Undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu

Föstudaginn 29. maí 2009, kl. 15:47:53 (685)


137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:47]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér hefur sáralítil umræða átt sér stað um efni máls. Við höfum aðallega verið að ræða um málsmeðferð á þessu stóra máli og flestir hafa einskorðað ræður sínar við það. Það er ekkert undarlegt af því að það er síðan Alþingis að taka ákvörðun um það hvort sótt verður um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Ef það er sérstakt deiluefni að ríkisstjórn vísi þessu máli til Alþingis en sæki ekki um án þess að vísa því hingað, þá hlýtur þingmaðurinn að þurfa að útskýra það aðeins nánar, en þetta er einhver sanngjarnasta og eðlilegasta málsmeðferð á þessu stóra máli. Hér hefur enginn lofað einu eða neinu hvað fengist með hugsanlegri aðild ef þjóðin mundi samþykkja slíkan samning. Það er hins vegar undarlegt keppikefli hjá hv. þingmanni að reyna að setjast ofan á alla þá umræðu um hugsanlega kosti og galla aðilar. Það er enginn að veifa neinum sprotum, við erum að ræða um kosti og galla, hvað við þurfum að sækja og hvað við þurfum að verja.