Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 30. desember 2009, kl. 17:26:37 (0)


138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns ítreka það sem ég sagði áðan að það eru forkastanleg vinnubrögð að keyra þessa umræðu áfram við þær aðstæður sem við búum við. Það er óþolandi fyrir okkur þingmenn að þurfa að taka við gögnum á hlaupum, sumum staðfestum en aðrar upplýsingar berast manna á milli. Umræðan í dag hefur borið þess vitni að menn hafa mjög mismunandi forsendur til þess að ræða þessa hluti. En því miður er þetta dæmigert fyrir Icesave-málið eins og það hefur verið rekið frá upphafi. Það er svo margt dæmigert við þetta.

Það hefur stöðugt verið reynt að keyra þetta mál áfram hvað sem það kostar. Hvernig sem það hefur undið upp á sig, hefur það alltaf verið viðhorf ríkisstjórnarflokkanna, eða a.m.k. forustu ríkisstjórnarflokkanna, að það beri að keyra málið áfram af eins miklum krafti og hraða og hægt er. Viðspyrna okkar stjórnarandstæðinga hefur alltaf mætt því viðhorfi hjá hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna að við værum að tefja, þvælast fyrir, trufla og ég veit ekki hvað, en þessi viðspyrna okkar hefur hins vegar skilað því að málið er miklu betur upplýst núna en þegar það kom fyrst inn í þingið. Staðreyndir málsins liggja ljósari fyrir og því miður eru þær allar á þá leið að málið er miklu verra en það sýndist í upphafi.

Ég ætla ekki í þessari stuttu ræðu að fara yfir einstaka þætti málsins, ég ætla bara að leyfa mér að nefna, bara til að árétta það á þessum stað í umræðunni, að komið var með frumvarpið fyrirvaralaust inn í þingið. Í júní átti að samþykkja skilyrðislausa ríkisábyrgð. Þá sögðu hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarflokkanna úr þessum ræðustól: Lengra verður ekki komist. Við erum komin með samning sem er sá skásti sem við getum náð. Við erum komin í þá stöðu sem er skásta staðan sem við getum náð. Við verðum að klára þetta.

Þegar ríkisstjórnarflokkarnir höfðu ekki meiri hluta í þinginu til þess að knýja málið fram í þeim farvegi voru gerðar breytingar, settir inn fyrirvarar, settir inn skilmálar til þess að gæta hagsmuna Íslendinga til þess að standa vörð um mikilvæga, lagalega og efnahagslega þætti sem skipta veigamiklu máli. Þegar málið kom aftur inn í þingið í haust var búið að þynna þessa fyrirvara út. Sumir eru horfnir, aðrir hafa verið gerðir marklitlir með breytingum og í mörgum efnum er óljóst hvort þeir fyrirvarar sem þó standa eftir hafa eitthvert raunverulegt gildi, mjög óljóst. Þeir öryggisventlar sem Alþingi setti í ágúst eru því miður lítils virði í dag. Þó að við getum endalaust deilt um spurninguna um hvort ríkisábyrgð eigi að vera á þessum svokölluðu skuldbindingum eða ekki er alla vega ljóst að það er skárra að samþykkja ríkisábyrgð á svona skuldbindingum með miklum og traustum fyrirvörum en litlum og veikum fyrirvörum, það er augljóst, en það er einmitt sú staða sem við stöndum frammi fyrir hér nú.

Fyrirvararnir sem við unnum að í sumar vorum við misjafnlega sátt við. Auðvitað voru þeir málamiðlun. Ég var t.d. ósáttur við margt í þeim. Fyrirvararnir sem voru samþykktir af meiri hluta þingsins í lok ágúst eru lítils virði eins og þeim er fyrir komið í núverandi frumvarpi og viðaukasamningunum sem frumvarpinu er ætlað að gefa gildi. Þannig er staðan.

Þegar við bætist það offors sem verið hefur á allri málsmeðferð, þegar málið hefur verið rifið hvað eftir annað úr nefndum, þegar málið hefur verið keyrt hér áfram í þinginu, þegar meira að segja hæstv. forseti Alþingis sendir út þau skilaboð að Alþingi skuli ljúka gagnaöflun sem ég hygg að sé fordæmislaus (Forseti hringir.) ákvörðun, spyr maður auðvitað: Hvað veldur þessu gerræði? Hvað veldur þessum ótta sem ríkir greinilega meðal ríkisstjórnarflokkanna? (Forseti hringir.) Við hvað eru þeir hræddir? Hvað má ekki koma fram?