Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 56. máls.

Þskj. 57  —  56. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald,
lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og lögum nr. 96/1995,
um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald.
1. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „46,12 kr.“ í 3. mgr. 1. gr. laganna kemur: 51,12 kr.

2. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „80%“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: 85%.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
             Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 1. tölul. 1. mgr., sbr. 3. tölul., skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald,
kr.
Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald,
kr.
10.000.11.000 0,26 21.001.22.000 6,20
11.001.12.000 0,80 22.001.23.000 6,74
12.001.13.000 1,34 23.001.24.000 7,28
13.001.14.000 1,88 24.001.25.000 7,82
14.001.15.000 2,42 25.001.26.000 8,36
15.001.16.000 2,96 26.001.27.000 8,90
16.001.17.000 3,50 27.001.28.000 9,44
17.001.18.000 4,04 28.001.29.000 9,98
18.001.19.000 4,58 29.001.30.000 10,52
19.001.20.000 5,12 30.001.31.000 11,06
20.001.21.000 5,66 31.000 og yfir 11,60

    b. 6. mgr. orðast svo:
    Sérstakt kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum skv. 2. mgr. skal vera sem hér segir:
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetragjald,
kr.
Leyfð heildarþyngd ökutækis, kg Kílómetragjald,
kr.
5.000.6.000 7,61 18.001.19.000 20,08
6.001.7.000 8,22 19.001.20.000 20,98
7.001.8.000 8,86 20.001.21.000 21,90
8.001.9.000 9,49 21.001.22.000 22,81
9.001.10.000 10,10 22.001.23.000 23,71
10.001.11.000 11,00 23.001.24.000 24,62
11.001.12.000 12,17 24.001.25.000 25,54
12.001.13.000 13,34 25.001.26.000 26,44
13.001.14.000 14,50 26.001.27.000 27,35
14.001.15.000 15,67 27.001.28.000 28,26
15.001.16.000 16,84 28.001.29.000 29,17
16.001.17.000 18,00 29.001.30.000 30,08
17.001.18.000 19,17 30.001.31.000 30,98
31.001 og yfir 31,90

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti, o.fl.
4. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „10,44 kr.“ í 14. gr. laganna kemur: 20,44 kr.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald.
5. gr.

    Í stað fjárhæðanna „7,68 kr.“, „10,36 kr.“, „2.562 kr.“, „3.843 kr.“ og „46.342 kr.“ í 2. gr. laganna kemur: 8,45 kr.; 11,40 kr.; 2.818 kr.; 4.227 kr.; og: 50.976 kr.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki.
6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
     1.      Í stað fjárhæðarinnar „66,04 kr.“ í 1. tölul. kemur: 75,95 kr.
     2.      Í stað fjárhæðarinnar „59,40 kr.“ í 2. tölul. kemur: 68,31 kr.
     3.      Í stað fjárhæðarinnar „79,63 kr.“ í 3. tölul. kemur: 91,57 kr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
     1.      Í stað fjárhæðarinnar „257,02 kr.“ í 1. tölul. kemur: 295,57 kr.
     2.      Í stað fjárhæðarinnar „3,04 kr.“ í 2. tölul. kemur: 3,50 kr.
     3.      Í stað fjárhæðarinnar „9,19 kr.“ í 3. tölul. kemur: 10,57 kr.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     1.      Í stað fjárhæðarinnar „322,84 kr.“ í 1. tölul. kemur: 371,27 kr.
     2.      Í stað fjárhæðarinnar „16,13 kr.“ í 2. tölul. kemur: 18,55 kr.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæði 1. og 4. gr. laga þessara skulu gilda um birgðir af eldsneyti er ekki hafa verið teknar til tollafgreiðslu við gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Nýleg endurskoðun á fyrri spám um þróun ríkisfjármála árin 2009 til 2013 hefur leitt í ljós að sé ekki gripið til viðeigandi ráðstafana þegar á þessu ári verður halli ríkissjóðs á árinu 2009 meiri en áætlað var og meiri en viðunandi getur talist. Því er talið nauðsynlegt að grípa fyrr en ella til tekjuöflunaraðgerða, samhliða því að dregið verði frekar úr útgjöldum ríkissjóðs á árinu 2009. Í ljósi þess er frumvarp þetta lagt fram sem liður í nauðsynlegum aðhaldsaðgerðum stjórnvalda í ríkisfjármálum og í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til hækkanir á tilgreindum gjöldum á ökutæki, eldsneyti, áfengi og tóbak. Um er að ræða 15% hækkun á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi, 10% hækkun á bifreiðagjaldi, 10 kr. hækkun á almennu bensíngjaldi og 5 kr. hækkun á olíugjaldi, en á móti vegur 20% lækkun á kílómetragjaldi auk þess sem endurgreiðsluhlutfall olíugjalds vegna rekstrar almenningsvagna í áætlunarferðum er hækkað úr 80% í 85%.
    Lögð er til minni hækkun olíugjalds en bensíngjalds til að gera rekstrarumhverfi dísilfólksbifreiða hagstæðara í samanburði við bensínfólksbifreiðar, en dísilbifreiðar eru almennt álitnar umhverfisvænni valkostur en bensínfólksbifreiðar. Þar sem útsöluverð á dísilolíu hefur verið nokkuð hærra en útsöluverð á bensíni undanfarin ár hefur fjölgun dísilfólksbifreiða ekki verið eins hröð og vonast var til með upptöku olíugjalds í stað þungaskatts árið 2005. Með því að hækka olíugjald minna en bensíngjald er reynt að koma jafnvægi á útsöluverð þessara eldsneytisgjafa þannig að lítri af dísilolíu verði ódýrari en lítri af bensíni og þannig ýtt undir frekari dísilvæðingu fólksbílaflota landsmanna, eins og til stóð með lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald.
    Með frumvarpinu er lögð til lækkun á kílómetragjaldi, almennu og sérstöku, á móti hækkun bensíngjalds og olíugjalds. Með því móti er dregið úr áhrifum þessara breytinga á flutningskostnað og þar með vöruverð.
    Viðbótartekjur ríkissjóðs af þeim gjaldskrárhækkunum sem frumvarp þetta kveður á um eru áætlaðar samtals 4,4 milljarðar kr. á ársgrundvelli, en áhrif þeirra á tekjur ríkissjóðs á þessu ári nema um 2,7 milljörðum kr. Skiptast þær viðbótartekjur niður á gjaldaflokka sem hér segir:
Á þessu ári Ársáhrif Áhrif á vísitölu neysluverðs
Bensíngjald 1.300 m.kr. 1.970 m.kr. 0,26%
Olíugjald 400 m.kr. 690 m.kr. 0,03%
Kílómetragjald -245 m.kr. -490 m.kr. -
Bifreiðagjald 260 m.kr. 520 m.kr. 0%
Áfengisgjald 670 m.kr. 1.100 m.kr. 0,14%
Tóbaksgjald 310 m.kr. 620 m.kr. 0,1%                    
Samtals 2.695 m.kr. 4.410 m.kr. 0,5%
* Áhrif á VSK eru undanskilin .

