Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 89. máls.

Þskj. 91  —  89. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 51/2009, um heimild til samninga
um álver í Helguvík.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Í slíkum samningi skal ákveðið hversu lengi ákvæði hans skuli gilda og skulu þau eigi gilda skemur en í 20 ár frá undirritun samnings.

2. gr.

    4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Stimpilgjöld sem greiða bæri samkvæmt lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, skulu vera 0,15% af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við byggingu álversins.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 1. maí sl. tóku gildi lög nr. 51/2009, um heimild til samninga um álver í Helguvík. Á grundvelli þeirra laga var 7. ágúst sl. undirritaður fjárfestingarsamningur á milli ríkisstjórnar Íslands, Century Aluminum Company og Norðuráls Helguvík ehf. um byggingu og rekstur álvers í Helguvík.
    Í samræmi við málsmeðferðarreglur Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um ríkisaðstoð hafði fjárfestingarsamningurinn, sem og lög nr. 51/2009, verið tilkynntur ESA og óskað eftir staðfestingu ESA á að samningurinn og lögin væru í samræmi við ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð (byggðaaðstoð). Í samræmi við umræddar málsmeðferðarreglur var samningurinn ekki undirritaður fyrr en jákvæð niðurstaða ESA lá fyrir en ákvörðun ESA þess efnis barst íslenskum stjórnvöldum 23. júlí 2009 (ákvörðun ESA nr. 344/09/COL).
    Í ákvörðun ESA frá 23. júlí 2009, þar sem sú ríkisaðstoð sem felst í fjárfestingarsamningnum er heimiluð, gerði ESA athugasemdir við tvö atriði samningsins. Kalla þessi tvö atriði á lagabreytingar þær sem eru lagðar til með frumvarpi þessu.
    Hið fyrra atriði snýr að gildistíma samningsins. Í lögum nr. 51/2009 kemur fram að samningurinn skuli eigi gilda skemur en í 20 ár frá því að framleiðsla hefst í álverinu. Að mati ESA er ekki unnt að heimila veitingu ríkisaðstoðarinnar lengur en til 20 ára og ber þar að miða við dagsetningu undirritunar samningsins en ekki þegar framleiðsla hefst.
    Hin síðari athugasemd ESA snýr að frávikum frá reglum um stimpilgjald. Í lögum nr. 51/2009 er að finna ívilnandi reglur fyrir Norðurál Helguvík ehf. um greiðslu stimpilgjalds bæði hvað varðar byggingu og rekstur álversins sem og endurfjármögnun. Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að umræddu ákvæði um stimpilgjöld verði breytt til samræmis við athugasemdir ESA á þann veg að heimild til frávika er þrengd þannig að frávik frá stimpilgjöldum verði afmörkuð eingöngu við skjöl sem eru gefin út í beinum tengslum við byggingu álversins en ekki rekstur þess, auk þess sem ákvæðið nær ekki til endurfjármögnunar.
    Samþykki ESA á þeirri ríkisaðstoð sem hinn undirritaði fjárfestingarsamningur kveður á um er háð þeim breytingum á lögum nr. 51/2009 sem lagðar eru til með frumvarpi þessu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með greininni er lagt til að gildistími samningins verði 20 ár og miðist við undirritun hans en sé ekki frá því að framleiðsla hefst í álverinu. Nánar er vísað til almennra athugasemda.

Um 2. gr.


    Með greininni er lagt til að frávik Norðuráls Helguvíkur ehf. frá greiðslu stimpilgjalda, sbr. ákvæði laga nr. 51/2009, verði þrengd þannig að frávik frá stimpilgjöldum verði afmörkuð við skjöl sem gefin eru út í beinum tengslum við byggingu álversins í Helguvík en ekki rekstur þess í framtíðinni, þ.m.t. endurfjármögnun.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 51/2009,
um heimild til samninga um álver í Helguvík.

    Markmið frumvarpsins er að gera tvær breytingar á núgildandi lögum vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Annars vegar er um að ræða athugasemd er snýr að gildistíma samningsins en að mati ESA er ekki unnt að heimila veitingu ríkisaðstoðarinnar lengur en til 20 ára og skal þá miðast við undirritun samningsins en ekki þegar framleiðsla hefst. Hins vegar er það athugasemd er snýr að frávikum varðandi stimpilgjald en lagt er til að heimild til frávika skuli þrengd að því leyti að frávik frá stimpilgjöldum verði afmörkuð eingöngu við skjöl sem eru gefin út í beinum tengslum við byggingu álversins en ekki rekstur þess auk þess sem ákvæðið nær ekki til endurfjármögnunar. Ekki er gert ráð fyrir að þessar breytingar hafi áhrif á það mat sem unnið var á sínum tíma og lá til grundvallar þegar frumvarp núgildandi laga var lagt fram en þar var fjárhagslegt umfang skattalegra ívilnana frumvarpsins metið.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.