Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 320. máls.

Þskj. 393  —  320. mál.



Frumvarp til laga

um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.
Heimild.

    Iðnaðarráðherra er veitt heimild til að gera samning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar innan ramma þessara laga við Teha Investments S.a.r.l. og Novator (eigendurnir) og Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. (félögin) en félögin munu reisa og reka gagnaver í Reykjanesbæ (verkefnið). Í lögum þessum merkir hugtakið „félögin“ Verne Holdings ehf., Verne Real Estate ehf. og íslensk dótturfélög í meirihlutaeigu þeirra, núverandi eða síðari, enda sé starfsemi þeirra í beinum tengslum við verkefnið.
    Samningurinn skal kveða á um þær skuldbindingar af hálfu ríkisins, eigendanna og félaganna sem kunna að þykja nauðsynlegar og viðeigandi fyrir félögin og starfsemina, þ.m.t. framkvæmd á ákvæðum laga þessara. Í slíkum samningi skal ákveðið hversu lengi ákvæði hans skuli gilda og skulu þau eigi gilda skemur en í 20 ár frá undirritun samningsins.
    Samningur sá sem iðnaðarráðherra undirritar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar samkvæmt lögum þessum (fjárfestingarsamningurinn) um meginatriði verkefnisins skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.
    Starfsemi félaganna skal vera í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

2. gr.
Verkefnið.

    Verkefnið sem lög þessi taka til felur í sér að félögin reisa og reka gagnaver í Reykjanesbæ eins og nánar verður kveðið á um í fjárfestingarsamningi sem gerður verður innan ramma laga þessara á milli iðnaðarráðherra, félaganna og eigendanna.

3. gr.
Undanþágur frá lögum.

    Í beinum tengslum við verkefnið skulu félögin og hluthafar þeirra undanþegin takmörkunum sem kveðið er á um í reglum nr. 880/2009, um gjaldeyrismál, sem settar voru á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða í lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum, svo og hvers kyns sams konar eða efnislega svipaðra hafta sem síðar kynnu að verða sett á til viðbótar við slík höft eða í þeirra stað. Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða nánar á um slíka undanþágu.
    Félögin skulu undanþegin ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, þar sem sett eru þau skilyrði að 4/ 5hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara, að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar.
    Félögin skulu undanþegin ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem þess er krafist að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri einkahlutafélags hafi heimilisfesti á Íslandi, svo og sambærilegum síðari ákvæðum.
    Félögin skulu undanþegin ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda verði með öðrum hætti tryggilega séð fyrir brunatryggingum. Ákvæði laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, eiga ekki við um félögin. Félögin skulu viðhalda fullnægjandi viðlagatryggingu.
    Félögin skulu undanþegin greiðslu gatnagerðargjalds samkvæmt lögum nr. 153/2006, um gatnagerðargjald, svo og sams konar eða efnislega svipaðra gjalda og skatta, að því marki sem samþykkt verður milli félaganna og viðeigandi sveitarfélaga.

4. gr.
Skattlagning.

    Félögin skulu greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt í lögum þessum:
     1.      Þrátt fyrir breytingar sem síðar kunna að verða á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu félögin greiða 15% tekjuskatt með eftirfarandi sérákvæðum:
              a.      Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er hærra en 15% skal hið hærra tekjuskattshlutfall ekki gilda um félögin fyrstu fimm árin af gildistíma fjárfestingarsamningsins.
              b.      Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er hærra en 15% eftir fimm fyrstu árin af gildistíma fjárfestingarsamningsins skal það tekjuskattshlutfall gilda um félögin næstu fimm árin af gildistíma fjárfestingarsamningsins, þ.e. frá fimmta til tíunda árs af gildistímanum, þó aldrei hærra en 18%.
              c.      Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er hærra en 18% eftir tíu fyrstu árin af gildistíma fjárfestingarsamningsins skal það tekjuskattshlutfall gilda um félögin það sem eftir er af gildistíma fjárfestingarsamningsins, þó aldrei hærra en 25%.
              d.      Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er lækkað niður fyrir 15% skal sú lækkun gilda um félögin.
     2.      Félögunum skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu almanaksárum eins og nánar er kveðið á um í 8. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartapa frá skattskyldum tekjum vegna fleiri ára, sbr. þessa málsgrein, skal sama gilda um félögin.
     3.      Félögunum skal heimilt að fyrna að fullu kostnað af búnaði sem er notaður, eða er fyrirhugað að nota, í gagnaverinu, yfir líftíma búnaðarins. Til búnaðar telst m.a. rafbúnaður, vélbúnaður, upplýsingatæknibúnaður og fjarskiptabúnaður sem er nauðsynlegur til þess að halda uppi starfrækslu gagnaversins.
     4.      Félögin skulu undanþegin iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, með síðari breytingum, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 160/2002, um útflutningsaðstoð, með síðari breytingum, sem og sköttum eða gjöldum sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar sem síðar kunna að verða lögð á til viðbótar eða í staðinn fyrir iðnaðarmálagjald eða markaðsgjald.
     5.      Stimpilgjöld sem greiða bæri samkvæmt lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, skulu vera 0,15% af öllum stimpilskyldum skjölum sem félögin gefa út eða stofnað er til í tengslum við byggingu gagnaversins.
     6.      Félögin skulu undanþegin ákvæðum 1.–5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
     7.      Félögin skulu þrátt fyrir 35. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, greiða skipulagsgjald, sem nemur 100.000 bandaríkjadölum, af nýbyggingum gagnavers. Greiðslur skulu standa í hlutfalli við framvindu byggingar gagnaversins.
     8.      Í stað fasteignaskatts skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum, svo og sams konar eða efnislega svipaðra gjalda og skatta sem síðar kynnu að verða lagðir á til viðbótar við eða í stað fasteignaskatts, skulu félögin greiða Reykjanesbæ fasteignaskatt sem nemur 1,65% af áætluðu verðmæti allra bygginga, húsnæðis og mannvirkja í eigu félaganna eða á leigu hjá þeim, eða þá annað hlutfall fasteignaskatts sem Reykjanesbær kann almennt að leggja á byggingar af sama toga ef hann er lægri. Skattstofninn nemur 1.030.600.000 kr. að því er varðar núverandi fasteignir félaganna og breytist samkvæmt byggingarvísitölu allt frá þeim mánuði sem félögin hefja viðskipti við viðskiptavini. Skattstofninn fyrir síðari byggingar félaganna, sem reistar eru á lóð þeirra á Valhallarbraut, skal vera kostnaðurinn við gerð útveggja bygginganna eða 85.500 kr. á hvern fermetra, hvort sem lægra er, bundið byggingarvísitölu frá þeim mánuði sem byggingin er tekin í notkun, þ.e. þegar viðskiptavinir hefja að greiða fyrir afnot. Fasteignaskattur skal fyrst lagður á hinn 1. janúar 2011, þ.e. á árinu eftir að starfræksla gagnaversins hefst. Félögunum verður veittur frádráttur af síðari fasteignagjöldum að fjárhæð 44.660.298 kr. vegna skatta sem þegar hafa verið greiddir til Reykjanesbæjar eða eru gjaldfallnir, og Reykjanesbær mun ekki leggja á slíka skatta árið 2010. Fasteignaskattur skal lagður á og innheimtur fyrir sérhvert ár á grundvelli fyrrgreinds álagningarstofns svo sem hann er framreiknaður á grundvelli byggingarvísitölu þess mánaðar sem viðskipti við viðskiptavini hefjast.
     9.      Félögunum skal ekki gert að greiða eignarskatt eða skatta og gjöld sem ekki eru tekjutengd og kunna að verða innleidd eftir undirritun fjárfestingarsamningsins og á gildistíma hans nema slíkir skattar og gjöld séu jafnframt lögð með almennum hætti á önnur íslensk fyrirtæki, þ.m.t. öll önnur gagnaver. Hins vegar skulu félögin undanþegin öllum eignarskatti sem kann að verða tekinn upp í fimm ár frá gildistöku fjárfestingarsamningsins.
     10.      Uppfylli félögin og/eða fasteignir þeirra skilyrði til skráningar sem virðisaukaskattsskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal félögunum ekki gert að leggja fram sérstaka tryggingu vegna skráningarinnar.
     11.      Félögin skulu undanþegin gjöldum skv. 14. gr. og 14. gr. a laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, og hvers kyns núgildandi og síðari gjöldum, enda telst þjónustan sem félögin veita ekki til þeirrar starfsemi sem fellur undir ákvæði laganna.
     12.      Öll viðskipti milli félaganna og dótturfélaga þeirra skulu samrýmast 57. gr. laga nr. 90/ 2003, um tekjuskatt, og meginreglum OECD um viðskipti tengdra aðila og milliverðlagningu.
    Í fjárfestingarsamningnum er heimilt að kveða á um að:
     a.      ekki skuli leggja á félögin umhverfisgjöld eða umhverfisskatta sem tengjast losun lofttegundarinnar CO 2 eða annarri losun eða öðrum mengunarvöldum nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. öll önnur gagnaver, og mismuni ekki félögunum að öðru leyti,
     b.      ekki skuli leggja skatta eða gjöld á raforkukaup og/eða notkun félaganna nema slík gjöld eða skattar séu jafnframt lögð með almennum hætti á önnur íslensk fyrirtæki, þ.m.t. gagnaver, og mismuni ekki félögunum að öðru leyti,
    Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um félögin. Í samræmi við almenn lög skal félögunum heimiluð samsköttun að uppfylltum almennum skilyrðum samsköttunar.
    Á upphaflegum gildistíma fjárfestingarsamningsins geta félögin valið að almenn ákvæði íslenskra skattalaga, eins og þau eru á hverjum tíma, gildi um þau. Beiðni um slíka breytingu skal gerð með skriflegri tilkynningu sem lögð skal fram eigi síðar en 1. júní almanaksárið áður en breytingin á að taka gildi. Berist slík beiðni skulu ríkisstjórnin, eigendurnir og félögin þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattakerfi. Ríkisstjórnin, eigendurnir og félögin skulu koma sér saman um aðferðir við framkvæmd slíkrar breytingar. Eftir það skulu félögin lúta almennum íslenskum skattalögum það sem eftir er af gildistíma fjárfestingarsamningsins.
    Allar tilvísanir í fjárfestingarsamningnum til skatta taka til allra sambærilegra skatta sem kunna að koma í stað þeirra sem vísað er til.

5. gr.
Reikningsskilareglur.

    Með samningi, sem gerður er samkvæmt lögum þessum, má ákveða sérstakar reikningsskilareglur fyrir félögin sem grundvallaðar eru á íslenskum lögum með þeim skýringum og breytingum sem taldar eru viðeigandi. Í slíkum reikningsskilareglum er heimilt að hafa ákvæði þar sem félögunum er heimilt að skrá öll viðskipti sín og gefa út ársreikninga sína í bandaríkjadölum eða annarri mynt að eigin vali í samræmi við landslög og á grundvelli reikningsskilareglna sem gefnar eru út af Alþjóðareikningsskilaráðinu.

6. gr.
Innflutningur.

    Innflutningur og kaup félaganna eða einhvers fyrir þeirra hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir gagnaverið og tengd mannvirki, svo og til reksturs þeirra, skulu vera undanþegin tollum og vörugjöldum samkvæmt tollalögum, nr. 88/2005, og lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, sem og sams konar sköttum eða gjöldum er kunna síðar að verða lögð á til viðbótar eða í staðinn fyrir framangreind gjöld. Með samningum, sem gerðir eru innan ramma laga þessara, er heimilt að fresta álagningu, fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar gagnaversins.
    

7. gr.

Framsal.


    Heimilt er að semja um aðilaskipti og framsal á réttindum og skuldbindingum félaganna og eigendanna á fjárfestingarsamningnum með tilteknum skilyrðum sem fram skulu koma í fjárfestingarsamningnum.

8. gr.
Lögsaga og lausn deilumála.

    Uppbygging, túlkun og framkvæmd samninga sem gerðir eru innan ramma þessara laga skal lúta íslenskum lögum og lögsögu íslenskra dómstóla. Heimilt er þó að vísa ágreiningi til gerðardóms eins og nánar er kveðið á um í fjárfestingarsamningnum.

9. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að ríkisstjórn Íslands og iðnaðarráðherra fyrir hennar hönd verði veitt heimild til að semja við Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. og eigendur þeirra, Teha Investments S.a.r.l. og Novator, um gagnaver í Reykjanesbæ í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er veitt heimild til að semja við Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. um að félögin reisi og reki gagnaver í Reykjanesbæ. Þegar verkefninu er lokið er gert ráð fyrir allt að fjórum aðaltölvuverum og nokkrum stuðningsbyggingum sem hýsa meira en 20.000 fermetra tæknirými og nota 80–140 MW raforku til að knýja og kæla tölvubúnað. Kveðið er á um að félögin starfi samkvæmt ákvæðum íslenskra laga.
    Í öðru lagi er kveðið á um skattlagningu vegna byggingar og reksturs gagnaversins en hún verður í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en með nokkrum sérákvæðum.
    Í þriðja lagi er kveðið á um lögsögu íslenskra dómstóla og stöðu gerðardóms, auk þess sem íslensk lög ráði um túlkun og skýringu fjárfestingarsamningsins.
    Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir aðdraganda fjárfestingarsamnings við Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. Einnig er að finna í frumvarpinu lýsingu á fyrirhuguðu gagnaveri og eignarhaldi þess, frávikum frá reglum um skatta og gjöld, umhverfismálum tengdum hinu fyrirhugaða gagnaveri og spá um áhrif þess á þjóðarhag.
    Í fylgiskjölum með frumvarpinu er að finna lýsingu á fyrirhuguðu verkefni (fskj. I), helstu efnisatriðum fyrirhugaðs fjárfestingarsamnings (fskj. II), lýsingu á kaupsamningi um Valhallarbraut 868 (fskj. III), lýsingu á lóðarleigusamningi (fskj. IV), helstu ákvæðum samnings um leyfisveitingar og gjaldtöku við sveitarfélagið (fskj. V), helstu ákvæðum raforkusamnings við Landsvirkjun (fskj. VI) og helstu ákvæðum flutningssamnings við Landsnet (fskj. VII). Einnig er birt sem fylgiskjal starfsleyfi frá Umhverfisstofnun (fskj. VIII).

1. Aðdragandi fjárfestingarsamningsins.
    Í nóvember 2007 var Verne Holdings ehf. skráð á Íslandi með stofnfé frá General Catalyst Partners og Novator. Í febrúar 2008 keypti Verne tvær stórar vörugeymslur og undirritaði samning við KADECO í Reykjanesbæ um leigu á jörð þar sem áður var herstöð NATO.
    Í ljósi breyttra aðstæðna á Íslandi í efnahagsmálum kom Verne, í október 2008, til fundar við fulltrúa ríkisstjórnar Íslands frá iðnaðar- og fjármála ráðuneytum til að ræða mögulegan fjárfestingarsamning. Fulltrúar úr stjórn Verne útskýrðu þau áhrif sem gagnamiðstöðvaiðnaðurinn gæti haft á Ísland og nauðsyn þess að fjárfestingarsamningur væri fyrir hendi til að tryggja að viðskiptavinir og fjármögnun fengjust til verkefnisins. Viðræður fóru einnig fram varðandi mikilvægi þess að tryggja að Ísland léti í té skatta- og lagalegt umhverfi fyrir gagnaver sem gerði þeim kleift að keppa á árangursríkan hátt við önnur lönd Evrópu og Norður-Ameríku.
    Í janúar 2009 var fyrstu drögum að samkomulagi um fjárfestingarsamning dreift innan Verne, iðnaðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Sameiginlega var unnið að gerð fjárfestingarsamnings næstu mánuði þar á eftir.
    Í október 2009 árituðu fulltrúar iðnaðarráðuneytis og Verne Holdings ehf. drög að fjárfestingarsamningi vegna gagnavers Verne. Landsvirkjun og Verne undirrituðu í sama mánuði orkusamning til 20 ára um allt að 25 MW af orku. Undirbúningur hófst að frumvarpi til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ. Einnig hófst undirbúningur að tilkynningu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í samræmi við ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð.
    Í nóvember 2009 var undirritaður samningur milli sveitarfélagsins Reykjanesbæjar og Verne um þátt sveitarfélagsins í fjárfestingarsamningnum.

2. Lýsing á fyrirhuguðu gagnaveri í Reykjanesbæ.
    Verne Holdings ehf. og dótturfyrirtæki þess (sameiginlega nefnd „fyrirtækið“, „félagið“ eða „Verne“) er fyrirtæki í einkaeigu sem vinnur að uppbyggingu fyrsta stóra gagnaversins á Íslandi. Gagnaverið mun þjóna hinum ört vaxandi hnattræna markaði fyrir örugga hýsingu tölvubúnaðar, en sá markaður mælist í milljörðum evra. Í dag er enga sambærilega starfsemi að finna á Íslandi. Verne hyggst taka forustu í uppbyggingu gagnaveraiðnaðar á Íslandi sem er nýr, sjálfbær, vaxandi og grænn iðnaður. Hann skapar varanleg störf fyrir faglært fólk og verkafólk í byggingariðnaði, eykur skatttekjur, hefur í för með sér umtalsverða erlenda fjárfestingu og nýtir grunngerð landsins á sviði orku og fjarskipta á ábyrgan hátt gagnvart umhverfinu.
    Verne byggir um þessar mundir upp gagnaverssvæði við Ásbrú í Reykjanesbæ. Fyrirtækið keypti í upphafi verkefnisins tvær stórar vörugeymslur af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, KADECO. Nú standa yfir breytingar á þeim til afnota sem hluta af fyrirhugaðri aðstöðu með fleiri byggingum. Þegar verkefninu er lokið er gert ráð fyrir allt að fjórum aðaltölvuverum og nokkrum stuðningsbyggingum sem hýsa meira en 20.000 fermetra tæknirými og nota 80–140 MW raforku frá landsnetinu til að knýja og kæla tölvubúnað. Byggingarnar munu hýsa rafkerfi, vélakerfi og upplýsingakerfi til að reka og styðja tölvubúnaðinn. Stoðkerfi Verne eru hönnuð með öflugum varaleiðum og viðlagabúnaði til að tryggja stöðuga og örugga þjónustu.
    Gert er ráð fyrir að kostnaður við að ljúka við smíði allrar miðstöðvarinnar, samkvæmt núverandi áætlun, verði rúmar 470 milljónir evra (700 milljónir bandaríkjadala). Þegar henni er lokið munu u.þ.b. 100 manns gegna fullu starfi í gagnaverinu, annaðhvort beint eða á vegum íslenskra undirverktaka. Á áætluðum sjö ára byggingartíma er gert ráð fyrir að 80–120 manns muni starfa þar í byggingarvinnu að meðaltali, til viðbótar við starfslið gagnaversins. Verne hyggst ljúka fyrsta áfanga verkefnisins á árinu 2010, en hann mun kosta röskar 67 milljónir evra (100 milljónir bandaríkjadala). Auk þeirra grunnkerfa, sem komið verður upp til að þjóna viðskiptavinum Verne, mun félagið reisa nýja spennistöð fyrir hönd Landsnets sem verður hluti af grunngerð gagnaverssvæðisins og Ásbrúar.
    Viðskiptalíkan Verne byggist á heildsölu gagnaversþjónustu til stórra viðskiptavina. Fyrirtækið býður viðskiptavinum sínum margvíslega þjónustu þar sem miklar kröfur eru gerðar um áreiðanleika, þ.m.t. raforku, kælingu, tæknirými, öryggi, tengingar innan rýmisins og annað sem þarf til reksturs tölvukerfa. Þjónustan er að jafnaði seld til langs tíma með 5–10 ára þjónustu- eða leigusamningnum. Væntanlegir viðskiptavinir Verne eru stórir notendur gagnaversþjónustu, m.a. á sviði fjármálaþjónustu, netmiðlunar og fjölmiðla, lífvísinda og genatækni, olíu- og gasfélög, auk mennta- og rannsóknastofnana á sviði afkastamikillar reiknitækni.
    Verne mun einnig leita viðskiptavina meðal fyrirtækja sem samþætta og endurselja upplýsingatækni á hnattrænum markaði. Verne býður þó ekki almenna stjórnun upplýsingakerfa eða tengda þjónustu sem hluta af meginstarfsemi sinni. Verne gerir ráð fyrir að ráða íslenska samstarfs- og þjónustuaðila til að sinna verkefnum á því sviði eftir þörfum viðskiptavina sinna.

3. Eignarhald gagnaversins í Reykjanesbæ.
    Verne Holdings ehf. er einkahlutafélag, skráð á Íslandi. Verne á þrjú dótturfyrirtæki, Verne Global Inc., skráð í Bandaríkjunum, Verne Global Ltd., skráð í Bretlandi, og Verne Real Estate ehf., skráð á Íslandi.
    Verne Holdings ehf. er í eigu hóps hluthafa sem hver um sig á minni hluta í fyrirtækinu, en þeir tveir stærstu eru Novator og Teha Investments S.A.R.L. Novator er alþjóðlegur fjárfestir. Teha Investments S.A.R.L. er dótturfélag Teha Holdings, LLC, dótturfélags General Catalyst Partners V, sem er meðal sjóða í umsjón General Catalyst Partners LLC, bandarísks áhættufjárfestingarfyrirtækis með yfir 2 milljarða bandaríkjadala í stýringu. Auk Novator og Teha eiga stjórnendur talsverðan hlut í fyrirtækinu. Hvorki Novator né Teha eiga meira en 40% í Verne.
    Ætlun Verne er að fjármagna næstu áfanga verkefnisins með hlutafé frá nýjum fjárfestum sem munu bætast í hóp hluthafa félagsins.

4. Frávik frá reglum um skatta og gjöld.
    Í lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, í lögum nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, og í lögum nr. 51/2009, um heimild til samninga um álver í Helguvík, er kveðið á um að þar tilgreind félög, sem stofnuð eru í þeim tilgangi að reisa og reka viðkomandi álver, skuli greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt í þeim lögum. Er síðan með tæmandi hætti talið upp í lögunum hvaða skattalegu frávik gilda fyrir viðkomandi félög, með sams konar hætti og talið er upp í fjárfestingarsamningum sem gerðir voru vegna álveranna.
    Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er með sams konar hætti og í framangreindum lögum og fjárfestingarsamningum gert ráð fyrir því að almennar skattareglur gildi um Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. (félögin) vegna gagnavers í Reykjanesbæ (verkefnið), með tilteknum frávikum sem með tæmandi hætti eru tilgreind í frumvarpinu. Eru þau frávik að mörgu leyti sambærileg þeim sem kveðið er á um í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.
    Nánar er vísað til umfjöllunar um 4. gr. frumvarpsins varðandi upptalningu á þeim frávikum á sköttum og gjöldum sem lögð eru til með frumvarpinu, en í stuttu máli koma fram eftirfarandi þættir:
     1.      Tryggt er að tekjuskattshlutfall verði ekki hærra en 15% fyrstu 5 ár af gildistíma fjárfestingarsamningsins, 18% næstu 5 ár og 25% síðustu 10 árin.
     2.      Sérreglur varðandi fyrningu eigna.
     3.      Undanþága frá iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi.
     4.      Sérreglur varðandi stimpilgjald og skipulagsgjald.
     5.      Sérreglur varðandi útreikning fasteignaskatts.
     6.      Undanþága frá rafmagnsöryggisgjaldi.
     7.      Ýmis öryggisákvæði varðandi upptöku nýrra skatta.
    Öll eru frávikin afmörkuð við félögin Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf., íslensk dótturfélög þeirra, og hið skilgreinda verkefni sem er gagnaverið í Reykjanesbæ, sbr. 1. gr. frumvarpsins.
    Í samræmi við 61. gr. EES-samningsins hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verið tilkynnt um þá ríkisaðstoð (byggðaaðstoð) sem í þessu fyrirkomulagi felst, með sama hætti og gert var vegna áðurgreindra laga nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009. Eins og fram kemur í drögum að fjárfestingarsamningi við Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. verður hann gerður með fyrirvara um samþykki ESA.

