Vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum

Föstudaginn 07. maí 2010, kl. 12:59:31 (0)


138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

382. mál
[12:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér tökum við fyrir mál sem er um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, mál sem er búið að vera töluvert lengi í umfjöllun í félags- og tryggingamálanefnd. Það hefur fengið umsagnir og átti sér raunar aðdraganda í atvinnulífinu. Eins og hér hefur komið fram er þetta frumvarp lagt fram til þess að reyna að tryggja réttindi launþega og starfsmanna á vinnumarkaði og til þess að tryggja það að hér sé ekki verið að vinna atvinnustarfsemi á öðrum kjörum en um er samið á vinnumarkaði á hverjum tíma og að allt saman sé unnið í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Þess vegna tel ég mikilvægt að við afgreiðum þetta frumvarp og reynum þannig að stuðla að betri háttum í atvinnulífinu. Það má alltaf deila um formið en þetta er það form sem talið var henta best til þess að sinna þessu hlutverki.