Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 36. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 36  —  36. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Birkir Jón Jónsson, Gunnar Bragi Sveinsson,


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.



1. gr.

    Við 6. mgr. 102. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Slitastjórn er heimilt að greiða forgangskröfur fyrir fyrsta kröfuhafafund ef stjórnin telur að forgangskröfur fáist greiddar að fullu eða hlutfallslega miðað við áætlaðar heimtur á jafnstæðum kröfum. Einnig er slitastjórn heimilt að greiða út forgangskröfu ef aðrir kröfuhafar sem eru jafnsettir samþykkja greiðsluna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lögð til lítil en veigamikil breyting á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, en kaflinn fjallar um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækja, slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki.
    Þegar ríkið tók yfir Sparisjóðabankann, Spron og Straum-Burðarás misstu um 300–400 manns vinnuna. Lýstu bæði stjórnvöld og skilanefndir viðkomandi fjármálastofnana yfir að þessir starfsmenn fengju laun greidd á uppsagnarfresti.
    Í apríl var hins vegar lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, breytt með lögum nr. 44/2009 og nú hljóðar 6. mgr. 102. gr. laganna svo:
    „Að loknum fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrests er slitastjórn heimilt í einu lagi eða mörgu að greiða viðurkenndar kröfur að hluta eða að fullu að því marki sem tryggt er að eignir fjármálafyrirtækisins hrökkvi til að minnsta kosti jafnhárrar greiðslu allra annarra krafna sem standa eins í réttindaröð og ekki hefur endanlega verið hafnað við slitin. Þess skal þá gætt að allir kröfuhafar sem fara með viðurkenndar kröfur í sömu stöðu í réttindaröð fái greiðslu á sama tíma, en frá því má þó víkja með samþykki þeirra sem ekki fá greitt eða samkvæmt ákvörðun slitastjórnar ef kröfuhafi býðst til að gefa eftir kröfu sína gegn greiðslu hennar að hluta, sem víst má telja að sé lægri að tiltölu en aðrir jafnstæðir kröfuhafar munu fá á síðari stigum, þar á meðal að teknu tilliti til þess hvort kröfur þeirra beri vexti fram að greiðslu.“
    Þetta hafa slitastjórnir túlkað sem svo að þeim sé óheimilt að greiða forgangskröfur, þar á meðal laun starfsmanna í uppsagnarfresti, fyrr en að loknum fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrests. Ætla má að fyrsti kröfuhafafundur verði ekki fyrr en eftir þrjá til fjóra mánuði og því töluverð bið á að starfsmenn fái laun sín greidd samkvæmt þessari túlkun laganna.
    Við rekstrarstöðvun fjármálastofnana hefur mikil áhersla verið lögð á að innstæðueigendur hefðu aðgang að innstæðum sínum. Í þeim tilgangi var m.a. forgangsröð krafna breytt og innstæður gerðar aðgengilegar í öðrum fjármálastofnunum. Innstæður og launakröfur áttu að vera jafnar fyrir lögunum, en með lögum nr. 44/2009 má segja að innstæður séu í raun orðnar rétthærri þar sem eigendur þeirra krafna hafa aðgang að sínum fjármunum í krafti veðskuldbindinga í eignum fjármálastofnana en starfsmenn verða að bíða í fleiri mánuði eftir að fá greidd út laun sín.
    Því er þetta lagafrumvarp lagt fram til að skýra betur vilja löggjafans gagnvart greiðslu á forgangskröfum.