. gr.
Launasjóðir.

    Starfslaun listamanna skulu veitt úr sex sjóðum:
     a.      launasjóði hönnuða,
     b.      launasjóði myndlistarmanna,
     c.      launasjóði rithöfunda,
     d.      launasjóði sviðslistafólks,
     e.      launasjóði tónlistarflytjenda,
     f.      launasjóði tónskálda.
    Auk starfslauna er sjóðunum heimilt að veita ferðastyrki.
    Yfirumsjón með sjóðunum er í höndum stjórnar listamannalauna. Sérstakar nefndir annast úthlutun starfslauna úr sjóðunum.

3. gr.
Stjórn.

    Menntamálaráðherra skipar þrjá menn í stjórn listamannalauna til þriggja ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra listamanna, einn samkvæmt tilnefningu Listaháskóla Íslands og einn án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi aðalmanna. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórn listamannalauna lengur en tvö samfelld starfstímabil.
    Stjórnin gerir tillögu til ráðherra um stefnu og áherslur við úthlutun listamannalauna til þriggja ára í senn og hefur eftirlit með að skilyrðum um starfslaun sé fylgt. Stjórninni er heimilt að færa umsóknir á milli sjóða, sbr. 2. gr.
    Ráðherra er heimilt að fela stjórninni að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila að annast umsýslu sjóðanna.
    Kostnaður vegna umsýslu sjóðanna greiðist af fjárveitingum til listamannalauna.

4. gr.
Starfslaun.

    Starfslaun skulu nema 266.737 kr. á mánuði á verðlagi fjárlaga 2009. Starfslaun eru veitt til listamanns sem telst sjálfstætt starfandi í listgrein sinni. Fjárhæð starfslauna skal koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.
    Þeir sem taka starfslaun skulu vera á skrá hjá stjórn listamannalauna og fá greidd starfslaun mánaðarlega. Þeir sem njóta starfslauna í sex mánuði eða lengur skulu ekki gegna fullu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur.
    Starfslaunaþegar skulu skila skýrslu um störf sín á starfslaunatímanum eigi síðar en ári eftir að honum lýkur. Stjórn listamannalauna má fella niður starfslaun sem veitt eru til lengri tíma en sex mánaða ef talið er að viðkomandi listamaður sinni ekki list sinni að mati stjórnar.

5. gr.
Fjöldi starfslauna.

    Samanlögð starfslaun miðast við 1.600 mánaðarlaun eða 133,33 árslaun.

6. gr.
Launasjóður hönnuða.

    Launasjóður hönnuða veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 50 mánaðarlauna.
    Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum samtaka hönnuða og arkitekta, úthlutar fé úr launasjóði hönnuða. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

7. gr.
Launasjóður myndlistarmanna.

    Launasjóður myndlistarmanna veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 435 mánaðarlauna.
    Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Sambands íslenskra myndlistarmanna, úthlutar fé úr launasjóði myndlistarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

8. gr.
Launasjóður rithöfunda.

    Launasjóður rithöfunda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 555 mánaðarlauna.
    Þriggja manna nefnd, sem menntamálaráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Rithöfundasambands Íslands, úthlutar fé úr launasjóði rithöfunda. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

9. gr.
Launasjóður sviðslistafólks.

    Launasjóður sviðslistafólks veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 190 mánaðarlauna.
    Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Leiklistarsambands Íslands, úthlutar fé úr launasjóði sviðslistafólks. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

10. gr.
Launasjóður tónlistarflytjenda.

    Launasjóður tónlistarflytjenda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 180 mánaðarlauna.
    Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega, úthlutar fé úr launasjóði tónlistarflytjenda. Skulu tveir nefndarmanna tilnefndir af Félagi íslenskra hljómlistarmanna og einn af Félagi íslenskra tónlistarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

11. gr.
Launasjóður tónskálda.

    Launasjóður tónskálda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 190 mánaðarlauna.
    Ráðherra skipar árlega þriggja manna nefnd sem úthlutar fé úr launasjóði tónskálda. Tónskáldafélag Íslands tilnefnir tvo fulltrúa og Félag tónskálda og textahöfunda tilnefnir einn fulltrúa. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

12. gr.
Lengd starfslauna.

    Starfslaun skulu veitt til 6, 9, 12, 18 eða 24 mánaða. Heimilt er að úthluta starfslaunum til skemmri tíma en hálfs árs, þó aldrei skemur en til þriggja mánaða. Sú upphæð sem varið er til þessa, sem og til ferðastyrkja, skal ekki vera hærri en nemur 10% þeirra mánaðarlauna sem hver sjóður hefur til úthlutunar árlega.
    Ef starfslaunum er úthlutað til einstaklinga vegna afmarkaðra verkefna er heimilt að víkja frá ákvæðum 1. mgr.
    Miða skal við að fjórðungur heildarstarfslauna hvers sjóðs samkvæmt lögum þessum verði að jafnaði veittur til listamanna sem taka laun í eitt ár eða meira.
    Heimilt er að úthluta starfslaunum til lengri tíma en 24 mánaða, þó aldrei lengur en til 36 mánaða.

13. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakar greinar þeirra, þar á meðal um skilgreiningu á því hvað teljist fullt starf, sbr. 2. mgr. 4. gr., og um tilhögun tilnefninga af hálfu tilnefningaraðila í úthlutunarnefndir, sbr. 6.–10. gr. Þá skal enn fremur setja nánari ákvæði í reglugerð um skilmála fyrir veitingu starfslauna, þar með talið um endurgreiðslu þeirra ef gegn þeim skilmálum er brotið.
    Við framkvæmd þessarar greinar skal haft samráð við samtök listamanna eftir því sem við á hverju sinni.

14. gr.
Málsmeðferð.

    Ákvarðanir skv. 6.–11. gr. eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra.

15. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Fyrirmæli um úthlutun úr launasjóðum listamanna koma til framkvæmda á árinu 2010.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.


    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. skulu samanlögð starfslaun árið 2010 miðast við 1.345 mánaðarlaun og árið 2011 við 1.475 mánaðarlaun.

II.