5. Umhverfismál.
5.1. Starfsleyfi frá Umhverfisstofnun.
    Hinn 8. september 2009 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Verne Holdings ehf. til reksturs varaaflstöðvar með tilheyrandi búnaði á Valhallarbraut 868, Vallarheiði í Reykjanesbæ. Starfsleyfið sem gildir til 30. september 2021 er veitt í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerðar 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Starfsleyfið er birt í heild sinni sem fylgiskjal VII með frumvarpi þessu.

5.2 Byggingarleyfi.
    Reykjanesbær hefur gefið út þrjú byggingarleyfi, öll dags. 28. maí 2009, vegna gagnavers að Valhallarbraut 868 í Reykjanesbæ. Byggingarleyfin taka til byggingar spennistöðvar (auðkennd KEF010, mhl. 05), byggingar dísilvaraaflsstöðvar (auðkennd KEF110, mhl. 01) og byggingar varaaflgjafarýmis og skrifstofa (auðkennd KEF101, 102 og 103). KEF101 er breyting á núverandi byggingu en hinar eru nýbyggingar.

6.    Samningar vegna kaupa á raforku og flutningi á raforku til gagnaversins í Reykjanesbæ.
    Gerður hefur verið raforkusamningur vegna fyrirhugaðs gagnavers við Landsvirkjun. Þá hefur Verne Holdings ehf. gert samning um flutning raforku fyrir rekstur gagnaversins við Landsnet hf. Lýsingar á þessum samningum er að finna í fylgiskjölum.

7. Áætluð samfélags- og efnahagsleg áhrif.
    Í skýrslu KPMG frá 23. nóvember 2009 er fjallað um samfélags- og efnahagsleg áhrif af fyrirhuguðu gagnaveri á Ásbrúarsvæðinu við Reykjanesbæ á vegum Verne Holdings ehf. (sjá fylgiskjal IX við frumvarpið). Í skýrslunni kemur fram að Reykjanesbær og nærliggjandi sveitarfélög er svæði sem átt hefur undir högg að sækja varðandi hagvöxt á undanförnum árum og hefur verið skilgreint af Eftirlitsstofnun EFTA sem svæði sem fullnægi skilyrðum fyrir mögulegum ríkisstyrk. Gert er ráð fyrir að Verne muni skila Reykjanesbæ og landinu öllu bæði áþreifanlegum og óáþreifanlegum ávinningi ef af verkefninu verður, sbr. eftirfarandi greinargerð sem er útdráttur úr skýrslunni.

7.1 Atvinnusköpun.
    Uppbygging og rekstur gagnaversins mun hafa mikilvæga atvinnusköpun í för með sér. Reiknað er með að tæplega 100 stöðugildi verði til að verkefninu loknu, aðallega fyrir háskólamenntað og sérfræðimenntað fólk á sviði rafmagnsverkfræði, vélaverkfræði og upplýsingatækni. Á sjö ára uppbyggingartímabili verkefnisins er gert ráð fyrir að um 100 störf verði til að meðaltali í byggingariðnaði.
    Margföldunaráhrif á ársverk gætu verið á bilinu 2,2–3,0 störf tengd rekstri gagnaversins og um 2,7 störf í byggingariðnaði á uppbyggingartímanum sé stuðst við gögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Byggt á meðalgildum má því búast við að um 158 störf skapist til viðbótar við þau 100 sem verða í gagnaverinu sjálfu, og um 171 störf til viðbótar við þau 100 sem verða við uppbyggingu þess. Sköpuð störf geta verið m.a. ýmis þjónustustörf, vörustjórnun og gagnavinnsla. Óbein heildaratvinnusköpun gæti þannig numið allt að 330 stöðugildum.
    Byggt á framangreindu gæti verkefni Verne lækkað núverandi atvinnuleysi allt að 35% sé gengið út frá þeirri forsendu að allt starfsfólk verði af Suðurnesjum. Margföldunaráhrif ársverka sem tengjast rekstri og uppbyggingu gagnaversins er erfitt að meta nákvæmlega.

7.2 Skatttekjur.
    Verne gerir ráð fyrir að skila töluverðum skatttekjum til ríkisins og sveitarfélaga á svæðinu, samtals um 14 milljörðum íslenskra króna (108 milljónum bandaríkjadala) á tímabilinu 2010–2019 í formi tekjuskatts frá félaginu, tekjuskatts starfsfólks, fasteignagjalda og annarra gjalda.

7.3 Önnur gjöld og neysla.
    Áætlanir Verne gera ráð fyrir að keypt verði umtalsvert magn af raforku til að knýja gagnaverið og kæla netþjóna sem hýstir eru í gagnaverinu. Á tímabilinu 2010–2019 gerir fyrirtækið ráð fyrir að kaupa raforku fyrir um 30–36 milljarða íslenskra króna (240–290 milljónir bandaríkjadala) auk þess sem tekjur innlendra fyrirtækja í viðskiptum við Verne með vörur og þjónustu munu aukast. Viðskiptavinir Verne munu auk þess verða stórnotendur að fjarskiptaþjónustu til og frá landinu, sem mun fyrst og fremst byggjast á tengingum um sæstreng.

7.4 Bein erlend fjárfesting.
    Verkefnið er fjármagnað erlendis frá og felur því í sér beina erlenda fjárfestingu. Einnig ber að nefna að tekjur fyrirtækisins verða mestmegnis af útflutningi þjónustu til erlendra fyrirtækja sem mun skapa útflutningstekjur. Til að stuðla að efnahagslegum bata á Íslandi er mikilvægt að auka fjárfestingu erlendra aðila hérlendis og útflutningstekjur.

7.5 Athygli stórra alþjóðlegra fyrirtækja.
    Ákvörðun Verne að fjárfesta hérlendis mun væntanlega vekja áhuga og traust alþjóðlegra fyrirtækja sem hefðu ekki annars litið til Íslands með fjárfestingar í huga. Markaður fyrir gagnaver er ört vaxandi og þjónusta þeirra höfðar til stórra fyrirtækja (Forbes Global 2000 fyrirtækja). Áhugi slíkra fyrirtækja er til þess fallinn að opna augu fjárfesta fyrir Íslandi sem fjárfestingarkosti og ákjósanlegu rekstrarumhverfi.

7.6 Í takt við fjárfestingarstefnu landsins.
    Núverandi fjárfestingarstefna iðnaðarráðuneytis og Fjárfestingarstofu er að laða að eftirsóknarverðar nýfjárfestingar í grænni atvinnustarfsemi, hátækniiðnaði, nýsköpun og öðrum skapandi greinum. Starfsemi Verne er því vel í takt við þessa stefnu þar sem gagnaverið er umhverfisvænt, orkufrekt og mun nýta sér fjarskiptatækni í miklum mæli. Með þessari starfsemi mun fjölbreytni í atvinnulífi aukast á Íslandi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er iðnaðarráðherra heimilað að ganga til samninga á grundvelli frumvarps þessa við Teha Investments S.a.r.l. og Novator (eigendur) og Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. (félögin) um byggingu og rekstur gagnavers í Reykjanesbæ. Í fjárfestingarsamningi við félögin skal kveðið á um skuldbindingar ríkisins og félaganna og eigenda þeirra sem hin fyrirhugaða starfsemi gefur til kynna. Þar skal einnig fjallað um framkvæmd ákvæða laganna, eftir því sem nauðsynlegt er talið. Í samningnum skal kveðið á um gildistíma ákvæða hans sem ekki skal vera skemmri en 20 ár frá undirritun samnings.
    Gert er ráð fyrir að fjárfestingarsamningurinn um verkefnið verði birtur í B-deild Stjórnartíðinda að undirritun lokinni. Þá skulu félögin starfa samkvæmt íslenskum lögum og reglum með þeim frávikum sem í frumvarpi þessu greinir.

Um 2. gr.


    Í greininni er kveðið á um verkefnið sem lögin fjalla um. Verkefnið er skilgreint sem bygging gagnavers á Reykjanesi með tæknirými að stærð allt að 20.000 fermetrum. Um nánari lýsingu á verkefninu vísast til í 2. kafla almennra athugasemda og fylgiskjals I.

Um 3. gr.


    Með greininni eru lagðar til tilteknar undanþágur frá almennum lögum vegna verkefnisins.
    Í fyrsta lagi er lagt til að í beinum tengslum við verkefnið skulu félögin og hluthafar þeirra undanþegin takmörkunum sem kveðið er á um í reglum nr. 880/2009 (áður 1130/2008), um gjaldeyrismál, sem settar voru á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða í lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992. Er slík undanþága talin nauðsynleg í ljósi þess að erlendir aðilar eru eigendur að félögunum og þess að gagnaverið mun fyrst og fremst þjóna alþjóðlegum viðskiptavinum utan Íslands.
    Þar sem erlendir aðilar eru eigendur að félögunum er í öðru lagi talið nauðsynlegt að heimila frávik frá því skilyrði laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna að 4/ 5hlutar hlutafjár hlutafélags séu eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar. Skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, er það á færi ráðherra að veita undanþágur frá ákvæðinu en með tilliti til stærðar verkefnisins þykir eðlilegt að fjalla um undanþáguna í frumvarpi þessu.
    Í þriðja lagi er með sama hætti lagt til að félögin skuli undanþegin ákvæðum 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem krafist er að meiri hluti stjórnarmanna og framkvæmdastjóri einkahlutafélags hafi heimilisfesti á Íslandi.
    Í fjórða lagi er lagt til að félögin verði, samkvæmt frumvarpi þessu, undanþegin ákvæðum laga um skyldutryggingar brunatjóns og viðlaga. Vegna stærðar verkefnisins fellur það illa að ákvæðum laga um þessar skyldutryggingar. Þess í stað skulu eignirnar vera tryggðar á þann hátt sem tíðkast í sambærilegri starfsemi.
    Í fimmta lagi er lagt til að félögin verið undanþegin greiðslu gatnagerðargjalds samkvæmt lögum nr. 153/2006, svo og sams konar eða efnislega svipaðra gjalda og skatta, að því marki sem samningar um slíkt eru gerðir milli félaganna og viðeigandi sveitarfélaga.

Um 4. gr.


    Fjárfestingarsamningurinn sem vísað er til í frumvarpinu (og ráðgert er að gera á grundvelli laganna verði frumvarpið að lögum) byggist á því að íslensk skattalög gildi nema kveðið sé á um annað í fjárfestingarsamningnum og frumvarpi þessu. Í upphafi greinarinnar er sett fram sú aðalregla að félögin greiði alla almenna skatta og opinber gjöld hér á landi vegna gagnaversins samkvæmt lögum sem gilda á hverjum tíma með þeim sérákvæðum sem í greininni eru tilgreind. Önnur ákvæði greinarinnar eru því tæmandi upptalning frávika frá aðalreglunni. Gert er ráð fyrir því að félögin verði sjálfstæðir skattaðilar.
    Í 1. tölul. 1. mgr. er að finna ákvæði um tekjuskatt félaganna. Félögin munu greiða 15% tekjuskatt í samræmi við almennar reglur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir eftirfarandi frávikum frá almennum skattlagningarreglum lögaðila að því er snýr að tekjuskatti.
    Í a-lið 1. tölul. er kveðið á um að verði hækkanir á tekjuskattshlutfalli á hlutafélög, umfram 15%, þá skuli slík hækkun ekki gilda fyrir félögin á fyrstu fimm árum af gildistíma fjárfestingarsamningsins.
    Í b-lið 1. tölul. er kveðið á um að ef tekjuskattshlutfall á hlutafélög er hærra en 15% eftir fyrstu fimm árin af gildistíma samningsins skuli það tekjuskattshlutfall gilda fyrir félögin á næstu fimm árum af gildistíma samningsins (þ.e. frá 5 til 10 árs af gildistímanum), en þó aldrei vera hærra en 18% á því tímabili.
    Í c-lið 1. tölul. er kveðið á um að ef tekjuskattshlutfallið er hærra en 18% eftir tíu fyrstu árin af gildistíma samningsins skuli það tekjuskattshlutfall gilda um félögin það sem eftir er af gildistíma samningsins, en þó aldrei vera hærra en 25%.
    Í d-lið 1. tölul. er kveðið á um að ef tekjuskattshlutfall á hlutafélög er lækkað niður fyrir það sem nú er þá gildi hin nýja almenna skattprósenta einnig fyrir félögin. Þykir eðlilegt að félögin njóti þeirra breytinga í sama mæli og önnur fyrirtæki fram að þeim tíma er rekstur hefst.
    Í 2. tölul. 1. mgr. er heimild til að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu almanaksárum með þeim skilyrðum sem fram koma í 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartaps fleiri ára frá skattskyldum tekjum skuli hið sama gilda um félögin. Er ákvæðið í samræmi við 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003 þar sem umrædd heimild er tíu ár.
    Í 3. tölul. 1. mgr. er ákvæði um fyrningu kostnaðar að fullu af búnaði sem notaður er eða er fyrirhugað að nota í gagnaverinu. Er nánar tilgreint hvað telst til búnaðar í þessu sambandi. Um fyrningu gilda að öðru leyti ákvæði laga um tekjuskatt.
    Í 4. tölul. 1. mgr. eru félögin undanþegin iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum um iðnaðarmálagjald, nr. 134/1993, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002. Þetta þykir eðlilegt þar sem um er að ræða markaðar tekjur til verkefna sem félögin hafa ekki not af. Sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.
    Í 5. tölul. 1. mgr. er stimpilgjald af öllum stimpilskyldum skjölum sem félögin gefa út eða stofnað er til í tengslum við byggingu gagnaversins ákveðið 0,15%. Sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.
    Í 6. tölul. 1. mgr. eru félögin undanþegin tilteknum gjaldaákvæðum laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009. Þau rafföng sem félögin flytja inn og kunna að falla undir þessi ákvæði munu ekki fara á almennan markað og Neytendastofa mun ekki hafa eftirlit með þeim. Af þeim sökum þykir ekki óeðlilegt að félögin verði undanþegin gjaldtökunni.
    Í 7. tölul. 1. mgr. er veitt heimild til að ákveða að greiða skuli umsamda fjárhæð, 100.000 bandaríkjadali, sem skipulagsgjald samkvæmt lögum nr. 73/1997. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.
    Í 8. tölul. 1. mgr. er kveðið á um fyrirkomulag fasteignaskatts sem félögin greiða til Reykjanesbæjar. Samkvæmt ákvæðinu skal fasteignaskatturinn nema 1,65% af áætluðu verðmæti allra bygginga, húsnæðis og mannvirkja í eigu félaganna eða á leigu hjá þeim. Í ákvæðinu er nánar kveðið á um skattstofninn og fleiri þætti sem snúa að fasteignaskatti. Sérákvæði um fasteignaskatta hefur áður verið að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.
    Í 9. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að félögunum skuli ekki gert að greiða eignarskatt eða skatta og gjöld, sem ekki eru tekjutengd og kunna að verða innleidd eftir undirritun fjárfestingarsamnings þessa og á gildistíma hans, nema slíkir skattar og gjöld séu jafnframt lögð með almennum hætti á önnur íslensk fyrirtæki, þ.m.t. öll önnur gagnaver. Hins vegar skulu félögin undanþegin öllum eignarskatti sem kann að verða tekinn upp í fimm ár frá gildistöku fjárfestingarsamnings þessa.
    Í 10. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að uppfylli félögin og/eða fasteignir þeirra skilyrði til skráningar sem virðisaukaskattsskyldur aðili samkvæmt lögum um virðisaukaskatt skal félögunum ekki gert að leggja fram sérstaka tryggingu vegna skráningarinnar.
    Í 11. tölul. 1. mgr. er lagt til að félögin skuli undanþegin gjöldum skv. 14. gr. og 14. gr. a í lögum nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, og hvers kyns núgildandi og síðari gjöldum, enda áskilið að þjónustan sem félögin veita teljist ekki til þeirrar starfsemi sem fellur undir ákvæði laganna.
    Í 12. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að öll viðskipti milli félaganna og dótturfélaga þeirra skuli samrýmast 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og meginreglum OECD um viðskipti tengdra aðila og milliverðlagningu. Efnislega svipuð ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.
    Í 2. mgr. greinarinnar er lagt til að í fjárfestingarsamningi verði heimilt að kveða á um eftirtalin atriði:
     a.      Ekki skuli lögð umhverfisgjöld eða umhverfisskattar, sem tengjast losun lofttegundanna CO 2 eða annarri losun eða öðrum mengunarvöldum, á félögin nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi og mismuni ekki félögunum að öðru leyti. Í ákvæðinu felst að íslensk stjórnvöld munu ekki leggja umhverfisgjöld eða umhverfisskatta vegna losunar gróðurhúsalofttegunda á félögin umfram það sem önnur sambærileg fyrirtæki á Íslandi kunna að þurfa að bera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
     b.      Ekki skuli leggja á gjöld eða skatta í tengslum við raforkukaup og/eða raforkunotkun félaganna nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi og mismuni ekki félögunum að öðru leyti.
    Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.
    Í 3. mgr. er tekið fram með ótvíræðum hætti að félögin verði bundin af almennum reglum íslenskra laga varðandi skattframtal, álagningu, viðurlög og málskot. Ágreiningi um túlkun samningsákvæða má þó skjóta til gerðardóms samkvæmt ákvæðum fjárfestingarsamningsins. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009. Jafnframt skal félögunum heimiluð samsköttun að uppfylltum almennum skilyrðum samsköttunar.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að á upphaflegum gildistíma fjárfestingarsamningsins sé félögunum heimilt að velja þann kost að lúta almennum íslenskum skattalögum sem í gildi eru hverju sinni. Beiðni um slíka breytingu skal lögð fram skriflega eigi síðar en 1. júní þess almanaksárs sem fer á undan því almanaksári sem breytingin á að taka gildi. Berist slík beiðni skulu ríkisstjórnin, eigendurnir og félögin þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattakerfi. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.

Um 5. gr.


    Í greininni er ákveðið að aðilar geti samið um sérstakar reikningsskilareglur fyrir félögin sem grundvallaðar eru á íslenskum lögum með þeim skýringum og undanþágum sem taldar eru viðeigandi. Heimila má félögunum að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í bandaríkjadölum, eða annarri mynt, í samræmi við lög um ársreikninga og reglur Alþjóðareikningsskilaráðsins. Efnislega svipuð ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.

Um 6. gr.


    Samkvæmt tollalögum er heimilt að fella niður tolla og vörugjöld af hráefnum og efnivörum til iðnaðarframleiðslu, svo og af vélum og tækjum til framleiðslunnar. Engin gjöld eru nú á hráefnum og efnivörum. Eins er um fjárfestingarvörur sem fluttar eru inn frá EES- ríkjum og öðrum löndum sem fríverslunarsamningar eru við. Í fyrri málslið greinarinnar er við það miðað að felldir verði niður tollar og vörugjöld af innflutningi og kaupum félaganna á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir gagnaverið og tengd mannvirki, sem kunna að verða flutt inn frá öðrum löndum og bera tolla eða vörugjöld. Í síðari málslið greinarinnar er veitt heimild til að fresta álagningu, fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar álversins. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997, nr. 12/2003 og nr. 51/2009.

Um 7. gr.


    Í greininni kemur fram að semja megi um að félögin og eigendum þess sé heimilt að framselja fjárfestingarsamninginn við tilteknar afmarkaðar aðstæður.

Um 8. gr.


    Við uppbyggingu, túlkun og framkvæmd samninga sem gerðir verða innan ramma laga þessara skal farið að íslenskum lögum. Heimild skal þó vera til þess að vísa ágreiningi til gerðardóms.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.





Fylgiskjal I.


Lýsing á fyrirhuguðu gagnaveri í Reykjanesbæ.


1. Bakgrunnur Verne og forsaga
Hvað er Verne?
    Verne Holdings ehf. og dótturfyrirtæki þess (sameiginlega nefnd „fyrirtækið“, „félagið“ eða „Verne“) er fyrirtæki í einkaeigu sem vinnur að uppbyggingu fyrsta stóra gagnaversins á Íslandi. Gagnaverið mun þjóna hinum ört vaxandi hnattræna markaði fyrir örugga hýsingu tölvubúnaðar, en sá markaður mælist í milljörðum evra. Í dag er enga sambærilega starfsemi að finna á Íslandi. Verne hyggst taka forystu í uppbyggingu gagnaveraiðnaðar á Íslandi, sem er nýr, sjálfbær, vaxandi og grænn iðnaður. Hann skapar varanleg störf fyrir faglært fólk og verkafólk í byggingariðnaði; eykur skatttekjur; hefur í för með sér umtalsverða erlenda fjárfestingu; og nýtir grunngerð landsins á sviði orku og fjarskipta á ábyrgan hátt gagnvart umhverfinu.
    Verne byggir um þessar mundir upp gagnaverssvæði við Ásbrú í Reykjanesbæ. Fyrirtækið keypti í upphafi verkefnisins tvær stórar vörugeymslur af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, KADECO. Nú standa yfir breytingar á þeim til afnota sem hluta af fyrirhugaðri aðstöðu með fleiri byggingum. Þegar verkefninu er lokið er gert ráð fyrir allt að fjórum aðaltölvuverum og nokkrum stuðningsbyggingum sem hýsa meira en 20.000 fermetra tæknirými og nota 80–140 MW raforku frá landsnetinu til að knýja og kæla tölvubúnað. Byggingarnar munu hýsa rafkerfi, vélakerfi og upplýsingakerfi til að reka og styðja tölvubúnaðinn. Stoðkerfi Verne eru hönnuð með öflugum varaleiðum og viðlagabúnaði til að tryggja stöðuga og örugga þjónustu.
    Gert er ráð fyrir að kostnaður við að ljúka við smíði allrar miðstöðvarinnar, samkvæmt núverandi áætlun, verði rúmar 470 milljónir evra (700 milljónir bandaríkjadala). Þegar henni er lokið munu u.þ.b. 100 manns gegna fullu starfi í gagnaverinu, annaðhvort beint eða á vegum íslenskra undirverktaka. Á áætluðum sjö ára byggingartíma er gert ráð fyrir að 80–120 manns muni starfa þar í byggingarvinnu að meðaltali, til viðbótar við starfslið gagnaversins. Verne hyggst ljúka fyrsta áfanga verkefnisins á árinu 2010, en hann mun kosta röskar 67 milljónir evra (100 milljónir bandaríkjadala). Auk þeirra grunnkerfa, sem komið verður upp til að þjóna viðskiptavinum Verne, mun félagið reisa nýja spennistöð fyrir hönd Landsnets sem verður hluti af grunngerð gagnaverssvæðisins og Ásbrúar.
    Viðskiptalíkan Verne byggir á heildsölu gagnaversþjónustu til stórra viðskiptavina. Fyrirtækið býður viðskiptavinum sínum margvíslega þjónustu þar sem miklar kröfur eru gerðar um áreiðanleika, þ.m.t. raforku, kælingu, tæknirými, öryggi, tengingar innan rýmisins og annað sem þarf til reksturs tölvukerfa. Þjónustan er að jafnaði seld til langs tíma með 5–10 ára þjónustu- eða leigusamningnum. Væntanlegir viðskiptavinir Verne eru stórir notendur gagnaversþjónustu, m.a. á sviði fjármálaþjónustu, netmiðlunar og fjölmiðla, lífvísinda og genatækni, olíu- og gasfélög, auk mennta- og rannsóknarstofnana á sviði afkastamikillar reiknitækni.
    Verne mun einnig leita viðskiptavina meðal fyrirtækja sem samþætta og endurselja upplýsingatækni á hnattrænum markaði. Verne býður þó ekki almenna stjórnun upplýsingakerfa eða tengda þjónustu sem hluta af meginstarfsemi sinni. Verne gerir ráð fyrir að ráða íslenska samstarfs- og þjónustuaðila til að sinna verkefnum á því sviði eftir þörfum viðskiptavina sinna.

