Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. nóvember 2009, kl. 18:07:53 (0)


138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:07]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er svolítið merkilegt að heyra hv. þm. Jón Gunnarsson tengja kvótakerfið við þá staðreynd að hér sé sjávarútvegur ekki ríkisstyrktur. Ég sé engin bein tengsl þarna á milli, staðreyndin er hins vegar sú að við Íslendingar búum að einum bestu fiskimiðum í heimi, mun betri fiskimiðum en Evrópuþjóðir. Engu að síður er staðreyndin líka sú að við veiðum núna ekki nema um þriðjung þess fiskafla sem við veiddum fyrir daga kvótakerfisins.

Ég kem hingað til að spyrja hv. þingmann, sem fullyrðir að við rekum hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi, hvernig hann skilgreini orðið „hagkvæmni“ í því samhengi. Opinberar tölur sýna að um þriðjungur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eigi sér ekki viðreisnar von vegna rekstrarerfiðleika, annar þriðjungur þurfi sértækar aðgerðir til aðstoðar og að um 40% íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja standi traustum fótum eins og má kannski orða það. Er þetta hagkvæmnin í íslenskum sjávarútvegi? Greinin skuldar 550 milljarða kr., grein sem á síðasta ári hafði í tekjur 170 milljarða kr. Mér þætti þar af leiðandi vænt um að heyra hvernig hv. þingmaður skilgreinir hugtakið hagkvæmni í þessu samhengi.

Þingmaðurinn segir réttilega að menn hafi keypt kvóta í þessu kerfi, en þeir hafa gert gott betur en að kaupa sér kvóta, þeir hafa veðsett kvótann. Það væri athyglisvert að vita í ljósi þeirrar skuldastöðu sem ég nefndi hér, 550 milljarða kr. skuld — þar af er umtalsverður hluti erlendar skuldir — hvaða áhrif þingmaðurinn telur að þetta geti haft fyrir stöðu sjávarútvegsins í íslenskri eigu, þ.e. gagnvart erlendum kröfuhöfum í ljósi hinnar miklu skuldsetningar og veðsetningar íslenskra aflaheimilda.