Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 18:47:24 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar ef ég hef ekki orðað spurningu mína nægilega skýrt áðan. Ég var auðvitað að reyna að segja marga hluti í stuttu máli. Varðandi afstöðu Sjálfstæðisflokksins hefur það lengi legið fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn væri tilbúinn að fara í stjórnarskrárbreytingar, það var sett af stað vinna að frumkvæði m.a. sjálfstæðismanna 2005 til þess að fara í breytingar á stjórnarskrá.

Í stjórnarskrárumræðu á þingi í fyrravetur tókum við ávallt skýrt fram að við styddum það að farið yrði í stjórnarskrárbreytingar. Við mótmæltum því bara að það væri reynt að keyra þær í gegn á nokkrum vikum.

Varðandi stöðuna núna segjum við enn og aftur: Við teljum nauðsynlegt að breyta þáttum í stjórnarskránni, við viljum vanda til verka. En varðandi spurningu mína konkret, ef ég reyni að afmarka hana eða skýra nánar en mér lánaðist að gera hér áðan, þá er ég að segja: Meðal þeirra gagnrýnisatriða á núverandi stjórnarskrá er að til þess að breyta stjórnarskrá þarf að samþykkja breytingar á tveimur þingum með alþingiskosningum á milli. Sú hugmynd hefur oftar en einu sinni verið hér í þinginu, 2007 og raunar 2009, að byrja á þeirri einföldu breytingu að breyta 79. gr. sem snýr að því hvernig stjórnarskránni er breytt, ákvæðinu eða reglunni um það hvernig stjórnarskránni er breytt, með það að markmiði að einfalda ferlið og tryggja þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna, afgreiða slíka breytingu fyrst og fara síðan í efnisbreytingar sem varða allar hinar 80 og eitthvað greinarnar.

Það var eiginlega það sem ég var að fiska eftir hvort hv. þingmaður hefði mótað sér afstöðu til.