138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Til umræðu er skýrsla sú sem nefnd þingmanna gerði samkvæmt lögum til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, taka afstöðu til niðurstaðna hennar og draga af henni lærdóm og móta tillögur af viðbrögðum Alþingis.

Í skýrslunni er m.a. fjallað um stjórnsýsluna. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór ágætlega í gegnum hana áðan og ég ætla að bæta við.

Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, yfir verklagi hennar og skorti á formfestu. Mat, greining og áætlanagerð er sneri að fjármálakerfinu og öðrum grundvallarhagsmunum ríkisins og þjóðarinnar hafi ekki verið til staðar sem sé afar gagnrýnivert og á engan hátt í samræmi við hvernig þjóðir með þróaða fjármálamarkaði og stjórnsýslu eigi almennt að haga starfsháttum sínum.

Þingmannanefndin leggur til ýmislegt til úrbóta. T.d. að fundargerðir ríkisstjórnarinnar verði skýrt skráðar og birtar opinberlega. Það stuðli að gegnsæi og auðveldi Alþingi eftirlitshlutverkið með framkvæmdarvaldinu. Viðkvæm mál eða önnur málefni er lúta trúnaði yrðu þá skráð í trúnaðarmálabók. Þingmannanefndin leggur því til að svipað vinnulag verði haft í ríkisstjórn og gert er í sveitarstjórnum þar sem fundargerðir eru settar á heimasíðu sveitarfélaganna og íbúar geta fylgst með hvað er til umræðu og þeim ákvörðunum sem teknar eru. Þetta er gert í anda lýðræðis og gegnsærrar stjórnsýslu.

Þingmannanefndin mælir einnig með því að fundargerðir séu haldnar á öðrum fundum, svo sem á fundum oddvita stjórnarflokka, og ákvarðanir skráðar þó ekki sé lagt til að þær fundargerðir séu gerðar opinberar. Þó að oddvitar stjórnarflokka fundi og ráði ráðum sínum, undirbúi málefni og taki sameiginlegar ákvarðanir í mikilvægum málum geti þeir fundir ekki einir og sér leyst ráðherra undan þeirri skyldu að taka fyrir mikilvæg málefni á ríkisstjórnarfundum.

Í 17. gr. stjórnarskrárinnar segir að ríkisstjórnarfundi eigi að halda um nýmæli og mikilvæg stjórnarmálefni og ráðherrar geti óskað eftir því að bera upp mál og þá verði fundað um þau. Þessi grein stjórnarskrárinnar á að sjá til þess að mikilvæg mál séu rædd og kunn öllum ráðherrum í ríkisstjórninni. Mikið umhugsunarefni er að stærð bankanna og sú hætta sem stafaði af þeim fyrir efnahag landsins hefði ekki verið rædd sérstaklega í ríkisstjórn. Hvaða mikilvæga mál hefði frekar átt að ræða í ríkisstjórn á árinu 2008 en einmitt þetta stóra vandamál? Enda þótt hver ráðherra fari sjálfstætt með málefni sem undir hann heyra samkvæmt málefnaskiptingu innan Stjórnarráðsins verður í samræmi við stjórnarskrána að gera ráð fyrir að mikilvæg stjórnarmálefni séu tekin til umræðu í ríkisstjórn þannig að aðrir ráðherrar hafi tækifæri til að bregðast við og hafa áhrif á stefnumörkun ríkisstjórnar og ráðuneytis síns.