Gagnaveramarkaðurinn og markaðsþróun að undanförnu
    Gagnaveraiðnaðurinn veltir milljörðum evra á heimsvísu. Hlutverk gagnavera (sem stundum eru nefnd „netþjónabú“) er að hýsa tölvubúnað og fylgihluti á borð við fjarskipta- og geymslubúnað með öruggum hætti. Síaukin notkun og spurn eftir gögnum og rafrænni þjónustu frá neytendum og fyrirtækjum hefur leitt til stöðugs vaxtar iðnaðarins á undanförnum áratug sem nemur 15–25% á hverju ári. Þrátt fyrir núverandi ástand efnahagsmála er búist við að gagnaver stækki um 10–15% á árinu 2009.
    Helstu breytingar sem nú standa yfir á sviði gagnavera eru meðal annarra:
     *      Aukinn vilji til að nota fjarlæg gagnaver
     *      Aukin útvistun uppbyggingar gagnavera og starfseminnar sjálfrar
     *      Hækkandi heildarkostnaður af því að eiga og reka eigið gagnaver
     *      Umtalsverð aukning orkunotkunar gagnavera og meiri kostnaður vegna hennar
     *      Aukin áhersla á nýja tækni til að auka hagkvæmni gagnavera
     *      Vaxandi áhyggjur innan iðnaðarins vegna áhrifa væntanlegrar löggjafar um losun koltvísýrings
    Vaxandi orkuþörf gagnavera er mjög markverð. Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna áætlar að þarlend gagnaver noti 60 milljónir kílóvattstunda árlega, sem jafngildir 2,0% af orkuframleiðslu landsins. Ráðuneytið telur að orkunotkun gagnavera verði orðin 2,5% af heildinni árið 2011. Þessi aukna notkun, ásamt hækkandi orkuverði í heiminum, hefur leitt til stóraukins kostnaðar við rekstur gagnavera.
    Meiri orkunotkun fylgir aukinn útblástur koltvísýrings. McKinsey-ráðgjafar-fyrirtækið áætlar að útblástur koltvísýrings frá gagnaverum muni verða meiri en frá flugvélum árið 2020.
    Af þessu leiðir að fyrirtæki leitast í auknum mæli við að finna leiðir til að takmarka áhættu sína af auknum orkukostnaði og útblæstri koltvísýrings. Hið síðarnefnda á einkum við í Evrópu og Bandaríkjunum vegna yfirvofandi reglna og útgjalda vegna losunarheimilda. Hægt er að bregðast við þessum vanda með því að reisa gagnaver á fjarlægum stöðum þar sem í boði er „græn“ orka á tiltölulega hagstæðum kjörum, svo sem á Íslandi.
    Staðarval gagnavera tengist nokkrum þáttum og forsendum, m.a. hagstæðu skattaumhverfi, stöðugu orkuframboði, þróuðu regluverki um gagnaflutninga og -geymslu, og háþróuðum tæknigeira. Þessa þætti er að finna víðsvegar um heim en þó helst á tilteknum atvinnuþróunarsvæðum í Norður-Ameríku og Evrópu. Finna má gagnaver í öllum ríkjum Evrópu, en flest eru þau í Bretlandi og Írlandi. Það er engin tilviljun að þessi ríki samtvinna þéttofin samskiptanet og skattastefnu sem ætlað er að stuðla að vexti gagnavera og annars hátækniiðnaðar. Írum hefur gengið best að laða að sér gagnaver, með hvötum til uppbyggingar tækniiðnaðar í landinu. Svipaða hvata er að finna víðsvegar í Norður-Ameríku, einkum hjá ríkjum sem leggja áherslu á tækniiðnað. Það að gagnaveraklasar hafa sprottið upp á slíkum þróunarsvæðum, þar sem sérstakir hvatar eru fyrir hendi, sýnir að Ísland mun ekki laða að sér gagnaver eingöngu með hóflegum kostnaði og umhverfisvænum orkulindum. Ísland verður að hafa frumkvæði til að koma sér á kortið sem valkostur fyrir uppbyggingu gagnavera, og yfirstíga þröskulda í huga viðskiptavina og fjárfesta varðandi meinta áhættu og erfitt rekstrarumhverfi í kjölfar efnahagshruns.

Gagnaver og Ísland
    Þróun efnahagslífs og hagstærða í heiminum að undanförnu hafa gert það að verkum að nútíma gagnaveraiðnaður og Ísland henta hvort öðru einkar vel. Á Íslandi veitast nú tækifæri til að byggja upp stöðugt og varanlegt forskot til lengri tíma, og markverða markaðshlutdeild í gagnaveraiðnaði heimsins. Verne gegnir forystuhlutverki við að kynna Ísland gagnvart hinum hnattræna gagnaveramarkaði. Ef sú viðleitni gengur vel leiðir hún til umhverfishæfrar fjölbreytni í iðnaði, verulegrar beinnar erlendrar fjárfestingar, nýrra útflutningstekna, aukinna skatttekna frá fyrirtækjum og einstaklingum, sköpunar nýrra starfa fyrir faglært starfsfólk, sjálfbærrar nýtingar hinna öflugu orku- og fjarskiptakerfa Íslands, og aukins jákvæðs sýnileika Íslands í alþjóðlegu viðskiptalífi.
    Þegar efnahagslægðin skall á landinu haustið 2008 glataði Ísland að mestu einni af helstu atvinnugreinum sínum, þ.e. fjármálageiranum. Útflutningstekjur landsins byggjast nú einkum á fiskveiðum, áliðnaði og ferðaþjónustu, og því er mikil þörf fyrir nýjan iðnað og fjölbreytni til að fylla í tóm sem til varð við hrun fjármálageirans.
    Jafnframt eru Íslendingar að hugleiða vandlega iðnaðarstefnu sína, með áherslu á uppbyggingu umhverfisvæns og sjálfbærs iðnaðar til framtíðar. Gagnaver henta einkar vel í þessu skyni. Má nefna að þau nýta orku í jafnt vaxandi takti, án stórra stökka með tilheyrandi fjárbindingu í orkumannvirkjum, og veita öðrum gagnaverum í heiminum verðuga samkeppni með tilliti til hagkvæmrar orkunotkunar og nýtingar á endurnýjanlegum, „grænum“ orkulindum.
    Ísland er vænlegur kostur fyrir gagnaver af ýmsum ástæðum:
     *      Meira en 99% rafmagns á Íslandi kemur frá endurnýjanlegum orkulindum
     *      Orka á Íslandi er í boði á samkeppnishæfu verði miðað við flest ríki Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Hægt er að tryggja rafmagn með langtíma-samningum sem dregur úr áhættu af óstöðugu orkuverði
     *      Lágur umhverfishiti á Íslandi gerir mögulegt að byggja upp afar orkusparandi gagnaver með því að nota „ókeypis kælingu“
     *      Ísland er mjög tæknivætt samfélag sem býr að hámenntuðu vinnuafli í rafmagns-, tækni- og upplýsingageiranum
     *      Grunnkerfi landsins á sviði orku og fjarskipta eru óvenjusterk og traust
     *      Nýleg viðbót tveggja nýrra sæstrengja með mikla bandbreidd, Danice og Greenland Connect, veitir landinu gnægð gagnaflutningsgetu með fjölbreyttum varaleiðum.

Yfirveguð nálgun að nýsköpun og fjölbreytni
    Ísland ætti að hafa verulegan hag af því að stofnað verði til öflugs gagnaveraiðnaðar.
    Efnahagslægðin hefur valdið töluverðu atvinnuleysi, hægt á innstreymi erlends gjaldeyris og leitt til mikils halla í ríkisfjármálum. Uppbygging gagnaveraiðnaðar á Íslandi hjálpar til við að draga úr þessum áhrifum, einkum ef gagnaver verða reist á þeim svæðum þar sem áhrifa efnahagslægðarinnar hefur gætt hvað mest, svo sem í Reykjanesbæ.
    Eðlis síns vegna þarfnast gagnaver talsverðrar beinnar erlendrar fjárfestingar. Hún hefur í för með sér innstreymi gjaldeyris í landið og bætir stöðu íslensks byggingariðnaðar. Með tímanum skapast fjöldi nýrra tækifæra fyrir faglært starfsfólk til vinnu við gagnaverin. Jafnframt því mun uppbyggingin stuðla að ábyrgri og umhverfishæfri nýtingu orku- og fjarskiptakerfa landsins.
    Margt bendir til þess að vöxtur upplýsingatæknigeirans verði meiri í umhverfi þar sem til staðar er spurn eftir háþróaðri fjarskiptaþjónustu, af sama tagi og sú sem nauðsynleg er fyrir stór gagnaver. Reynslan hefur sannað að gagnaver og fjarskiptakerfi haldast í hendur. Öflug grunngerð fjarskipta leiðir til uppbyggingar gagnavera sem aftur hefur í för með sér eflingu fjarskiptaþjónustu, upplýsingatæknigeiranum, viðskiptalífi og almenningi til ábata. Á Íslandi hefur grunnur þegar verið lagður að slíku ferli í grunnvirkjum landsins með lagningu Danice og Greenland Connect sæstrengjanna. Þróunin hefur einnig að jafnaði verið sú að þegar gagnaveraklasa hefur verið komið á laggirnar, fylgja viðskiptavinir gagnaveranna gjarnan á eftir með ýmissi viðbótarstarfsemi á tæknisviði.
    Tilkoma Verne og gagnaveraiðnaðarins mun stuðla að skatttekjum á Íslandi með tekjusköttum einstaklinga, tekjusköttum fyrirtækja, fasteignasköttum og ýmsum staðbundnum gjöldum og sköttum.
    Auk hinna beinu efnahagsáhrifa, sem stafa af erlendum fjárfestingum í útflutnings-iðnaði, getur uppbygging gagnavera á Íslandi orðið til þess að bæta ímynd landsins í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Við það bætist að hér er um að ræða iðnað sem styrkir Ísland sem sjálfbæran og samkeppnishæfan fjárfestingarvalkost, vegna einstakra orkulinda, á alþjóðavettvangi. Landið getur jafnframt lagt sitt af mörkum til að leysa þau erfiðu viðfangsefni sem gagnaveraiðnaðurinn stendur frammi fyrir nú á dögum, einkum sökum vaxandi orkukostnaðar og útblásturs koltvísýrings. Óvíða utan Íslands er að finna gnótt samkeppnishæfrar grænnar orku á stöðugu verði, og ókeypis kælingu að auki. Gagnaver á Íslandi getur dregið mjög úr heildarkostnaði gagnaversnotenda og um leið minnkað útblástur koltvísýrings verulega miðað við gagnaver á hefðbundnum stöðum í Norður-Ameríku eða Evrópu.

Laga- og reglugerðaumhverfi
    Þrátt fyrir að á Íslandi sé að finna ýmsa þá þætti, sem nauðsynlegir eru til að laða alþjóða gagnaveraiðnaðinn til landsins, er um þessar mundir – sökum efnahagslægðarinnar – talið afar áhættusamt að fjárfesta og stunda viðskipti hér. Borgir og sveitarfélög víðsvegar um heim telja gagnaver æskilegan iðnað og hafa því ráðist í sérstakar aðgerðir til að hvetja til uppbyggingar þeirra. Þótt sum þessara ríkja geti ekki boðið upp á þá náttúrlegu kosti, sem eru til staðar á Íslandi, þá kunna fyrirtæki að ákveða, engu að síður, að leita til svæða sem hafa þegar reynst hagkvæm til fjárfestingar á þessu sviði, að teknu tilliti til áhættuþátta og fjárfestingarhvata. Það er því engin tilviljun að enn er ekki starfandi stórt gagnaver á Íslandi, þrátt fyrir þá kosti sem landið býr að frá náttúrunnar hendi.
    Eðli gagnaveraiðnaðarins er með þeim hætti að skatta- og lagaumhverfi þarf að vera skýrt og tryggt fyrir fram, áður en til fjárfestinga kemur. Oft er það svo að þessir þættir vega þyngst við ákvörðun fjárfesta og viðskiptavina um staðsetningu gagnavers, enda getur fylgt því mikil áhætta að veðja á óstöðugt eða óskýrt lagaumhverfi.

Fjárfestingarsamningur Verne
    Nýlega komust Verne og ríkisstjórn Íslands að samkomulagi um drög að fjárfestingarsamningi. Helstu stoðir samningsins eru hámörk á ýmsum opinberum gjöldum sem Verne muni greiða vegna uppbyggingar og reksturs gagnaversins. Ekki er um að ræða neina greiðslur úr ríkissjóði í samningnum, og í afar fáum tilvikum er breytt út frá gildandi skattalögum. Þessi í stað er tryggt samkvæmt fjárfestingarsamningnum að Verne verði ekki íþyngt með umtalsverðri nýrri skattlagningu, þótt ríkisstjórn Íslands kunni að ákveða að hækka almenna skatta í framtíðinni. Mikil umræða stendur nú yfir um hækkanir fyrirtækja- og orkuskatta, og tekjuskatta einstaklinga á Íslandi. Mögulegir fjárfestar og viðskiptavinir eru ófúsir að ráðast í langtímaskuldbindingar og framkvæmdir á Íslandi ef veruleg áhætta er fyrir hendi að þessu leyti.
    Fjárfestingarsamningurinn er nauðsynleg forsenda þess að Verne geti ráðist í næsta áfanga gagnaversverkefnisins. Við upphaf verkefnisins á miðju ári 2007 var lánsfjármögnun og fjármögnun með hlutafé til uppbyggingar nýs gagnavers víða fáanleg á hagstæðum kjörum. Nú hafa orðið nær algjör umskipti á þessu sviði og mun torsóttara er að afla nýs áhættufjár. Sú áskorun, sem Verne stendur frammi fyrir, er enn erfiðari viðfangs sökum þess að árið 2007 var Ísland talið öruggt og eftirsótt land til viðskipta, en nú álíta erlendir fjárfestar og viðskiptavinir Ísland vera áhættusamt og hugsanlega ótraust ríki sem glímir við ýmis þjóðhagfræðileg vandamál. Aðeins með ákvæðum fjárfestingarsamningsins og þeirri undirstöðu sem hann veitir, getur Verne unnið með ríkisstjórn Íslands að því að lágmarka þá áhættuþætti sem verka letjandi á viðskiptavini og fjárfesta.
     Fjármagn fæst aðeins frá fjárfestum í umhverfi þar sem von er á viðskiptavinum. Þótt Verne hafi getað hafið framkvæmdir fyrir efnahagshrunið, getur fyrirtækið ekki haldið áfram með næstu áfanga og lokið framkvæmdum án þess að fjárfestingarsamningurinn liggi fyrir. Verne verkefnið í heild þarfnast fjármagns langt umfram núverandi fjármögnun fyrirtækisins. Nauðsynlegt er að gengið verði frá fjárfestingarsamningnum áður en fjárfestar í Verne, núverandi og væntanlegir, leggja fram nýtt áhættufjármagn.
    Þeirri „tryggingu“ sem felst í fjárfestingarsamningnum, bæði gagnvart Verne og viðskiptavinum þess, er ætlað að hvetja til fjárfestingarinnar sjálfrar og ákvarðana um viðskipti fyrir fram; en ekki að hafa áhrif á rekstrarhagnað af starfseminni eftir að hún er komin á laggirnar. Þess ber að geta að mögulegur ávinningur af fjárfestingarsamningnum er vel undir hámörkum sem kveðið er á um í lögum og reglum um ríkisaðstoð.

Samantekt
    Verne Holdings ehf. og ríkisstjórn Íslands eru á þröskuldi nýs og umhverfisvæns hátækniiðnaðar á Íslandi. Þó að á Íslandi sé ekki enn að finna neitt stórt gagnaver, eru aðstæður í landinu með þeim hætti að þar getur gagnaveraiðnaðurinn þrifist á samkeppnishæfan hátt til langrar framtíðar. Góður árangur Verne mun afar líklega leiða til stofnunar fleiri gagnaverafyrirtækja á Íslandi, með vísan til reynslu víðs vegar um heim hingað til. Þetta mun svo leiða til aukinnar fjölbreytni í iðnaði, og aukins hagvaxtar á landinu.

2. Eignarhald og skipulag Verne Holdings ehf.
    Verne Holdings ehf. er einkahlutafélag, skráð á Íslandi. Verne á þrjú dótturfyrirtæki, Verne Global Inc., skráð í Bandaríkjunum, Verne Global Ltd., skráð í Bretlandi, og Verne Real Estate ehf., skráð á Íslandi.
    Verne Holdings ehf. er í eigu hóps hluthafa sem hver um sig á minnihluta í fyrirtækinu, en þeir tveir stærstu eru Novator og Teha Investments S.A.R.L. Novator er alþjóðlegur fjárfestir. Teha Investments S.A.R.L. er dótturfélag Teha Holdings, LLC, dótturfélags General Catalyst Partners V, sem er meðal sjóða í umsjón General Catalyst Partners LLC, bandarísks áhættufjárfestingarfyrirtækis með yfir 2 milljarða bandaríkjadala í stýringu. Auk Novator og Teha eiga stjórnendur talsverðan hlut í fyrirtækinu. Hvorki Novator né Teha eiga meira en 40% í Verne.
    Ætlun Verne er að fjármagna næstu áfanga verkefnisins með hlutafé frá nýjum fjárfestum, sem munu bætast í hóp hluthafa félagsins.

3. Atburðarás í verkefninu
     *      Nóvember 2007 – Verne Holdings ehf. er skráð á Íslandi með stofnfé frá General Catalyst Partners og Novator.
     *      Febrúar 2008 – Verne kaupir tvær stórar vöruskemmur og undirritar lóðar-leigusamning við KADECO í Reykjanesbæ um lóð þar sem áður stóð herstöð Atlantshafsbandalagsins.
     *      Október 2008 – Í ljósi breyttra aðstæðna í efnahagsmálum á Ísland situr Verne fund með fulltrúum ríkisstjórnar Íslands, frá iðnaðarráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu, til að ræða hugsanlegan fjárfestingarsamning. Yfirmenn Verne lýsa mikilvægi gagnaveraiðnaðarins fyrir Ísland og hvers vegna miklu máli skiptir fyrir félagið, varðandi öflun viðskiptavina og fjármögnunarmöguleika, að undirrita fjárfestingarsamning. Viðræður fara einnig fram um mikilvægi þess að Ísland geri ráðstafanir til að tryggja skatta- og lagalegt umhverfi fyrir gagnaver, sem geri þeim kleift að keppa við önnur Evrópuríki og Norður-Ameríku.
     *      Janúar 2009 – Fyrstu drögum að fjárfestingarsamningi er dreift milli Verne, iðnaðarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins.
     *      Vor og sumar 2009 – Verne og ríkisstjórn Íslands halda allmarga fundi til að vinna að og útfæra texta fjárfestingarsamningsins.
     *      Október 2009 – Ríkisstjórn Íslands og Verne komast að samkomulagi um drög að fjárfestingarsamningi með fyrirvara. Landsvirkjun og Verne undirrita orku-samning til 20 ára um útvegun allt að 25 MW af orku. Undirbúningur frumvarps til að heimila endanlega gerð fjárfestingarsamningsins er hafinn. Auk þess er undirbúin tilkynning til Eftirlitsstofnunar EFTA.
     *      Nóvember 2009 – Sveitarfélagið Reykjanesbær og Verne undirrita þann hluta fjárfestingarsamningsins sem snýr að sveitarfélaginu. Verne móttekur bréf frá fjármálaráðuneytinu, dags. 11. nóvember 2009, þar sem lýst er afstöðu ráðuneytisins til virðisaukaskatts varðandi viðskiptavini.

4. Staðsetning
    Verne reisir gagnaver sitt við Ásbrú í Reykjanesbæ. Fyrirtækið hefur keypt tvær stórar vöruskemmur af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar (KADECO) og vinnur nú að breytingum á þeim sem hluta af fyrirhugaðri aðstöðu með fleiri byggingum.
    Staðsetningin er nærri helstu samgönguleiðum, og í nágrenninu er að finna öflugt vinnuafl, gott aðgengi að orku- og fjarskiptavirkjum, auk þess sem þar er jarðskjálftavirkni ein sú minnsta á Íslandi.

5. Starfsemi gagnavera
    Stór nútíma gagnaver eru afar flóknar byggingar tæknilega, sem hannaðar eru til að hýsa, tengja, knýja og kæla netþjóna og tengdan upplýsingatækni- og fjarskiptabúnað með öruggum hætti. Netþjónarnir vista, vinna úr og senda gögn í gegnum ljósleiðarafjarskiptakerfi sem nauðsynleg eru jafnt viðskiptalífi og einkaaðilum.
    Gríðarlega orku þarf til að knýja netþjóna í nútíma gagnaverum. Einnig gefa þeir frá sér umtalsverðan hita og þörf er á stöðugu flæði lofts eða kælivökva til að koma í veg fyrir ofhitnun. Stærsti hluti kostnaðar nútíma gagnavera er falinn í véla- og rafkerfum sem sjá netþjónunum fyrir stöðugri orku og kælingu.
    Óskipulagður niðritími netþjóna vegna bilana í rafkerfum, kælikerfum eða tengingum getur haft í för með sér gríðarlegan kostnað, og því eru nútíma gagnaver að jafnaði hönnuð með tvöföldun eða umtalsverðri umframgetu kerfa í viðlagaskyni.

6. Fyrirhuguð þróun gagnavers Verne
    Á næstu sjö árum hyggst Verne byggja upp gagnaver í fjórum aðalbyggingum á svæði félagsins við Ásbrú, auk nokkurra bygginga fyrir stoðkerfi. Framkvæmda-hraðinn mun ráðast af markaðseftirspurn og framboði á fjármagni. Verne hyggst standa í samfelldum framkvæmdum á þeim tíma sem um ræðir. Þegar framkvæmdum er lokið mun gagnaver félagsins ná yfir rúmlega 20.000 fermetra tæknirými fyrir netþjóna, og raforkuálag verður 80–140 megavött (MW). Í fyrstu byggingu Verne verður 4.800 fermetra tæknirými og raforkunotkunin verður 20 MW. Búist er við því að framkvæmdum verði lokið við fyrstu bygginguna og hún tekin í notkun og opnuð á árinu 2010.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Yfirlitsmynd af alþjóðlegu gagnaveri Verne
    Hver gagnaversbygging hýsir stoðkerfi rafmagns, vélbúnaðar og fjarskipta sem þarf til að knýja, kæla og tengja netþjónana sem staðsettir eru innan byggingarinnar. Gagnaversbyggingunum er skipt í einingar sem nefndar eru tölvusalir viðskiptavina, þannig að ein bygging geti sinnt mörgum viðskiptavinum. Hver tölvusalur er einangraður frá öðrum hlutum byggingarinnar.
    Auk þeirra fjögurra gagnaversbygginga, sem ætlað er að koma á laggirnar, mun aðstaða Verne einnig hafa innan sinna vébanda byggingar undir tengivirki, varaaflgjafa og byggingu til að hýsa almenna umsýslu.
     *      Í tengivirkinu eru hýstir spennubreytar og þar verða tengisvæðin þar sem Landsnet afhendir raforku til gagnaversins. Á fyrstu stigum starfseminnar mun tengivirki Verne fá rafmagn á 33 kílóvolta (kV) spennu, sem spennt verður niður í 11 kílóvolt áður en rafmagninu er dreift til aðstöðunnar. Þegar orkuþörf Verne vex umfram 40 MW verður nauðsynlegt að auka getu tengivirkjanna, til að geta tengst veitukerfi á 132 kV eða jafnvel 220 kV spennu. Á þeim tíma mun Verne tengjast flutningskerfinu sem nú er áformað að notað verði til annarra iðnaðarverkefna á Reykjanesi.
     *      Vararafstöðvarbyggingarnar hýsa dísilknúna vararafala. Þessir rafalar eru nauðsynlegir til að tryggja að viðskiptavinir gagnaversins hafi ætíð aðgang að þeim upplýsingum sem stöðugt myndast í gagnaverinu. Að jafnaði mun Verne nota orku frá vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum sem mynda endurnýjanlegt orkukerfi Íslands. Rafalarnir, sem staðsettir eru í þar til gerðum byggingunum, verða aðeins ræstir vegna prófana og í þeim tilvikum þegar afhending raforku frá Landsneti rofnar af einhverri ástæðu.
     *      Í umsýslubyggingunni verður alhliða skrifstofuaðstaða fyrir Verne og viðskiptavini fyrirtækisins.

