Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 461. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 919  —  461. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og leggur til að gildistöku frumvarpsins verði flýtt þannig að lögin taki gildi 15. maí nk. í stað 1. júlí eins og gert var ráð fyrir í upphafi. Ástæða frestunar gildistökunnar var sú að ástæða var talin til að gefa þeim opinberu stofnunum sem að málinu eiga að koma tíma til að undirbúa úrræðið. Nefndin telur þó að nægilegur tími gefist til undirbúnings þótt gildistöku sé flýtt og leggur áherslu á að tíminn fram að gildistöku verði einnig nýttur til að kynna úrræðið fyrir almenningi.
    Nefndin ræddi einnig þann kostnað sem úrræðið getur haft í för með sér fyrir ríkissjóð og fékk kostnaðarumsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis sem unnin hafði verið fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneytið þegar fyrirhugað var að flytja málið sem stjórnarfrumvarp. Kostnaðarumsögnin er birt sem fylgiskjal með álitinu. Nefndin tekur sérstaklega fram að í kostnaðarumsögninni er miðað við að kostnaður verði um 250 þús. kr. við hvert mál en nefndin lagði í frumvarpinu til að hámarksþóknun til umsjónarmanns við hvert mál yrði 200 þús. kr. og má því ætla að kostnaðurinn við hundrað mál verði um 20 millj. kr. og þúsund mál 200 millj. kr. Erfitt er að spá fyrir um hversu margir munu nýta sér úrræðið. Margt bendir til að umtalsverður fjöldi verði til þess, en einnig kann vel að vera að tilkoma þessa úrræðis greiði fyrir frjálsum samningum skuldara við kröfuhafa utan formlegrar greiðsluaðlögunarmeðferðar og þannig muni ekki jafnmargir nýta sér úrræðið og ella hefði orðið.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    
    Við 13. gr. Í stað orðanna „1. júlí 2009“ komi: 15. maí 2009.

    Árni Þór Sigurðsson, Siv Friðleifsdóttir og Jón Magnússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.     

Alþingi, 6. apríl 2009.Árni Páll Árnason,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Birgir Ármannsson.Kristrún Heimisdóttir.


Ólöf Nordal.


Sigurður Kári Kristjánsson.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um tímabundna greiðsluaðlögun
fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að eigendur íbúðarhúsnæðis, sem ekki geta staðið full skil á greiðslu skulda sem tryggðar eru með veði í húsnæðinu og að uppfylltum tilteknum skilyrðum, geti leitað eftir tímabundinni greiðsluaðlögun. Í kjölfar bankahrunsins og þeirrar efnahagslægðar sem því hefur fylgt er talið nauðsynlegt að taka á stigvaxandi greiðsluvanda fyrir stóran hóp fólks og tryggja einstaklingum virkara úrræði til að gera þeim kleift að endurskipuleggja fjármál sín með það að markmiði að þeir geti búið áfram í fasteign sinni. Með greiðsluaðlögun breytast veðtryggðar skuldbindingar skuldarans á þann hátt að aðeins verða gjaldkræfar greiðslur sem honum telst fært að standa straum af, en sá hluti skuldbindingarinnar sem út af stendur leggst við höfuðstól hennar og er frestað. Frestun þessi stendur meðan greiðsluaðlögunin er í gildi en það getur að hámarki verið þrjú ár. Skilyrði fyrir greiðsluaðlöguninni er að húsnæðið sé ætlað til búsetu og skuldari haldi þar heimili og hafi þar skráð lögheimili. Skuldari þarf að óska eftir beiðni um greiðsluaðlögun til héraðsdóms sem þarf að taka afstöðu til beiðninnar að teknu tilliti til tekna, skulda og eigna viðkomandi. Taki héraðsdómur til greina beiðni um greiðsluaðlögun gilda sömu reglur fyrir dómi og heimild til málskots og um heimild til að leita nauðasamninga til greiðsluaðlögunar, þ.m.t. að skipa skuldaranum umsjónarmann. Að loknu greiðsluaðlögunartímabilinu getur skuldari óskað þess að veðskuldir sem á fasteigninni hvíla verði máðar af fasteigninni séu þær umfram tiltekinn hundraðshluta sem bætt er við markaðsverð eignar. Þeir veðhafar sem eru með kröfur umfram þannig metna eign eiga þess kost að gera tilboð um að leysa eignina til sín með því að taka að sér rétthærri veðkröfur annarra.
    Þóknun dómskipaðs umsjónarmanns skal greiða úr ríkissjóði og hefur verið áætlað að kostnaður við hvert slíkt mál sé um 250 þús. kr. Vegna álags í slíkum málum á næstunni má þó gera ráð fyrir að kostnaðurinn muni eitthvað hækka. Þess ber þó að geta að sé viðkomandi skuldari með aðrar samningskröfur í greiðsluaðlögunarmeðferð til nauðasamninga skal sameina málin og sami umsjónarmaður fara með sem eitt mál.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er nokkuð erfitt að áætla heildarkostnað fyrir ríkissjóð en í samræmi við áætlaðan kostnað við hvert mál verður kostnaður fyrir hver eitt hundrað mál á bilinu 25–30 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Vegna mikils halla á ríkissjóði mun því að óbreyttu þurfa að fjármagna útgjöldin með lántökum.