Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 18:05:40 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir að koma hér upp en það er einmitt vegna orða sem féllu í ræðu hans sem mig langaði að eiga orðastað við frú forseta. Það kom fram í fyrstu ræðu hans að hann hefði ekki getað verið viðstaddur í gær einar fjórar ræður þar sem þá hefði verið samráðsfundur í sjávarútvegsnefnd. Auðvitað getur hv. þingmaður unnið það upp eins og hann sagði með því að hlusta á þær á netinu eða einhvers staðar. Gallinn er hins vegar sá að á þeim fundi áttu að vera þingmenn sem voru bundnir í þingsalnum og mér fannst ámælisvert af forseta, hver sem það var á þeim tíma, að stoppa ekki þingfund og veita þeim hv. þingmönnum sem þar voru tækifæri á að taka þátt í samráðsfundinum sem er afar mikilvægur. Ég verð að segja alveg eins og er að ég bið forseta um að grípa í taumana og sjá til þess að það gerist ekki aftur að menn séu bundnir hér við störf á meðan þeir eiga að sitja mikilvæga fundi sem eru skipulagðir af framkvæmdarvaldinu.