7. KEF101 - Fyrsta gagnaversbygging Verne

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Aðstaða Verne Global KEF101     Helstu hlutar hverrar gagnaversbyggingar eru:
     *      Tölvusalir viðskiptavina: Þetta er „tæknirýmið“ þar sem netþjónar viðskiptavina eru varðveittir og starfræktir. Þar koma saman innviðir rafbúnaðar, sem veitir orku; innviðir vélbúnaðar, sem veitir kælingu; og endapunktar fjarskiptakerfanna sem flytja upplýsingar frá netþjónunum til umheimsins.
     *      Svæði rafbúnaðar: Allur tölvubúnaður í gagnaveraaðstöðunni þarfnast raforku. Þörf er á margvíslegum búnaði til að spenna niður og veita rafmagninu til búnaðarins á tryggan hátt. Þessir innviðir verða til húsa í röð rafmagnsdreifirýma sem ætlað er að verja og vernda búnaðinn sem veitir orku til netþjónanna.
     *      Svæði kælibúnaðar: Þeirri orku, sem berst um rafmagnsdreifikerfið, er að lokum breytt í upplýsingar í netþjónabúnaðinum og við það breytist raforkan í hita í tölvusölum. Því er kælibúnaður, sem leiðir hitann úr tölvurýmunum út í umhverfið, mikilvægur hluti gagnaversins. Meðal búnaðar í vélasölunum eru varmaskiptar, rakakerfi og stýribúnaður.
     *      Afmörkunarsalir: Til að nýta þær upplýsingar, sem verða til í netþjónum, verður að tengja fjarskiptakerfi frá umheiminum við tölvusalina og hvern netþjón fyrir sig. Afmörkunarsalirnir eru þeir staðir þar sem fjarskiptakerfi utan við gagnamiðstöðina tengjast netkerfum innan hennar.
     *      Uppsetningarsvæði viðskiptavina: Viðskiptavinum fylgir stöðugt streymi búnaðar inn í gagnaverið, til viðbótar þeim kerfum sem þegar eru til staðar og til að endurnýja kerfi sem eru um það bil að úreldast. Til þess að auðvelda verkflæði viðskiptavinanna býður Verne afmörkuð og örugg svæði til uppsetningar þar sem viðskiptavinir geta geymt birgðir varahluta, tekið upp nýjan búnað og prófað hann áður en hann er tekinn í notkun í tölvusal.
     *      Öryggis- og móttökusvæði: Öryggi hefur forgang í gagnaverum. Öryggisráðstafanir í aðstöðunni sjálfri og við umsýslu hennar tryggja að viðskiptavinir geti uppfyllt skyldur sínar í samræmi við lög og reglugerðir. Á öryggis- og móttökusvæðunum eru ferlar og búnaður til vöktunar og móttöku búnaðar og fólks. Viðskiptavinir og birgjar gefa sig fram í umsýslustöð við öryggisinngang gagnaversins. Tekið er á móti búnaði á öruggu svæði þar sem hann er tekinn inn og metinn áður en hann er fluttur til uppsetningarsvæða og tölvusala viðskiptavina.
     *      Stoðkerfasvæði: Gagnaverið og viðskiptavinir þess þarfnast starfsfólks til að sjá um hin ýmsu verkefni og verkferla. Innan gagnaversins er að finna skrifstofuaðstöðu, afþreyingarsvæði og almenna tækniþjónustu.

8. Innviðir rafkerfa

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Yfirlit yfir rafkerfi Verne Global

    Í gagnaveri eru rafkerfainnviðir hannaðir með það að markmiði að tryggja stöðuga og ótruflaða raforku til netþjónanna. Verne gagnaverið býr að tveimur aðskildum og ólíkum uppsprettum raforku. Sú fyrri er fólgin í tengingum, með varaleiðum, við almennt veitukerfi Íslands, á vegum Landsnets. Orka frá Landsneti berst til tengivirkis í eigu Verne þar sem veituspenna er spennt niður í dreifispennu innan gagnaversins með stórum iðnaðardreifispennum. Dreifispennarnir eru a.m.k. einum fleiri en þarf til að sinna eðlilegu álagi í gagnaverinu. Raforkutengivirkið er aðaldreifistaður rafmagns til gagnaversins í heild.
    Önnur uppspretta raforku er frá stórum og öflugum dísilknúnum rafölum. Þessir rafalar eru eingöngu ætlaðir til vara ef raforkuafhending frá Landsneti rofnar. Ef orka frá veitukerfinu er ekki aðgengileg verður gagnaverið knúið rafmagni sem framleitt er með dísilvélunum. Dísilknúnu rafalarnir eru tengdir saman með samhliða tengibrautum. Viðlagabúnaður er hannaður með þeim hætti að ef rafstraumur frá almenna veitukerfinu rofnar lengur en stutta stund, er hægt að starfrækja rafalana í ótiltekinn tíma með nægum birgðum af dísilolíu og fyrir atbeina sérþjálfaðs starfsfólks.
    Þó að þessar tvær orkuuppsprettur láti saman í té stöðugan rafstraum, þá eru að auki gerðar afar strangar kröfur um gæði raforku til netþjónabúnaðar. Ef rafspennan, sem veitt til búnaðarins, fellur utan viðunandi marka, verður hann óstöðugur og gögn kunna að tapast, eða búnaðurinn kann að verða fyrir skemmdum. Því er ekki nægilegt að tengja netþjónabúnaðinn beint við rafkerfin, þar eð í þeim getur skyndilega orðið spennufall, spennuris eða aðrar truflanir. Til að vernda netþjónana eru notaðir varaaflgjafar (Uninterruptible Power Supply – UPS). Þeir lágmarka áhrif óstöðugrar orkuuppsprettu, jafna spennu og gera mögulegt að skipta til og frá dísilknúnu rafölunum með skipulegum hætti án þess að valda tjóni á búnaði.
    Orkuuppsprettur veitukerfisins annars vegar og dísilknúnu rafalanna hins vegar eru sameinaðar í dreifipunktum rofabúnaðar. Með sama hætti eru varaaflgjafaverndaðar uppsprettur sameinaðar í dreifipunktum rofabúnaðar. Frá dreifipunktunum eru lögð kapalkerfi og tengdur búnaður sem dreifir raforku á áreiðanlegan hátt til hvers netþjóns innan tölvusalanna. Með sama hætti fá innviðir vélbúnaðar, svo sem kælikerfa, raforku frá dreifistöðvum rofabúnaðar sem finna má víðs vegar um gagnaverið.

9. Vélrænir innviðir

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Ókeypis kæling

    Einstök hönnun í tengslum við íslensk gagnaver hefst með kælikerfum. Þar eð árlegur meðalhiti á Reykjanesi er rétt yfir 6°C, og hæsti árshitinn er um eða undir 22°C, hefur Verne gagnaverið marga möguleika varðandi kælilausnir, t.d. svonefnda „ókeypis kælingu“ með því að nota kalt loft utan frá. Vegna hinna fjölmörgu kælimöguleika, sem eru fyrir hendi, fastákveður Verne ekki hönnun kælilausna fyrir fram. Fyrirtækið mun útvega rúmgott svæði við hlið hvers tölvusalar fyrir kælikerfi sem uppfyllir kröfur hvers viðskiptavinar um afköst, viðlagagetu, kostnað og heildarskilvirkni. Hægt verður að velja m.a. um beina kælingu með vatni, óbeina vatnskælingu með loftflæði, óbeina loftkælingu með því að nota loft-loft varmaskipta eða jafnvel beina loftkælingu.
    Í fyrsta áfanga gagnavers Verne verður hinn lági útihiti árið um kring nýttur með sextán loft-loft varmaskiptum til notkunar í fyrsta tölvusal. Þessar sextán einingar verða búnar viðeigandi inntaksviftum og útblástursviftum með breytilegum hraða sem valinn er í samræmi við þarfir búnaðar viðskiptavinarins. Loftbúnaðurinn flytur loftið til rýmis undir kerfisgólfinu, sem er um það bil 1 metra hæð fyrir ofan burðarplötuna. Slík opin holrúmshönnun veitir viðskiptavininum mikinn sveigjanleika til að ákveða fyrirkomulag rekka og búnaðar.
    Undan gólfinu streymir loftið gegnum loftflæðigólfplötur sem unnt er að stilla til stýringar á þrýstingsfalli og þar með loftflæði gegnum hverja plötu. Gólfplötunum verður komið fyrir þannig að þær veiti stanslaust streymi kalds lofts þangað sem netþjónarnir taka við því. Hringrásarviftur í netþjónunum draga kalda loftið gegnum varmaskipta og þrýsta út lofti sem getur verið allt að 40–45°C í næstu kynslóð tölvubúnaðar. Loftstreymi kemur aftur til varmaskiptanna gegnum lagnakerfi í lofti byggingarinnar, sem er stillanlegt miðað við kröfur viðskiptavina.
    Þegar heita loftið kemur inn í varmaskiptaholrýmið flytur útblástursvifta kalt loft utan frá gegnum varmaskiptinn til að fjarlægja varmann sem netþjónabúnaðurinn hefur myndað. Hraði útblástursviftunnar og loftflæðið stillist þannig að tryggt sé að loftið í gagnaverinu, sem berst frá varmaskiptinum, sé innan þolmarka netþjónabúnaðar hvers viðskiptavinar. Sérhverjum viðskiptavini gefst kostur á því að vinna með innviði Verne Global til að fínstilla þau markgildi sem þarf til að ná hámarksskilvirkni eða hámarksáreiðanleika, eftir óskum.

10. Fjarskiptakerfi

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Ljósleiðarakerfi Íslands

    Þungamiðja gagnaversins er upplýsingar. Leiðin til að deila upplýsingum, sem myndast innan Verne Global gagnaversins, liggur um fjarskiptakerfi sem eru tengd netþjónabúnaðinum og veröldinni handan veggja gagnaversins. Þó að Verne ráði dreifingu kopar- og ljósleiðaralagna innan gagnaversins, verður félagið að hafa náið samstarf við fjarskiptafyrirtæki, svo sem Mílu, Fjarska og Farice, til að fá samband við uppsprettur upplýsinga víða um heim.
    Innan gagnavers Verne eru fjarskiptatengsl afar einföld. Tvö algjörlega einangruð svæði, svokölluð afmörkunarrými, hýsa tengipunkta milli viðskiptavina Verne og utanaðkomandi fjarskiptaveita. Viðskiptavinir krefjast fullkomlega afmarkaðra og margfaldra tengibrauta með varaleiðum til að byggja fjarskiptarásir sínar á. Verne tryggir að sérhver viðskiptavinur hafi tvær aðskildar tengileiðir frá tölvusal sínum til afmörkunarrýmanna tveggja. Einnig verða sérhverju fjarskiptafyrirtæki tryggðir sjálfstæðir inntaksstaðir að gagnaverinu þannig að gagnaver Verne verði öruggur hlekkur í stærri fjarskiptakeðju og hringrás.
    Utan gagnavers Verne munu viðskiptavinir fyrirtækisins, sem eru staðsettir víðsvegar um heim, líta til sæstrengja til að tengja netþjóna sína við meginland Evrópu, Norður-Ameríku og fjarlægari staði. Aðeins samkeppnishæfar fjarskiptaleiðir yfir hafið gera gagnaversiðnaðinum, og þar með gagnaveri Verne Global, mögulegt að þrífast á eyju í miðju Atlantshafi andspænis alþjóðlegri samkeppni.

11. Umhverfismál
    Gagnaver Verne mun teljast eitt visthæfasta gagnaver sem völ er á í heiminum. Með hagkvæmu kælikerfi og vistvænum orkulindum, sem eru grundvöllur hins íslenska orkukerfis, væntir Verne þess að geta boðið viðskiptavinum „alvöru“ grænar gagnaverslausnir.
    Til þess að ganga úr skugga um að Verne uppfyllti allar umhverfiskröfur, fór félagið fram á úrskurð Skipulagsstofnunar hvað varðar umhverfisþátt verkefnisins. Í svari hennar, dags. 22. apríl 2009, staðfestir Skipulagsstofnun að ekki sé þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna gagnaversins.
    Að þeirri niðurstöðu fenginni var sótt um hefðbundið starfsleyfi, sem var gefið út 8. september 2009 fyrir rekstur á gagnaveri Verne og vararafstöð. Við rekstur gagnaversins mun verða minni háttar losun frá dísilvélum vegna prófunar búnaðar og ef rekstrartruflanir verða á veitukerfi Landsnets.
    Til vitnis um umhverfisvæna hönnun og starfsemi gagnaversins mun Verne sækja um LEED-vottun frá bandaríska vistvæna byggingarráðinu (USGBC). Öll hönnun og byggingaráætlunin almennt er í samræmi við það markmið að öðlast LEED-gullvottun. Gagnaverið yrði fyrsta LEED-aðstaða sinnar tegundar samkvæmt LEED-verkefnaskrá USGBC.
    Verne fékk byggingarleyfi 28. maí 2009 og rekstrarleyfi fyrir varaaflsstöð 10. september 2009.

12. Starfsmenn
    Ein af mikilvægum forsendum fyrir því að hefja og viðhalda rekstri gagnaversins er aðgengi að hæfu starfsfólki. Einkum og sér í lagi er þörf fyrir hæft fastráðið starfsfólk í rekstrarteymi þar sem þörf er á verkfræðingum og tæknimönnum á sviði raforku, vélfræði (m.a. kælingar), fjarskipta og upplýsingatækni.
    Meðan á framkvæmdum stendur notar Verne íslenskt vinnuafl, m.a. til að sinna verkefnastjórnun, vettvangsskoðunum, hönnun bygginga, verkfræðihönnun, ráðgjöf varðandi útboð á verkefnum, samvinnu söluaðila, þróun fjarskiptainnviða, samskiptum við yfirvöld, og lögfræðiráðgjöf. Þetta hefur krafist viðbótarþjálfunar fyrir íslenskt vinnuafl sem kemur að þróun gagnaversins, og hefur leitt af sér aukna þekkingu á nýjum iðnaði sem mun koma sér vel hvað varðar önnur tækifæri bæði innanlands sem utan. Fjöldi þeirra sem taka þátt í þróun og uppbyggingu gagnaversins verður breytilegur á mismunandi stigum framkvæmda, en Verne mun að meðaltali hafa um 100 manns í vinnu meðan á byggingarframkvæmdum stendur.
    Byggingarferlið gæti tekið allt að sjö ár eða lengur, en það fer m.a. eftir tímaáætlunum viðskiptavina Verne og aðstæðum á fjármálamörkuðum.
    Í öllum gagnaverum er þörf fyrir margháttaðan og samfelldan stuðning við reksturinn. Verne mun ráða starfsfólk með beinum hætti til rekstrar, og óbeint með því að nota verktaka innanlands eða samstarfsaðila á tæknisviði. Í hverri starfsstöð mun Verne þurfa að ráða framkvæmdastjórn, fagstjóra til að sjá um rafmagnsinnviði og innviði kælibúnaðar, umsjón með öryggismálum, skipulagsaðstoð fyrir viðskiptavini, rafmagnstæknifræðinga, tæknifræðinga með sérhæfingu í kæli- og stýrikerfum, og starfsfólk við netkerfi. Mikilvægt er að þetta starfsfólk búi nærri gagnaverinu svo að það sé tiltækt allan sólarhringinn alla daga vikunnar til að sinna ýmsum rekstrarþörfum. Auk daglegra verkefna þessara einstaklinga mun fagstjórnin treysta á utanaðkomandi verktaka, bæði fyrir reglubundið viðhald og vegna neyðartilvika í tengslum við mikilvæg rafmagnskerfi, svo sem spennubreyta, dísilknúna vélarafala, örugga varaaflgjafa og vélknúin kælikerfi. Til þess að veita viðskiptavinum örugga og samfellda þjónustu er mikilvægt að viðhaldssamningar séu gerðir við innlenda birgja búnaðarins.
    Til viðbótar rekstrarteyminu sem sér um daglegan rekstur og lýtur stjórn Verne, þurfa viðskiptavinir ákveðna tækniþjónustu í tengslum við eigin búnað. Það er ekki ætlun Verne að veita slíka þjónustu með beinum hætti. Hins vegar er gert ráð fyrir því að íslensk fyrirtæki á sviði upplýsingatækni muni útvega tæknifólk til uppsetningar tölvubúnaðar og viðhalds stýrikerfa, kerfisfræðinga sérhæfða í rafrænum gagnavörslukerfum, sérfræðinga í netkerfum og tengiliði við viðskiptavini. Verne hyggst vinna náið með íslenskum upplýsingatæknifyrirtækjum til að tryggja að viðskiptavinir fái þá þjónustu á Íslandi sem þeir vilja kaupa.
    Verne gerir ráð fyrir að sá mannafli, sem þörf er á í tengslum við fullbyggt gagnaver, sé í heild um eitt hundrað starfsmenn í fullri vinnu. Þá er talinn bæði sá hópur, sem Verne ræður beint á sínum vegum, og tæknifólk sem ráðið er á vegum einstakra viðskiptavina, beint og óbeint.

13. Fyrirhugaðar framkvæmdir
    Verne hefur tekið fyrstu skrefin í uppbyggingu gagnaversins og hefur til þessa lagt sérstaka áherslu á uppbyggingu nauðsynlegustu raforkuvirkja. Viðskiptavinir Verne og fjármögnunaraðilar gera kröfu um að fjárfestingarsamningurinn taki gildi áður en þeir takast á hendur fjárhagslegar og samningsbundnar skuldbindingar um að ljúka framkvæmdum og taka gagnaverið í notkun. Án fjárfestingarsamnings mun framkvæmdum Verne seinka eða verða stöðvaðar.
    Að því tilskildu að fjárfestingarsamningur, og skuldbinding viðskiptavina og fjárfesta liggi fyrir, hyggst Verne ljúka byggingarframkvæmdum við fyrsta áfanga gagnaversins og taka hann í notkun á árinu 2010.
    Að því búnu stefnir Verne að því að byggja upp fjögurra bygginga aðstöðu í samfelldri lotu fram til ársins 2016. Endanleg tímasetning og ferli framkvæmdanna veltur fyrst og fremst á markaðsaðstæðum, langtímasamkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum ríkjum, eftirspurn viðskiptavina, aðgengi að orku og framboði fjármagns. Ferlið gæti því tekið lengri eða styttri tíma. Ef eftirspurn viðskiptavina og fjármögnunaráhugi verður áfram öflug stendur vilji Verne til þess að halda áfram þróun gagnavera á Íslandi til viðbótar við fjögurra bygginga aðstöðuna við Ásbrú. Verne áætlar að byggingarvinna í tengslum við fjögurra bygginga gagnaverið muni í heild nema um 700 ársverkum. Fylgiskjal II.


Lýsing á meginatriðum í drögum að fjárfestingarsamningi milli Ríkisstjórnar Íslands, Verne Holdings ehf., Verne Real Estate ehf.,
Novator and Teha Investments S.a.r.l.


1. Inngangur
    Í fjárfestingarsamningi Ríkisstjórnar Íslands (hér eftir nefnd „ríkisstjórnin“), Verne Holdings ehf. (hér eftir nefnt „Verne“ eða „félagið“), Verne Real Estate ehf., Novator and Teha Investments S.a.r.l. (hér eftir nefndur „fjárfestingarsamningurinn“ eða „samningurinn“) er kveðið á um grundvöll verkefnisins, undanþágur frá lögum, skatta og gjöld, reikningsskilareglur, leyfi, fyrirheit, upplýsingavernd, fjárfestingarvernd og fleira. Hér eftir fer stutt lýsing á einstökum greinum fjárfestingarsamningsins til útskýringa á efni hans, en lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn um efni hans. Rétt er að taka fram að samningurinn í heild sinn hefur verið birtur í B deild stjórnartíðinda.

2. Lýsing á einstökum ákvæðum samningsins
Inngangur
    Í inngangi samningsins er fjallað um aðdraganda hans, aðila og undirbúning, uppbyggingu og markmið verkefnisins.
    Kemur þar m.a. fram að það ríkisstjórnin hafi einsett sér að hvetja til erlendrar fjárfestingar og framkvæmda á Íslandi, með áherslu á verkefni sem munu hafa jákvæð efnahagsleg áhrif til framtíðar og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi á Íslandi. Í þessu skyni hafi ríkisstjórnin einsett sér að stuðla að stofnun til útflutningsiðnaðar á Íslandi, sem nýtir endurnýjanlegar orkulindir landsins með jákvæðum heildaráhrifum á umhverfið. Í því ljósi hafi ríkisstjórnin átt í viðræðum við félagið og fjárfesta þess, General Catalyst Group V, og tiltekinna einstaklinga, með hugsanlegri þátttöku frekari innlendra og erlendra fjárfesta (sameiginlega nefndir „fjárfestarnir“), um uppsetningu gagnamiðstöðvareksturs á Íslandi, sem talinn er að geti uppfyllt mörg af stefnumiðum ríkisstjórnarinnar.
    Þá segir að fjárfestarnir og félagið hafi unnið að nauðsynlegri undirbúningsvinnu, sem miði að uppsetningu gagnaveramiðstöðvar á Íslandi, er samanstendur af fjórum aðskildum byggingum sem hýsa munu rafmagns- og vélbúnað og upplýsingatæknibúnað, svo og öðrum mannvirkjum sem hýsa munu stjórnstöðvar og rafstýribúnað, en miðstöðin (hér eftir nefnd „gagnaverið“) mun fyrst og fremst þjóna alþjóðlegum viðskiptavinum utan Íslands og nota í starfsemi sinni raforku, sem m.a. verður látin í té af Landsvirkjun á langtímagrunni (hér eftir nefnt „verkefnið“).
    Þá segir jafnframt að á fyrstu sjö árum fjárfestingar sinnar áætli félagið og fjárfestarnir að hugsanleg fjárfesting í verkefninu gæti verið umfram 700 milljónir bandaríkjadala og að orkuþörf gagnaversins gæti verið umfram 140 MW.
    Þá segir enn fremur að gert sé ráð fyrir að Alþingi muni með heimildarlögum setja tilteknar reglur og veita félaginu og fjárfestum tilteknar undanþágur varðandi skipulag og starfsemi gagnaversins og heimila ríkisstjórninni að gera fjárfestingarsamning þennan, þar sem nánar er kveðið á um frekari skilmála slíkra undanþágna er við eiga um byggingu og rekstur gagnaversins. Hins vegar viðurkenna aðilar að bæði samþykki á efni hverrar greinar fyrir sig í samningi þessum og gildistaka hans eru alfarið háð vilja Alþingis og enn fremur geri aðilar allir aðilar sér ljóst að ekki er unnt að leita eftir neinu slíku samþykki fyrr en eftir tilkynningu og samþykki af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA.

Grein 1.
    Í 1. gr. er að finna skýringar á ýmsum hugtökum, með tilliti til þess hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum. Einnig er að finna umfjöllun um hvernig skýra beri hin ýmsu atriði samningsins.

