138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að Alþingi fari vandlega yfir þetta mál eins og það gerir alla jafnan. En sá er munurinn á í þessu tilviki að málið er náttúrlega gagnkunnugt, þaulrætt og rannsakað og þær einföldu breytingar sem hér eru að verða á samningnum með þessum viðaukasamningi eru þess eðlis að það ætti ekki að taka hv. alþingismenn mjög langan tíma að skoða þær.

Varðandi það að Alþingi setji sitt mark á þetta með þeim hætti að það kalli á grundvallarbreytingar á frágangi málsins eða nýja samningaviðræður verð ég að ráða eindregið frá slíku. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að það eru ekki góð efni til þess að reyna að fara í nýja hringferð í málinu sem taki einhverja mánuði. Ég held að núna sé komið á þann stað í þessu ferli að menn verða að átta sig á því er þetta er ásættanlegur farvegur til þess að leiða málið til lykta og gera það tiltölulega fljótt og vel. Það þjónar hagsmunum okkar að mínu mati alveg ótvírætt fremur en að stofna því aftur í uppnám eða að fara að taka sér marga mánuði í eitthvert þóf sem ég held að muni skila afar litlu, ef þá nokkru, en verða okkur á sama tíma til mikils tjóns. Ég get því ekki mælt með slíku en að sjálfsögðu ræður Alþingi sjálft sinni niðurstöðu.