Því hefur verið haldið fram að stuttar boðleiðir í litlu landi geti verið kostur, mál gangi hratt fyrir sig og það sé oftast gott en sérstaklega í viðskiptum. Vegna smæðarinnar flýti kunningjatengsl stundum fyrir ferlinu og það sé vel. Við höfum búið við virðingarleysi fyrir lögum og reglum og skilningsleysi á hvað felist í að vera fámenn þjóð. Mikið er um óformleg samskipti í stjórnsýslu okkar.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar er bent á að einmitt vegna smæðar samfélagsins skipti formfesta, skráning upplýsinga, verkferlar og tímamörk og skýr ábyrgðarsvið enn meira máli en í stærri samfélögum. Gegnsæi og rekjanleiki er nauðsynlegur í litlu landi þar sem kunningjatengsl liggja víða. Styrkja þarf þá umgjörð sem gerir embættismönnum auðveldara að stunda góða stjórnsýslu. Við þurfum að gera átak hvað þetta varðar, breyta lögum og reglugerðum til að styðja bætta stjórnsýslu og festa betur vinnulag í sessi. Skrifræði — segja sumir þegar krafan um skráningu fundargerða, upplýsinga, tillagna og varðveisla gagna kemur fram — menn verða að geta tjáð sig frjálst á fundum án þess að allt sé skráð. Einhverjum gæti fundist skráning fundargerða, þar sem helstu álitamál og niðurstöður koma fram, íþyngjandi. En finnst mönnum ásættanlegt að á fundi eftir fund í Seðlabankanum séu aðeins til drög að fundargerðum? Þær séu ekki kláraðar eða leitað eftir samþykki fundarmanna fyrir þeim minnispunktum sem þó voru skráðir á fundum þar sem fjallað var um stór hagsmunamál þjóðarinnar?

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að á fundum bankastjórnar og ráðherra hafi ekki verið sá háttur hafður á að bankinn afhenti ráðherranum skjal þar sem teknar hefðu verið saman upplýsingar ásamt mati bankans á þeim og tillögum að ákvörðunum settar fram þar sem við átti. Á sumum þessara funda voru fluttar mjög alvarlegar fréttir. Þess ber þó að geta að svo virðist sem ráðherrar hafi ekki heldur gert kröfu um skriflega framsetningu upplýsinga og tillagna frá bankanum þegar þeim hafði munnlega verið gerð grein fyrir þýðingarmiklum upplýsingum. Þetta vekur líka furðu og slík vinnubrögð eru með öllu óásættanleg.

Eitt gleggsta dæmið um formleysi stjórnsýslunnar er atburðarásin svonefnda Glitnishelgi í lok september 2008 þegar munnlegar tillögur voru lagðar fram og misskildar af þeim sem við tóku. Leggja þarf ríka áherslu á formfestu þegar ákvarðanir eru teknar og innleiða meiri aga í vinnubrögð til að stuðla að vandvirkni og góðum stjórnsýsluháttum. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar taka þarf ákvarðanir undir álagi, t.d. þegar stjórnað er í neyðarástandi eins og ríkti hér haustið 2008.

Starfshópur hefur starfað á vegum forsætisráðuneytisins og skilaði skýrslu í maí sl. þar sem fjallað var um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í þeirri skýrslu er undirstrikað mikilvægi þess að tilmælum og ábendingum rannsóknarnefndarinnar sé fylgt og er vinna þegar hafin við breytingar á lögum á grundvelli þessarar skýrslu. Bryndís Hlöðversdóttir, forseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, var þingmannanefndinni innan handar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og hún kannaði m.a. hvernig styrkja mætti eftirlitshlutverk Alþingis út frá þeim lærdómum sem draga mætti af skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skýrslu vinnuhópsins sem forsætisnefnd fól að fara yfir núgildandi lagareglur um eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu. Jafnframt var Bryndísi falið að fara yfir starfshætti Alþingis og gera tillögur að breytingum þar að lútandi frá því sem fram kemur í skýrslunni. Athyglisverðar tillögur hennar fylgja skýrslu þingmannanefndarinnar sem nú er til umræðu sem viðhengi.

Sums staðar í stjórnsýslunni er mikilvægara að skýra verkferla en að breyta lögum. Það er ekki síður mikilvægt verkefni að skýra verkferla en að gefa lagaheimildir þar sem þær vantar en valdið liggur hjá þinginu, þ.e. að setja lög sem breyta stjórnsýslunni til batnaðar. Ef þingið gerir það ekki er við það sjálft að sakast.

