138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það. Það virðist vera þannig að þegar menn eru ekki í pólitískum valdastólum geti þeir leyft sér að tala öðruvísi en þeir gera þegar þeir setjast í þá stóla. Ég veit ekki hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur tekið hæstv. fjármálaráðherra sér til fyrirmyndar. Hann hefur náttúrlega, það hefur margoft komið fram, haft gaman af því að taka nánast öll kosningaloforð sín og helstu hugmyndafræði fyrir kosningar og snúa á hvolf og breyta algerlega eftir á. Maður getur velt því fyrir sér að hæstv. fjármálaráðherra sé leiðtogi lífsins í þessari skoðun hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.

Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. þingmanni, og var vitnað til orða Ólafs Ísleifssonar og eins Gylfa Magnússonar fyrir hrun, að það skiptir gríðarlega miklu máli að fara varlega og taka ekki ótímabærar ákvarðanir nema að mjög vandlega íhuguðu máli.