138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ýmislegt á þessum tíma sem menn töldu vera snilld, jafnvel tæra snilld. Hvað þetta varðar kemur það mjög skýrt fram í rannsóknarskýrslunni að þó að ég og hv. þingmaður vissum ekki hver staðan var vissi Seðlabankinn það. Ekki nóg með að Seðlabanki Íslands hefði þessar upplýsingar, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði þessar upplýsingar, Seðlabanki Hollands hafði þessar upplýsingar, Seðlabanki Bretlands hafði þessar upplýsingar og Seðlabanki Evrópu hafði þessar upplýsingar, ef við horfum til tímabilsins frá því sirka febrúar 2008 fram til hrunsins.

Vandinn var bara sá að þeir sem áttu að gera eitthvað neituðu að trúa þessu, þeir neituðu að horfast í augu við þær upplýsingar sem við fengum. Að vísu er þetta aðgerð, þetta er athöfn. En það virðist vera undirliggjandi, sem við gagnrýnum mjög í ályktunum okkar og rannsóknarnefndin gagnrýnir einnig mjög, að ekki hafi legið fyrir neinar faglegar greiningar á því sem menn gerðu. Ég held hins vegar að þegar tekin var ákvörðun um það í síðustu vikunni, t.d. að breyta innlánum í forgangskröfur, horfðust menn í augu við að það þýddi að þessi veð yrðu nánast einskis virði. En þeir töldu að þessu væri til fórnandi til þess að tryggja innstæður innstæðueigenda upp á 1.200 til 1.300 milljarða. Það var kostnaðurinn við það plús síðan það sem við eigum eftir að sjá, hvort það tengist líka Icesave. En þessar upplýsingar voru til staðar.

Það er það sem ég var að reyna að segja í lokaorðum mínum, að þegar óþægilegar upplýsingar koma eða þegar óþægileg mál koma fram getum við ekki hunsað þau. Við þurfum að vera (Forseti hringir.) tilbúin að horfast í augu við þau.