    Áhrif þessara hækkana á vísitölu neysluverðs eru metin 0,5% eins og fram kemur í töflunni hér að framan.
    Þess ber að geta að til skoðunar eru breytingar á vörugjöldum af ökutækjum, samanber skýrslu starfshóps um heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis, m.a. með það fyrir augum að auka hlut vistvænna og sparneytinna fólksbifreiða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að fjárhæð olíugjalds hækki um 5 kr. samanber umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fjárhæð olíugjalds var síðast breytt 11. desember 2008 þegar gjaldið var hækkað um 12,5% með lögum nr. 137/2008. Fyrir þann tíma var olíugjald óbreytt frá upptöku þess 1. júlí 2005. Frá upptöku olíugjalds hefur almenn vísitala neysluverðs hækkað um 38% og hefur olíugjaldið því lækkað að raungildi sem því nemur.

Um 2. gr.

    Samkvæmt núgildandi lögum fá þeir sem hafa einkaleyfi til fólksflutninga skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi, endurgreitt 80% olíugjalds af olíu vegna rekstrar almenningsvagna í áætlunarferðum. Með greininni er lagt til að þetta endurgreiðsluhlutfall hækki í 85% til að vega upp á móti þeirri hækkun á olíugjaldi sem lögð er til í frumvarpinu. Athuga ber að viðkomandi aðilar njóta ekki þeirrar lækkunar á kílómetragjaldi sem kveðið er á um í frumvarpinu þar sem kílómetragjald leggst ekki á ökutæki sem eru í fólksflutningum.

Um 3. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að fjárhæð almenns kílómetragjalds lækki um 20% samanber umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fjárhæð almenns kílómetragjalds var síðast breytt 11. desember 2008 þegar gjaldið var hækkað um 12,5% með lögum nr. 137/2008. Fyrir þann tíma hafði gjaldið verið óbreytt frá upptöku þess 1. júlí 2005. Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 38% frá þeim tíma og hefur hið almenna kílómetragjald því lækkað að raungildi sem því nemur.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að fjárhæð sérstaks kílómetragjalds lækki um 20% samanber umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fjárhæð sérstaks kílómetragjalds var síðast breytt 11. desember 2008 þegar gjaldið var hækkað um 12,5% með lögum nr. 137/2008. Fyrir þann tíma hafði gjaldið verið óbreytt frá upptöku þess í desember 2005. Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 35% frá þeim tíma og hefur hið sérstaka kílómetragjald því lækkað að raungildi sem því nemur.
    

Um 4. gr.

    Með greininni er lagt til að fjárhæð almenns vörugjalds af eldsneyti hækki um 10 kr. samanber umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fjárhæð almenns vörugjalds af eldsneyti var síðast breytt 11. desember 2008 þegar gjaldið var hækkað um 12,5% með lögum nr. 137/2008. Fyrir þann tíma hafði gjaldið ekki hækkað frá nóvember 2003. Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 46% frá þeim tíma og hefur hið almenna vörugjald af eldsneyti því lækkað að raungildi sem því nemur.

