Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 13:58:25 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:58]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég held að ekki sé úr vegi að byrja á að beina því til forseta hvort sjávarútvegsráðherra gæti ekki setið undir þessum umræðum þar sem þetta er eitt af stærstu málum sem hann hefur á sinni könnu um þessar mundir. Ég held að rétt sé að hæstv. ráðherra sitji í salnum og hlusti á umræðurnar, hann láti svo lítið.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill koma þessari ósk til hæstv. sjávarútvegsráðherra.)

Ég þakka fyrir, virðulegi forseti.

Upphaf þessa kvótakerfis má rekja til ársins 1983 þegar svarta skýrsla Hafrannsóknastofnunar kom fram. Í þeirri skýrslu var tíundað að fiskveiðum við Ísland væri hætta búin vegna þess að búið væri að ofveiða fiskstofnana. Góð ráð voru dýr og það sem kom út úr þessari skýrslu, eða réttara sagt framhaldsvinnunni við þá skýrslu, var að sett var á kvótakerfi í fiskveiðum við Ísland. Þetta var mikið framfaramál. Það leiddi til þess að hægt var að hafa stjórn á heildaraflanum en jafnframt var að nokkru leyti innleidd hagkvæmni í íslenskar fiskveiðar, sem hafði vantað mjög upp á.

Hver man ekki, sá sem kominn er eitthvað við aldur, a.m.k. á aldur við mig, eftir fréttum í öllum fréttatímum þar sem fyrstu tvær fréttirnar byrjuðu á því að sjávarútvegurinn væri kominn í svo og svo slæma stöðu og það þyrfti að gera þetta og þetta fyrir sjávarútveginn. Íslensk hagstjórn gekk að stórum hluta út á það að gera fiskveiðar á Íslandi lífvænlegar. Út af hverju var það? Það var út af því að fiskveiðar voru óheftar, eða sóknin í fiskstofnana var óheft að miklu leyti, og að upp hafði komið vandamálið sem kallað er vandamálið með almenning, þ.e. að ef öllum er frjálst að sækja í einhverja auðlind þar sem fyrir hendi er auðlindarenta, munu aðilar fjárfesta til að geta sótt í þá auðlind ókeypis, óhindrað, allt þar til allri auðlindarentunni hefur verið sóað í allt of miklar fjárfestingar og allt of mikla sóknargetu. Það er í stuttu máli sú staða sem upp var komin þá, auk þess sem því fylgdi auðvitað ofveiði.

Landnámsmennirnir leystu þetta vandamál með almenningana í landbúnaði með því að ákveða hversu margir bændur mættu setja svo og svo mikið fé á afréttir og viðurlög voru við því að setja meira fé en afrétturinn bar. Við Íslendingar, nútímamennirnir, leystum þetta árið 1983 með því að setja á kvótakerfi. Kvótakerfið virkar þannig í sinni einföldustu mynd að fiskifræðingar ákveða eða ákvarða út frá rannsóknum hversu mikið sé óhætt að veiða þannig að stofnarnir viðhaldist og byggist upp. Síðan er útdeilt hlutdeildum til þeirra sem stunda fiskveiðar og þeir veiða samkvæmt þeim hlutdeildum. Þetta er einfalt kerfi í framkvæmd að því leytinu til að þegar heildarkvótinn er ákveðinn, ef hann t.d. hækkar, breytist ekki hlutdeild hjá þeim sem fiska heldur breytist einfaldlega það tonnamagn eða kílóamagn sem fiskiskipin geta sótt í eða útgerðarmennirnir.

Árið 1990 varð grundvallarbreyting á kerfinu þannig að þá gátu útgerðarmenn framselt kvótann, þ.e. þeir gátu selt hann á milli sín. Þetta var mikið framfaraskref vegna þess að þá var hægt að vinda ofan af þeirri offjárfestingu sem hafði átt sér stað í fiskveiðum. Tæknibreytingar gátu orðið örari og arðsemin meiri. Það er akkúrat það sem við höfum séð í íslenskum fiskveiðum allt frá upphafi kvótakerfisins, að þær eru orðnar mjög hagkvæmar. Auðlindarentunni er ekki sóað heldur er hún innheimt og rennur til þjóðarinnar í gegnum fyrirtækin. Það var mikið framfaraskref.

Mér þykir miður að við sjálfstæðismenn stóðum á móti þeim breytingum á sínum tíma og að það hafi þurft vinstri flokkana til að setja þetta kerfi á vegna þess að ég hefði stoltur staðið að því að greiða þessu kerfi atkvæði, en því miður féll sá heiður í flokk vinstri flokkanna. En aftur á móti, svo skrýtið sem það kann að virðast, höfum við sjálfstæðismenn reynt að standa vörð um það kerfi sem vinstri flokkarnir settu á, en nú hafa þeir barist við að breyta kerfinu, rífa það niður, jafnframt því sem margir vinstri þingmenn virðast halda að þeir eigi engan þátt í því að króganum skyldi hafa verið komið til lífs. Svo merkilegt sem það kann að vera.