Íslensk stjórnvöld voru vanbúin til að mæta þeirri yfirvofandi hættu sem íslenska bankakerfið stóð frammi fyrir. Það skorti mikið á að unnið hefði verið að viðbúnaðarmálum ríkisins á skipulegan og vandaðan hátt. Slíkur viðbúnaður hefði ekki komið í veg fyrir fall bankanna haustið 2008 en hann hefði verið til þess fallinn að draga úr því tjóni sem fall bankanna orsakaði. Það var nefnilega þannig að hætta myndaðist frá því áhætta var tekin. Hún myndaðist ekki við fall krónunnar eða við fall bankanna. Áhættan var tekin, mikið var lagt undir en áætlanir skorti um viðbrögð ef allt færi á versta veg.

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að stjórnvöld hafi tiltæka viðbragðsáætlun við fjármálaáfalli. Reyndar held ég að flestir íbúar þessa lands hafi gert ráð fyrir því að viðbragðsáætlun væri til og reyndar einnig að áætlun væri til um aðgerðir til að draga úr hættunni á fjármálaáfalli. Slíkar áætlanir þurfa að innihalda verkferla, skýra verkaskiptingu og ábyrgðarsvið, auk upplýsinga um við hvaða aðstæður eigi að virkja einstakar stofnanir ríkisins. Menn þurfa að vita til hvaða úrræða á að grípa ef í ljós kemur að eitthvað er í ólagi. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir, með leyfi forseta:

„Þegar stærð fjármálakerfis lands nemur t.d. þrefaldri þjóðarframleiðslu þess hafa lögbær yfirvöld landsins burði til þess að setja fjármálakerfinu leikreglur og hafa eftirlit með því að þeim sé fylgt. Þegar stærð fjármálakerfis lands nemur aftur á móti nífaldri þjóðarframleiðslu þess verður viðsnúningur á þessu. […] Ekki verður annað séð en að bæði Alþingi og ríkisstjórn hafi skort burði og þor til að setja fjármálakerfinu skynsamleg mörk. Öll orka virðist hafa farið í að halda fjármálakerfinu gangandi. Það var orðið svo stórt að ekki var hægt að taka áhættuna af því að aðeins hluti þess félli.“

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hafði frá nóvember 2007 verulegar áhyggjur af stöðu bankanna. Þrátt fyrir það var þeim áhyggjum aðeins komið óformlega á framfæri. Mikið skortir á að samskipti milli bankastjórnar Seðlabankans og stjórnvalda hafi verið eðlileg og í samræmi við góða stjórnsýslu. Ein leið til að hafa hömlur á bönkunum var að auka bindiskylduna. Þess vegna sætir það furðu að Seðlabankinn þrátt fyrir allar sínar áhyggjur af vexti bankanna hafi afnumið bindiskylduna í mars 2008. Kannski taldi Seðlabankinn þetta gamaldags úrelt úrræði. Bindiskyldan var lækkuð, að sögn, til að laga hana að reglum Evrópusambandsins þó að þeim bæri engin skylda til þess, en menn gleymdu því að Evrópusambandið er stærra en Ísland. Bankakerfið hér var of stórt fyrir Ísland og nýta hefði átt þau úrræði sem þó voru tiltæk til viðspyrnu. Fjármálaeftirlitið var of bjartsýnt, ef svo má segja, miðað við þau gögn sem það hafði. Það var ekki í stakk búið til að takast á við öra stækkun bankanna. Eftirlitið var í reynd nánast óframkvæmanlegt vegna vaxtar fjármálakerfisins á stuttum tíma. Þar vantaði upp á reynslu starfsmanna Fjármálaeftirlitsins og fjármagn til að bregðast við umhverfi sem breyttist og óx mjög mikið á fáum árum. Rannsóknarnefnd Alþingis bendir á að Fjármálaeftirlitið hafi túlkað heimildir sínar rúmt þannig að það nýtti ekki þær heimildir sem það hafði sem skyldi. Það beitti ekki valdi sínu þó rík ástæða hefði verið til og miklir almannahagsmunir í húfi. Þingmannanefndin mælir með því að stjórnsýsluúttekt verði gerð á Fjármálaeftirlitinu og einnig á Seðlabankanum. Að þeirri úttekt lokinni ætti að taka ákvörðun um hvort hyggilegt sé að sameina þessar stofnanir.

