138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir ræðuna. Það er margt í henni sem væri hægt að minnast á en það er þó eitt sem stakk mig sérstaklega. Það voru ummæli hv. þingmanns um hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þá hugleiðingu að sá ráðherra væri hugsanlega að brjóta gegn lögum um ráðherraábyrgð með athöfnum eða athafnaleysi sínu varðandi ESB.

Alþingi fer með ákæruvald í þeim málum sem varða ráðherraábyrgð. Það er því mjög alvarlegt mál og við eigum að fara varlega með það vald. Við eigum að fara afar varlega í að ásaka menn úr þessum stól um að brjóta þessi lög. Þess vegna langar mig, af því að hv. þingmaður vísaði til 2.–4. gr. laganna um ráðherraábyrgð sem hún hefur greinilega kynnt sér, að spyrja: Hvaða orð eru það nákvæmlega í þeim lögum sem hv. þingmaður á við að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé hugsanlega að gerast brotlegur við og undir hvaða ákvæði laganna nákvæmlega yrðu athafnir eða athafnaleysi ráðherrans færð? Telur hv. þingmaður að afstaða hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra varði embættismissi, sektum eða að dæma eigi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í fangelsi fyrir að vera ekki sammála Samfylkingunni um að okkur beri að ganga inn í ESB?