    Þrátt fyrir ákvæði 6.–11. gr. skulu starfslaun og styrkir til listamanna árin 2010 og 2011 vera sem hér segir:
     a.      Starfslaun og styrkir til hönnuða árið 2010 skulu miðast við 20 mánaðarlaun og árið 2011 við 35 mánaðarlaun.
     b.      Starfslaun og styrkir myndlistarmanna árið 2010 skulu miðast við 360 mánaðarlaun og árið 2011 við 400 mánaðarlaun.
     c.      Starfslaun og styrkir rithöfunda árið 2010 skulu miðast við 505 mánaðarlaun og árið 2011 við 530 mánaðarlaun.
     d.      Starfslaun og styrkir sviðslistafólks árið 2010 skulu miðast við 160 mánaðarlaun og árið 2011 við 175 mánaðarlaun.
     e.      Starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda árið 2010 skulu miðast við 150 mánaðarlaun og árið 2011 við 165 mánaðarlaun.
     f.      Starfslaun og styrkir tónskálda árið 2010 skulu miðast við 130 mánaðarlaun og árið 2011 við 160 mánaðarlaun.

III.


    Listamenn sem notið höfðu listamannalauna í nokkur ár fyrir 31. desember 1991 og höfðu þá náð 60 ára aldri skulu njóta sérstakra framlaga samkvæmt ákvörðun stjórnar listamannalauna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í menntamálaráðuneytinu að undangengnu samráði við Bandalag íslenskra listamanna. Frumvarpið byggist að meginstefnu á skipulagi gildandi laga um listamannalaun, nr. 35/1991. Veigamiklar breytingar eru þó gerðar á einstökum ákvæðum gildandi laga og því lagt til frumvarp til nýrra heildarlaga. Í skýringum við einstakar greinar frumvarpsins er gerð grein fyrir einstökum nýmælum og breytingum frá gildandi lögum.

1.

    Gildandi lög um listamannalaun, nr. 35/1991, komu í stað laga um listamannalaun, nr. 29/1967, og laga um Launasjóð rithöfunda, nr. 29/1975. Þeim var síðan breytt árið 1996 með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hafði af framkvæmd laganna frá 1991. Þær breytingar sem samþykktar voru lutu einkum að því að kveða skýrar á um tilgang starfslauna listamanna, þ.e. að efla listsköpun í landinu, að leikhúslist yrði gefinn sérstakur gaumur með því að heimilt væri að allt að þriðjungi fjárveitinga til Listasjóðs yrði varið til starfslauna til leikhópa til uppfærslu á leiksýningum samkvæmt tillögu leiklistarráðs og einnig að stjórn listamannalauna væri heimilt að fella niður starfslaun kæmi í ljós að viðkomandi listamaður sinnti ekki list sinni. Þá var lagaákvæðum breytt til samræmis við þá framkvæmd sem gilt hafði frá upphafi um skrifstofuhald. Loks var, í samræmi við þá framkvæmd sem mótast hafði, kveðið skýrar á um réttarstöðu starfslaunaþega, þ.e. að farið yrði með starfslaun líkt og laun verktaka eða sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með þessu var með afdráttarlausum hætti byggt á því að starfslaunaþegar teldust ekki launþegar í hefðbundnum skilningi. Við endurskoðun laganna 1996 var ekki gerð breyting á þeim fjölda mánaðarlauna sem til ráðstöfunar voru til úthlutunar starfslauna listamanna samkvæmt lögunum frá 1991.

2.

    Á þeim tæpu tveimur áratugum sem liðnir eru frá setningu gildandi laga hafa orðið umtalsverðar breytingar bæði á íslensku samfélagi almennt sem og á sviði lista. Íslendingum hefur fjölgað um rúm 23%, en listamönnum talsvert meira, ekki síst eftir tilkomu Listaháskóla Íslands haustið 1999. Ásókn í starfslaun listamanna hefur því aukist og hlutfall þeirra sem hafa átt kost á starfslaunum því í raun farið lækkandi. Auk þessa hefur aukið framboð á undanförnum árum m.a. á hönnunarnámi á framhalds- og háskólastigi stuðlað að fjölgun þeirra sem hasla sér völl á þeim vettvangi, en menntamálaráðuneyti hefur litið svo á að hönnun sé listform eins og byggingarlist og skuli því flokkast með öðrum skapandi atvinnugreinum. Listaháskóli Íslands hefur einnig hafið kennslu í byggingarlist og má því búast við að arkitektum fjölgi á næstu árum. Loks hefur menntuðum dönsurum fjölgað talsvert og mun sú þróun halda áfram á næstu árum þar sem Listaháskólinn hefur hafið kennslu á þessu sviði.
Þrátt fyrir fjölgun listamanna og listgreina hefur fjöldi mánaðarlauna sem eru til ráðstöfunar við úthlutun starfslauna verið óbreyttur í rúman áratug. Samtök listamanna, bæði Bandalag íslenskra listamanna og einstök fagfélög listamanna, hafa undanfarin ár ítrekað þrýst á stjórnvöld um að fjölga mánaðarlaunum.
    Í tillögum starfshóps er þáverandi menntamálaráðherra skipaði í nóvember 2001 voru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi starfslauna listamanna og hvernig skyldi staðið að úthlutun þeirra, þar á meðal að Listasjóður yrði lagður niður og stofnaðir þrír nýir sjóðir: Tónlistarsjóður, Sviðslistasjóður og Hönnunarsjóður. Enn fremur lagði hópurinn til umtalsverða fjölgun mánaðarlauna í öllum sjóðunum á þriggja ára tímabili. Í ágúst 2004 sendi þáverandi stjórn listamannalauna menntamálaráðuneyti greinargerð þar sem lagðar voru til nokkrar breytingar á lögunum. Stjórnin lagði m.a. til, eins og fyrrnefndur starfshópur, að Listasjóði yrði skipt í þrennt. Enn fremur að úthlutunarnefndir yrðu skipaðar fyrir hvern sjóð, að starfssvið Tónskáldasjóðs næði einnig til höfunda dægurtónlistar, að rithöfundasjóður yrði skilgreindur á ný í ljósi tilkomu launasjóðs fræðirithöfunda sem stofnað var til með reglum nr. 268/1999 og loks að ákveðið þak yrði á úthlutun til einstaklinga á einhverju árabili. Þá lagði stjórn sjóðsins eindregið til fjölgun þeirra mánaðarlauna sem yrðu til ráðstöfunar við úthlutun starfslauna án þess að tilgreina ákveðinn mánaðafjölda.

