Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 150, 137. löggjafarþing 34. mál: stjórn fiskveiða (strandveiðar).
Lög nr. 66 19. júní 2009.

Lög um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, 4. málsl., svohljóðandi: Sama á við um afla sem fæst við veiðar sem fara fram í fræðsluskyni, enda séu veiðarnar óverulegar og aflinn ekki fénýttur.

2. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í frístundum til eigin neyslu. Slíkar veiðar er einungis heimilt að stunda með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla sem veiddur er samkvæmt heimild í þessari málsgrein er einungis heimilt að hafa til eigin neyslu og er óheimilt að selja eða fénýta hann á annan hátt.
     Ráðherra er heimilt að ákveða árlega að á tilteknum fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta teljist afli ekki til aflamarks eða krókaaflamarks, enda sé aflinn einungis fénýttur til að standa straum af kostnaði við mótshaldið.
     Aðilum sem reka ferðaþjónustu og hyggjast nýta við þann rekstur báta til frístundaveiða er skylt að sækja um sérstakt leyfi til Fiskistofu fyrir hvern bát sem nota skal í því skyni. Einungis er heimilt að veita leyfi til frístundaveiða aðilum sem fengið hafa leyfi sem Ferðamálastofa gefur út með stoð í 8. gr. laga nr. 73/2005, um skipan ferðamála. Einungis er heimilt að stunda veiðar með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar á þeim bátum sem leyfi fá samkvæmt þessari grein.
     Leyfi til frístundaveiða, sbr. 3 mgr., eru tvenns konar:
  1. Leyfi til að veiða tiltekinn fjölda fiska af kvótabundnum fisktegundum á hvert handfæri eða sjóstöng dag hvern og reiknast sá afli ekki til aflamarks viðkomandi báts. Ráðherra setur frekari leiðbeiningar um þessi atriði í reglugerð. Óheimilt er að selja eða fénýta á annan hátt afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.
  2. Leyfi til veiða sem takmarkast af aflamarki eða krókaaflamarki viðkomandi báts. Allur afli þessara báta skal veginn í samræmi við gildandi reglur um vigtun og skráningu sjávarafla. Um afla þessara báta gilda ekki ákvæði laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Ekki skal leitað staðfestingar Verðlagsstofu skiptaverðs skv. 4. málsl. 3. mgr. 15. gr. vegna flutnings aflamarks til þessara báta. Heimilt er að selja og fénýta á annan hátt þann afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.

