Bankasýsla ríkisins

Mánudaginn 22. júní 2009, kl. 18:21:51 (1877)


137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[18:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru tvö atriði sem ég vildi fjalla um í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Í fyrsta lagi finnst mér mikilvægt að árétta það að í orðum mínum um að stefna ætti að því að losa um eignarhald ríkisins á fjármálastofnunum sem fyrst fólust engin áform um að gera það í einhverju bríaríi. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að það verði að gera það að vandlega íhuguðu máli og standa vel að því. Þar tel ég einmitt að við höfum ákveðin fordæmi úr fortíðinni sem eru víti til að varast um það hvernig staðið er að málum.

Hins vegar leyfi ég mér að segja að ákvörðunin um að einkavæða ríkisbankana 2002 eða ljúka einkavæðingu þeirra 2002 átti sér auðvitað mjög langan aðdraganda og ríkið hafði smám saman verið að fara út úr þeim rekstri. Þannig að það að fara hægt í málin er svo sem engin trygging fyrir því að niðurstaðan verði sú sem helst hefði átt að vera. Ákvarðanirnar 2002 voru endapunktur á löngu ferli sem byrjaði auðvitað með því að breyta þessum bönkum í hlutafélög og taka inn hlutafé frá öðrum smátt og smátt. Því miður endaði þetta með því að menn tóku þá ákvörðun, sem í ljósi sögunnar var misráðin, að hafa of stóra eignarhluti hjá fáum aðilum sem ég held, þegar við lítum í baksýnisspegilinn, að við sjáum að hafi verið misráðið. Það er einmitt af svona dæmum sem við eigum að læra.

Það breytir hins vegar ekki þeirri skoðun minni að mikilvægasta verkefni stjórnvalda á þessu sviði sé að finna leiðir til að losa um eignarhaldið en ég hef áhyggjur af því, eins og ég lýsti í ræðu minni, að með þessu frumvarpi sé fremur verið að festa eignarhaldið í sessi.