3.

    Misjafnt er hvaða möguleika listamenn hafa til að afla sér tekna með listsköpun sinni. Í flestum tilvikum eru tekjumöguleikar takmarkaðir og því hafa starfslaun listamanna skipt sköpum fyrir mjög marga þeirra og ekki síst fyrir þróun og eflingu listgreinanna. Sem dæmi mætti nefna að núverandi gróska í íslenskum bókmenntum og velgengni íslenskra höfunda á erlendri grundu væri tæplega jafn mikil og raun ber vitni ef starfslaunanna hefði ekki notið við. Samkvæmt athugun Rithöfundasambands Íslands hefur rithöfundur 625 kr. í höfundarlaun fyrir bók sem kostar 4.500 kr. út úr búð (forlagsverð er 2.716 kr.). Ef bókin selst í 1.000 eintökum yrðu höfundarlaunin því 625 þús. kr. Að jafnaði tekur um tvö ár að skrifa skáldsögu, og árslaun viðkomandi yrðu því um 300 þús. kr. Starfslaun listamanna hafa því ljóslega gefið rithöfundum svigrúm til að helga sig ritlistinni, a.m.k. tímabundið. Hliðstæð dæmi mætti taka úr öðrum listgreinum, því það á almennt við hér á landi að þeir sem vinna að frumsköpun hugverka njóta takmarkaðra tekna af listsköpun sinni. Túlkendur hugverka, svo sem leikarar og tónlistarflytjendur, hafa hins vegar sumir atvinnu og lífsviðurværi af listiðkun sinni, en það gildir þó í mörgum tilvikum um takmarkaðan hóp og oft aðeins tímabundið.
    Listamenn sem hafa viðurværi sitt af listsköpun á sínu sviði teljast sjálfstætt starfandi í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Af því leiðir m.a. að grundvöllur bóta ræðst af skilum tryggingagjalds. Gjaldstofn tryggingagjalds er hinn sami og reiknaðs endurgjalds, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 58. gr. þeirra laga. Af sama gjaldstofni reiknast jafnframt lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð, sbr. 3. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Eins og áður segir búa listamenn við misjafna möguleika til að afla sér tekna með listsköpun sinni. Ljóst er að sú fjárhæð starfslauna sem lögð er til með frumvarpinu veitir ein sér takmarkaða möguleika fyrir listamenn til þess að helga sig að fullu listsköpun, en getur þó með öðru skipt sköpum í þessu samhengi. Enn fremur er ljóst að réttur til atvinnuleysisbóta getur myndast hafi listamaður samkvæmt reglum fjármálaráðherra staðið skil á reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi. Í lögum um fæðingarorlof og tryggingagjald er við það miðað að einstaklingur sem skili tryggingagjaldi einu sinni á ári teljist ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur í skilningi fyrrgreindra laga. Í reglum fjármálaráðherra nr. 1211/2008, um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2009, teljast listamenn til starfaflokks C. Af 5. lið þess flokks leiðir að sjálfstætt starfandi listamenn skulu reikna sér mánaðarlaun 414.000 kr. Þrengingar á vinnumarkaði og minni möguleikar á stuðningi frá atvinnulífinu til verkefna listamanna og listastofnana draga enn frekar en ella úr möguleikum listamanna til að afla sér lífsviðurværis með listsköpun sinni. Í ljósi þessa er brýnt að efla starfslaun listamanna frá því sem nú er til að gefa fleiri listamönnum möguleika á að starfa að listsköpun sinni. Til samanburðar má benda á að á undanförnum árum hafa stjórnvöld eflt vísinda- og tæknisjóði í þeim tilgangi að styrkja vísindasviðið og þar með að gefa auknum fjölda háskólamenntaðra einstaklinga færi á að starfa að rannsóknum; full þörf er á samsvarandi átaki til stuðnings við skapandi listafólk til að sinna sínum störfum. Í þeirri framkvæmd sem mótast hefur, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 798/2004 um breytingu á reglugerð nr. 697/1997, um listamannalaun, er byggt á því að starfslaun séu veitt á grundvelli náms- og starfsferils, verðlauna og viðurkenningar og því verkefni sem listamaðurinn byggir umsókn sína á. Starfslaun listamanna eru því verkefnatengd og hefur stjórn listamannalauna eftirlit með framgangi þess verkefnis sem veiting starfslaunanna byggist á.
    Það er orðið mjög brýnt að laga lög um listamannalaun að því breytta umhverfi sem hér hefur verið lýst, samhliða því sem framlag til þeirra er leiðrétt miðað við þá fjölgun þjóðarinnar sem orðið hefur frá því að þau tóku gildi. Sú meginhugsun starfslauna listamanna að þau séu ætluð til að skapa listamönnum möguleika á að helga sig listsköpun sinni er jafnbrýn nú sem áður, en mikilvægast er að fjölga þeim mánaðarlaunum sem eru til ráðstöfunar í ljósi þess hve listamönnum hefur fjölgað eins og rakið er hér að framan og ekki síst í ljósi þeirra efnahagsþrenginga sem framundan eru.

4.