     Innan sama fiskveiðiárs er einungis heimilt að veita báti leyfi annaðhvort skv. 1. tölul. 4. mgr. eða 2. tölul. 4. mgr. Við veitingu leyfa til frístundaveiða koma aðeins til greina skip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða á sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
     Leyfi til frístundaveiða skulu veitt til eins fiskveiðiárs í senn. Ekki er heimilt innan sama fiskveiðiárs að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni á báti sem fengið hefur leyfi til frístundaveiða. Þó er Fiskistofu heimilt að veita bátum tímabundin leyfi til frístundaveiða sem gildi fyrir tímabilið 1. maí – 31. ágúst enda stundi þeir ekki veiðar í atvinnuskyni innan þess tímabils.
     Rekstraraðili skal með sannanlegum hætti kynna fyrir áhöfn báts reglur um takmarkanir sem kunna að vera á veiðum á þeim svæðum þar sem líklegt má telja að báturinn stundi frístundaveiðar og enn fremur reglur um bann við brottkasti afla og reglur um meðferð afla.
     Ráðherra setur í reglugerð frekari skilyrði og reglur um frístundaveiðar, þ.m.t. um skil á skýrslum vegna veiða frístundaveiðibáta og á sjóstangaveiðimótum.
     Fiskistofa skal veita áminningar og svipta skip leyfi til frístundaveiða í samræmi við ákvæði VI. kafla fyrir brot á ákvæðum þessarar greinar og reglum settum með stoð í henni.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Auk þeirra aflaheimilda sem úthlutað er á fiskveiðiárinu 2008/2009 á grundvelli laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er í júní, júlí og ágúst 2009 heimilt að veiða á handfæri allt að 3.955 lestir samtals af óslægðum þorski, sem ekki reiknast til aflamarks eða krókaafla marks þeirra fiskiskipa sem stunda handfæraveiðar samkvæmt þessu ákvæði.
     Landinu verði skipt í eftirfarandi fjögur landsvæði: A. Eyja- og Miklaholtshreppur – Skagabyggð, B. Sveitarfélagið Skagafjörður – Grýtubakkahreppur, C. Þingeyjarsveit – Djúpavogshreppur, D. Sveitarfélagið Hornafjörður – Borgarbyggð. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um frekari skiptingu landsvæða og löndunarstaði. Í hlut landsvæðis A komi alls 1.316 tonn, í hlut landsvæðis B komi alls 936 tonn, í hlut landsvæðis C komi alls 1.013 tonn og í hlut landsvæðis D komi alls 690 tonn. Ráðherra skal í reglugerð kveða á um hvernig aflaheimildir skiptast á einstaka mánuði og skal ráðherra með reglugerð stöðva veiðar á hverju svæði þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla hvers mánaðar verði náð.
     Veiðar samkvæmt þessu ákvæði eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Aðeins er heimilt að veita fiskiskipi leyfi til veiða samkvæmt þessu ákvæði að fullnægt sé ákvæðum 5. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Við útgáfu Fiskistofu á leyfi til fiskiskips samkvæmt þessu ákvæði falla úr gildi önnur leyfi þess til að stunda veiðar á fiskveiðiárinu 2008/2009 sem gefin eru út með stoð í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og er þeim fiskiskipum sem leyfi fá til handfæraveiða samkvæmt þessu ákvæði óheimilt að stunda aðrar veiðar en handfæraveiðar til loka fiskveiði ársins 2008/2009. Leyfi til veiða samkvæmt þessu ákvæði eru bundin við tiltekið landsvæði, sbr. 1. málsl. 2. mgr. þessa ákvæðis. Skal leyfið veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð og skal öllum afla veiðiskips landað innan þess landsvæðis. Sama fiskiskipi verður aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á veiðitímabilinu.
     Leyfi til handfæraveiða samkvæmt þessu ákvæði eru bundin eftirfarandi skilyrðum:
  1. Óheimilt er að stunda veiðar föstudaga og laugardaga.
  2. Hver veiðiferð skal eigi standa lengur en 14 klukkustundir. Miðað er við þann tíma er fiskiskip lætur úr höfn til veiða til þess er það kemur til hafnar aftur til löndunar. Aðeins er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi.
  3. Tilkynna skal Fiskistofu um sjósókn fiskiskipsins í samræmi við reglur sem ráðherra setur þar um.
  4. Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð.
  5. Á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 800 kg af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.
  6. Skylt er að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar og skal hann veginn og skráður endanlega hér á landi. Um vigtun, skráningu og meðferð afla fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og ákvæðum gildandi reglugerðar þar um.

     Fyrir veitingu leyfis samkvæmt ákvæði þessu skal umsækjandi greiða gjald samkvæmt ákvæðum laga nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald. Fiskistofa skal innheimta veiðigjald samkvæmt þessu ákvæði vegna landaðs afla, annars en þorsks, og skal gjalddagi vera 1. október 2009 en eindagi 15 dögum síðar. Um innheimtu þessa gjalds gildir að öðru leyti 23. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, eftir því sem við getur átt.
     Um viðurlög vegna brota á lögum þessum, reglum settum samkvæmt þeim og ákvæðum leyfisbréfa fer skv. VI. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
     Þá skal beita ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, fari afli fiskiskips umfram hámark sem ákveðið er í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

Samþykkt á Alþingi 18. júní 2009.