Við breytingu á lögum og umgerð eftirlitsstofnana þurfum við að afmarka hlutverk þeirra og skilgreina hvaða upplýsingar þær þurfa til að geta rækt hlutverk sitt og hvaðan upplýsingarnar eiga að koma. Einnig þarf að fylgja til hvaða úrræða sé hægt að grípa ef eitthvað fer úrskeiðis en svo virðist sem Seðlabankinn hafi ekki skynjað hlutverk sitt og ekki heldur nýtt heimildir sínar til að láta til skarar skríða. Ef staðan var svona slæm eins og Seðlabankinn vildi vera láta af hverju nýtti hann þá ekki heimildir sínar til að snúa ferlinu við? Verkaskipting Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka var óljós. Seðlabanki taldi að Fjármálaeftirlitið ætti að hafa eftirlit með einstökum stofnunum og láta Seðlabanka vita um stöðuna ef það hefði rökstuddar áhyggjur af henni. Áhættan óx sem sagt á meðan ágreiningur var um hlutverk eftirlitsstofnana. Það er algerlega ljóst að skýra þarf verkferla og reglur og lagaheimildir þurfa að vera fyrir hendi þannig að eftirlitsstofnunin sinni hlutverki sínu. Eftirlitsstofnun þarf að hafa tiltæk tæki og tól, bæði tæknileg og lagaleg, til að við getum treyst því að mat hennar á stöðu fjármálakerfisins sé rétt og að hún nýti vald sitt til að stöðva starfsemi sem ekki uppfylli viðmið þeirra. Við verðum að ákveða hvernig eftirlitskerfi við viljum hafa og hvaða heimildir við ætlum að veita því kerfi.

Í uppeldisfræðinni og stjórnunarfræðum er afskiptaleysi talið skaðlegra en ofríki. Það sama tel ég að hafi sýnt sig varðandi bankana, allt frá einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands. Það viðhorf að eftirlit megi ekki íþyngja fjármálafyrirtækjum og hefta vöxt þeirra var ráðandi. Afskiptaleysið varð skaðlegt og tjón þjóðarinnar var mikið. Menn töldu að vöxtur bankakerfisins væri af því góða og það er kannski þess vegna sem vöxturinn var ekki haminn. Ljóst er að innra kerfið réð ekki við vöxtinn sem fór fram úr gæðakerfi bankanna. Viðhorfið var að eftirlit væri slæmt, afskiptaleysið væri mikilvægt til að bankarnir gætu um frjálst höfuð strokið og vaxið án afskiptasemi eftirlitsstofnana. Þeir skiluðu miklu fé í ríkissjóð og héldu þannig uppi velferð þjóðarinnar.

Það er einnig nauðsynlegt að skýra hvernig eftirliti ráðherra er háttað með sjálfstæðum stofnunum. Hvernig er eftirlit með sjálfstæðum stofnunum frábrugðið eftirliti með öðrum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra? Varla getur það aðeins verið með þeim hætti að ráðherrann skipi stjórn og fái síðan sendar ársskýrslur. Það er umhugsunarvert hvernig þetta umhverfi er hvað varðar Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Ef Fjármálaeftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að starfsemi bankans sé ábótavant þá á það að láta Seðlabankann vita og þagnarskylda hvílir yfir þeim upplýsingum. Ætti bankamálaráðherrann ekki að fá sömu upplýsingar?

Þingmannanefndin og rannsóknarnefnd Alþingis mæla með að ein stofnun verði sett á laggirnar til að setja saman þjóðhagsspá. Við teljum mikilvægt fyrir þjóðina að hlutlaus aðili sé aðeins í því að spá og gefa ráð til Seðlabanka og Stjórnarráðs. Vegna þess að okkur skorti slíka stofnun var greiningardeildum bankanna gert hærra undir höfði og spár þeirra voru oft til umræðu og lagðar til grundvallar.