    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að þeim mánaðarlaunum sem úthlutað er til starfslauna fjölgi á þriggja ára tímabili um alls 400 mánaðarlaun þannig að á árinu 2012 verði samtals 1.600 mánaðarlaun til ráðstöfunar til starfslauna og styrkja í stað 1.200 mánaðarlauna nú. Sú tala hefur verið óbreytt frá 1997, þegar lögin frá 1991 tóku að fullu gildi.
    Ítarleg umræða fór fram á fundi 7. janúar sl. sem menntamálaráðuneyti hélt með stjórn listamannalauna og fulltrúum frá stjórn Bandalags íslenskra listamanna (BÍL), þ.e. fulltrúum frá Rithöfundasambandi Íslands, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Tónskáldafélagi Íslands, Félagi tónskálda og textahöfunda og Félagi íslenskra dansara fyrir hönd sviðslistafélaga um endurskoðun laganna og skiptingu mánaðarlaunanna. Á þeim fundi náðist samstaða um að efla starfslaunasjóðina sem allra fyrst, og því samþykktu félögin að hverfa frá kröfum um annars konar skiptingu á starfslaunasjóðunum á þessu stigi, en hvöttu til þess að stefnt yrði að heildarendurskoðun á lögum um listamannalaun hið allra fyrsta. Félögin féllust einnig á tillögu ráðuneytisins um að stofnaður verði sérstakur launasjóður hönnuða.
    Í kjölfar þessa fundar áttu sér stað frekari umræður um málið innan stjórnar BÍL. Á stjórnarfundi BÍL 12. janúar var eftirfarandi ályktun samþykkt:
    Stjórn BÍL lýsir yfir ánægju sinni með framkomna tillögu um listamannalaun og styður hana fyrir sitt leyti. Jafnframt telur stjórnin afar jákvætt að fá að fjalla um frumvarpið á þessu stigi málsins. Stjórnin álítur að rétt sé að skilja á milli tónlistarflytjenda og sviðslistafólks, sem hingað til hafa verið saman í listasjóði, með því að stofnaðir verði tveir aðgreindir sjóðir.
    Í samræmi við þessa ályktun og eindregna beiðni sviðslistafólks felur frumvarpið í sér tillögu um að listasjóður verði lagður niður, en í hans stað stofnaðir tveir nýir launasjóðir, þ.e. launasjóður sviðslistafólks og launasjóður tónlistarflytjenda, auk nýs launasjóðs hönnuða, sem getið er að framan.
    Í eftirfarandi töflu er yfirlit yfir tillögu um skiptingu þeirra 400 mánaðarlauna sem lagt er til að bætist við starfslaun listamanna á þriggja ára bili, og viðeigandi greinar í þessu frumvarpi byggjast á:

Núverandi
fjöldi
Breyting 2012
Launasjóður hönnuða 0 50 50
Launasjóður myndlistarmanna 320 115 435
Launasjóður rithöfunda 480 75 555
Launasjóður sviðslistafólks 0 190 190
Launasjóður tónlistarflytjenda 0 180 180
Launasjóður tónskálda 100 90 190
(Listasjóður 300 –300 0 )
1.200 400 1.600

    Fjórir af launasjóðunum (þ.e. launasjóðir hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda og tónskálda) eru ætlaðir listamönnum sem vinna að listsköpun – frumsköpun – en launasjóðir sviðslistafólks og tónlistarflytjenda munu einkum sinna flytjendum og túlkendum.
    Þó að álitamál sé hvort hægt er að draga skarpar markalínur milli þessa þar sem flutningur og túlkun fela einnig í sér listsköpun, þá er á alþjóðavettvangi gerður greinarmunur á rétti höfunda hugverka og rétti flytjenda hugverka. Bernarsáttmálinn til verndar bókmenntum og listaverkum frá 1886 (Parísargerð frá árinu 1971) fjallar um réttindi höfunda en svonefndur Rómarsáttmáli frá 1961 varðar réttindi listflytjenda, hljóðritaframleiðenda og útvarpsfyrirtækja.
    Í frumvarpinu er lagt til að Listasjóður verði lagður niður og stofnaðir launasjóðir sviðslistafólks og tónlistarflytjenda svipað og stjórn listamannalauna lagði til 2004 og viðkomandi félög listamanna hafa lagt áherslu á. Við þetta falla hins vegar niður möguleikar stjórnar listamannalauna til að taka til umfjöllunar umsóknir vegna listsköpunarverkefna sem ekki falla undir sérgreindu sjóðina. Auk þess þarf að setja inn í lögin ákvæði til bráðabirgða til að tryggja að listamenn sem notið höfðu listamannalauna í nokkur ár fyrir árslok 1991 og höfðu þá náð 60 ára aldri njóti áfram þeirra réttinda sem 10. gr. gildandi laga kveður á um.
    Í frumvarpinu er lögð til veigamikil breyting á afgreiðslu umsókna sem felst í því að stjórn listamannalauna fær heimild til að flytja umsóknir á milli launasjóða. Með því verður hægt að fjalla um umsóknir á viðeigandi fagsviði.
    Í frumvarpinu er lagt til að mánaðarlaun starfslauna séu skilgreind sem greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga eða sem verktakagreiðslur í skilningi laga um tekjuskatt og að fjárhæðin komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Í þeirri upphæð er innifalið lífeyrissjóðsframlag og önnur launatengd gjöld. Eins og gildir almennt ber starfslaunaþeginn ábyrgð á greiðslu lögbundinna gjalda.
    Stjórn listamannalauna hefur ítrekað hreyft þeirri hugmynd að þak verði sett á hversu oft sami listamaður geti samfellt fengið úthlutað starfslaunum. Þessi hugmynd hefur fallið í grýttan jarðveg hjá sumum heildarsamtökum listamanna. Ekki er talið rétt að gera tillögu um slíkt ákvæði að sinni, en ítrekað að úthlutunarnefndum og heildarsamtökum sem tilnefna í þær er falið bæði mikið vald og mikil ábyrgð um að efla listsköpun á viðkomandi sviði og sjá til þess að eðlileg nýliðun eigi sér stað.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá gildandi lögum og þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.


    Hér er bætt við nýjum launasjóði fyrir hönnuði, launasjóði hönnuða. Hönnuðum hefur fjölgað verulega á undanförnum árum og hafa þeir í auknum mæli sótt um starfslaun. Hingað til hafa umsóknir þeirra komið til álita hjá Listasjóði.
    Einnig er bætt við tveimur öðrum nýjum launasjóðum, þ.e. launasjóði sviðslistafólks og launasjóði tónlistarflytjenda. Þessir hópar hafa til þessa sótt um starfslaun til Listasjóðs, en hann er nú lagður niður og þessir tveir sjóðir koma í hans stað.
    Loks er heitinu á Tónskáldasjóði breytt í launasjóð tónskálda til samræmis við heiti annarra sjóða.
    Launasjóðir listamanna eru með þessum breytingum orðnir sex talsins. Má líta svo á að fjórir þeirra (þ.e. launasjóðir hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda og tónskálda) sinni listsköpun – frumsköpun – en hinir tveir (þ.e. launasjóðir sviðslistafólks og tónlistarflytjenda) sinni einkum flytjendum og túlkendum leik- og tónverka.
    Með ákvæði 2. mgr. er lagt til að felld verði niður heimild sjóðanna til að veita námsstyrki. Hingað til hafa sjóðirnir ekki veitt slíka styrki enda hefur færst í aukana að hin ýmsu stéttarfélög veiti félagsmönnum sínum námsstyrki. Þegar um lengra nám er að ræða veitir Lánasjóður íslenskra námsmanna námslán.
    Ákvæði í 3. mgr. eru flutt úr 3. gr. gildandi laga.

