Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 238. máls.

Þskj. 270  —  238. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 113/1994, um eftirlaun til aldraðra,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Umsjónarnefnd samkvæmt 17. gr. er heimilt að úrskurða“ í 1. málsl. kemur: Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða.
     b.      Í stað orðanna „úrskurð umsjónarnefndar“ í 2. málsl. kemur: ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins.

2. gr.

    Í stað orðanna „Umsjónarnefnd eftirlauna“ í 4. málsl. 1. mgr. 6. gr., 7. mgr. 12. gr. og 3. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna og orðanna „umsjónarnefndar eftirlauna“ í 7. málsl. 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 18. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Tryggingastofnun ríkisins.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Umsjónarnefnd eftirlauna er heimilt að úrskurða“ í 1. málsl. kemur: Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða.
     b.      Í stað orðanna „úrskurð umsjónarnefndar“ í 2. málsl. kemur: ákvörðun stofnunarinnar.

4. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „umsjónarnefnd eftirlauna“ í 5. málsl. 2. mgr. og 5. mgr. kemur: Tryggingastofnun ríkisins.
     b.      Í stað orðanna „umsjónarnefnd þó heimilt að úrskurða“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða.

5. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Umsjónarnefnd eftirlauna úrskurðar“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Tryggingastofnun ríkisins ákveður.
     b.      Í stað orðanna „umsjónarnefnd eftirlauna“ í 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. kemur: Tryggingastofnun ríkisins.

6. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðsins „Nefndin“ í 1. málsl. 2. mgr., orðsins „nefndinni“ í 2. málsl. 2. mgr. og orðsins „nefndarinnar“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Tryggingastofnun ríkisins.
     c.      Í stað orðsins „nefndin“ í 2. málsl. 2. mgr. og 2. málsl. 3. mgr. kemur: stofnunin.
     d.      3. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     e.      4. mgr. orðast svo:
                  Heimilt er að kæra ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

7. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi greiðslur til lífeyrissjóða og annarra aðila samkvæmt úthlutun og ákvörðunum stofnunarinnar, færir þau á viðskiptareikning hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og krefur ríkissjóð og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um útgjaldahluta þeirra.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lögin um eftirlaun til aldraðra voru upphaflega sett árið 1970 á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við samkomulag Alþýðusambands Íslands og atvinnurekenda í maí 1969 um stofnun lífeyrissjóða fyrir félagsmenn í stéttarfélögum innan vébanda Alþýðusambands Íslands. Lögum þessum var ætlað að tryggja að þeir félagsmenn í stéttarfélögum sem aldurs vegna næðu ekki að mynda réttindi í lífeyrissjóðum með greiðslu iðgjalds nytu nokkurra eftirlauna. Þessi lög hafa tekið talsverðum breytingum í áranna rás án þess þó að meginmarkmið þeirra hafi breyst. Skilyrðin sem sett voru upphaflega um rétt til lífeyris, hafa enn fremur haldist óbreytt en eitt aðalatriði þeirra er að menn þurfi að vera fæddir 1914 eða fyrr.
    Eftirlaun samkvæmt lögunum eru nú tvenns konar, ellilífeyrir og makalífeyrir. Eðli málsins samkvæmt hefur eftirlaunaþegum fækkað mikið; þeir voru um 4000 þegar flest var en eru um 800 um þessar mundir, um 270 ellilífeyrisþegar og 530 makalífeyrisþegar. Úr þessu bætast ekki nýir lífeyrisþegar í hópinn og hann fer stöðugt minnkandi.
    Samkvæmt lögunum er meginhlutverk umsjónarnefndar eftirlauna að úrskurða eftirlaun og hafa yfirumsjón með úthlutun þeirra. Nefndin rak lengi sérstaka skrifstofu en árið 1994 hætti hún sjálfstæðum skrifstofurekstri. Þá hafði dregið mjög úr starfseminni, umsóknum fækkað sem og nýjum úrskurðum vegna hækkandi aldurs þeirra sem gátu átt rétt til eftirlauna samkvæmt lögunum. Eftirlaunaþegum fjölgaði ekki og sýnt var að þeim færi fljótt fækkandi vegna aldurs. Því var samið við Samband almennra lífeyrissjóða um að annast skrifstofuhald og útreikning og greiðslu eftirlauna gegn tiltekinni greiðslu. Þessi samningur var yfirfærður á Reiknistofu lífeyrissjóða árið 1999 og Greiðslustofu lífeyrissjóða árið 2002. og hefur þótt gefast vel. Við endurnýjun samninga hefur greiðslufjárhæð verið breytt með hliðsjón af kostnaðarbreytingum og fækkun lífeyrisþega. Umsjónarnefnd eftirlauna hefur gert þessa samninga í samráði við Tryggingastofnun ríkisins en stofnuninni er með lögunum m.a. ætlað að annast greiðslur til lífeyrissjóða samkvæmt úrskurðum umsjónarnefndarinnar og krefja hina opinberu fjármögnunaraðila um útgjaldahluta þeirra.
    Umsjónarnefnd eftirlauna hefur eftir sem áður yfirumsjón með rekstri kerfisins en hlutverk hennar hefur orðið æ léttvægara. Kerfið er í föstum og tryggum skorðum, ekki þarf atbeina nefndarinnar til nýrra úrskurða og engin sérstök ágreinings- eða álitamál hafa komið upp síðustu missirin. Að mati nefndarinnar er ekki lengur ástæða til að halda úti sérstakri nefnd til að sinna þeim störfum sem henni eru falin með lögunum og hefur því lagt til að hún verði lögð niður en verkefni hennar falin Tryggingastofnun. Er þá gengið út frá því að stofnunin hafi yfirumsjón með eftirlaunakerfinu en áfram megi semja við Greiðslustofu lífeyrissjóða um afgreiðslu eftirlaunanna ef henta þykir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1.–5. gr.

