Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 101. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 806  —  101. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra, Unni Gunnarsdóttur og Ólaf Pál Vignisson frá samgönguráðuneyti, Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Guðjón Ármann Einarsson frá Félagi skipstjórnarmanna, Dagmar Sigurðardóttur og Ásgrím Ásgrímsson frá Landhelgisgæslunni, Finn Jónsson frá Sumarbyggð, Elías Guðmundsson frá Hvíldarkletti og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustu.
    Umsagnir bárust frá Félagi skipstjórnarmanna, Landhelgisgæslunni, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Siglingastofnun Íslands og Ferðamálastofu.
    Tilgangur frumvarpsins er að efla öryggi og setja reglur um frístundafiskiskip. Lagt er til að frístundafiskiskip verði sérstaklega skilgreind í lögunum auk þess sem gerðar eru ákveðnar kröfur um hæfi þeirra sem stjórna slíkum skipum og ber eigandi frístundafiskiskips ábyrgð á því að stjórnendur hafi fullnægjandi réttindi á skipið. Loks er lagt til að ráðherra hafi heimild til að setja nánari reglur um frístundafiskiskip í reglugerð.
    Það kom fram á fundum nefndarinnar að þau skip sem notuð eru við frístundaveiðar falla flest í þann flokk að krafist er 30 tonna réttinda til að stjórna þeim. Einnig kom fram að ef gerðar verða kröfur um slík réttindi af stjórnendum frístundafiskiskipa verður grundvellinum kippt undan fyrirtækjum sem stunda þann atvinnurekstur að leigja út fiskiskip til ferðamanna. Þessi fyrirtæki eru flest lítil sprotafyrirtæki á landsbyggðinni og telur nefndin mikilvægt að styðja við atvinnusköpun og uppbyggingu í ljósi erfiðra aðstæðna í efnahagslífi þjóðarinnar.
    Gerðar voru athugasemdir þar sem bent var á nauðsyn þess að tryggja jafnræði milli sjófarenda hvort heldur sem um er að ræða veiðar í atvinnuskyni eða frístundaveiðar og mikilvægi þess að ekki sé dregið úr kröfum. Nefndin bendir á að málefni frístundaveiða hafa verið í ólestri frá upphafi veiðanna árið 2005 og hefur verið litið svo á að þar sem um frístundaiðju sé að ræða þurfi engin tilskilin réttindi til að stjórna frístundafiskiskipi. Nefndin vekur því athygli á að með frumvarpi þessu er verið að lögfesta hæfisreglur fyrir stjórnendur frístundafiskiskipa þar sem gerðar eru ríkari kröfur til aðila en áður, auk þess sem settur er lagarammi utan um þessa starfsemi, sem hingað til hafa staðið fyrir utan kerfið.
    Í ljósi þessa telur nefndin frumvarpið vera skref í rétta átt og mikilvægt að það verði að lögum sem fyrst þannig að lagaramminn sé fyrir hendi þegar veiðitímabil frístundaskipanna hefst. Nefndin hvetur þó til áframhaldandi vinnu að þessum málum, og beinir því til ráðuneytis að regluverk þetta verði tekið til endurskoðunar sem fyrst með öryggi og jafnræði sjófarenda að leiðarljósi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Karl V. Matthíasson, Árni Þór Sigurðsson, Árni Johnsen og Guðjón A. Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. mars 2009.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Björgvin G. Sigurðsson.


Helga Sigrún Harðardóttir.



Sturla Böðvarsson.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.