Um 3. gr.


    Eftir að Listaháskóli Íslands tók til starfa hefur skólinn tilnefnt fulltrúa í stjórn listamannalauna og er 1. mgr. því breytt til samræmis við það. Þá er bætt við að menntamálaráðherra skipi formann og varaformann úr hópi aðalmanna og er það í samræmi við það sem gert hefur verið að undanförnu við skipun nefnda, ráða og stjórna. Einnig er bætt við að ekki sé heimilt að skipa sama mann í stjórn listamannalauna lengur en tvö samfelld starfstímabil, og er það einnig í samræmi við það sem almennt tíðkast á málefnasviði ráðuneytisins.
    Í 2. mgr. er bætt við ákvæði um að stjórnin geri tillögu til ráðherra um stefnu og áherslur við úthlutun listamannalauna til þriggja ára. Slíkt hefur ekki verið gert hingað til, en full ástæða er til að fela stjórninni slíkt hlutverk og veita henni þannig ríkari hlut í stefnumótun í málaflokknum. Þá er bætt við ákvæði um að stjórnin skuli hafa eftirlit með að skilyrðum um starfslaun sé fylgt. Henni ber að fylgjast með því að listamenn fari að þeim, m.a. með því að kalla eftir skýrslum frá þeim sem njóta starfslauna. Enn fremur er stjórninni veitt heimild til að færa umsóknir á milli sjóða og er það nýjung. Hingað til hefur stjórnin ekki haft slíka heimild, en listamenn hafa síðustu ár í auknum mæli sótt um starfslaun í Listasjóð ef þeir hafa verið í vafa um hvar verkefni þeirra ætti helst heima. Þessi heimild veitir stjórninni möguleika á að beina slíkum umsóknum í réttan farveg.
    Í 3. mgr. er sett inn heimildarákvæði til handa ráðherra um að fela megi stjórninni að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila að annast umsýslu sjóðanna og framkvæmd verkefna. Stjórn listamannalauna hefur um árabil rekið sérstaka skrifstofu sem hefur séð um umsýsluna, þ.e. auglýst eftir umsóknum um starfslaun, tekið á móti umsóknum, undirbúið starf úthlutunarnefnda og veitt þeim þjónustu, svarað fyrirspurnum, fylgt eftir ákvörðunum stjórnar og úthlutunarnefnda og annast samskipti við menntamálaráðuneyti um greiðslur starfslauna og styrkja. Á móti þessu hefur verið fellt niður orðalag í lok 1. mgr. 3. gr. í gildandi lögum um að „stjórn listamannalauna skal m.a. annast vörslu sjóðanna og sjá um bókhald, en hún getur falið öðrum aðila að sjá um þessa þætti fyrir sína hönd ef allir stjórnarmenn samþykkja“. Rétt þykir að ráðherra heimili stjórninni rekstur skrifstofu en þetta er hliðstætt því sem er t.d. í lögum um bókmenntasjóð.
    Kostnaður vegna umsýslu sjóðanna greiðist af fjárveitingu til listamannalauna.

Um 4. gr.


    Hér er lagt til að horfið verði frá því að miða starfslaun við ákveðna starfsstétt eins og gert er í núgildandi lögum, þ.e. við lektorslaun II við Háskóla Íslands. Breytingar á launakerfi hinna ýmsu stéttarfélaga, einstaklingsbundin launakjör og tilkoma stofnanasamninga gerir slíkt viðmið nær óframkvæmanlegt. Því er hér lagt til að starfslaun verði miðuð við ákveðna upphæð á mánuði. Kostur við slíkt fyrirkomulag er að þá hækki launin í takt við tiltekna launaþróun. Í greininni er lagt til að fjárhæð starfslauna skuli koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Við slíkt mat gefst svigrúm til þess að meta launaþróun sérstaklega með tilliti til forsendna fjárlaga hverju sinni.
    Starfslaun hafa verið veitt á grundvelli umsóknar listamanns um að sinna ákveðnu verkefni í ákveðinn tíma. Starfslaunaþegar eru sjálfráðir um störf sín meðan á starfslaunatímanum stendur og því má líta svo á að starfslaun séu þóknun sem greidd er með sérstökum skilyrðum til að sinna þeim verkefnum. Litið er svo á að um verktakagreiðslu sé að ræða og beri starfslaunaþeginn sjálfur ábyrgð á að standa skil á lögbundnum gjöldum samkvæmt þeim reglum sem gilda um verktakagreiðslur. Því er fellt niður í lok 1. mgr. gildandi laga „að viðbættu 6% álagi“ þar sem öll launatengd gjöld eru innifalin í ofangreindum verktakagreiðslum. Einnig er fellt niður „Þau skulu eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda“ þar sem hver og einn getur ákveðið hvernig hann ávaxtar lífeyrisgreiðslur sínar.
    Tekið er fram að starfslaun eru veitt til listamannsins sjálfs og skulu þau greidd á kennitölu viðkomandi. Á síðustu árum hefur færst í vöxt að listamenn stofni einkahlutafélag um starfsemi sína og hafa ýmsir farið þess á leit að fá starfslaunin greidd á kennitölu einkahlutafélagsins. Slíkum beiðnum hefur verið hafnað til þessa á þeirri forsendu að verið sé að veita sjálfum listamanninum starfslaun en ekki fyrirtæki.
    Í gildandi lögum er ákvæði um að þeir sem njóta starfslauna í sex mánuði eða lengur gegni ekki föstu starfi á meðan þeir njóta starfslauna. Samstaða er um að leggja til að breyta „föstu“ starfi í „fullt“ starf í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á vinnumarkaði. Það er ekkert sem hindrar að listamenn geti sinnt ýmsum verkefnum og þegið greiðslu fyrir á sama tíma og þeir þiggja starfslaun svo fremi að þeir geti uppfyllt skyldur sínar gagnvart listamannalaunum, en ekki er talið rétt að viðkomandi geti sinnt fullu starfi. Í 6. gr. reglugerðar nr. 679/1997 með gildandi lögum um listamannalaun er miðað við að starfslaunaþegi sé ekki fastráðinn til þess að gegna öðru starfi sem telst meira en þriðjungur stöðugildis. Eðlilegt er að hliðstætt viðmið gildi áfram þó að ekki sé lengur talað um „fast“ starf.
    Stjórn listamannalauna gegnir ákveðnu eftirlitshlutverki eins og fram kemur í 3. gr. Ef hún verður þess áskynja að listamaður sinnir ekki list sinni eins og hann hugðist, hefur hún rétt til að fella niður starfslaunin. Þetta er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 5. gr.


