Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:00:48 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að taka af öll tvímæli um það sem ég sagði um hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd áðan þá var ég ekki að setja út á vinnubrögðin og þar fram eftir götunum, svo það sé alveg skýrt. Ég var einfaldlega að draga upp þær staðreyndir að við lendum oft í því hér, alveg sama hvort um er að ræða sjávarútvegsmál eða einhver önnur mál, að detta ofan í einhver póltísk hjólför og virðumst aldrei geta kíkt upp úr þeim nema til að kasta einhverjum bombum hvert á annað. Það var það eina sem ég var að segja. Ég geri ekki athugasemdir við vinnubrögðin og þó svo að margt sem kemur frá hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sé mér ekki að skapi virði ég auðvitað skoðanir annars fólks, ég var ekkert að setja út á það, þannig að það sé alveg á hreinu.

Það sem ég var hins vegar að segja áðan og vil kalla enn frekar eftir er það — ég fór mjög vel yfir málið í fyrri ræðu minni og það er fullt af hlutum hérna sem eru bara ágætir og ég hef farið yfir það — að ég hefði talið t.d. mun skynsamlegra ef við hefðum brugðist fyrr við eins og í sumar gagnvart makrílnum, þar fór fram sóun á verðmætum, það er alveg klárt. Og þó að margir stjórnarandstöðuþingmenn séu ekki sammála mér um að það eigi að vera með einhvers konar forsjárhyggju er það bara mín skoðun og mín trú og ég sagði það í sumar í ræðustól að við eigum að bregðast við þegar svona kemur upp á.

Það eru líka aðrir hlutir sem ekki er stórvægilegur greinarmunur á milli, en ég tel hins vegar að það sé mjög varhugavert eins og í þessu tilfelli að fara að úthluta skipum veiðiheimildum sem þau geta ekki nýtt. Það setur líka fyrirtækin í óvissu og það er ekki skynsamlegt og það er ekki gott. Það getur skemmt og grafið undan, eins og ég nefndi áðan, sterkri stoð þessa fyrirtækis. Þetta er því miður ekki skynsamlegt að mínu mati.

Við skulum heldur ekkert gleyma því að krafan um þessa skiptingu, eins og ég sagði áðan, kemur frá Hafrannsóknastofnun að hluta til og hún kemur líka frá stórútgerðinni vegna þess að það sem gerist er það að litlu aðilarnir sem hafa ekki tökin til að veiða djúpkarfann, hafa ekki skipin til þess, munu þurfa að skipta á veiðiheimildum við hina á útsöluverði.