Grein 2.
    Í 2. gr. er að finna ýmsar undanþágur frá lögum. Kemur þar fram að í beinum tengslum við verkefnið skulu fjárfestarnir og félagið undanþegin takmörkunum skv. reglum nr. 1130/ 2008, um gjaldeyrismál, sem settar voru á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með áorðnum breytingum, svo og hvers kyns sams konar eða efnislega svipaðra hafta sem síðar kunna að vera sett á til viðbótar við slík höft eða í þeirra stað.
    Þá kemur fram að félagið skuli undanþegið iðnaðarmálagjaldi skv. lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, markaðsgjaldi skv. lögum nr. 160/2002, um útflutningsaðstoð, gatnagerðargjaldi skv. lögum nr. 153/2006, um gatnagerðargjald, að því marki sem samið hefur verið um milli félagsins og Reykjanesbæjar. Undanþágurnar taka til hvers kyns núgildandi eða síðari gjalda. Félagið er jafnframt undanþegið ákvæðum laga nr. 48/1992, um brunatryggingar, og ákvæðum laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, með því skilyrði að félagið sjái um að eignirnar séu tryggðar á þann hátt sem teljist venjulegt í gagnaversiðnaðinum vegna gagnavera. Félagið er enn fremur undanþegið skilyrðinu í 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1996, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, um að 4/5 hlutar hlutafjár skuli vera eign íslenskra ríkisborgara, að íslenskir ríkisborgarar fara með meiri hluta atkvæða á hluthafafundum, að stjórnendur skuli allir vera íslenskir ríkisborgarar og síðari ákvæðum að svipuðum toga. Að lokum er félagið undanþegið skilyrðinu í 2. mgr. 42. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, um að framkvæmdastjórar og minnst helmingur stjórnarmanna skulu vera búsettir hér á landi.

Grein 3.
    Í 3. gr. er fjallað um meginreglur um framkvæmd skattlagningar. Kemur þar fram félagið skuli greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru lögð á Íslandi, nema öðru vísi sé um samið í samningnum.
    Í greininni kemur einnig fram að dótturfélög félagsins, sem útvega vöru, þjónustu eða fjármagn til félagsins, falli undir 57. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt (meginregluna um armslengdarkjör). Öll viðskipti milli félagsins og dótturfélaga skulu samrýmast 57. gr. laganna og meginreglum OECD um milliverðlagningu og túlkun á slíkum reglum.

Grein 4.
    Í 4. gr. er fjallað um skatta sem ríkið leggur á. Í greininni kemur fram að félagið skuli greiða 15% tekjuskatt af hagnaði af viðskiptum félagsins, sem felst í sölu gagnaversþjónustu í gagnaverinu, samkvæmt sérákvæðum sem talin eru upp í samningnum. Helstu atriði sérákvæðanna eru:
     a.      Ef hinn almenni tekjuskattur, sem lagður er á hlutafélög, verður hærri en 15% skal hækkunin ekki gilda um félagið fyrstu 5 ár samningsins;
     b.      Ef hinn almenni tekjuskattur, sem lagður er á hlutafélög er hærra en 15% eftir fyrstu 5 ár af gildistíma samningsins þá skal sú álagning gilda um félagið, en skal þó aldrei vera hærra en 18% á næstu 5 árum samningsins (ár 5 til 10);
     c.      Ef hinn almenni tekjuskattur, sem lagður er á hlutafélög er hærra en 18% eftir fyrstu 10 ár af gildistíma samningsins þá skal sú álagning gilda um félagið, en skal þó aldrei vera hærra en 25% það sem eftir er af gildistíma samningsins;
     d.      Ef hinn almenni tekjuskattur, sem lagður er á hlutafélög verður lægra en 15% skal sú lækkun gilda um félagið;
     e.      Félaginu skal heimilt að færa rekstrartap milli ára til frádráttar frá skattskyldum hagnaði næstu tíu ár á eftir (eða lengur eftir því sem heimilt er skv. íslenskum lögum).
    Í greininni kemur einnig fram að félaginu skuli heimilt að fyrna kostnað af búnaði, sem notaður er, eða sem fyrirhugað er að nota, í gagnaverinu („búnaðurinn“) yfir líftíma búnaðarins.
    Þá er kveðið á um að félagið skuli ekki greiða eignarskatt eða skatta og gjöld sem ekki eru tekjutengd og kunna að vera innleidd eftir undirritun samningsins og á gildistíma hans, nema slíkir skattar og gjöld séu jafnframt lögð með almennum hætti á önnur íslensk fyrirtæki, þ.m.t. öll önnur gagnaver. Hins vegar skal félagið undanþegið öllum eignarskatti sem kann að vera tekinn upp í fimm ár frá gildistöku samningsins.
    Að því gefnu að félagið, og/eða fasteignir þess, uppfylli skilyrði til skráningar sem virðisaukaskattsskyldur aðili, skv. lögum um virðisaukaskatt, skal félaginu ekki gert skylt að leggja fram sérstaka tryggingu vegna skráningarinnar.

Grein 5.
    Í 5. gr. er fjallað um aðflutningsgjöld. Þar segir að innflutningur eða kaup félagsins á byggingarefnum, vélum og búnaði og öðrum fastafjármunum og varahlutum til byggingar gagnaversins og tilheyrandi mannvirkja og reksturs þeirra sé undanþeginn íslenskum inn- og útflutningsgjöldum skv. tollalögum, nr. 88/2005, og vörugjöldum skv. lögum um vörugjald, nr. 97/1987.
    Í greininni kemur einnig fram að félaginu verði veittur frestur til greiðslu á virðisaukaskatti (tollkrít) skv. lögum nr. 50/1998, um virðisaukaskatt, fram að gjalddaga fyrir endurgreiðslu vegna viðkomandi uppgjörstímabils. Með sama hætti skal veittur frestur á greiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á rafmagni.
    Að lokum segir að innflutningur eða innkaup innanlands af hálfu eða fyrir hönd félagsins á hráefni eða öðrum aðföngum til framleiðslu, sem nauðsynleg eru til reksturs gagnaversins, skulu ekki bera vörugjöld eða íslensk innflutningsgjöld.

Grein 6.
    Í 6. gr. er fjallað um aðra skatta og gjöld. Í greininni er kveðið á um að stimpilgjöld skv. lögum nr. 36/1978, af öllum stimpilskyldum skjölum, sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við byggingu gagnaversins skuli vera 0,15%.
    Þá er kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 35. gr. skipulagslaga nr. 73/1997 skuli félagið greiða fast skipulagsgjald, sem nemur 100.000 bandaríkjadölum, vegna byggingar gagnaversins. Greiðslur skulu standa í hlutfalli við framvindu byggingar gagnaversins og bygginga sem viðskiptavinir nýta.
    Einnig er kveðið á um að í stað fasteignaskatts skv. II. kafla laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, skuli félagið greiða fasteignaskatt sem nemur 1,65% af áætluðu verðmæti allar bygginga, húsnæðis og mannvirkja í eigu félagsins eða á leigu hjá því, eða þá annan fasteignaskatt sem Reykjanesbær kann almennt að leggja á byggingar af sama toga ef hann er lægri. Skattstofninn skal nema 1.030.300.000 íslenskum krónum að því er varðar núverandi fasteignir félagsins og breytist skv. byggingarvísitölu allt frá þeim mánuði sem félagið hefur viðskipti við viðskiptavini. Skattstofninn fyrir síðari byggingar félagsins, sem reistar eru á lóð þess á Valhallarbraut, skal vera kostnaðurinn við byggingu útveggja bygginganna eða 85.500 kr. á fermetra, hvort sem lægra er, bundið byggingarvísitölu frá þeim mánuði sem byggingin er tekin í notkun. Kostnaðargrunnur bygginga, sem skráðar eru í Fasteignaskrá Íslands og nýttar eru af viðskiptavinum, skal reiknaður hlutfallslega í samræmi við nýtingarhlutfall.
    Jafnframt er kveðið á um að ekki verð lögð nein umhverfisgjöld eða skattar á félagið eða fjárfestana sem tengjast losun lofttegundarinnar CO 2 eða annarri losun eða öðrum mengunarefnum, nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. öll önnur gagnaver.
    Loks er félagið undanþegið ákvæðum 1., 2., 3., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, og gjöldum skv. 14. gr. og 14. gr. a í lögum nr. 69/2003, um póst- og fjarskiptastofnun, enda áskilið að félagið veiti ekki þjónustu sem teljist til þeirrar starfsemi sem fellur undir ákvæði laganna.

Grein 7.
    Í 7. gr. er fjallað um endurskoðun skattafyrirkomulags. Í greininni er kveðið á um að á samningstímabilinu geti félagið valið að íslensk skattalög skuli gilda um það. Slík beiðni þarf að vera skrifleg og verður að vera komin fram fyrir 1. júní, ári áður en slík breyting skal koma til framkvæmda.

Grein 8.
    Í 8. gr. er fjallað um reikningsskilavenjur. Þar kemur fram að við gerð fjárhagsyfirlita skuli beita reikningsskilareglum sem gefnar eru út af Alþjóðlega reikningsskilaráðinu (e. International Accounting Standards Committee), enda séu þær ekki í andstöðu við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Enn fremur segir að félaginu sé heimilt að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í bandaríkjadölum.

Grein 9.
    Í 9. gr. er fjallað um iðnaðar- og verslunarleyfi. Þar kemur fram að ríkisstjórnin muni greiða fyrir útgáfu og veitingu slíkra leyfa, eftir því sem nauðsynleg kann að teljast eða æskilegt til þess að framkvæma verkefnið og starfrækja gagnaverið.

Grein 10.
    Í 10. gr. er fjallað um atvinnuleyfi. Þar kemur fram að ríkisstjórnin skuli gera það sem í hennar valdi stendur til þess að aðstoða félagið eða viðskiptavini þess við að afla þeirra atvinnuleyfa sem nauðsynleg kunna að vera eða æskileg vegna starfsmanna þeirra eða starfsmanna verktaka félagsins eða viðskiptavina þess.

Grein 11.
    Í 11. gr. er finna fyrirheit af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þar segir að ríkisstjórnin skuli gera allt sem nauðsynlegt er til að tryggja að félagið og fjárfestarnir njóti allra þeirra réttinda og hlunninda sem þeim er veitt samkvæmt samningnum og að ekkert verið gert sem takmarki eða á annan hátt hafi óhagstæð áhrif á framkvæmd verkefnisins og starfsemi félagsins.
    Þar segir einnig að ríkisstjórnin skuldbindi sig til að ger það sem í hennar valdi stendur til að samhæfa og greiða fyrir verkefninu í heild sinni. Ríkisstjórnin mun eftir þörfum greiða fyrir útgáfu leyfa og veitingu undanþága í samræmi við samninginn.
    Jafnframt er kveðið á um að ríkisstjórnin skuli leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á raforkulögum, nr. 65/2003, þar sem heimilar verður að gjaldskrá fyrir orkufrekan iðnað megi gilda um starfsemi félagsins á fyrstu fimm starfsárum þess, með því að breyta forsendum eða skilgreiningu á orkufrekum iðnaði.

Grein 12.
    Í 12. gr. er fjallað um upplýsingavernd. Þar kemur fram að ríkisstjórnin hafi m.a. einsett sér að beita sér fyrir því að ná samningum við erlend stjórnvöld, sem gera kleift að flytja gögn til Íslands í samræmi við viðskiptaþarfir gagnaversins. Þá hafi ríkisstjórnin einsett sér að uppfylla staðla sem settir hafa verið samkvæmt lögum Evrópusambandsins og teknir hafa verið upp á Evrópska efnahagssvæðinu, að því leyti sem þeir varða gagnavernd, öryggi upplýsinga, trúnað, persónuvernd og málsmeðferð sem því tengist (sameiginlega nefnt „persónuverndarlög“).

Grein 13.
    Í 13. gr. er fjallað um fjárfestingarvernd. Þar kemur fram að ef ríkisstjórnin óskar eftir því að gera fjárfestingarsamning um byggingu og starfrækslu gagnavers með hagstæðari skilmálum en fram koma í samningi þessum þá muni ríkisstjórnin, ef félagið óskar þess, eiga fund með félaginu til að ræða mögulegar breytingar á samningnum. Félagið skal eiga rétt á því að fara fram á nákvæmar upplýsingar um meiri háttar frávik frá samningnum í því skyni að tryggja rétt sinn í þessu sambandi, en að fenginni slíkri beiðni skal ríkisstjórnin láta í té sanna og tæmandi lýsingu á slíkum frávikum.

Grein 14.
    Í 14. gr. er fjallað um gagnkvæmar skuldbindingar um samstarf. Þar kemur fram að eftir undirritun samningsins munu aðilar halda áfram að vinna saman í góðri trú að öruggum lokum verkefnisins og að allir nauðsynlegri samningar verið undirritaðir eins fljótt og auðið er.

Grein 15.
    Í 15. gr. er fjallað um skuldbindingar. Þar kemur fram að fjárfestarnir og félagið gagnist við skuldbindingum félagsins um að beita öllum raunhæfum ráðum til þess að flýta fyrir fullri starfrækslu gagnaversins. Þá skuldbindur félagið sig til að beita öllum raunhæfum ráðum til að nota íslenska verktaka og þjónustuaðila sem staðsettir eru á því landsvæði þar sem gagnaverið er staðsett, með fyrirvara um nauðsyn þess að uppfylla tækni- og gæðastaðla.

Grein 16.
    Í 16. gr. er fjallað um framsal réttinda. Þar kemur fram að hvers konar framsal réttinda og skyldna allra aðila samkvæmt samningum sé háð samþykki aðilanna. Samþykkja skal framsal án ástæðulauss dráttar.
    Í greininni er og kveðið á um að þrátt fyrir ofangreint skuli félaginu heimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt samningnum án samþykkis ríkisstjórnarinnar til fjármögnunaraðila sem tryggingu vegna fjármögnunar á verkinu. Með fyrirvara um samning milli ríkisstjórnar og viðeigandi fjármögnunaraðila, sé gegnið að tryggingunni, er ríkisstjórninni skylt að samþykkja framsal réttinda félagsins samkvæmt samningi þessum til hvaða aðila sem er.

Grein 17.
    Í 17. gr. er fjallað um ráðstöfun eigna. Þar kemur fram að félaginu skuli heimilt að ráðast í viðskipti til þess að selja hvaða eign sem er, leigja hana, framselja eða ráðstafa með öðrum hætti.

Grein 18.
    Í 18. gr. er fjallað um lög þau sem gilda um samninginn. Þar segir að um samninginn og túlkun hans skuli fara samkvæmt íslenskum lögum. Sé ekki kveðið á um annað í samningnum skulu íslensk lög og reglugerðir gilda.

Grein 19.
    Í 19. gr. er fjallað um lausn deilumála. Þar kemur fram að sérhvern ágreining skuli aðeins bera undir íslenska dómstóla.
    Þrátt fyrir ofangreint getur hvor aðilinn sem er vísað málinu til gerðardóms sem leysir úr því á grundvelli gerðardómsreglna Alþjóðaverslunarráðsins (e. Rules of Arbitration of the International Chamber of Commerce) eins og þær eru í gildi á hverjum tíma.
    Enn fremur segir að aðilarnir skuldbindi sig til að hlíta niðurstöðum gerðardóms án tafar og afsali sér rétti til hvers konar áfrýjunar að svo miklu leyti sem slíkt afsal getur átt sér stað með gildum hætti. Aðilarnir eru sammála um að niðurstöður gerðardóms skuli vera endanlegar og bindandi frá þeim degi sem þær eru kveðnar upp.

Grein 20.
    Í 20. gr. er fjallað um trúnað. Þar kemur fram að aðilar skuli halda trúnað um allar trúnaðarupplýsingar og upplýsingar sem bundnar eru eignarrétti og viðkomandi aðilar eða aðrir á þeirra vegum fá í hendur í tengslum við samninginn, með ákveðnum undantekningum sem fram koma í greininni. Trúnaðarskyldan skal halda gildi í þrjú ár eftir lok samningsins.

Grein 21.
    Í 21. gr. er fjallað um gildistíma samningsins. Þar segir að með fyrirvara um ákvæði 28. gr. skuli samningurinn taka gildi þann dag sem aðilar undirrita hann og skal hann haldast í gildi í tuttugu ár eftir að hann tekur gildi.
    Þá segir í greininni að á þeim tuttugu árum sem fara eftir undirritunardag skulu aðilar hafa lokið viðræðum um framlengingu samningsins í tuttugu ára tímabil eftir lokadag hans með skilmálum sem gagnkvæm sátt er um.

Grein 22.
    Í 22. gr. er fjallað um viðurkenndan texta samningsins. Þar kemur fram að viðurkennt tungumál hans skulu vera enska og íslenska, en ef ósamræmi eða misræmi reynist á milli skuli enski textinn gilda.

Grein 23.
    Í 23. gr. er fjallað um breytingar. Þar kemur fram að samningnum verði aðeins breytt með skriflegum og löglega undirrituðum viðaukasamningi sem aðilar gera með sér.

Grein 24.
    Í 24. gr. er fjallað um tilkynningar vegna samningsins. Í greininni er að finna ákvæði um með hvaða hætti tilkynningar skuli sendar og hvert beri að senda tilkynningar til einstakra aðila samningsins.

Grein 25.
    Í 25. gr. er fjallað um undanþágur. Þar kemur fram að engar undanþágur frá ákvæðum samningsins eða samningsbroti teljist gildar nema þær séu veittar skriflega og séu undirritaðar að þeim aðila sem bundinn verður af henni.

Grein 26.
    Í 26. gr. er fjallað um gildi einstakra ákvæða. Þar kemur fram að ef eitthvert ákvæði samningsins verða talin ólögleg eða óvirk skulu aðilar gera allar mögulegar ráðstafanir til að endurgera samninginn þannig að hann standist ákvæði laga. Í slíkum tilvikum skulu önnur ákvæði samningsins vera áfram bindandi fyrir aðila.

Grein 27.
    Í 27. gr. er fjallað um stöðu samningsins að lögum. Þar er kveðið á um að ríkisstjórnin muni birta samninginn í heild sinni á ensku og íslensku í B-deild stjórnartíðinda. Tekið er fram samningurinn öðlist gildi samkvæmt ákvæðum sínum óháð birtingunni. Fyrrnefnt gildir einnig um síðari breytingar á samningnum.
    Þá segir í greininni að samhliða undirritun samningsins geri félagið samning við Landsnet um flutning raforku til gagnaversins. Enn fremur geri félagið og Verne Real Estate ehf. samning við sveitarfélagið um leyfisveitingar og gjöld.

Grein 28.
    Í 28. gr. er fjallað um gildistöku og tilkynningar. Þar kemur fram að gildistaka samningsins sé háð samþykki stjórna félagsins og Verne Real Estate, heimildarlögunum, samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA. Þá eru aðilar sammála um að ef ekki nást samningar við Landsnet um þjónustu skuli samningurinn endurskoðaður og honum breytt.

Grein 29.
    Í 29. gr. er fjallað um fjölda samningseintaka.

Viðaukar.
    Samningnum fylgir einn viðauki, þ.e. Viðauki I um meginreglur tengsla aðila og milliverðlagningu. Fylgiskjal III.


Lýsing á meginatriðum í kaupsamningi um Valhallarbraut 868 í Reykjanesbæ
milli ríkissjóðs og Verne Real Estate ehf., dags. 26. febrúar 2008.


1. Inngangur
    Einn þeirra samninga sem gerður var í tengslum við verkefnið var kaupsamningur milli ríkissjóðs („ríkissjóður“ eða „seljandi“) og Verne Real Estate ehf. („félagið“ eða“kaupandi“) um fasteignina Valhallarbraut 868, Reykjanesbæ (fastanúmer 230 8902), sem nýta á undir fyrirhugað gagnaver. Samningurinn er 11 greinar og hér á eftir lýsing á helstu atriðum samningsins til útskýringa, en lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn um efni hans.

2. Lýsing á einstökum atriðum samningsins
Grein 1
    í 1. gr. er að finna lýsingu á hinu selda. Um er að ræða eftirfarandi byggingar, sem staðsettar eru innan vallarmarka á Keflavíkurflugvelli, ásamt öllum búnaði og lögnum og viðbótum sem þar er að finna (hér eftir nefnd „fasteignin“):
     a.      Bygging nr. 868, fastanúmer 230 8902 (03 0101). Skráð stærð eignarinnar er samkvæmt yfirliti Fasteignamats ríkisins 10.064,0 m 2. Rétt er að taka fram að samkvæmt athugasemdum þinglýsingarstjóra við þinglýsingu er lóðin 11.064,0 m 2. Brunabótamat hafði ekki verið skráð við undirritun en fasteignamat var ISK 452.050.000. Byggingarár er 1955.
     b.      Bygging nr. 869, fastanúmer 230 8902 (04 0101). Skráð stærð eignarinnar er samkvæmt yfirliti Fasteignamats ríkisins 16.606,4 m 2. Brunabótamat hafði ekki verið skráð við undirritun en fasteignamat var ISK 578.550.000. Byggingarár er 1954.
     c.      Bygging nr. 872, fastanúmer 230 8902 (05 0101). Skráð stærð eignarinnar er samkvæmt yfirliti Fasteignamats ríkisins 1.009,3 m 2. Brunabótamat hafði ekki verið skráð við undirritun en fasteignamat var ISK 52.700.000. Byggingarár er 1954.
     d.      Bygging nr. 866, fastanúmer 230 8902 (02 0101). Skráð stærð eignarinnar er samkvæmt yfirliti Fasteignamats ríkisins 782,2 m 2. Brunabótamat hjá Fasteignamati ríkisins var ákveðið ISK 59.450.000 og fasteignamat var ISK 23.650.000. Rétt er að taka fram að samkvæmt athugasemd frá þinglýsingarstjóra við þinglýsingu er brunabótamatið ISK 62.900.000. Byggingarár er 1951.
     e.      Bygging nr. 864, fastanúmer 230 8902 (01 0101). Skráð stærð eignarinnar er samkvæmt yfirliti Fasteignamats ríkisins 1.564,7 m 2. Brunabótamat hafði ekki verið skráð við undirritun en fasteignamat var ISK 252.100.000. Byggingarár er 1955.
    Þá er kveðið á um að gerður verði sérstakur lóðarleigusamningur á milli kaupanda og seljanda varðandi eignina til að skilgreina leigu lóðar sem skráð er undir númerinu 214 247 hjá Fasteignamati ríkisins. Stærð hennar er 9,6 hektarar.

Grein 2.
    Í 2. gr. samningsins er að finna upplýsingar um kaupverð og fasteignina. Kemur þar fram að kaupverðið skuli vera USD 14.500.000, sem skuli greitt með eftirfarandi hætti:

1. 26. febrúar 2008 („innborgun“) 25.000
2. 26. mars 2008 („lokagreiðsla“) 14.175.000
Samtals 14.500.000

Grein 3.
    Í 3. gr. er fjallað um áhvílandi veðskuldir og kvaðir. Kemur þar fram að í gildi sé lóðarleigusamningur milli ríkissjóðs og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. (KADECO) sem verði sagt upp 26. mars 2008, áður en nýr lóðarleigusamningur samningsaðila verður skráður.
    Þá kemur fram að eftirfarandi kvaðir gildi um fasteignina:
1)    Að kaupandi geri sér grein fyrir að þegar skipulagningu og svæðaskiptingu lýkur gætu mæri hafa færst aðeins til og lóðarstærðir tekið breytingum í samræmi við það. Einnig gætu vegir og aðrar aðgengisleiðir hafa breyst eða færst til. Þær breytingar gefi kaupanda engan rétt á fjárhagslegum bótum, svo fremi sem þær séu ekki efnislegs eðlis. Hafi hins vegar lóðarstærð breyst umtalsvert mun lóðarleigusamningur og/eða kaupverð lóðar breytast í samræmi við það miðað við fermetraverð í USD.
2)    Kaupandi skal tryggja seljanda leyfi til aðgengis að fasteigninni að aflokinni afhendingu til þess að viðhalda eða gera við skilti, rafmagnsstaura og þjónustulínur og lagnir (síma, hita, vatn, rafmagn o.s.frv.) sem fyrir eru, að því marki sem seljandi fer fram á þannig aðgengi. Ákveðnar forsendur eru þó fyrir slíku aðgengi sem nánar er lýst í samningnum.

