Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 198. máls.

Þskj. 222  —  198. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Orðin „eða smásöluaðilar“ í 3. málsl. 42. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu er lagt til að felldur verði brott sá hluti ákvæðis 3. málsl. 42. gr. lyfjalaga er lýtur að afsláttum á smásölustigi lyfja.
    Þessum hluta 42. gr. laganna hefur í þrígang verið frestað, fyrst til 1. janúar 2009 með lögum nr. 120/2008, næst til 1. apríl 2009 með lögum nr. 146/2008 og loks til 1. janúar 2010 með lögum nr. 28/2009. Þá var í undirbúningi nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja og ráðgert að það kæmi til framkvæmda á árinu 2009. Talið var mikilvægt að afnám afslátta af lyfjum í smásölu héldist í hendur við innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis.
    Nú er óljóst hvort og þá hvenær nýtt greiðsluþátttökukerfi verður að veruleika. Jafnframt hefur greiðslufyrirkomulagi lyfja verið breytt til lækkunar lyfjakostnaðar Sjúkratrygginga á undanförnum mánuðum vegna samræmdra aðgerða til lækkunar opinberra útgjalda. Í því ljósi þykir rétt að sjúklingar geti áfram, eins og verið hefur, notið afsláttar við kaup á lyfjum í smásölu.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum,
nr. 93/1994, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði lyfjalaga um að smásöluaðilum beri að selja lyf á sama verði á öllum sölustöðum sínum og skuli tilkynna lyfjagreiðslunefnd ef selja á lyfseðilsskyld lyf á lægra verði en hámarksverði verði felld niður, en þau áttu að taka gildi 1. janúar 2010.
    Með frumvarpinu er verið að tryggja að einstaklingar geti áfram notið afsláttar af lyfjakaupum í smásölu.
    Verði frumvarpið að lögum verður núverandi fyrirkomulag óbreytt og verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.