Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:26:27 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég talaði um, og er mjög upptekinn af því, að þessi nefnd fái frið er sú að ég held að það sé betra fyrir málaflokkinn í heild, fyrir umræðuna og fyrir það sem við viljum fá út úr þessu.

Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans var talað um það á ársfundi LÍÚ, að ég held, af ráðherra m.a., að það þyrfti að vera friður til þess að nefndin gæti unnið. Stjórnvöld hafa, eftir því sem ég best veit, m.a. við gerð stöðugleikasáttmála og annað, lýst því yfir að það eigi að vera friður og ró meðan menn eru að reyna að finna út úr þessu. Það hefur ekki gengið eftir, frú forseti.

Ef hv. þingmaður gleymdi að spyrja mig út í LÍÚ ætla ég ekki að standa hér sem talsmaður þeirra eða verja þá, það apparat á að gera það sjálft, þeir eru, að ég held, fullfrískir og fullfærir um það. Ég held hins vegar að sjávarútvegurinn sé í heildina vel rekinn. Það eru að sjálfsögðu í öllum greinum einhverjir skussar, þannig er það bara í öllum atvinnugreinum. Því miður er það einhvern veginn þannig að hvort sem verið er að tala um iðnað eða verslun og þjónustu eða veitingahús að mjög oft eru þeir dregnir upp sem standa sig verst. Í sjávarútveginum er í heildina litið mjög gott fólk, mikil kunnátta, sérfræðiþekking og nýsköpun en mér finnst að margir hér inni hafi ekki tekið tillit til þess í umræðu sinni.

Það er heldur ekki rétt að tala þannig að ekki sé greitt neitt afgjald fyrir nýtingarréttinn — ég er að tala um nýtingarrétt, takið eftir því, ég er ekki að tala um eignarrétt, ég er að tala um nýtingarrétt á auðlindinni. Það er greitt gjald fyrir hann. Hvort það eigi að vera (Forseti hringir.) hærra eða lægra eða hvernig það er, það er eitthvað sem þarf að ræða.