Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 20. ágúst 2009, kl. 18:24:06 (4276)


137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal enn á ný fyrir. Við erum oft sammála í þinginu og hef ég afar gaman af því. Við erum að hugsa á sömu bylgjulengd um ýmis mál sem hér eru til umræðu.

Ég get ekki ráðlagt neinum um það hvernig við eigum að fara að því að kynna þessi mál. Ríkisstjórnin átti plan í mars 2007. Það var nú ekki til sparað í kynningarferðunum þá úti um allan heim til að segja heimsbyggðinni að bankarnir hér væru allir í blóma og gott ef Bessastaðabóndinn var ekki með í för. Það er kannski sneypulegt að koma hér ári síðar og segja að hér sé allt hrunið, en ég ber virðingu fyrir hv. þm. Pétri Blöndal því að hann skrifaði grein á íslensku og lét þýða til birtingar í fleiri erlendum blöðum til að sýna fram á þann vanda sem við þingmenn erum í hér á Íslandi og ekki síst íslenska þjóðin og í hvaða tilvistarkreppu við erum með þau stjórnvöld sem nú ríkja sem sjá ekkert annað en að skuldsetja þjóðina algjörlega niður (Forseti hringir.) á botnfrost.