Grein 4.
    Í 4. gr. er fjallað um ástand hins selda. Kemur þar fram að fasteignin sé seld í núverandi ástandi í samræmi við lýsingar og ábyrgðir seljanda skv. 5. gr. samningsins, auk ábyrgðarskyldu seljanda eins og hún er nánar skilgreind í grein 4.4.
    Þá kemur einnig fram að seljanda beri skylda til að verja kaupanda og félaga hans, stjórnendur, yfirmenn, starfsfólk og umboðsmenn, bæta þeim tjón og tryggja skaðleysi þeirra gagnvart öllum kröfum, dómum, skemmdum, refsingum, kostnaði, sektum, bótum (þar með taldar upphæðir sem greiddar eru til uppgjörs á kröfum) eða annað fjárhagslegt tjón, þar með taldar sanngjarnar þóknanir til lögmanna, ráðgjafa og sérfræðinga, og stöðvun viðskipta eða skyldan kostnað eða útgjöld, bein eða óbein, sem rísa vegna þess að hættuleg efni er að finna hjá, í, á eða undir fasteigninni eða sem berst frá henni, nema hvað varðar það magn sem seljandi getur sýnt fram á að rekja megi til kaupanda, starfsfólks hans, umboðsmanna eða verktaka. Þessi bótaskylda kemur til viðbótar en ekki í stað annarra réttinda eða úrbóta sem kaupandi hefur aðgang að.

Grein 5.
    Í 5. gr. er fjallað um afhendingu fasteignarinnar, umboð og ábyrgðir. Þar kemur fram að seljandi skuli afhenda kaupanda fasteignina þann 26. mars 2008.
    Þá kemur einnig fram að seljandi skuli án tafar tilkynna kaupanda ef afhending fasteignarinnar dregst fram yfir samþykkt dagsetningu og láta kaupanda vita um öll atriði sem varða þróun eða breytingar sem máli kunna að skipta varðandi svæðaskiptingu, skipulag eða annað sem snerti fasteignina. Enn fremur gerir kaupandi sér grein fyrir að bygging nr. 864 sé búin dísilrafölum og gegnir nú hlutverki vararafstöðvar í rafveitukerfi svæðisins. Kaupandi og seljandi eru sammála um að viðhalda stöðinni sem vararafstöð fyrir svæðið á meðan verið er að endurbyggja dreifikerfið á næstu þremur árum.
    Að lokum kemur fram að seljanda sé óheimilt að leigja fasteignina þriðja aðila eða heimila þriðja aðila afnot fasteignarinnar eftir undirritun samningsins.

Grein 6.
    Í 6. gr. er fjallað um afhendingarkostnað fasteignarinnar. Þar samþykkir kaupandi að bera kostnað af stimplun og þinglýsingu skjala hjá fasteignaskrá sýslumannsins í Keflavík og þýðingu samningsins fyrir skráningu.

Grein 7.
    Í 7. gr. koma fram skilmálar við afhendingu. Kemur þar fram að seljandi og kaupandi þurfi að uppfylla eftirfarandi skilmála svo kaupanda sé skylt að afhenda lokagreiðslu og samþykkja yfirtöku fasteignarinnar:
1)    Seljandi, kaupandi og Reykjanesbær skulu gera þríhliða samkomulag varðandi samstarf um skipulag, svæðaskiptingu og leyfi vegna hinna seldu fasteigna. Forsenda samkomulags samningsaðila ætti að vera uppkast að svæðisskipulagi sem kaupandi leggur fram.
2)    Seljandi skal við afhendingu löggilda og afhenda lóðarleigusamning sem var hjálagður sem fylgigagn B.
3)    Seljandi skal við afhendingu löggilda og afhenda önnur skjöl, eftir því sem þörf krefur eða viðeigandi er, til að ljúka viðskiptum sem samningurinn nær til.

Grein 8.
    Í 8. gr. er fjallað um vanrækslu seljanda. Kemur þar fram að standi seljandi ekki við einhverjar skuldbindingar sínar eða þennan samning eða ef einhver framsetning eða ábyrgð seljanda í samningnum er röng eða villandi á einhvern efnislegan hátt, hefur kaupandi heimild til þess að slíta samningnum, fá skaðabætur og/eða leita úrbóta á hvern þann hátt er lög heimila.

Grein 9.
    Í 9. gr. er fjallað um breytingar og viðbætur við samninginn. Kemur þar fram að hvorki megi bæta við hann, breyta eða þrengja á neinn hátt nema það sé gert skriflega og undirritað af báðum aðilum.
    Þar segir jafnframt að fylgiskjöl með samningnum og hluti hans séu:
     A.      Löggild lýsing á hinni seldu fasteign.
     B.      Lóðarleigusamningur (óundirritaður).
     C.      „Leyfi fyrir 1. áfanga“.
     D.      Umhverfisskýrsla, dagsett 29. nóvember 2007.
    Að lokum kemur fram að kaupandi megi framselja samninginn öllum dótturfyrirtækjum eða tengdum lögaðila sem kaupandi eða stjórnendur ráða yfir.

Grein 10.
    Í 10. gr. er fjallað um varnarþing og lögsögu. Kemur þar fram að samninginn skuli túlka í samræmi við íslensk lög og heyra undir þau. Enn fremur að Héraðsdómur Reykjaness skuli taka til umfjöllunar öll þau mál sem kunna að rísa af samningnum.

Grein 11.
    Í 11. gr. er fjallað um tungumál hans. Kemur þar fram að samningsaðilar geri samninginn á ensku með það fyrir augum að ensk tunga ráði túlkun hans þrátt fyrir að hann sé þýddur á íslenska tungu.



Fylgiskjal IV.


Lýsing á meginatriðum í lóðarleigusamningi milli ríkissjóðs Íslands
og Verne Real Estate ehf., dags. 9. maí 2008.


1. Inngangur
    Annar samningur sem gerður var í tengslum við verkefnið var lóðarleigusamningur milli ríkissjóðs Íslands („ríkissjóður“ eða „leigusali“) og Verne Real Estate („félagið“ eða „leigutaki“) um fasteign með fastanúmerið 230 8902 hjá Fasteignamati ríkisins, sem staðsett er innan marka herstöðvarinnar í Keflavík að Valhallarbraut 868 í Reykjanesbæ á 9,6 hektörum, ásamt öllum búnaði og lögnum og viðbótum sem þar er að finna (hér eftir nefnd „eignin“). Samningurinn er 12 greinar og fer hér á eftir lýsing á helstu atriðum samningsins til útskýringa, en lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn á efni samningsins.

2. Lýsing á einstökum atriðum lóðarleigusamningsins
Grein 1.

    Í 1. gr. er fjallað um leigusamninginn og framsal eignarinnar. Kemur þar fram að leigusali tryggi leigutaka rétt til að leita allra leyfa um skipulag, svæðaskiptingu og önnur leyfi og samþykktir fyrir og til að reisa aðstöðu eins og lýst er í „Aðalskipulagi B“ sem fylgir með samningnum sem fylgigagn B og allar þær breytingar sem leigutaki óskar eftir („nauðsynleg leyfi“). Leigutaki skal afla sér allra nauðsynlegra leyfa fyrir hverjum þeim aðgerðum sem nefndar eru í greininni og ber leigusala að starfa með leigutaka í því skyni að afla slíkra leyfa.
    Þá kemur fram að leigutaki megi gera brunna til að sækja jarðvatn til notkunar og/eða ívarpsbrunna (e. injection wells) á eigninni.
    Þar segir jafnframt að leigusali skuli ekki gera neina sölu- eða leigusamninga eða sambærilega samninga við neina starfrækjendur fjölnota tölvumiðstöðva á samkeppnismarkaði næstu þrjú ár eftir undirritun samningsins (9. maí 2008) án ótvíræðs skriflegs samþykkis leigutaka, og getur leigutaki neitað að láta það af hendi a eigin vild og geðþótta. Við þetta 36 mánaða einkaréttartímabil verður staðið að því gefnu að kaupandi hafi fjárfest fyrir að lágmarki USD 30.000.000 á 24 mánaða tímabili eftir 9. maí 2008.
    Að lokum segir að leigjanda beri skylda til að verja kaupanda og félaga hans, stjórnendur, yfirmenn, starfsfólk og umboðsmenn, bæta þeim tjón og tryggja skaðleysi þeirra gagnvart öllum kröfum, dómum, skemmdum, refsingum, kostnaði, sektum, bótum (þar með taldar upphæðir sem greiddar eru til uppgjörs á kröfum) eða annað fjárhagslegt tjón, þar með taldar sanngjarnar þóknanir til lögmanna, ráðgjafa og sérfræðinga, og stöðvun viðskipta eða skyldan kostnað eða útgjöld, bein eða óbein, sem rísa vegna þess að hættuleg efni er að finna hjá, í, á eða undir eigninni eða sem berst frá henni, nema hvað varðar það magn sem leigusali getur sýnt fram á að rekja megi til kaupanda, starfsfólks hans, umboðsmanna eða verktaka. Þessar tjónabætur skulu ganga til og vera aðfararhæfar af leigutaka og (i) öllum leigutökum til framtíðar litið samkvæmt samningnum, (ii) öllum núverandi og framtíðareigendum allra úrbóta sem staðsettar eru a fasteigninni, og (iii) öllum lánveitendum sem útvega fjármagn til hverra þeirra aðila vegna fasteignarinnar eða viðkomandi úrbóta. Ákvæði greinarinnar skulu gilda þrátt fyrir að samningurinn gangi úr gildi eða verði sagt upp fyrir tímann. Þessi bótaskylda kemur til viðbótar en ekki í stað annarra réttinda eða úrbóta sem kaupandi hefur aðgang að.

Grein 2.
    Í 2. gr. er fjallað um leiguskilmála. Kemur þar fram að skilmálar samningsins taki gildi frá og með degi sem eignin er afhent („gildistökudegi“) og gilda áfram um 99 ára tímabil. Skilmálar samningsins ganga úr gildi á síðasta degi leigutímabilsins án tilkynningar þar að lútandi („grunnleigutíma“). Leigan verður endurnýjuð sjálfkrafa í lok grunnleigutíma samningsins um fimm ára tímabil og að því búnu í lok hvers fimm ára tímabils, nema honum sé sagt upp með yfirlýsingu af öðrum hvorum samningsaðilanum. Slík yfirlýsing skal vera skrifleg og berast hinum samningsaðilanum að minnsta kosti ári fyrir lok grunnleigutíma eða fyrir lok hvers fimm ára viðbótartímabils.
    Þar kemur jafnframt fram að hvorugur aðili geti sagt upp samningnum einhliða á samningstímabilinu, nema hinn samningsaðilinn hafi brotið alvarlega gegn honum og að ekki hafi verið bætt úr því innan þrjátíu daga eftir að hinum brotlega var tilkynnt skriflega um brotið. Undanteknir eru þó frá þessu sem nánar er lýst í samningnum.
    Að lokum kemur fram að þrátt fyrir uppsögn á samningnum skuli leigutaki halda áfram eignarhaldi á þeim úrbótum sem staðsettar eru á eigninni og á en er ekki skyldugur til að fjarlægja allar eða hluta þessara úrbóta eigi síðar en sex mánuðum eftir að samningurinn féll úr gildi.

Grein 3.
    Í 3. gr. er fjallað um notkun fasteignarinnar. Þar kemur fram að leigutaka séu heimil óskorðuð afnot af eigninni. Skal leigusali ekki heimila einum öðrum en leigutaka nein afnot af eigninni nema leigutaki hafi samþykkt þau skriflega.

Grein 4.
    Í 4. gr. er að finna yfirlýsingar, ábyrgðir, takmarkanir og viðbætur. Þar kemur fram að aðalmarkmið og helsta hlutverk leigusala sé að standa fyrir þróun og umbreytingu fyrrverandi bandarísku herstöðvarinnar í Keflavík á Íslandi til borgaralegrar nýtingar. Eignin er á meðal þeirra fasteigna sem leigusali hyggst breyta í fasteignir til borgaralegrar notkunar. Eftirfarandi kvaðir gilda um fasteignirnar:
1)    Leigutaki gerir sér grein fyrir að þegar skipulagningu og svæðaskiptingu lýkur gætu mæri hafa færst aðeins til og lóðarstærðir tekið breytingum í samræmi við það. Einnig gætu vegir og aðrar aðgengisleiðir hafa breyst eða færst til. Þær breytingar gefa kaupanda engan rétt á fjárhagslegum bótum, svo fremi sem þær séu ekki efnislegs eðlis. Hafi hins vegar lóðarstærð breyst umtalsvert mun lóðarleigusamningur og/eða kaupverð lóðar breytast í samræmi við það miðað við fermetraverð í USD.
2)    Leigutaki skal tryggja seljanda leyfi til aðgengis að fasteigninni að aflokinni afhendingu til þess að viðhalda eða gera við skilti, rafmagnsstaura og þjónustulínur og lagnir (síma, hita, vatn, rafmagn o.s.frv.) sem fyrir eru, að því marki sem seljandi fer fram á þannig aðgengi. Ákveðnar forsendur eru þó fyrir slíku aðgengi sem nánar er lýst í samningnum.
    Að lokum kemur fram að eftirfarandi viðaukar og hjálögð gögn séu hluti af samningnum:
     A.      Löggild lýsing á leigðri fasteign.
     B.      „Aðalskipulag“.

Grein 5.
    Í 5.gr. er fjallað um leigu. Þar kemur fram að heildarleiga fyrir eignina sé USD 0,80 (áttatíu bandarísk sent) á hvern m 2 eignarinnar.
    Þá segir að leigutaki skuli greiða árlega leigu fyrir fram þann 5. janúar hvers árs eða fyrr fyrir viðkomandi almanaksár. Greiðsla leigu fyrir fyrsta árið skal greidd þann dag sem samningurinn er undirritaður. Hafi leigan ekki borist þrjátíu dögum eftir gjalddaga skulu hæstu leyfilegu dráttarvextir reiknast á greiðsluna eins og þeir eru skilgreindir af Seðlabanka Íslands.

Grein 6.
    Í 6. gr. er fjallað um skatta og hlutfallsleg gjöld. Þar segir að leigutaka beri að greiða alla lögbundna skatta, hlutfallsleg gjöld og aðrar álögur sem lagðar verða á fasteignina á hvaða tíma sem er eða á einhver þau réttindi og/eða hagsmuni sem leigutaki kann að hafa samkvæmt samningnum.

Grein 7.
    Í 7. gr. er fjallað um tryggingar. Þar kemur fram að leigutaki ábyrgist að greiða öll tryggingaiðgjöld sem lögbundið er að greiða af eigninni.

Grein 8.
    Í 8. gr. er fjallað um framsal, veðrétt og skráningu eignar. Þar kemur fram að leigutaka skuli vera heimilt að framselja eða úthluta samningnum eða hvaða fasteign sem er á eigninni, framleigja eignina eða hvaða hluta hennar sem er, heimila hvað hagsmuni, forréttindi eða leyfi sem vera kann í tengslum við samninginn, allt án samþykkis leigusala.
    Þar segir jafnframt að leigutaki geti á samningstímanum veðsett hagsmuni sína í eigninni.
    Leigusali skal hvorki yfirfæra eða úthluta öðrum þessum samningi (nema til aðila sér tengdum) eða veita öðrum neina hagsmuni, forréttindi eða leyfi af neinu tagi í tengslum við samninginn nema fyrir liggi ótvírætt skriflegt leyfi leigutaka.

Grein 9.
    Í 9. gr. er fjallað um hagsmunagæslu lánveitenda. Þar koma fram úrræði leigusala vegna vanrækslu leigutaka og tilkynningar til mögulegra lánveitenda á slíkri vanrækslu.

Grein 10.
    Í 10. gr. er fjallað um staðfestingarvottorð (Estoppel certificate). Kemur þar fram að leigusali og leigutaki skulu semja og afhenda hvor öðrum innan tíu daga eftir að beiðni þar að lútandi berst, vottorð sem eru nánar tilgreind í samningnum.

Grein 11.
    Í 11. gr. er fjallað um varnarþing og lögsögu. Kemur þar fram að samninginn skuli túlka í samræmi við íslensk lög og heyra undir þau. Enn fremur að Héraðsdómur Reykjaness skuli taka til umfjöllunar öll þau mál sem kunna að rísa af samningnum.

Grein 12.
    Í 12. gr. er fjallað um tungumál hans. Kemur þar fram að samningsaðilar geri samninginn á ensku með það fyrir augum að ensk tunga ráði túlkun hans þrátt fyrir að hann sé þýddur á íslenska tungu.
    Þá segir að ef Reykjanesbær gerir samning um gagnaver geti félögin óskað eftir því að ákvæði slíks samnings, sem eru hagstæðari fyrir gagnaver á Íslandi en ákvæði þessa samnings, skuli einnig gilda fyrir félögin. Í slíkum tilvikum ber Reykjanesbæ, að beiðni félaganna, gera viðauka við samning þennan til að innleiða slík ákvæði. Félögin skulu hafa rétt til þess að óska eftir ítarlegum upplýsingum um slíka samninga, til að tryggja rétt sinn samkvæmt þessari grein. Skal Reykjanesbær láta í té afrit af slíkum upplýsingum eins fljótt og mögulegt er.



Fylgiskjal V.


Lýsing á meginatriðum í samningi um leyfisveitingar og gjöld milli
Verne Holdings ehf., Verne Real Estate ehf., Verne Global Inc.
og Reykjanesbæjar, dags. maí 2009.


1. Inngangur
    Í tengslum við verkefnið var einnig gerður samningur um greiðslu opinberra gjalda og leyfisveitingar. Samningurinn er milli Verne Holdings ehf., Verne Real Estate ehf., Verne Global Inc. (hér eftir nefnd félögin“) og Reykjanesbæjar. Samningurinn er 12 greinar og fer hér á eftir lýsing á helstu atriðum samningsins til útskýringa, en lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn um efni samningsins.

2. Lýsing á einstökum atriðum samningsins
Inngangur.

    Í inngangi er fjallað stuttlega um aðdraganda samningsins og vísað til kaupsamnings um fasteignina Valhallarbraut í Reykjanesbæ, dags. 26. febrúar 2008 og lóðarleigusamnings um sömu eign, dags. 9. maí 2008. Báðum þessum samningum er lýst í fylgiskjölum III og IV.

Grein 1.
    Í 1. gr. er fjallað um gatnagerðargjöld. Kemur þar fram að félögin skuli ekki greiða nein gatnagerðargjöld skv. lögum nr. 153/2006 um gatnagerðargjöld vegna núverandi fasteigna á Valhallarbraut í Reykjanesbæ.
    Þá segir að vegna nýrra fasteigna á svæðinu munu félögin greiða gatnagerðargjöld skv. lögum nr. 153/2006, allt að 25% af viðeigandi gjöldum, að því gefnu að í framtíðinni muni félagið, á eigin kostnað, sjá um gatnagerðarframkvæmdir við Valhallarbraut 868 og að slík vinna sé í samræmi við þá vinnu sem almennt er innt af hendi af bæjarfélögum gegn greiðslu gatnagerðargjalda.

Grein 2.
    Í 2. gr. er fjallað um fasteignagjöld. Þar kemur fram að félögin skuli greiða fasteignaskatt sem nemur 1,65% af áætluðu verðmæti allra bygginga, húsnæðis og mannvirkja í eigu félagsins eða á leigu hjá því, eða þá annan fasteignaskatt sem Reykjanesbær kann almennt að leggja á byggingar af sama toga ef hann er lægri.
    Þá segir að skattstofninn nemi ISK 1.030.600.000 bundið byggingarvísitölu þess mánaðar þegar félögin hefja þjónustu til viðskiptavina. Verðmætið undanskilur verðmat á byggingum 864, 866 og 872, sem fyrirhugað er að rífa.
    Skattstofninn fyrir síðari byggingar félagsins, sem reistar eru á lóð þess á Valhallarbraut, skal vera kostnaðurinn við byggingu útveggja bygginganna eða 85.500 kr. á hvern fermetra, hvort sem lægra er, bundið byggingarvísitölu frá þeim mánuði þegar fasteignin er tekin í notkun.

Grein 3.
    Í 3. gr. er fjallað um vatns- og holræsagjöld. Kemur þar fram að slík gjöld samkvæmt lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og sambærileg gjöld skuli ekki lögð á félögin umfram kostnað Reykjanesbæjar við veitingu holræsaþjónustu til félaganna. Heitt og kalt vatn er útvegað af HS-veitum.

Grein 4.
    Í 4. gr. er fjallað um skipulags- og byggingarleyfi. Kemur þar fram að Reykjanesbær muni gefa út byggingarleyfi vegna byggingar á gagnaverinu og viðeigandi aðstöðu í samræmi við skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, og byggingarreglugerð nr. 441/1998.
    Þá segir að félögin muni ekki greiða nein byggingargjöld til Reykjanesbæjar vegna núverandi bygginga við Valhallarbraut. Vegna nýrra bygginga muni félögin hins vegar greiða byggingargjöld einu sinni í samræmi við stærð byggingarinnar samkvæmt eftirfarandi töflu:

0–500 m2 = 101.750 ISK
501–1000 m2 = 184.140 ISK
1001–2000 m2 = 272.910 ISK
2001–5000 m2 = 409.310 ISK
5000 m2 og stærri = 545.710 ISK

    Þá segir jafnframt að félögin muni borga skipulagsgjald vegna nýrra bygginga í samræmi við fjárfestingarsamning félaganna við ríkisstjórn Íslands (sjá fskj. II) („fjárfestingarsamningurinn“).

Grein 5.
    Í 5. gr. er fjallað um samningstímabil. Kemur þar fram að samningurinn skuli taka gildi frá og með sama degi og gilda í sama tíma og fjárfestingarsamningurinn („samningstíminn“).

Grein 6.
    Í 6. gr. er fjallað um varnarþing og lögsögu. Þar segir að með samninginn skuli farið að íslenskum lögum, nema kveðið sé á um annað í samningnum og að sérhvern ágreining skuli aðeins bera undir íslenska dómstóla.
    Þrátt fyrir ofangreint getur hvor aðilinn sem er vísað málinu til gerðardóms sem leysir úr því á grundvelli gerðardómsreglna Gerðardómsstofnunar Verslunarráðsins í Stokkhólmi (e. Arbitration Institute of the Stockholm Chamber of Commerce) eins og þær eru þegar samningurinn er undirritaður.
    Enn fremur segir að aðilarnir skuldbindi sig til að hlíta niðurstöðum gerðardóms án tafar og afsali sér rétti til hvers konar áfrýjunar að svo miklu leyti sem slíkt afsal getur átt sér stað með gildum hætti. Aðilarnir eru sammála um að niðurstöður gerðardóms skuli vera endanlegar og bindandi frá þeim degi sem þær eru kveðnar upp. Aðilar samningsins skulu halda áfram að sinna skyldum sínum samkvæmt samningnum þrátt fyrir útistandandi ágreining þeirra á milli.

Grein 7.
    Í 7. gr. er fjallað um tungumál. Kemur þar fram að hið opinbera tungumál samningsins skuli vera enska.

Grein 8.
    Í 8. gr. er fjallað um viðbætur við hann. Þar kemur fram að samningnum verði aðeins breytt með skriflegum og löglega undirrituðum samningi sem aðilar gera með sér.

Grein 9.
    Í 9. gr. er fjallað um framsal. Þar kemur fram að hvers konar framsal réttinda og skyldna allra aðila samkvæmt samningum sé háð samþykki aðilanna. Samþykkja skal framsal án ástæðulauss dráttar.
    Þá segir að þrátt fyrir framangreint skuli félögunum heimilt að framselja réttindi sín og skyldur samkvæmt samningum til aðila innan OECD ríkis, án samþykkis Reykjanesbæjar, að nánari skilyrðum uppfylltum sem fram koma í samningnum.

Grein 10.
    Í 10. gr. er fjallað um tilkynningar vegna samningsins. Í greininni er að finna ákvæði um með hvaða hætti tilkynningar skuli sendar og hvert beri að senda tilkynningar til einstakra aðila samningsins.

Grein 11.
    Í 11. gr. er fjallað um skilyrði og fjárfestingarvernd. Kemur þar fram að gildistaka samningsins sé háð því skilyrði að gengið verði frá fjárfestingarsamningnum.
    Þá segir að ef Reykjanesbær gerir samning um gagnaver þá geti félögin óskað eftir því að ákvæði slíks samnings, sem eru hagstæðari fyrir gagnaver á Íslandi en ákvæði samnings þessa, skuli gilda fyrir félögin. Í slíkum tilvikum ber Reykjanesbæ, að beiðni félaganna, gera viðauka við samning þennan til að innleiða slík ákvæði. Félögin skulu hafa rétt til þess að óska eftir ítarlegum upplýsingum um slíka samninga, til að tryggja rétt sinn samkvæmt þessari grein. Skal Reykjanesbær láta í té afrit af slíkum upplýsingum eins fljótt og mögulegt er.