    Fjöldi starfslauna hefur verið óbreyttur frá árinu 1997 og hefur miðast við 1.200 mánaðarlaun eða 100 árslaun. Á sama tíma hefur Íslendingum fjölgað um rúm 20%, og með hliðsjón af því ætti fjöldi mánaðarlauna í starfslaunum listamanna nú að vera tæplega 1.450 talsins. Þá hefur tilkoma Listaháskóla Íslands orðið til þess að listamönnum hefur fjölgað, aðstæður til listsköpunar hafa batnað og áhugi í þjóðfélaginu á listum almennt hefur aukist. Má sérstaklega benda á að hönnun hefur vaxið ásmegin en á sama tíma hafa aðrar listgreinar einnig styrkst.
    Vegna þessara aðstæðna er lagt til að starfslaunum fjölgi um 400 mánaðarlaun í áföngum á þriggja ára tímabili, sbr. ákvæði til bráðabirgða I, en þar er lagt til að 145 mánaðarlaun bætist við á árinu 2010 og130 mánaðarlaun á árinu 2011. Á árinu 2012 bætast við 125 þannig að þessum tíma liðnum verður fjöldi starfslauna kominn upp í 1.600 mánaðarlaun.
    Kostnaðaraukinn vegna þessa á árinu 2010 yrði 38,7 millj. kr., 34,7 millj. kr. á árinu 2011 og 33,3 millj. kr. á árinu 2012 miðað við verðlag í byrjun árs 2009, eða alls 106,7 millj. kr.

Um 6. gr.


    Launasjóður hönnuða er nýmæli.
    Hönnun er vaxandi listgrein og eru níu félög hönnuða starfandi á mismunandi sviðum hennar. Full þörf er á að hönnuðir geti átt möguleika á að helga sig listsköpun og þróun fagsins tímabundið líkt og aðrir listamenn. Hönnuðir hafa á undanförnum árum í auknum mæli sótt um starfslaun og hefur verið fjallað um umsóknir þeirra í Listasjóði til þessa.
    Það er talið tímabært að skapa hönnuðum svipaða möguleika og öðrum listamönnum hvað starfslaun varðar og því er hér lagt til að 50 mánaðarlaun verði til ráðstöfunar í þremur áföngum. Á árinu 2010 verði launin 20 og að 15 mánaðarlaun bætist árlega við næstu tvö árin, 2011 og 2012.
    Þriggja manna úthlutunarnefnd, sem skipuð yrði árlega, yrði falið að úthluta fé úr launasjóði hönnuða. Tekið er fram í greininni að ráðherra skipi nefndina að fengnum tillögum samtaka hönnuða og arkitekta. Hér er fylgt sama fyrirkomulag og gilt hefur við skipan úthlutunarnefnda fyrir hina launasjóðina. Samtök hönnuða hafa myndað með sér heildarsamtök með stofnun Hönnunarmiðstöðvar Íslands ehf., þar sem saman eru komin hin ýmsu fagfélög hönnuða, sem hafa rekið miðstöðina með rekstrarframlagi frá iðnaðarráðuneyti og menntamálaráðuneyti samkvæmt sérstökum samningi. Þegar horft er til þess hvernig hönnuðir hafa skipulagt heildarsamtök yrði í framkvæmd við það miðað að Hönnunarmiðstöð Íslands ehf., tilnefni fulltrúana þrjá í úthlutunarnefndina.

Um 7. gr.


    Greinin er að mestu óbreytt frá gildandi lögum. Gert er ráð fyrir því að mánaðarlaunum til ráðstöfunar úr launasjóði myndlistarmanna fjölgi í þremur áföngum þannig að á árinu 2012 verði 435 mánaðarlaun til ráðstöfunar. Eins og lýst er í b-lið ákvæðis til bráðabirgða II er gert ráð fyrir að á árinu 2010 verði 360 mánaðarlaun til ráðstöfunar og á árinu 2011 verði þau 400. Þá er við það miðað að 35 mánaðarlaun bætist við á árinu 2012. Alls bætast því 115 mánaðarlaun við sjóðinn þannig að hann hafi alls 435 mánaðarlaun til ráðstöfunar á árinu 2012.
    Með þessari fjölgun er reynt að koma til móts við brýna þörf myndlistarmanna fyrir meiri starfslaun, enda hefur starfandi myndlistarmönnum fjölgað mikið á síðustu árum. Þessi hópur listamanna hefur jafnframt hvað minnsta möguleika á að afla sér lífsviðurværis með listsköpun sinni eingöngu, ekki síst í þeirri efnahagslægð sem nú er í íslensku samfélagi.
    Í 2. mgr. er bætt við ákvæði um að úthlutunarnefndin skipti sjálf með sér verkum.

Um 8. gr.


