Iðnaðarmálagjald

Miðvikudaginn 08. september 2010, kl. 14:03:23 (0)


138. löggjafarþing — 153. fundur,  8. sept. 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[14:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil gera grein fyrir atkvæði mínu varðandi afnám laga um iðnaðarmálagjald. Frumvarpið hefur batnað mikið í meðförum þingsins þar sem lagt er til að lögin falli þó einhvern tíma úr gildi, það var ekki upphaflega í frumvarpinu.

Hins vegar finnst mér að þegar um er að ræða mannréttindamál þurfi menn að taka málið mjög alvarlega og að sjálfsögðu átti Alþingi strax að fella lögin úr gildi, meira að segja afturvirkt eins og langt og fyrningarleiðir leyfa, og hafa þá eitthvert ákvæði um að þeir aðilar sem þess óska geti fengið gjald sitt endurgreitt. Ég geri ekki ráð fyrir að það verði neitt endilega mjög margir. Þegar það kemur í ljós að framkvæmd einhverra laga brýtur gegn mannréttindum samkvæmt ákvæðum Mannréttindadómstóls Evrópu finnst mér að menn eigi að taka það mjög alvarlega. Það hefur verið gert áður á Alþingi í sambandi við dóm Hæstaréttar um kvótamálið og öryrkjamálið, þá var það tekið mjög alvarlega af þáverandi hæstv. ríkisstjórn.