Grein 12.
    Í 12. gr. fjallað um fjölda samningseintaka.




Fylgiskjal VI.


Lýsing á meginatriðum í orkusamningi milli Landsvirkjunar
og Verne Holdings ehf., dags. 22. október 2009.


1. Inngangur.
    Gerður hefur verið raforkusamningur fyrir fyrirhugað gagnaver í Reykjanesbæ milli Landsvirkjunar og Verne Holdings ehf. („félagið“) (hér eftir nefndur „orkusamningurinn“ eða „samningurinn“). Hér á eftir fer stutt lýsing á samningnum til útskýringa á efni hans. Lýsingunni er hins vegar ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn um efni samningsins.

2. Lýsing á efni samningsins
Formáli og inngangur.

    Í formála og inngangi er fjallað stuttlega um aðdraganda og aðila samningsins. Þá er fjallað um ástæður hans, viðauka og gildistöku. Enn fremur er ýmis hugtök skýrð, með tilliti til hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum.
    Þar kemur fram að ástæður samningsins séu að setja niður skilmála og skilyrði fyrir sölu á raforku til starfsemi gagnavers og réttindi og skyldur aðila í því sambandi. Þá segir að samningurinn skuli ekki taka gildi nema að fullnægðum ákveðnum skilyrðum sem fram koma í samningnum.

Afhending raforku.
    Samningurinn kveður á um það magn raforku sem Landsvirkjun ber að hafa tiltækt fyrir félagið. Samkvæmt samningnum skal Landsnet hafa til afhendingar til félagsins raforku í eftirfarandi magni („frátekin raforka“) frá og með þeim degi þegar félagið hefur reglulega starfsemi sína („upphafsdagur“):

Geta: (á klst.) 25,0 MW
Orka á ári: 210,0 GWh

    Frá og með upphafsdegi getur félagið nýtt framangreinda orku eftir þörfum félagsins í samræmi við nánari ákvæði í samningnum og viðeigandi ákvæði í lögum og reglugerðum („samningsbundin raforka“).
    Flutningur á raforku frá Landsneti til gagnaversins mun vera samkvæmt flutningssamningi félagsins við Landsnet hf.
    Komi til þess að félagið hafi þörf fyrir meiri raforku en sem nemur frátekinni raforku getur félagið óskað eftir slíkri auka orku. Skal Landsnet leggja sig fram við veita slíka auka orku allt að 50 MW.
    Hvað varðar tryggð lágmarkskaup félagsins, þá skuldbindur það sig frá upphafsdegi til samningsloka að greiða fyrir 90% af samningsbundinni raforku á sérhverju 12 mánaða tímabili, óháð nýtingu.

Pöntun á raforku
    Um pöntun á raforku fer samkvæmt reglum og skilyrðum settum af Landsneti hf. eða Landsvirkjun, sem eiga við um viðskiptavini í orkufrekum iðnaði, eins og þær eru á hverjum tíma.

Raforkuverð
    Samkvæmt ákvæði samningsins um trúnað er ekki unnt að greina frá ákvæðum samningsins um raforkuverð.
    Félaginu er heimilt að skila raforku í samræmi við nánari ákvæði í samningunum.

Almenn ákvæði
    Almenn ákvæði samningsins eru sambærileg því sem tíðkast hefur í samningum um orkusölu til álversins á Grundartanga og álversins í Helguvík.
    Samkvæmt samningnum er gildistími hans 20 ár frá upphafsdegi. Áður en framangreindum samningstíma er lokið skulu aðilar setjast niður og semja um framlengingu samningsins um 10 ár til viðbótar, nema félagið ákveði að hætta starfsemi.
    Samningnum verður ekki rift nema af ástæðum sem tilgreindar eru í samningnum og miðast almennt við stórfelldan efndabrest.
    Um efni samningsins gilda íslensk lög og sérhvern ágreining skal bera undir íslenska dómstóla, nema annar hvor aðilanna kjósi að vísa máli til gerðardómsmeðferðar.
    Efni samningsins er háð ströngum reglum um trúnað og er óheimilt að upplýsa um efni hans nema í samræmi við trúnaðarákvæði samningsins.
    Breytingar á samningnum verða aðeins gerðar með skriflegum og löglega undirrituðum samningi sem aðilar gera með sér.
    Framsal réttinda og skyldna aðila samkvæmt samningnum er háð samþykki gagnaðila.

Önnur ákvæði
    Landsvirkjun skal bundin af samningnum þrátt fyrir að gerðar verði breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins á grundvelli breytinga á þeim lögum sem gilda um Landsvirkjun.
    Ef samningsbundin raforka fer yfir 25 MW skulu aðilar hefja viðræður um útgáfu mögulegrar ábyrgðar eða annarra trygginga.
    Í samningnum eru sett ákveðin skilyrði fyrir gildistöku hans. Öll skilyrðin lúta að félaginu og varða samninga þess við þriðju aðila, leyfi og fjármögnun.
    Samningurinn kemur í stað fyrri samnings aðila frá 28. janúar 2008 og fellur sá samningur úr gildi við undirritun samnings þessa.



Fylgiskjal VII.


Lýsing á meginatriðum í drögum að tengi- og flutningssamningi
milli Landsnets hf. of Verne Holdings ehf.


1. Inngangur
    Einn af þeim samningum sem gerður verður vegna verkefnisins er samningum um flutning raforku fyrir rekstur gagnaversins milli Landsnets hf. (hér eftir nefnt „Landsnet“) og Verne Holdings ehf. (hér eftir nefnt „félagið“). Um er að ræða hefðbundinn samning við stórnotanda sem tengist flutningskerfi Landsnets. Hér fer á eftir stutt lýsing til útskýringa á efni samningsins. Lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn á efni hans.

2. Lýsing á efni samningsins
Formáli
    Í formála er fjallað stuttlega um aðdraganda og aðila samningsins. Samningurinn lýtur að flutningi á raforku til gagnavers í Reykjanesbæ. Verkefnið mun þarfnast um 20MW (á klst.) og allt að 185 GWh á ári. Spennan á orkuflutningnum mun verða 33 kV í samræmi við skilmála Landsnets um orkuflutning undir 132kV.

Umfang samningsins
    Með samningnum skuldbindur Landsnet sig til að tryggja flutning á umsaminni raforku til gagnaversins og sjá um tengingu gagnaversins og orkuframleiðanda við flutningskerfið. Félagið skuldbindur sig til þess að móttaka umsamda raforku og að Landsneti verið greitt fyrri flutning þeirrar raforku. Samningurinn varðar því flutning umsaminnar orku frá afhendingarstað innmötunar og afhendingarstað úttektar.
    Uppfylli félagið ekki lágmarksskilyrði fyrir stórnotendur skv. 1. gr. raforkulaga, nr. 65/ 2003, innan þriggja ára frá því að flutningur hefst, fellur samningurinn niður og félagið verður viðskiptavinur viðkomandi dreifingaraðila.

Framkvæmdir við flutningskerfið
    Í samningnum er mælt fyrir um að Landsnet muni hanna og byggja flutningsvirki sem tilbúin verða fyrir áætlaða afhendingardaga.

Tenging við flutningskerfi
    Í samningnum segir að sú raforka sem Landsvirkjun hefur samið við félagið um verði afhent félaginu á núverandi virkjunum Landsvirkjunar og að Landsnet afhendi raforkuna við spennistöð.

Umsamin raforka
    Með samningnum skuldbindur Landsnet sig til að flytja umsamda raforku til gagnaversins miðað við áformað afl og orkumagn.

Gæði umsaminnar raforku
    Í samningnum eru þá ákvæði um straum og rafspennu. Landsnet mun ávallt hafa tiltækt reiðuafl vegna truflana á stærstu framleiðslueiningu flutningskerfisins. Skilgreining reiðuafls er að finna í skilmálum Landsnets.

Gjöld og skilmálar greiðslu
    Félagið mun sjá til þess að Landsneti verði greidd flutningsgjöld umsaminnar raforku samkvæmt gjaldskrá og skilmálum Landsnets fyrir flutning raforku til stórnotenda.

Mælingar
    Umsamin raforka sem afhent er gagnaverinu skal mæld á útgangandi rofa reit í spennustöðinni Ásbrú. Aflestur á mælum skal inntur af hendi af Landsneti, en mælt magn á meginraforkumælum skal notað til gjaldtöku.

Almenn ákvæði
    Almenn ákvæði samningsins eru að mestu sambærileg því sem tíðkast hefur í tengi- og flutningssamningum til stóriðjufyrirtækja, td. samningum vegna álveranna á Grundartanga og í Helguvík.
    Gildistími samningsins er frá undirritun og í 20 ár frá fyrsta afhendingardegi, nema honum hafi verið rift/slitið á samningstímanum í samræmi við ákvæði samningsins. Þá er mælt fyrir um að félagið geti framlengt samningnum um 5 ár með skriflegri tilkynningu þar að lútandi. Aðilar geta hvenær sem er innan 25 ára frá fyrsta afhendingardegi ákveðið að framlengja samningnum í ekki minna en 5 á frá lokadegi hans.
    Samningnum verður ekki rift nema af ástæðum sem tilgreindar eru í samningnum og miðast almennt við stórfelldan efndabrest.
    Í samningnum eru sett ákveðin skilyrði fyrir gildistöku hans, þ.á m. um samþykki stjórnar Landsnets og stjórnar félagsins.





Fylgiskjal VIII.

Umhverfisstofnun:


Starfsleyfi fyrir varaaflstöð Verne Holdings ehf.
á Vallarheiði í Reykjanesbæ, kt. 620607-0120.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IX.

Fyrirtækjasvið KPMG:

Verne Holdings ehf. Samfélags- og hagfræðileg áhrif gagnavers á Ásbrú.
(Nóvember 2009.)


Fyrirvari
     *      Fyrirtækjasviði KPMG (KPMG) var falið af fjármálastjóra Verne Holdings ehf. (Verne eða félagið) fyrir hönd eigenda félagsins að framkvæma úttekt á samfélags- og hagfræðilegum áhrifum gagnavers á Ásbrú í Reykjanesbæ. Skýrsla um úttektina mun verða lögð fram sem stuðningsskjal við frumvarp til laga um fjárfestingarsamning á milli Verne og ríkisstjórnar Íslands. Útdráttur úr skýrslunni verður einnig sendur til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna tilkynningar um ívilnandi ákvæði fjárfestingasamningsins til handa félaginu.
     *      Vinnan er unnin í samræmi við ráðningarbréf dagsett 1. nóvember 2009 og fór fram á tímabilinu 3. til 20. nóvember 2009.
     *      Í skýrslunni er gerð grein fyrir niðurstöðum KPMG um þau samfélags- og hagfræðilegu áhrif sem svæðið í nágrenni við væntanleg gagnver getur orðið fyrir (Suðurnes). Áhrifin eru bæði sett fram í tölulega mælanlegum stærðum, m.v. gefnar forsendur, en einnig umfjöllun um annan mögulegan ávinning bæði í formi afleidds hagfræðilegs ávinnings og samfélagslegra áhrifa.
     *      Vinnan er byggð á upplýsingum frá ýmsum ytri aðilum, s.s. Hagstofu Íslands, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar (KADECO) og fleirum. Einnig er vitnað í og höfð til hliðsjónar sú vinna sem unnin var í tengslum við áhrif álvers í Helguvík. Upplýsingar um félagið, uppbyggingu gagnaversins, áætlanir um fjölda ársverka við uppbyggingu og rekstur gagnaversins auk áætlana um skattgreiðslur til ríkis og sveitarfélaga, koma frá fjármálastjóra félagsins.
     *      Ekki hefur verið framkvæmd sérstök könnun á áreiðanleika þeirra gagna sem stuðst er við en miðað er við að um heimildir traustra aðila sé að ræða. Athygli lesenda er vakin á að slík könnun eða villa í heimildum gætti leitt til annarrar niðurstöðu samfélags- og hagfræðilegra áhrifa. KPMG getur ekki ábyrgst nákvæmni né áreiðanleika þeirra upplýsinga sem hér koma fram né að þær séu tæmandi.
     *      Ekkert mat fór fram á undirliggjandi áætlunum stjórnenda af hálfu KPMG og hefur KPMG treyst á stjórnendur félagsins til að leggja fram gögn sem eru efnislega nákvæm, fullunnin og sett fram á sanngjarnan máta og mynda þar af leiðandi áreiðanlega undirstöðu fyrir greinagerð þessari. Eðli áætlunargerðar sem þessarar er háð óvissu og er lesandi hvattur til að mynda sér sjálfstæða skoðun á þeim.
     *      Skýrsla KPMG er einungis ætluð til notkunar samkvæmt því sem kveðið er á um í fyrrgreindu ráðningarbréfi. KPMG ber ekki ábyrgð á dreifingu skýrslunnar og því ekki á dreifingu þeirra trúnaðarupplýsinga sem í henni kunna að vera.
     *      KPMG ber enga ábyrgð á ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli niðurstöðu úttektarinnar. Öll ábyrgð vegna ákvarðana sem teknar verða á grundvelli skýrslunnar eða niðurstaðna sem í henni eru, er hjá Verne Holdings ehf. og viðsemjendum þeirra eða öðrum aðilum er að málinu kunna að koma.
     *      KPMG fær greitt fyrir úttektina í samræmi við unna tíma og er því ekki háð árangurstengdri þóknun við vinnslu þess. Starfsmenn KPMG sem að verkefninu koma eiga engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í Verne Holdings ehf. né njóta beins fjárhagslegs ávinnings af því að af uppbyggingu gagnaversins verði.

    Benedikt K. Magnússon
    Partner


Samantekt
    Fyrirhugað er að byggja gagnaver á Ásbrúarsvæðinu við Reykjanesbæ á vegum Verne Holdings ehf. („Verne“ eða „Fyrirtækið“). Alls er reiknað með að stærð tölvusala gagnaversins verði um 20.000 m² og að orkuþörf þess verði 80–140 MW þegar gagnaverið er fullnýtt. Reykjanesbær og nærliggjandi sveitarfélög er svæði sem átt hefur undir högg að sækja varðandi hagvöxt á undanförnum árum og hefur verið skilgreint af eftirlitsstofnun EFTA sem svæði sem fullnægi skilyrðum fyrir mögulegum ríkisstyrk.
    Gert er ráð fyrir að Verne muni skila Reykjanesbæ og Íslandi bæði áþreifanlegum og óáþreifanlegum ávinningi ef af verkefninu verður.

Atvinnusköpun
    Uppbygging og rekstur gagnaversins mun hafa mikilvæga atvinnusköpun í för með sér. Reiknað er með að tæplega 100 stöðugildi skapist að verkefninu loknu aðallega fyrir háskólamenntað og sérfræðimenntað á sviði rafmagns-, vélaverkfræði og upplýsingatækni.
    Á sjö ára uppbyggingartímabili verkefnisins er gert ráð fyrir að um 100 störf skapist að meðaltali í byggingariðnaði.
    Margföldunaráhrif á ársverk gætu verið á bilinu 2,2–3,0 störf tengd rekstri gagnaversins og um 2,7 störf í byggingariðnaði á uppbyggingartímanum sé byggt á gögnum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Byggt á meðalgildum má því búast við að um 158 störf skapist til viðbótar við þau 100 sem munu verða í gagnaverinu sjálfu, og um 171 störf til viðbótar við þau 100 sem munu verða við uppbyggingu þess. Sköpuð störf geta verið m.a. ýmis þjónustustörf, vörustjórnun og gagnavinnsla. Heildar óbein atvinnusköpun gæti þannig numið allt að 330 stöðugildum.
    Byggt á ofangreindu gæti verkefni Verne lækkað núverandi atvinnuleysi allt að 35% sé gengið út frá þeirri forsendu að allt starfsfólk muni koma frá Suðurnesjum. Margföldunaráhrif ársverka tengd rekstri og uppbyggingu gagnaversins er erfitt að meta nákvæmlega.

Skatttekjur
    Verne gerir ráð fyrir að skila töluverðum skatttekjum til ríkisins og sveitarfélaga á svæðinu eða samtals um 14 ma ISK (108 m USD) á tímabilinu 2010–2019 í formi tekjuskatts frá félaginu, tekjuskatts starfsfólks, fasteignagjalda og annarra gjalda.

Önnur gjöld og neysla
    Áætlanir Verne gera ráð fyrir að kaupa umtalsvert magn af raforku til að knýja gagnaverið og kæla netþjóna sem hýstir eru í gagnaverinu. Á tímabilinu 2010–2019 gerir fyrirtækið ráð fyrir að kaupa raforku fyrir um 30-36 ma ISK (240 m USD–290 USD) auk þess sem tekjur innlendra fyrirtækja í viðskiptum við Verne með vörur og þjónustu munu aukast. Viðskiptavinir Verne mun auk þess verða stórnotandi að fjarskiptaþjónustu til og frá landinu sem mun fyrst og fremst byggja á tengingum um sæstreng.

Bein erlend fjárfesting
    Verkefnið er fjármagnað erlendis frá og felur því í sér beina erlenda fjárfestingu. Einnig ber að nefna að tekjur fyrirtækisins verða mestmegnis vegna útflutnings á þjónustu til erlendra fyrirtækja sem mun skapa útflutningstekjur. Til að stuðla að efnahagslegum bata á Íslandi er mikilvægt að auka fjárfestingu erlendra aðila hérlendis sem og útflutningstekjur. Slíkt hefur auknar atvinnutekjur í för með sér ásamt því að auka traust, skapar jákvæðara viðhorf gagnvart frekari fjárfestingu í landinu og eykur trú erlendra banka og fjárfesta á landinu.

Athygli stórra alþjóðlegra fyrirtækja
    Ákvörðun Verne að fjárfesta hérlendis mun væntanlega vekja áhuga og traust alþjóðlegra fyrirtækja sem hefðu ekki annars litið til Íslands með fjárfestingar í huga. Markaður fyrir gagnaver er ört vaxandi og þjónusta þeirra höfðar til stórra fyrirtækja (Forbes Global 2000 fyrirtækja). 1 Áhugi slíkra fyrirtækja er til þess fallið að opna augu fjárfesta fyrir Íslandi sem fjárfestingarkosti og ákjósanlegu rekstrarumhverfi.

Í takt við fjárfestingarstefnu landsins
    Núverandi fjárfestingarstefna Iðnaðarráðuneytis og Fjárfestingastofu 2 er að laða að eftirsóknarverðar nýfjárfestingar í grænni atvinnustarfsemi, hátækniiðnaði, nýsköpun og öðrum skapandi greinum. 3 Starfsemi Verne er því vel í takt við þessa stefnu þar sem gagnaverið er umhverfisvænt, orkufrekt- og mun nýta sér fjarskiptatækni í miklum mæli. Með þessari starfsemi mun fjölbreytni í atvinnulífi aukast á Íslandi.

1 Inngangur
1.1 Lýsing á verkefninu

    Til umfjöllunar í þessari skýrslu er mat á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum af fyrirhugaðri byggingu gagnavers á fyrrverandi athafnarsvæðis Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli, nú nefnt Ásbrú, í Reykjanesbæ. Er með þeirri framkvæmd verið að sækja inn á ört vaxandi markað gagnahýsingar sem veltir milljörðum USD á ári. Framkvæmdaraðili er Verne Holdings ehf. og dótturfyrirtæki þess (Verne, fyrirtækið). Í dag eru engin sambærileg gagnaver á Íslandi sem geta laðað að og þjónað þörfum alþjóðlegra viðskiptavina sem þurfa á slíkri þjónustu að halda.
    Ísland er ákjósanleg staðsetning fyrir gagnaver þar sem mikið er af endurnýjanlegum orkugjöfum á samkeppnishæfu verði. Svalt loftslag býður upp á hagkvæma kælingu tölvubúnaðar, menntunarstig á Íslandi er hátt og gott aðgengi er að hæfu starfsfólki. Orku- og fjarskiptafyrirtæki á Íslandi eru tiltölulega þróuð og í boði eru góðar tengingar með mikilli bandvídd til Evrópu og Bandaríkjanna um sæstrengi.
    Verne ætlar að vera leiðandi á íslenska gagnaversmarkaðinum. Með því býðst Íslendingum þátttaka í ört vaxandi atvinnugrein. Gagnaverið mun skapa störf í tæknigeiranum og í byggingariðnaði auk þess að skapa auknar skatttekjur, erlenda fjárfestingu, umhverfislega ábyrga notkun á íslenskri orku og kaup á gagnaflutningaþjónustu.
    Verne hyggst byggja gagnaverið á Ásbrú í Reykjanesbæ sem er á svæðinu þar sem bandaríski herinn hafði áður aðstöðu. Verne hefur keypt tvær stórar vörugeymslur af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, eða KADECO, og vinnur að því að setja þar upp gagnaver. Þegar starfsemin er komin á fullan skrið munu fjórar aðalbyggingar, alls um 20.000 m², hýsa gagnaverin sjálf auk minni bygginga sem tengjast starfseminni. Byggingarnar munu hýsa sérhæfðan tölvubúnað sem keyrir allan sólarhringinn og er gríðarlega orkufrekur og kallar á umtalsverð kaup fyrirtækisins á raforku. Gagnaver Verne eru hönnuð til að veita örugga og stöðuga tengingu á milli allra tækja og netþjóna innan gagnaversins.
    Viðskiptahugmynd Verne er heildsala á gagnaversþjónustu. Fyrirtækið býður alþjóðlegum stórnotendum gagnavera aðgang að gagnahýsingarþjónustu sem innifelur tölvuinnviði svo sem orku, kælingu, rými fyrir tölvubúnað, öryggi og innbyggða tengingu til að starfrækja netþjóna. Þessi þjónusta er venjulega seld í formi 5–10 ára þjónustusamninga eða rekstrarleigu og er því stöðugleiki umhverfisins lykilforsenda fyrir væntanlega viðskiptavini. Viðskiptavinir Verne eru meðal annarra fjármálastofnanir, internet/fjölmiðlafyrirtæki, fyrirtæki á sviði lífvísinda, olíufyrirtæki og rannsóknarfyrirtæki. Auk þess höfðar Verne til upplýsingatæknifyrirtækja. Verne býður ekki upp á upplýsingatæknistjórnun eins og netþjónaviðhald og eftirlit en mun í stað þess nýta íslensk upplýsingatæknifyrirtæki til að veita þessa þjónustu. Starfsemi Verne mun ekki vera í samkeppni við íslenska aðila sem bjóða gagnaversþjónustu þar sem viðskiptavinir Verne eru stórir erlendir aðilar sem íslensk félög hafa ekki burði til að þjóna. Þar af leiðandi eru íslensk fyrirtæki ekki í markhópi Verne.

1.2 Matssvæði
    Gagnaverið mun vera staðsett á Ásbrú í Reykjanesbæ. Mynd 1.1 sýnir loftmynd af svæðinu á Ásbrú þar sem gagnaverið mun starfa. Tilkoma gagnavers Verne mun hafa mest áhrif á sveitarfélögin á Suðurnesjum. Þau eru Reykjanesbær, Grindarvíkurbær, Sandgerði, Garður og Vogar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1.1 - Gagnaver Verne Holding á Ásbrú
Heimild: Verne Holdings ehf.

