Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 33. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 55  —  33. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Lárentsínus Kristjánsson, formann skilanefndar Landsbanka Íslands, Kristin Bjarnason, aðstoðarmann Landsbanka Íslands í greiðslustöðvun og stjórnarmann í slitastjórn bankans, Steinar Þór Guðgeirsson, formann skilanefndar Kaupþings hf., Steinunni Guðbjartsdóttur, aðstoðarmann Glitnis í greiðslustöðvun og stjórnarmann í slitastjórn bankans, og Áslaugu Árnadóttur frá viðskiptaráðuneyti. Nefndinni bárust skriflegar umsagnir og athugasemdir um frumvarpið frá Kristni Bjarnasyni, aðstoðarmanni Landsbanka Íslands í greiðslustöðvun og stjórnarmanni í slitastjórn bankans, Logos – lögmannsþjónustu, Lögmannafélagi Íslands, Ragnari Hall hrl., skilanefnd Straums og Steinunni Guðbjartsdóttur, aðstoðarmanni Glitnis í greiðslustöðvun og stjórnarmanni í slitastjórn bankans.
    Sú breyting sem kveðið er á um í frumvarpinu lýtur að því að skilanefndum fjármálafyrirtækja, sem höfðu fengið heimild til greiðslustöðvunar þegar lögum um fjármálafyrirtæki var breytt með nýsamþykktum lögum nr. 44/2009, verði heimilt að greiða skuldir fjármálafyrirtækisins eða efna aðrar skuldbindingar þess telji skilanefndin víst að nægilegt fé sé til að greiða að fullu kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.
    Framangreind fjármálafyrirtæki heyra undir ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009 en um þau gilda ekki ákvæði IV. kafla laga um gjaldþrotaskipti þar sem er að finna ákvæði sem er grundvöllur þeirra greiðslna sem fjármálafyrirtæki í greiðslustöðvun hafa innt af hendi. Þar sem hin nýsamþykktu lög gera ekki ráð fyrir að unnt sé að hefja greiðslur fyrr en í fyrsta lagi að loknum fyrsta fundi með kröfuhöfum þegar kröfulýsingarfrestur er liðinn þykir nauðsynlegt að veita skilanefndum möguleika til útgreiðslu fram að þeim tíma, en kröfulýsingarfrestur getur verið allt að sex mánuðir auk þess sem einhver tími líður þar til kröfuhafafundur er haldinn eftir það.
    Málið snýr annars vegar að launagreiðslum, en bagalegt þykir að ekki sé fyrir hendi lagaheimild fyrir því að greiða laun starfsmanna í uppsagnarfresti. Hins vegar er um að ræða greiðslur til innlánseigenda Kaupþings í Þýskalandi (Kaupþing Edge). Ljóst er að ef þær innstæður verða ekki greiddar út fyrr en að loknum fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrests munu þær falla á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.
    Við umfjöllun um frumvarpið í nefndinni var um það rætt að brýnt væri að takmarka gildissvið þess við skuldir vegna launa í uppsagnarfresti og vegna innlána sem veittur var forgangsréttur samkvæmt svonefndum neyðarlögum, nr. 125/2008. Þess má geta að með lögum nr. 44/2009 var málum er varða slit fjármálafyrirtækja komið í farveg til framtíðar auk þess sem stóru bönkunum þremur hafa verið skipaðar slitastjórnir. Brýnt er að sem minnst verði hreyft við ferlinu og að meginreglan sé að greiðslur fari ekki fram fyrr en fyrir liggur hverjir eru kröfuhafar og hvaða stöðu þeir hafa í kröfuhafaröðinni. Hins vegar er ljóst með vísan í framangreint að upp geta komið tilvik þar sem nauðsynlegt er að heimila útgreiðslu og leggur nefndin til breytingu á frumvarpinu þannig að þau tilvik verði nánar skilgreind og ákvæðið þar með þrengt. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á efnisgrein frumvarpsins. Rétt er að geta þess að þrátt fyrir að í niðurlagi ákvæðisins sé tekið fram að fé sé nægt til að greiða kröfur að fullu kemur það ekki í veg fyrir að hluti kröfu eða hluti krafna sé greiddur. Með þessu er átt við að ef greiða á út hluta af kröfum, t.d. forgangskröfum vegna vinnulauna, þarf að vera tryggt að til sé fé til að greiða sama hlutfall upp í allar aðrar forgangskröfur, t.d. vegna innstæðna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Efnisgrein frumvarpsins orðist svo:
             Þar til skilyrði eru fyrir efndum krafna á grundvelli 6. mgr. 102. gr. er skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem naut heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. ákvæði til bráðabirgða II, heimilt að greiða skuldir vegna launa, þ.m.t. laun í uppsagnarfresti, og vegna innlána sem veittur var forgangsréttur með 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, ef víst er að nægilegt fé sé til að greiða að fullu kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.
     2.      Við bætist ný grein, svohljóðandi:
              Lög þessi öðlast þegar gildi.

Alþingi, 28. maí 2009.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Eygló Harðardóttir.


Lilja Mósesdóttir.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.