Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 317. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 369  —  317. mál.
Tillaga til þingsályktunarum að auka samvinnu og gagnkvæma upplýsingamiðlun um málefni aldraðra á Vestur- Norðurlöndum.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason,


Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þráinn Bertelsson.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að auka samvinnu og gagnkvæma upplýsingamiðlun um málefni aldraðra á Vestur-Norðurlöndum.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2009 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2009 í Rúnavík í Færeyjum.
    Meðalaldur hefur hækkað á Vestur-Norðurlöndum sem þýðir að öldruðum fjölgar á sama tíma og dregið hefur úr barnsfæðingum. Þessi þróun getur m.a. leitt til þess að skortur verði á starfsfólki við umönnunarstörf auk annarra afleiðinga. Samhliða þessu annast börn sjaldnast foreldra sína núorðið þegar þeir geta ekki séð um sig sjálfir.
    Skortur er á hjúkrunarheimilum og íbúðum fyrir aldraða og því algengt að aldraðir flytji frá heimili sínu beint á hjúkrunarheimili og þá fyrst eftir að þörfin hefur verið brýn í langan tíma.
    Í ljósi þeirra krefjandi verkefna sem fram undan eru í málefnum aldraðra er mælt með því að Vestur-Norðurlönd auki samvinnu sín á milli og gagnkvæma upplýsingamiðlun um með hvaða hætti sé mögulegt að tryggja eldri borgurum viðunandi húsnæði, lífsgæði og umönnun.