Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 128. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 239  —  128. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Ásbjörns Óttarssonar um örorkumat.

    Leitað var upplýsinga hjá Tryggingastofnun ríkisins um svör við fyrirspurninni.

     1.      Hvernig fer örorkumat fram?
    Ferill örorkumats byggir á 18. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og reglugerð nr. 379/1999, um örorkumat.
    Þegar umsókn um örorkulífeyri og fullnægjandi læknisvottorð hefur borist Tryggingastofnun ríkisins er umsækjanda sendur staðlaður spurningalisti (örorkumatsstaðall). Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og læknisskoðunar, eftir eðli mála.
    Heimilt er að setja skilyrði um að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Tryggingastofnun vísar stórum hluta þeirra sem sækja um örorkumat í sérhæft mat til lækna sem eru verktakar hjá stofnuninni. Endanlegt örorkumat er þó ætíð í höndum tryggingalækna Tryggingastofnunar.

     2.      Hvernig er greiðslum háttað til þeirra sem framkvæma örorkumat og fá þeir jafnmikið greitt fyrir hvort sem matið er jákvætt eða neikvætt?
    Tryggingalæknar Tryggingastofnunar eru fastráðnir starfsmenn stofnunarinnar og ráðast laun þeirra ekki af fjölda matsgerða. Greiðslur til verktakalækna eru óháðar því hvort matið er jákvætt eða neikvætt. Ákveðið gjald er greitt fyrir hvert örorkumat. Innifalið í því er skoðun á umsækjanda með tilliti til færni samkvæmt örorkumatsstaðli og skrifleg greinargerð.

     3.      Hversu margir af þeim sem eru metnir fá dæmda örorku?
    Af fjölda úrskurða í örorkumati lífeyristrygginga frá 1. janúar 2000 til 30. júní 2009 var 4,5% umsóknum synjað en 95,5% samþykktar. Á þessu tímabili fengu 23.760 einstaklingar samþykktan úrskurð um 50% örorku eða meira (ef einstaklingur er metinn með a.m.k. 50% örorku en minni en 75% á hann rétt á örorkustyrk).
    2.351 einstaklingur fékk synjun um örorkumat á þessu tímabili, þar af voru 1.701 einnig með samþykktan úrskurð á þessu tímabili. 24.410 einstaklingar hafa m.ö.o. fengið samþykkt eða synjun á tímabilinu og af þeim eru 650 einstaklingar sem eru einungis með synjun. Af þessu má álykta að 97,3% af þeim einstaklingum sem hafa verið metnir á þessu tímabili hafi fengið metna 50% örorku eða hærri.