Eins og ég sagði áðan gerði innleiðing þessa kerfis örari tækniframfarir gerlegar. Mér eru minnisstæðar myndir sem ég sá hjá einum góðum útgerðarmanni, eða framkvæmdastjóra stórs útgerðarfyrirtækis, sem voru teknar í höfninni á Siglufirði annars vegar árið 1980 og hins vegar árið 2006, held ég að hafi verið. Á myndinni frá 1980 biðu níu bátar sem voru byggðir í Austur-Þýskalandi á sínum tíma með fullfermi af loðnu. Samtals voru þessir bátar með um 2.700 tonn af loðnu og biðu þar löndunar. Á þeim bátum unnu um 100 sjómenn. Myndin sem tekin var 26–27 árum seinna sýndi eitt skip sem á voru 20 karlar. Þar beið skip löndunar sem innihélt um 2.800 tonn af loðnu. Þetta sýnir í hnotskurn þær gríðarlegu tækniframfarir sem hafa orðið í sjávarútvegi. Þessum tækniframförum hefur oft verið ruglað saman við kvótakerfið að því leytinu til að samþjöppun kvóta í stærri fyrirtæki, þar sem hagkvæmni er meiri, arður meiri og annað slíkt, hefur kallað á að veiðiheimildir hafa flust milli byggðarlaga og menn eru orðnir mun sérhæfðari núna. Til dæmis á Austfjörðum, þegar ég var að alast upp þar, voru stundaðar allar fiskveiðar; síld, loðna, kolmunni, Börkur var að byrja á kolmunna, síðan voru togararnir og bátarnir á bolfiskveiðum, grálúðu og öðru slíku. Þetta hefur breyst nokkuð mikið. Nú eru uppsjávarveiðar mjög stundaðar frá Austfjörðum. Þar eru stærstu uppsjávarfyrirtæki landsins, fyrirtæki eins og Síldarvinnslan á Neskaupstað, Eskja á Eskifirði o.fl. Þessu hefur oft verið ruglað saman, eins og ég sagði áðan, við kvótakerfið. Menn verða að læra að skilja hvað er tæknibreytingum að kenna og hvað er kvótakerfinu sjálfu að kenna.

Það frumvarp sem er hér til umræðu lætur ekki mikið yfir sér. Það virðist vera svona tiltölulega sakleysislegt fyrir leikmann að sjá en það ber í sér dauðann, getum við sagt, fyrir mörg þessara útgerðarfyrirtækja. Vegna þess að hér er byrjað að bora í það hagkvæma kerfi sem við höfum verið með í fiskveiðum við Ísland allt frá árinu 1983. Eins mikið öfugmæli og það kann að vera, í þeirri lukku sem vinstri flokkarnir leiddu fram með því að setja á það kerfi, þá ætla þeir sömu vinstri flokkar að rífa niður kerfið og hverfa aftur til óhagkvæmari atvinnuhátta.

Ef ég fer yfir einstök atriði í frumvarpinu þá á í fyrsta lagi að heimila að stundaðar verði veiðar í atvinnuskyni á sama tímabili og frístundaveiðar eru stundaðar. Þetta er sakleysislegt en aftur á móti er verið að bora þarna lítið gat. Í öðru lagi á að draga úr heimildum til að flytja aflamark milli fiskveiðiára úr 33% í 15%. Jafnframt er það undarlega orðalag í frumvarpinu, þar sem talið er að þetta sé nægilegt til að ná markmiðum um hagkvæma nýtingu fiskstofna. Þetta er í raun eini staðurinn þar sem einhver hugmynd er um það að stuðla beri að hagkvæmni í fiskveiðistjórnarkerfinu, vegna þess að aðrir þættir sem á að breyta ganga flestallir gegn þessari hagkvæmni, og er gott að taka t.d. línuívilnunina sem dæmi. Þar er talað um að þar sem lína er stokkuð upp á landi eða þar sem lína er beitt í landi, þess lags veiðar skuli njóta meiri ívilnunar en aðrar veiðar. Varaformaður sjávarútvegsnefndar nefndi það í ræðu sinni í gær eða fyrradag að þetta sé talið sérstaklega gott vegna þess að það auki svo störf í landi.

Það er miður að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra skuli ekki vera í salnum vegna þess að ég veit að hann er ekki bara mikill áhugamaður um búhætti heldur er hann búmaður góður. Ég gæti þýtt þá aðgerð sem verið er að gera í sjávarútveginum yfir í eitthvað sem hann skilur í landbúnaði, og það gæti hljómað einhvern veginn svona: Til að skapa fleiri störf á Íslandi muni mjólkurbændur sem slá með orfi og ljá, fá meiri kvóta en þeir sem slá með sjálfvirkum vinnuvélum, þ.e. að ef bændur hverfa frá tækniframförum eða hverfa frá því að vera framleiðendur, skipta úr vélum yfir í vinnuafl megi þeir selja meiri kvóta inn í mjólkursamsölurnar sínar. Það skapar vafalaust fleiri störf. En það leiðir líka tvímælalaust til óhagkvæmni.

