Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 14:06:29 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir það hjá hæstv. ráðherra að kannski er orðið tímabært að fara að ljúka þessu máli, sérstaklega ef það er einfaldlega komið að þessum endapunkti. Við deilum um stöðumat en við stjórnarandstæðingar teljum að hægt hefði verið, og væri kannski hægt, að ná betri samningum, en ef stjórnarliðar eru alveg einarðir í þessari afstöðu sinni er kannski skynsamlegt að fara að hætta þessu. Ég skil þau sjónarmið alla vega mjög vel.

Þó að þingsköp séu frekar skrifuð út frá þeirri hugsun að hæstv. ráðherra eigi að spyrja mig ætla ég að spyrja hann sem hæstv. ráðherra út í það sem ég var að segja áðan, hvort það hafi hugsanlega verið mistök að skipa samninganefnd með þessum hætti, hvort ekki hefði frekar átt að skipa hana á breiðari pólitískum grunni og láta þá sem voru byrjaðir að semja um málið í tíð fyrri ríkisstjórnar halda því áfram.