Tekjuskattur

Fimmtudaginn 25. febrúar 2010, kl. 14:22:50 (0)


138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[14:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjuskatt sem varðar kyrrsetningu eigna vegna skattamála. Ég flutti ræðu 13. ágúst sl. um sama frumvarp nánast óbreytt og ég veit ekki hvort ég á að fara að endurtaka það allt saman en þar kom ég inn á það að borist hefðu miklar fréttir af stórum upphæðum sem höfðu skipt um hendur með ævintýralegum hætti og því miður, frú forseti, hefur sú staða ekki breyst. Ekki hefur verið neitt lát á fréttum af gífurlegum fjármagnsflutningum sem hafa farið í hring eftir hring og í röð o.s.frv. bæði sem lán og hluthafakaup og hagnaður hefur verið greiddur út og allt slíkt. Þarna er ekki verið að tala um einhverja venjulega peninga, það er verið að tala um milljarða og milljarðatugi og jafnvel hundruð milljarða. Því er ég mjög hlynntur þessu frumvarpi og hefði mátt afgreiða það í sumar.

Á þessari medalíu er önnur hlið sem við þurfum alltaf að gæta okkur mjög vel á. Ég tek fram að ég ætla þá að ljúka þessu máli um stóru upphæðirnar, ég er mjög hlynntur því að þar verði smíðuð tæki og vopn í hendur skatts og annarra yfirvalda til að ná í þá peninga sem þar fóru hring eftir hring og skemmdu eignarhald fyrirtækjanna, þ.e. eignarhaldið fór frá litlu hluthöfunum yfir til stjórna fyrirtækjanna og myndaði þar mikinn auð að ósekju. Segja má að þessir aðilar hafi á vissan hátt eyðilegt það ágæta form sem hlutafélagaformið er og notað sér ákveðna veilu í því. En það er önnur Ella, frú forseti, og ég er að leggja fram frumvarp um gagnsæ hlutafélög sem á að taka á þeim vanda.

En það er annar endi í þessu máli. Oft er það svo að litlir skattgreiðendur eiga í útistöðum við skattyfirvöld. Þeir vilja, sérstaklega minni fyrirtæki, trillueigendur, bændur o.s.frv., halda fram ákveðnum sjónarmiðum um t.d. kostnað sem embættismennirnir fallast ekki á og menn fara jafnvel í lagaflækjur og annað slíkt. Þá geta skattyfirvöld með þessum lögum, mér sýnist það, alltaf hótað eða kyrrsett eignirnar sem oft og tíðum getur þýtt gjaldþrot hjá litlum fyrirtækjum. Ef þau geta ekki ráðstafað t.d. hlaupareikningi eða einhverjum eignum, trillunni eða hvað það er, geta þau ekkert gert, þá verður að loka. Þarna fær yfirvaldið gífurlegan sterkan þrýsting þó að það beiti honum ekki. Það getur sagt: Heyrðu vinurinn, ef þú fellst ekki á okkar sjónarmið kyrrsetjum við hjá þér eignirnar. Ég varaði við þessu í sumar og átti von á að nefndin færi ítarlega í gegnum þetta og reyndi að losa það út að þetta kæmi ekki til, t.d. með því að hafa einhverja lágmarksupphæð. Mín vegna má það vera einn lítill milljarður, því að fyrir venjulegt fólk er það gífurlega stór tala. Til dæmis mætti talan sem við erum að tala um að skatturinn megi kyrrsetja vera það þegar hugsanleg krafa er meira en milljarður. Þetta vildi ég gjarnan gera til að hinn venjulegi borgari, sem oft og tíðum á í útistöðum og hallar ansi mikið á í baráttu við yfirvaldið og hið sterka ríkisvald og sérstaklega skattheimtumenn — ég vil ekki gefa skattyfirvöldum þetta aukatæki til að pína menn til að fallast á sín sjónarmið í deilumálum. Ég legg til að nefndin skoði það, og þá með fjármálaráðuneytinu og hæstv. fjármálaráðherra, hvort ekki mætti miða við einn lítinn milljarð sem í hugum okkar venjulegra borgara er náttúrlega eitthvað gífurlegt en í hugum þeirra sem voru að leika sér með þessar tölur var bara einhver tala á blaði og varla fyrir kaffi.