    Helsta breytingin í þessari grein er að lagt er til að 25 mánaðarlaun bætist við launasjóð rithöfunda á ári næstu þrjú ár, sbr. c-lið ákvæðis til bráðabirgða II. Á árinu 2012 verði þannig 555 mánaðarlaun til ráðstöfunar.
    Jafnframt er ekki talin ástæða til að tilgreina sérstaklega í greininni að „rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa íslenskir rithöfundar og höfundar fræðirita“ þar sem launasjóður rithöfunda þjónar öllum íslenskum rithöfundum, hvort sem um er að ræða ljóðlist, skáldsagnagerð, ævisagnaritun, rit fræðilegs eðlis eða veigameiri þýðingar.
    Samkvæmt reglum nr. 268/1999, um launasjóð fræðiritahöfunda, geta höfundar bóka og rita í stafrænu formi er efla íslenska menningu sótt í þann launasjóð. Einnig er rétt að minna á að bókmenntasjóður, sem starfar samkvæmt lögum nr. 91/2007, um bókmenntasjóð og fleira, skal „styrkja útgáfu vandaðra erlendra rita á íslenskri tungu“. Þessi sjóður hefur tekið við hlutverki þýðingarsjóðs, en eftir sem áður ættu þýðendur að geta sótt um starfslaun vegna umfangsmikilla þýðingarstarfa.
    Hér er einnig í 2. mgr. bætt við ákvæði um að úthlutunarnefndin skipti sjálf með sér verkum.

Um 9. gr.


    Launasjóður sviðslistafólks er nýmæli.
    Sviðslistafólk er stór hópur listamanna, m.a. leikskáld, leikstjórar, leikarar og höfundar leikmynda, búninga, lýsingar og hljóðmynda, auk danshöfunda, dansara og tæknifólks, svo eitthvað sé nefnt. Full þörf er á að þetta listafólk geti helgað sig verkefnum sínum sem annað listafólk; það hefur til þessa getað sótt um starfslaun vegna þeirra til Listasjóðs, en hér er gerð tillaga um sérstakan sjóð vegna slíkra verkefna.
    Er lagt til að 160 mánaðarlaun verði til ráðstöfunar á árinu 2010, 175 á árinu 2011 og að 15 mánaðarlaun bætist við á árinu 2012, þannig að frá árinu 2012 verði alls 190 mánaðarlaun til ráðstöfunar til að veita sviðslistafólki starfslaun.
    Þriggja manna úthlutunarnefnd, sem skipuð yrði árlega, yrði falið að úthluta fé úr launasjóði hönnuða. Tekið er fram í greininni að ráðherra skipi nefndina að fengnum tillögum Leiklistarsambands Íslands, sem eru heildarsamtök sviðslista á Íslandi. Hér er fylgt sama fyrirkomulagi og gilt hefur við skipan úthlutunarnefnda fyrir hina launasjóðina.
    Við afgreiðslu umsókna um starfslaun úr þessum sjóði er mikilvægt að gott samráð sé haft við leiklistarráð, sem starfar á grundvelli leiklistarlaga, nr. 138/1998, og gerir tillögur um úthlutun fjár sem veitt er af fjárlögum til stuðnings atvinnuleikhópum. Möguleg skörun er á milli umsókna um starfslaun annars vegar og stuðning við atvinnuleikhópa hins vegar, sem rétt er að úthlutunarnefnd og leiklistarráð hafi samráð um við afgreiðslu umsókna.

Um 10. gr.


    Launasjóður tónlistarflytjenda er nýmæli.
    Tónlistarflytjendur eru stór hópur listamanna, sem með flutningi sínum og túlkun er einn mikilvægasti hlekkurinn í tónlistarlífinu. Tónlistarflytjendur hafa til þessa getað sótt um starfslaun vegna verkefna sinna til Listasjóðs, en hér er gerð tillaga um sérstakan sjóð vegna slíkra verkefna.
    Er lagt til að 150 mánaðarlaun verði til ráðstöfunar á árinu 2010 og að 15 mánaðarlaun bætist árlega við næstu tvö árin, 2011 og 2012, þannig að frá árinu 2012 verði alls 180 mánaðarlaun til ráðstöfunar til að veita tónlistarflytjendum starfslaun.
    Þriggja manna úthlutunarnefnd, sem skipuð yrði árlega, yrði falið að úthluta fé úr launasjóði tónlistarflytjenda. Tekið er fram í greininni að ráðherra skipi nefndina að fengnum tillögum annars vegar Félags íslenskra hljómlistarmanna, sem er málsvari atvinnuhljómlistarmanna og gætir hagsmuna þeirra og hins vegar Félags íslenskra tónlistarmanna. Hér er fylgt sama fyrirkomulagi og gilt hefur við skipan úthlutunarnefnda fyrir hina launasjóðina.
    Við afgreiðslu umsókna um starfslaun úr þessum sjóði er mikilvægt að gott samráð sé haft við tónlistarráð, sem starfar á grundvelli laga um tónlistarsjóð, nr. 76/2004. Tónlistarráð gerir tillögur um úthlutun fjár sem veitt er af fjárlögum til tónlistarsjóðs, en tónlistardeild sjóðsins veitir styrki til almennrar tónlistarstarfsemi. Möguleg skörun er á milli umsókna um starfslaun annars vegar og stuðning við almenna tónlistarstarfsemi hins vegar, sem rétt er að úthlutunarnefnd og tónlistarráð hafi samráð um við afgreiðslu umsókna.

Um 11. gr.


    Heiti sjóðsins er breytt í launasjóð tónskálda til samræmis við aðra sjóði, en í gildandi lögum nefnist hann Tónskáldasjóður. Í greininni er lagt til að 30 mánaðarlaun bætist við sjóðinn á ári næstu þrjú árin, sbr. f-lið ákvæðis til bráðabirgða II, þannig að hann hafi 190 mánaðarlaun til ráðstöfunar frá árinu 2012.
    Með þessari fjölgun starfslauna í launasjóði tónskálda er stefnt að því að úthlutanir úr sjóðnum nái til breiðari hóps tónskálda en verið hefur. Til þessa hafa félagar í Tónskáldafélagi Íslands fyrst og fremst komið til greina við úthlutun úr sjóðnum, en félagar í Félagi tónskálda og textahöfunda, sem einkum starfa á vettvangi djass- og dægurtónlistar, hafa notið starfslauna úr Listasjóði.
    Til samræmis við breytt hlutverk launasjóðsins er í 2. mgr. gerð tillaga um að Félag tónskálda og textahöfunda tilnefni einn fulltrúa í úthlutunarnefndina, en Tónskáldafélag Íslands tilnefni tvo fulltrúa í stað þriggja eins og það gerir samkvæmt gildandi lögum. Sett er inn ákvæði um að úthlutunarnefndin skipti sjálf með sér verkum.

