Málshöfðun gegn ráðherrum

Þriðjudaginn 28. september 2010, kl. 16:11:27 (0)


138. löggjafarþing — 169. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:11]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er eins og hver okkar 63 þingmanna að greiða hér atkvæði í hlutverki ákæranda um hvort stefna skuli fyrrum ráðherrum fyrir refsiverða háttsemi. Í því hlutverki nýt ég sama réttar og allir aðrir þingmenn að eiga fyrst og fremst við samvisku mína og sannfæringu. Ég tek því hvorki afstöðu sem formaður Samfylkingarinnar né sem forsætisráðherra þegar ég greiði atkvæði hér í dag. Í hlutverki ákæranda á ekki að greiða atkvæði eftir pólitískum línum og því hef ég fylgt í þessu máli. Í ítarlegri ræðu minni í síðustu viku tók ég mjög yfirvegaða afstöðu út frá efni og formi þessa máls í fyllsta samræmi við það sem stjórnarskráin leggur mér og hverju ykkar á herðar sem ákæranda og ekki síður þann rétt okkar að hlýða sannfæringu okkar í málinu. Út frá þeim sjónarhóli hljótum við að virða skoðanir hver annars í þessari atkvæðagreiðslu. Hér eiga ekki erindi pólitískir hagsmunir, brigslyrði, málamiðlanir eða vinsældarkapphlaup. Sú atkvæðagreiðsla sem hér fer fram er og verður söguleg og sérhver þingmaður verður að geta litið yfir sinn feril sáttur við verk sín, ákvarðanir og töluð orð sem verða hluti af sögu þjóðar okkar.