Um 5. gr.

    Með greininni er lagt til að fjárhæð bifreiðagjalds hækki um 10% samanber umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fjárhæð bifreiðagjalds var síðast breytt 11. desember 2008 þegar það var hækkað um 12,5% með lögum nr. 137/2008. Fyrir þann tíma hafði fjárhæð bifreiðagjalds verið óbreytt frá janúar 2005. Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 40% frá þeim tíma og hefur bifreiðagjaldið því lækkað að raungildi sem því nemur.

Um 6. gr.

    Með greininni er lagt til að fjárhæð áfengisgjalds hækki um 15% samanber umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fjárhæð áfengisgjalds af sterku víni, léttu víni og bjór hækkaði síðast 11. desember 2008 með lögum nr. 136/2008, um 12,5%. Fyrir þann tíma hafði áfengisgjald af sterku víni síðast hækkað í nóvember 2004, en fjárhæð áfengisgjalds af léttu víni og bjór hafði verið óbreytt frá 1. júlí 1998. Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 83% frá 1. júlí 1998 og 41% frá nóvember 2004 og hefur áfengisgjaldið því lækkað að raungildi sem því nemur.

Um 7. gr.

    Með greininni er lagt til að fjárhæð tóbaksgjalds hækki um 15% samanber umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fjárhæð tóbaksgjalds hækkaði síðast 11. desember 2008 með lögum nr. 136/2008, um 12,5%. Fyrir þann tíma hafði gjaldið verið óbreytt frá nóvember 2004. Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 41% frá þeim tíma og hefur tóbaksgjaldið því lækkað að raungildi sem því nemur.

Um 8. gr.

    Með greininni er lagt til að fjárhæð tóbaksgjalds, vegna tóbaks sem ferðamenn eða farmenn hafa með sér til landsins, hækki um 15% samanber umfjöllun í almennum athugasemdum við frumvarpið. Fjárhæð tóbaksgjalds hækkaði síðast 11. desember 2008 með lögum nr. 136/2008, um 12,5%. Fyrir þann tíma hafði gjaldið verið óbreytt frá nóvember 2004. Almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 41% frá þeim tíma og hefur tóbaksgjaldið því lækkað að raungildi sem því nemur.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og lögum nr. 96/1995,
um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að tiltekin gjöld á ökutæki, eldsneyti, áfengi og tóbak verði hækkuð. Þannig verði tekjur ríkissjóðs auknar en samkvæmt endurskoðaðri áætlun um þróun ríkisfjármála stefnir í meiri halla á ríkissjóði á þessu ári en áætlaður var í fjárlögum. Því er talið nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða til að bæta afkomu ríkissjóðs, m.a. með því að auka tekjuöflun.
    Lagt er til að áfengisgjald og tóbaksgjald hækki um 15%. Þá er gert ráð fyrir að bifreiðagjald verði hækkað um 10%, auk þess sem olíugjald er hækkað um 10,8% eða 5 kr. á lítrann og almennt vörugjald á bensín er tvöfaldað og hækkar um 10 kr. Kílómetragjald á þyngri ökutæki lækkar hins vegar um 20%, auk þess sem endurgreiðsluhlutfall olíugjalds vegna rekstrar almenningsvagna í áætlunarferðum er hækkað úr 80% í 85%. Þessum gjöldum var síðast breytt í desember 2008 en þá voru þau hækkuð um 12,5%. Fram að þeim tíma höfðu gjöldin verði óbreytt um árabil, sum frá árinu 2005 og önnur frá árunum 2003 og 2004, en áfengisgjald af léttum vínum og bjór hafði verið óbreytt frá árinu 1998. Vísitala neysluverðs hefur hækkað frá árinu 1998 um 83% og um 40–46% frá árunum 2003 til 2005. Þrátt fyrir hækkun gjaldanna samkvæmt þessu frumvarpi hafa þau ekki náð að fylgja breytingum á vísitölu neysluverðs.
    Gert er ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs hækki um 4,4 milljarða kr. á ársgrundvelli vegna þessara breytinga, þar af eru tekjur af áfengisgjaldi áætlaðar 1,1 milljarðar kr., 620 m.kr. af tóbaksgjaldi, 520 m.kr. af bifreiðagjaldi, 1.970 m.kr. af bensíngjaldi og 690 m.kr. af olíugjaldi, en á móti kemur að tekjur lækka um 490 m.kr. vegna lækkunar á kílómetragjaldi. Verði frumvarpið óbreytt að lögum og taki gildi fyrir næstu mánaðamót er gert ráð fyrir auknum tekjum ríkissjóðs á þessu ári að fjárhæð 2,7 milljarðar kr. Heildaráhrif þessara breytinga á vísitölu neysluverðs eru metin á 0,5% til hækkunar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.