Um tillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna var ekki einhugur eins og fram hefur komið í dag. Mér finnst afar mikilvægt að farið sé gaumgæfilega yfir það ferli og lærdómar af því dregnir og notaðir við einkavæðingu fyrirtækja í eigu ríkisins eða þeirra sem hafa lent í eigu þess við bankahrunið. Við munum leggja til að slík rannsókn fari fram. Menn hafa spurt um stöðu formanns þingmannanefndar og sagt: Af hverju tók hann ekki afstöðu? Af hverju kom hann í veg fyrir að tillaga um rannsókn á einkavæðingu bankanna yrði ein af tillögum nefndarinnar? Staðreyndin er sú að atkvæði hans hefði ekki skipt máli. Vegna ágreinings í þingmannanefndinni varð tillagan ekki ein af okkar. Við stöndum að baki þeim tillögum sem allir eru sammála um í nefndinni. Hvað hv. þm. Atli Gíslason hefði gert hefði ekki skipt máli að þessu leyti. Um allar þær tillögur sem lagðar eru fram í þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar er einhugur. Það er einhugur um hvern staf sem stendur í skýrslunni.

Félagar mínir í þingmannanefndinni hafa rætt um siðferði og umræðuhefð í dag og ég tek undir orð þeirra. Ég legg einnig til að á öllum skólastigum verði lögð enn ríkari áhersla á að nemendur tileinki sér gagnrýna hugsun og æfi rökræður og fjölmiðlalæsi. Ég hvet skólastjórnendur og kennara landsins til að nýta sér undirbúning fyrir stjórnlagaþing og niðurstöður þess til að koma af stað líflegum umræðum á öllum skólastigum um lýðræði og almenn mannréttindi.

Vinnan í þingmannanefndinni hefur verið afar lærdómsrík. Til okkar hafa komið sérfræðingar og gefið góðar ráðleggingar og starfsfólk nefndasviðs veitt nefndinni ómetanlega aðstoð. Hafi það góða fólk bestu þakkir fyrir. Í skýrslu nefndarinnar sem hér um ræðir ríkir sátt, eins og ég sagði áðan, og engin tillaga rataði inn sem ekki hafði stuðning allra nefndarmanna. Nú er vandinn sá að umræða um slíkar skýrslur er aðeins ein en það er mín skoðun að þingsályktunartillagan sem fylgir skýrslunni ætti að fara í aðra umræðu og til þingmannanefndarinnar á milli umræðna. Eftir umræður um skýrsluna kann að vera að fram komi rökstuddar tillögur um breytingar á þingsályktunartillögunni og þær þurfi þá að ræða í nefndinni. En ég óska sem sagt eftir því að þingsályktunin sem fylgir skýrslunni sem er til umræðu fari til þingmannanefndarinnar og verði afgreidd í þinginu eftir aðra umfjöllun í nefndinni, eins og ég geri ráð fyrir að farið verði með þingsályktunartillögur um ráðherraábyrgð. Nefndin færi þá yfir umræður og tæki ákvörðun um hvort gera ætti breytingar á tillögunum og tæki þá einnig til alvarlegrar skoðunar hvort þeir fundir ættu að verða opnir, þ.e. fundirnir sem haldnir yrðu á milli umræðna, einhverjir af þeim.

Að lokum vil ég þakka öllum nefndarmönnum samvinnuna sem var mjög góð og lausnamiðuð. Engar pólitískar skotgrafir voru myndaðar við samningu skýrslunnar heldur unnu nefndarmenn að verkefninu af heilum hug. Skoðanir voru að vísu skiptar um ýmis mál en okkur tókst að tala okkur niður á þær tillögur sem fram komu í skýrslunni og það eitt er áfangasigur í vinnulagi okkar alþingismanna. En vonandi eigum við eftir að vinna þá fleiri í framtíðinni þegar við tökum öll höndum saman til að breyta til að mynda þeirri umræðuhefð sem hér hefur skapast.

En þegar kom að ráðherraábyrgðinni skildu leiðir, enda ekki um þannig mál að ræða að nefndin kæmist að sameiginlegri niðurstöðu með málamiðlunum. Um ráðherraábyrgðina verður fjallað síðar.