Þessi ráðstöfun um línuívilnun, að hún skuli vera aukin, leiðir til þess að beitningavélar, sem eru tækniframfarirnar sem hafa orðið, verða teknar úr bátunum og farið verður að beita meira í landi með meiri mannskap og minni arðsemi verður af línuveiðum.

Fjórða atriðið er heimild til að kveða á um vinnsluskyldu á uppsjávarfiski. Það er gert í þeim tilgangi að tryggja betur að hámarksverðmæti fáist fyrir nýtingu þeirra stofna þannig að fiskur fari ekki til bræðslu þegar hann er vel hæfur til manneldis. Nú er það svo að þær útgerðir sem stunda uppsjávarveiðar, makríll er jú uppsjávarstofn, stunda líka síldveiðar. Það er hagkvæmt að skipta á milli makrílveiða og síldveiða á vissum tímum meðan beðið er eftir því að fituinnihald makríls verði rétt til þess að það borgi sig að fara með hann í manneldi. Það getur verið hagkvæmt að vinna makríl í bræðslu, það er óumdeilt, þegar fituinnihaldið er orðið þannig að hann er ekki hæfur til manneldis lengur. Það þarf að gefa þann sveigjanleika og það frelsi fyrir útgerðirnar að skipta á milli veiða til að hámarka aflaverðmætið.

Það er eitt sem hefði mátt sjást í frumvarpinu. Það hefði mátt sjást hvernig má stöðva óheftar veiðar í makrílstofnana, ólympísku fiskveiðarnar sem eru í gangi, með því að setja það í kvótakerfi. Það mundi auka hagkvæmnina. Metið hefur verið að það fáist um 6–8 milljörðum meira fyrir það sem er veitt af makríl með því að veiða hann á réttum tíma og nýta hann í manneldi, en það verður ekki gert með sérstökum aðgerðum á borði sjávarútvegsráðherra. Það verður einungis gert með því að fyrirtækjunum verði búið það umhverfi að hægt sé að ná sem mestri hagkvæmni.

Síðan er talað um veiðiskyldu og heimildir til flutnings aflamarks. Ég ætla ekki að eyða tímanum í að tala um það og reyndar ekki heldur um skiptingu leyfilegs heildarafla í karfa, fyrir utan það að ég ætla að benda á að það að úthluta djúpkarfa til skipa sem ekki geta stundað þær veiðar á náttúrlega ekkert skylt við neitt sem heitir hagkvæmni.

Ég ætla að eyða síðustu þrem mínútunum í að tala um ákvæðið sem frumvarpið er frægt fyrir, þ.e. skötuselsákvæðið. Þar er gert ráð fyrir að stjórnvöld geti með bráðabirgðaákvæði tekið allt að 2.000 tonn og úthlutað og tekið fyrir einhvers konar gjald fram hjá kvótakerfinu, þ.e. að þeir sem hafa keypt skötuselskvóta njóta ekki aukningar aflans, eins og ég lýsti hérna fyrst í ræðu minni. Þetta dregur frá þeim útgerðarmönnum sem hafa skötuselskvóta um 1.100 milljónir, og því er ráðstafað á einhvern annan hátt — 1.100 milljónir. Það er einfalt að reikna það. Ef við gerum ráð fyrir einhverju meðalverði á skötusel sem gæti verið 550 kr. og þetta eru 2.000 tonn, eru það 1.100 milljónir, það er ekki flókið dæmi.

Það sem er áhugavert er hvernig á að úthluta þessum 2.000 tonnum og selja á 120 kr. tonnið. Ég sé fyrir mér að ég gæti fengið mér bát með veiðileyfi, ég gæti keypt af ríkinu skötuselskvóta, eða leyfi til að veiða skötusel, á 120 kr., svo mundi ég einfaldlega fara og selja það til þeirra sem eru á skötuselsveiðum nú þegar og eru tilbúnir til að borga 330 kr. Nákvæmlega eins og með aflandsgengið á krónunni og gengi Seðlabankans þá myndast þarna það sem í fjármálafræðum er kallað „arbitrage“, eða högnun, upp á 420 millj. kr. Þetta er ekki einungis óhagkvæmt heldur býður þetta upp á spillingu og ósanngirni.

Þessi punktur sem ég er að setja hérna fram sýnir fram á að þetta frumvarp er vanhugsað frá ákvæði eitt til ákvæðis átta og ætti að snúa ofan af þessu, hverfa frá þessu og hugsa þetta mun betur. Þar væri t.d. sáttanefndin sem ríkisstjórnin setti upp og LÍÚ hefur núna farið úr kjörinn vettvangur fyrir það.