Um 12. gr.


    Í greininni er horfið frá því að binda lengd starfslauna við hálft ár, eitt, tvö eða þrjú, en reynslan sýnir að æskilegt er að auka sveigjanleika við úthlutun starfslauna. Því er lagt til að miðað verði við 6, 9, 12, 18 og 24 mánuði. Þó er talið rétt að heimila stjórn listamannalauna og úthlutunarnefndum að úthluta eins og hingað til starfslaunum til skemmri tíma en sex mánaða en þó eigi skemur en til þriggja mánaða. Loks er veitt heimild til að víkja frá þessum mánaðafjölda þegar úthlutað er til einstaklinga vegna afmarkaðra verkefna. Haldið er því ákvæði í gildandi lögum að ekki megi verja meira til þessa, svo og til ferðastyrkja, en nemur 10% þeirra mánaðarlauna sem hver sjóður hefur til úthlutunar árlega.
    Í gildandi lögum er ákvæði um að miða skal við að fjórðungur heildarstarfslauna hvers sjóðs verði að jafnaði veittur til listamanna sem taka laun í meira en eitt ár. Lagt er til að þessu verði breytt í „eitt ár eða meira“ þar sem orðalag gildandi laga hefur þótt nokkuð óljóst, þ.e. að ákvæðið gilti ekki um starfslaun til eins árs.
    Í 4. mgr. er bætt við heimildarákvæði um að veita megi starfslaun til lengri tíma en 24 mánaða en þó ekki lengur en til 36 mánaða. Talið er rétt að hafa heimildarákvæði um þetta í stað þess að binda í lögunum þriggja ára tímabil eins og nú er.

Um 13. gr.


    Með greininni er mælt fyrir um heimild til setningar reglugerðar með sambærilegum hætti og nú er í gildandi lögum.

Um 14. gr.


    Ákvarðanir um veitingu starfslauna hafa verið endanlegar hjá stjórn listamannalauna og úthlutunarnefndum. Ákvæði þess efnis er hér sett á einn stað í lögin í stað þess að vera sérstakt ákvæði í einstökum greinum þeirra eins og verið hefur.

Um 15. gr.


    Lagt er til að lögin taki þegar gildi. Gert er ráð fyrir því að þau fyrirmæli 6.–11. gr. frumvarpsins, sem mæla fyrir um úthlutun úr hlutaðeigandi launasjóðum listamanna, komi til framkvæmda á árinu 2010, en úthlutun úr launasjóðum listamanna á árinu 2009 samkvæmt gildandi lögum er lokið. Er því við það miðað að úthlutun úr launasjóðum listamanna samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, þar á meðal úr nýjum launasjóðum hönnuða, sviðslistafólks og tónlistarflytjenda, verði í fyrsta sinn á árinu 2010. Fyrir þann tíma gefst tækifæri til þess að undirbúa úthlutun m.a. með skipun hlutaðeigandi úthlutunarnefnda.

Um ákvæði til bráðabirgða I og II.


    Eins og lýst er í umfjöllun um 5.–11. gr. og í almennum athugasemdum frumvarpsins er gert ráð fyrir því að mánaðarlaun til ráðstöfunar starfslauna fjölgi í þremur áföngum og verði að fullu komið til framkvæmda á árinu 2012. Í samræmi við það er í ákvæðunum tilgreindur sá fjöldi mánaðarlauna sem er til ráðstöfunar árin 2010 og 2011.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Í 10. gr. gildandi laga er ákvæði um að Listasjóður veiti sérstök framlög til listamanna sem notið höfðu listamannalauna nokkur ár fyrir 31. desember 1991 og höfðu þá náð 60 ára aldri. Tólf listamenn fá sérstök framlög samkvæmt þessu ákvæði við úthlutun listamannalauna 2009.
    Til að þetta framlag falli ekki niður er hér sett ákvæði til bráðabirgða til að tryggja að þessir listamenn njóti þessara framlaga áfram samkvæmt ákvörðun stjórnar listamannalauna.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um listamannalaun.


    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að þeim mánaðarlaunum sem úthlutað er sem starfslaunum fjölgi á þriggja ára tímabili um alls 400 þannig að á árinu 2012 verði samtals 1.600 mánaðarlaun til ráðstöfunar til starfslauna og styrkja í stað 1.200 mánaðarlauna nú. Í öðru lagi er lögð til sú breyting að mánaðarlaun starfslauna verði ákveðin upphæð, 266.737 kr,. sem taki mið af breytingum á fjárlögum hvers árs. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir tveimur nýjum launasjóðum, fyrir hönnuði og sviðslistafólk, og að heiti á Tónskáldasjóði verði breytt í Launasjóð tónlistarflytjenda. Í fjórða lagi er lagt til að stjórn listamannalauna fái heimild til að flytja umsóknir á milli launasjóða. Í fimmta og síðasta lagi er gerð breyting á störfum stjórnarinnar, m.a. varðandi mótun stefnu og áherslna við úthlutun.
    Helstu ákvæði sem gætu haft áhrif á útgjöld ríkisins eru fjölgun mánaðarlauna um 400 eða úr 1.200 mánaðarlaunum í 1.600 á þremur árum. Miðað við núgildandi mánaðarlaun listamanna sem eru 266.737 kr. mun fjölgun um 400 mánaðarlaun þýða samtals aukningu um 107 m.kr. á útgjöldum ríkisins. Hækkunin skiptist þannig að árið 2010 fjölgar mánaðarlaunum um 145 eða samtals 38,7 m.kr., árið 2011 er fjölgunin 130 mánaðarlaun eða 34,7 m.kr. og árið 2012 er fjölgunin 125 mánaðarlaun eða 33,3 m.kr. Einnig gætu útgjöld ríkissjóðs aukist vegna aukinnar umsýslu vegna fjölgunar mánaðarlauna og vinnu við stefnumörkun. Talið er að sú aukning vegna umsýslu sé þó óveruleg.
    Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Vegna mikils halla á ríkissjóði mun því þurfa að fjármagna útgjöldin með lántökum.