    Samkvæmt þessum ákvæðum er lagt til að Tryggingastofnun ríkisins verði falin þau verkefni sem umsjónarnefnd eftirlauna gegnir samkvæmt núgildandi lögum og samhliða því verði umsjónarnefndin lögð niður. Þá er gert ráð fyrir að orðalagi ákvæðanna verði breytt þannig að í stað þess að umsjónarnefnd eftirlauna úrskurði um eftirlaun samkvæmt lögunum muni Tryggingastofnun ríkisins ákvarða slík réttindi, en þær ákvarðanir eru kæranlegar til úrskurðarnefndar almannatrygginga, sbr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Lagt er til að fellt verði brott ákvæði um skipan umsjónarnefndar eftirlauna. Er það í samræmi við þá breytingu að leggja nefndina niður og fela Tryggingastofnun ríkisins störf hennar. Þá er gert ráð fyrir því að ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögunum verði kæranlegar, sbr. það sem segir í athugasemdum um 1.–5. gr. um ákvörðun réttinda samkvæmt lögunum.

Um 7.–8. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 113/1994,
um eftirlaun til aldraðra, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að umsjónarnefnd eftirlauna verði lögð niður og verkefni hennar færð undir Tryggingastofnun ríkisins. Meginhlutverk nefndarinnar hefur verið að úrskurða um eftirlaun og hafa umsjón með úthlutun þeirra. Upphaf nefndarinnar má rekja til setningar laga um eftirlaun til aldraðra árið 1970 en þá var fyrirséð að hópur fólks sem var fætt 1914 eða fyrr mundi ekki ná að mynda réttindi í lífeyrissjóðum með greiðslu iðgjalda. Í lögunum var því kveðið á um eftirlaun handa þessum hópi og skildi nefndin hafa umsjón með framkvæmdinni. Á undanförnum árum hefur þessum einstaklingum fækkað umtalsvert og starfsemi nefndarinnar hefur farið minnkandi og er nú orðin lítil. Árið 1994 hætti nefndin með eigin skrifstofu og hefur frá þeim tíma í samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins útvistað starfsemina.
    Tryggingastofnun ríkisins áætlar að ekki þurfi að bæta við starfsfólki vegna yfirtöku verkefna nefndarinnar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort áfram verði gerður samningur um útvistun starfseminnar eða hún færð inn í stofnunina. Á síðastliðnum árum hefur kostnaður vegna þóknana umsjónarnefndar eftirlauna verið um 450 þúsund krónur á ári og kostnaður við útvistun á skrifstofuhaldi, útreikning og greiðslu eftirlauna hefur numið 1 milljón króna. á ári. Auk þess hefur fallið kostnaður á Tryggingastofnun ríkisins sem numið hefur um 1,4 milljónum króna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni lækka sem nemur þóknanakostnaði nefndarinnar eða um 450 þúsund krónur en að aukning útgjalda Tryggingastofnunar verði óveruleg að því gefnu að útvistun útreikninga og skrifstofuhalds verði fram haldið.