    Eins og fram kemur á mynd 1.2, Reykjanesbær og nærliggjandi sveitarfélög falla innan þess svæðis sem skilgreint hefur verið af eftirlitsstofnun EFTA sem svæði sem fullnægi skilyrðum fyrir mögulegum ríkisstyrk. Þetta er svæði sem átt hefur undir högg að sækja varðandi hagvöxt á síðustu árum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1.2 - Svæði sem hafa rétt á styrk
Heimild: www.eftasurv.int


1.3 Markaður fyrir gagnaver
    Á Íslandi eru Skýrr, Teris, TM Software og Þekking meðal helstu aðila á gagnahýsingarmarkaði. Starfsemi þessara aðila er af annarri stærðargráðu heldur en starfsemi fyrirtækja sem keppa á alþjóðlegum markaði eins og Verne. íslensku fyrirtækin hafa ekki getu til að þjónusta fyrirtækin sem Verne sækist eftir. Að sama skapi eru íslensk fyrirtæki of lítil til að Verne sækist eftir viðskiptum þeirra, samkvæmt stjórnendum Verne.
    Til að svara aukinni eftirspurn hefur framboð gagnahýsingar verið aukið mikið á síðustu árum. Fjármagn sem bundið er í markaðnum hefur margfaldast með þessari þróun. Aukið umfang og þar af leiðandi aukin raforkunotkun hefur leitt til þess að raforkuframleiðslan losar nú meira magn gróðurhúsalofttegunda en áður. Í því sambandi er rétt að nefna að flest gagnaver nota raforku sem ekki telst endurnýjanleg eða græn.
    Áður snerist gagnahýsing einungis um að viðhalda stöðugleika í rekstri gagnavera og svara aukinni eftirspurn. Framboð hefur aukist síðustu misseri svo samkeppni á markaði í dag snýst nú frekar um skilvirkni og lækkun kostnaðar.
    Þrátt fyrir að mikið fjármagn sé bundið í gagnaverum fylgir þeim enn mikil óskilvirkni. Netþjónanýting er sjaldan betri en 6% og plássnýting 4 getur verið alveg niður í 50%. 5 Fjórum atriðum er helst um að kenna, óhagkvæm nýting á plássi, uppsetningu á tækjabúnaði er ábótavant, léleg nýting náttúrulegrar kælingar og skortur á skilvirkri stjórnun á upplýsingatæknikerfum. Auk þess hefur kostnaður raforku, tækjabúnaðar og fasteigna farið hækkandi samhliða fyrrnefndri vannýtingu. Orkunotkun gagnavera var t.d. um 0,5% af allri orkuframleiðslu í heiminum árið 2007 og áætlað er að þetta hlutfall fari hækkandi á komandi árum.
    Á sama tíma og þörfin fyrir gagnaver hefur aukist hefur kostnaður fyrirtækja af hýsingu tölvubúnaðar hækkað svo mikið að hann er farinn að hamla fjárfestingu í nýrri tækni og því leita stjórnendur nýrra lausna.
    Gagnaver eru orkufrek og árið 2008 losaði orkuframleiðsla í tengslum við starfsemi gagnavera heimsins frá sér jafnmikið af koltvísýringi og Argentína. Þetta jafngilti því að orkunotkun meðal gagnavers var álíka og hjá 25.000 heimilum. Ef vöxtur markaðarins heldur áfram á sömu braut munu koltvísýringslosunin fjórfaldast árið 2020 og gefa frá sér meiri koltvísýring heldur en flugsamgöngur. Endurnýjanlegir orkugjafar eru því mikilvægur þáttur í að leysa þetta vandamál sem steðjar að aðilum markaðarins.
    Áætlað er að eftirspurn eftir gagnaverum muni vaxa um 10% árlega næsta áratuginn þar sem fyrirtæki gera fleiri ferli sjálfvirk, framkvæma flóknari greiningar, geyma meira af upplýsingum um viðskiptavini og nýta sér í meira mæli margmiðlunartækni. 6

1.4 Gögn og nálgun
    Þessi skýrsla gerir grein fyrir samfélagslegum og hagfræðilegum áhrifum af uppbyggingu og rekstri gagnavers Verne Holdings ehf.
    Byggt er á gögnum og áætlunum Verne um væntanlega fjárfestingu og rekstur gagnaversins, þeirra starfa sem mun skapast auk skatttekna sem ríki og sveitarfélög munu hafa af verkefninu beint og óbeint.
    Yfirlit er yfir þróun atvinnumála á svæðinu byggt á upplýsingum frá Byggðastofnun og Hagstofu Íslands. Samvinna var höfð við KADECO og Reykjanesbæ við öflun gagna og úrvinnslu. Leitað var álits Jóns Steinssonar aðstoðarprófessors við Columbia Háskóla í Bandaríkjunum varðandi mat á margföldunaráhrifum starfa sem gagnaverið skapar auk þess sem byggt var á úrvinnslu KPMG hér heima.

2 Einkenni samfélagsins
2.1 Efnahagslíf

    Efnahagslíf Íslands hefur einkennst af miklum vexti síðustu ár, aðallega í tengslum við fjármála-, fasteigna- og aðra tengda þjónustu eins og má sjá á mynd 2.1. Á sama tíma hafa áhrif sjávarútvegs á heildarlandsframleiðslu landsins farið minnkandi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.1 - Hagkerfi Íslands: Helstu atvinnugreinar
Heimild: Hagstofa Íslands

    Samhliða þessari þróun var bein erlend fjárfesting 7 á Íslandi einnig umfangsmikil í tengslum við fjármálastarfsemi eins og kemur fram á Mynd 2.2. Bein erlend fjárfesting var neikvæð árin 2007 og 2008 en ástæður fyrir því geta t.d. verið arðgreiðslur, taprekstur eða sala rekstrareininga. Almennt má sjá talsverða lækkun fjárfestinga á árinu 2008 í aðdraganda bankahrunsins í október 2008 auk þess sem krónan veikist mikið á þessum tíma. Tölur fyrir 2009 frá Hagstofu Íslands liggja ekki fyrir, en allt bendir til þess að fjárfesting erlendra aðila hafi dregist saman.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.2 - Bein erlend fjárfesting á móti gengisþróun
Heimild: Seðlabanki Íslands


    Á sama tíma og erlendar fjárfestingar drógust saman, hækkaði meðalgengi íslensku krónunnar gagnvart Evru úr u.þ.b. 88 kr. árið 2007 í u.þ.b. 127 kr. árið 2008, eða um 45%. Íslenska krónan hefur haldið áfram að veikjast í kjölfar bankahrunsins og Seðlabanki Íslands áætlar að gengið muni haldast í kringum 170 kr. á Evru út spátímabil bankans (út árið 2012).
    Með þessari miklu lækkun á beinni erlendri fjárfestingu samhliða veikingu krónunnar, setningu neyðarlaga og hruns íslensku bankanna, má draga þá ályktun að viðhorf erlendra fjárfesta gagnvart Íslandi sem fjárfestingarkosti sé orðið mjög neikvætt.
    Þessar aðstæður hafa mjög neikvæð áhrif á hagkerfið til viðbótar við hækkun skulda, lækkun kaupmáttar, aukið atvinnuleysi og skort og hátt verð á lánsfjármagni.
    Lánshæfismat íslenska ríkisins hefur lækkað mikið síðan um mitt ár 2008. Ríkið var með hæstu einkunn hjá þremur helstu matsaðilunum (Moody's, Fitch og S&P). Í byrjun nóvember 2009 lækkaði Moody's lánshæfi ríkissjóðs í Baa3 sem er næsta einkunn fyrir ofan svokölluð áhættubréf (junk bonds). Samkvæmt Moody's eru horfur stöðugar. Rökstuðningur Moody's fyrir lánshæfismatinu er að ríkissjóður skuldar háar fjárhæðir og mikil áhætta er í tengslum við mögulega málsókn vegna setningar svokallaðra neyðarlaga í september 2008. Neyðarlögin vernduðu eigendur bankainnistæðna á Íslandi með því að gera innistæður að forgangskröfum á kostnað almennra kröfuhafa. Moody's telur að efnahagslegur bati sé háður fjárfestingu í útflutningsiðnaði þar sem kaupmáttur innanlands mun líklega minnka næstu árin.
    Lánshæfi ríkissjóðs samkvæmt S&P (nóv. 2008) og Fitch (október 2008) er BBB- sem er sambærilegt við mat Moody's. Fyrirtækin telja horfur vera neikvæðar en benda skal á að lánshæfismatið var unnið fyrir meira en ári síðan.
    Til að stuðla að efnahagslegum bata á Íslandi er mikilvægt að auka fjárfestingu erlendra aðila hérlendis. Slíkt hefur ekki einungis auknar atvinnutekjur í för með sér heldur eykur einnig traust, skapar jákvæðara viðhorf gagnvart frekari fjárfestingu í landinu og eykur trú erlendra lánastofnana á landinu. Með auknu trausti og jákvæðara viðhorfi aukast líkur á frekari erlendum fjárfestingum sem geta haft styrkjandi áhrif á efnahaglífið á komandi árum.

Hagkerfi Íslands
    Hagvöxtur landsins hefur verið um 5,5% að meðaltali frá 2003 til 2008. Á sama tíma var verðbólga um 4,2% og atvinnuleysi um 2,2% að meðaltali. Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 breyttist markaðsumhverfið og þar af leiðandi helstu hagstærðir landsins. Hagvöxtur minnkaði og á sama tíma jókst verðbólga verulega. Við þessar aðstæður má búast við auknu atvinnuleysi en aukningin kemur að jafnaði ekki fram um leið og dregur úr hagvexti þar sem það tekur tíma fyrir áhrifin að dreifast út í hagkerfið. Atvinnuleysi hefur þar af leiðandi aukist á árinu 2009. Það má einnig búast við því að atvinnuleysi minnki ekki um leið og hagvöxtur fer að aukast aftur þar sem að fyrirtæki bíða með nýráðningar. Í nýjustu spá Seðlabanka Íslands er efnahagssamdrætti spáð fram til 2011, þegar hagvexti er spáð á ný. Einnig er spáð að atvinnuleysi nái hápunkti í 10% árið 2010 en fari svo lækkandi. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að verbólga fari lækkandi með ári hverju og nái verðbólgumarkmiði bankans eða 2,5% við lok spátímabilsins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.3 - Hagstærðir Íslands
Heimild: Seðlabanki Íslands


Hagkerfi og skipting á Suðurnesjum
    Hagvöxtur á Suðurnesjum var nánast enginn árin 2000–2004 á sama tíma og hagvöxtur á höfuðborgarsvæðinu var árlega um 4% að meðaltali. 8 Á árunum 2004 til 2006 var ráðist í stækkun á flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli og sköpuðust mörg þjónustustörf í kringum það á Suðurnesjum. Í Mynd 2.4 sést greinilega hagvaxtaraukning á Suðurnesjum vegna stækkunar flugstöðvarinnar. Árlegur meðaltalshagvöxtur á Suðurnesjum frá 2003 til 2006 var um 11% en 7,5% á höfuðborgarsvæði.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.4 - Þróun efnahagsmála á Suðurnesjum
Heimild: Byggðastofnun


    Árið 2006 hvarf Varnarliðið endanlega af landi brott sem hafði umtalsverð áhrif á samfélagið og atvinnustarfsemi á Suðurnesjum. U.þ.b. 600 Íslendingar störfuðu á vegum Varnarliðsins og þar með fengu allir uppsagnarbréf við brottförin. 9 Þetta sést skýrt í atvinnuleysistölum fyrir svæðið þar sem atvinnuleysi er orðið varanlega hærra en á landinu öllu, frá 2006 (sjá umfjöllun í kafla 2.3).
    Tölur fyrir 2007 og 2008 hafa ekki verið kláraðar af Hagstofu Íslands eða Byggðastofnun og því liggja ekki fyrir.

2.2 Íbúaþróun
    Á Suðurnesjum eru fimm sveitarfélög. Reykjanesbær, Grindavíkurbær, Sandgerði, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar. Hagstofa Íslands áætlar að þann 1. október 2009 hafi 21.408 manns búið á Suðurnesjum eða um 6,7% landsmanna. Þar af voru 51,8% íbúa karlmenn og 48,2% konur. Tafla 2.1 sýnir skiptingu íbúafjölda milli sveitarfélaganna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 2.1 - Íbúafjöldi á Suðurnesjum
Heimild: Hagstofa Íslands

    Mikil íbúafjölgun varð á Suðurnesjum bæði á árunum 2005 til 2006 og milli áranna 2007 og 2008. Fyrri fjölgunarhrinuna má tengja miklu framboði á ódýrum lóðum og húsnæði þegar húsnæðisverð óx verulega á höfuðborgarsvæðinu. Seinna tímabilið, sem á sérstaklega við um Reykjanesbæ, má m.a. rekja til tilkomu námsmannaíbúða á Ásbrú í tengslum við stofnun Keilis, sem er háskóli með starfsemi á Ásbrú, auk þess sem íbúum í Njarðvík fjölgaði mikið. Fjölgun íbúa á Suðurnesjum hefur verið yfir landsmeðaltali síðastliðin fjögur ár. Mynd 2.5 sýnir samanburð á fjölgun íbúa á Suðurnesjum og á landinu öllu á tímabilinu 1999–2008. Myndin sýnir að fjölgun íbúa á Suðurnesjum hefur verið töluvert yfir landsmeðaltali frá árinu 2006.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.5 - Samanburður á íbúafjölgun
Heimild: Hagstofa Íslands


    Alls hefur íbúum fjölgað úr 17.110 í 21.544 á árunum 2005–2009 eða um tæp 26%. Mynd 2.6 sýnir þróun íbúafjölda á Suðurnesjum eftir sveitarfélögum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.6 - Íbúaþróun á Suðurnesjum
Heimild: Hagstofa Íslands

Búferlaflutningar

    Búferlaflutningar vegna mikils lóðaframboðs og námsmannaíbúða útskýra fyrst og fremst íbúaaukningu á Suðurnesjum á árabilinu 2005–2009 að mestu. Rúmlega 3.600 íbúar fluttust til Suðurnesja umfram brottflutta á tímabilinu 2005–2008 en íbúum hefur fækkað það sem af er árinu 2009. Mynd 2.7 sýnir aðflutta umfram brottflutta á Suðurnesjum á árunum 2000 til 1. september 2009.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.7 - Aðfluttir umfram brottflutta á Suðurnesjum
Heimild: Hagstofa Íslands


Aldursdreifing
    Þegar aldursdreifing Íslendinga er skoðuð sést að Íslendingar eru ung þjóð (sjá aldurspíramída á Mynd 2.8). Yfir 40% kvenna eru á barnaeignaraldri (sé miðað við að aldursbilið 15-45 ára sé barneignaraldur) samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Konur lifa lengur en karlar eins og sést á Mynd 2.8 sem sýnir hlutfall aldurshópa eftir kyni í landinu. Þær eru fleiri í aldursflokkunum yfir 65 ára en karlar eru fleiri í yngri aldursflokkunum. Frá árinu 2000 hafa fleiri drengir en stúlkur fæðst ár hvert. Séu gögn frá Hagstofu Íslands skoðuð frá 1958 þá hafa á tímabilinu 1958–2008 aðeins þrjú ár fæðst fleiri stúlkubörn en drengir, árin 1964, 1985 og 1999.
    Hlutfall íbúa á aldrinum 0–39 er hærra á Suðurnesjum heldur en að meðaltali yfir landið allt.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.8 - Aldursdreifing á Suðurnesjum og landinu öllu
Heimild: Hagstofa Íslands


    Mikil aukning íbúa hefur orðið í aldursflokknum 16–34 ára á árunum 2005–2009. Árið 2005 bjuggu 2.462 íbúar í þessum aldursflokki á Suðurnesjum. Árið 2009 var þessi tala komin í 3.377 íbúa eða um 37% fjölgun. Ástæðuna má að mestu rekja til tilkomu námsmannaíbúða á Ásbrú í tengslum við stofnun Keilis.

2.3 Atvinnumál
    Alls voru 182.600 einstaklinga á vinnumarkaði á 3. ársfjórðungi árið 2009. Af þeim voru 171.600 með atvinnu og 11.000 atvinnulausir samkvæmt nýjustu hagtölum Hagstofu Íslands. Þeir sem höfðu atvinnu skiptust þannig milli kynja, 91.200 karlar og 80.400 konur. Fjöldi einstaklinga með atvinnu á 1. ársfjórðungi var 165.500 sem þýðir að þeim sem hafa atvinnu hefur fjölgað um 3,6% sem af er árinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 2.2 - Vinnumarkaður á Íslandi
Heimild: Hagstofa Íslands


Atvinnuleysi
    Atvinnuleysi hefur á síðustu árum almennt fylgt ákveðnu mynstri þar sem það fer lækkandi á sumrin og hækkar aftur á veturna. Að meðaltali hefur atvinnuleysi á öllu landinu verið um 2,5% miðað við 3,4% á Suðurnesjum frá 1. janúar 2000 til 1. október 2009. Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur verið að meðaltali 12,8% á árinu 2009 en 8% á landinu öllu. Alls voru 14.369 atvinnulausir í lok október 2009 þar af voru 1.564 á Suðurnesjum, eða um 11% af heildarfjölda atvinnulausa. Atvinnuleysi mældist mest vorið 2009 en hefur minnkað síðan þrátt fyrir að vera mun meira heldur árin á undan. Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur verið meira en meðalatvinnuleysi á landinu frá árinu 2006 eftir brottflutning Bandaríkjahers af svæðinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.9 - Atvinnuleysi á Suðurnesjum
Heimild: Vinnumálastofnun


    Fjöldi atvinnulausra á landinu öllu í lok október 2009 var mestur meðal fólks innan aldurshóps 20 til 35 ára samkvæmt Vinnumálastofnun. Sama mynstur sést meðal atvinnulausra á Suðurnesjum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.10 - Fjöldi atvinnulausra í lok október 2009
Heimild: Vinnumálastofnun

    Þegar tölurnar eru skoðaðar eftir atvinnugreinum, þá sést að atvinnuleysi eykst mest í mannvirkjagerð, verslun og viðgerðum auk fasteigna- og leigustarfsemi. 10

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.11 - Atvinnuleysi á Suðurnesjum eftir atvinnugrein
Heimild: Vinnumálastofnun


    Mynd 2.11 sýnir skýrt þá þróun sem hefur orðið í byggingariðnaði og tengdum atvinnugreinum. Hér má sjá að atvinnuleysi hefur aukist mest hjá verkafólki og sölu og verslunarfólki.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.12 - Atvinnuleysi á Suðurnesjum eftir starfsstétt
Heimild: Vinnumálastofnun


    Atvinnuleysi hefur aukist meðal fólks á öllum menntunarstigum. Einnig sést að mesta hækkun er meðal þeirra sem eru með iðnnám og stúdentspróf að baki sem bendir til þess að atvinnuleysi meðal verkafólks og fólks án sérfræðiþekkingar hafi aukist mest. Þó ber að nefna að atvinnuleysi fólks með háskólanám hefur einnig aukist töluvert.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.13 - Atvinnuleysi á Suðurnesjum eftir menntun
Heimild: Vinnumálastofnun


2.4 Húsnæðis og skipulagsmál
Skipulagsmál og þróun byggðar
    Sveitarfélögin á Suðurnesjum, Reykjanesbær, Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar, skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og Varnarmálastofnun Íslands hafa komið á fót samvinnunefnd um gerð svæðisskipulags Suðurnesja.
    Hver sveitarstjórn hefur kosið tvo fulltrúa í nefndina og skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og Varnarmálastofnun Íslands sinn hvorn fulltrúann. Hver aðili að nefndinni fer með tvö atkvæði á fundum. Skipulagsstofnun tilnefnir fulltrúa til að starfa með nefndinni og hefur hann full réttindi nefndarmanns önnur en atkvæðisrétt.
    Hlutverk samvinnunefndar er tvíþætt. Annars vegar að vinna nýtt svæðisskipulag fyrir Suðurnesin og hins vegar að fjalla um og afgreiða breytingar á svæðisskipulagi Suðurnesja. 11

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.14 - Suðurnes
Heimild Kanon arkitektar ehf.


Húsnæðismál
    Fjöldi fasteigna (óbyggðar lóðir innifaldar) á Suðurnesjum var 11.229 í lok árs 2008. Fasteignirnar skiptast í íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Taflan hér fyrir neðan sýnir skiptingu fasteigna niður á sveitarfélög og samanlagt virði þeirra samkvæmt Fasteignamati ríkisins 31.12.2008.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 2.3 - Fjöldi fasteigna á Suðurnesjum
Heimild: www.fmr.is


Íbúðarhúsnæði
    Árið 2009 var kaupverð fasteigna á Suðurnesjum að meðaltali 79% af kaupverði sambærilegra eigna á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt upplýsingum Fasteignamats ríkisins. Þó má greina mun á kaupverði fasteigna innan svæðisins en þannig hefur fasteignaverð verið um 20% hærra í Njarðvík og Grindavík miðað við í Sandgerðisbæ og Vogum. 12
    Mikil uppbygging er fyrirhuguð í Reykjanesbæ. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjanesbæjar er áætlun um að byggja 4.800 íbúðir á næstu árum, þó er rúm fyrir fleiri ef að eftirspurn skapast. Á næsta leyti er verið að úthluta 970 íbúðum í Dalshverfi ásamt 130 lóðum í Ásahverfi. Þessi hverfi eru hluti af þeirri framtíðaruppbyggingu sem fyrirhuguð er á svæðinu ásamt fleiri íbúðarsvæðum. 13
    Samkvæmt deiliskipulagi í Sandgerði er áætlað að byggja um 270 íbúðir á næstunni. 14 Einnig má búast við mikilli aukningu í Garðinum og Vogum þar sem fyrirhugað er að úthluta 300 lóðum. 15
    Á Suðurnesjum hefur orðið rúmlega 20% aukning á mannfjölda síðustu fimm ár. Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði hefur því aukist til muna. Aukninguna má rekja til ýmissa þátta, meðal annars til lægra íbúðarverðs en á höfuðborgarsvæðinu og einnig til mikillar fólksfjölgunar á Ásbrúarsvæðinu vegna Keilis sem að telur nú 1.800 íbúa. 16

Varnarsvæðið á Keflavíkurflugvelli
    Þegar bandaríski herinn yfirgaf varnarsvæði sitt eftir 60 ára veru var sérstakt félag, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf., eða KADECO, stofnað til að vinna að þróun varnarsvæðisins. KADECO er í eigu ríkisins. 17 Ásbrú er nýtt nafn á þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað á varnarsvæðinu. Meginmarkmið og tilgangur Ásbrúar er að leiða þróun og umbreytingu á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli til borgaralegra nota. Eftir ítarlega stefnumótunarvinnu var ákveðið að beita kröftum félagsins í að byggja upp og laða að fyrirtæki, félög og einstaklinga á þremur meginsviðum: sjálfbærri orkunýtingu, heilsu og samgöngum og flutningum. Félagið vinnur nú, ásamt samstarfsaðilum, að uppbyggingu og nýsköpun á þessum sviðum auk áherslu á menntatengda þætti í gegnum Keili. Áhersla Keilis er á frumkvöðlanám, tónlist, heilsutengt nám, flugtengt starf og nám, orkutækni og kerfisfræði. Orku- og tækniskóli Keilis býður upp á þverfaglegt nám í orkutæknifræði og mekatróník tæknifræði (e. mechatronics) í samstarfi við verkfræðideild Háskóla Íslands. Markmiðið er að útskrifaðir nemendur skólans verði eftirsóttir starfskraftar fyrir bæði íslenskan sem og erlendan orku- og tækniiðnað.
    Ásbrú hefur m.a. farið í framkvæmdir á skrifstofuhúsnæði til að koma af stað samstarfsverkefni um hugmyndahús. Hugmyndahúsið er samstarfsverkefni Ásbrúar, sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Vinnumálastofnunar og verkalýðsfélaga ásamt fyrirtækjum og menntastofnunum á svæðinu. Önnur verkefni hafa aðallega verið endurbætur og niðurrif á byggingum á svæðinu.
    Fyrirtæki hafa einnig verið að flytjast inn á svæðið. Dæmi um fyrirtæki sem komin eru á svæðið er í neðangreindri mynd. Framtíðarsvæði Verne er auðkennt á mynd 2.15 með rauðum hring.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.15 - Ásbrúarsvæðið
Heimild: Ásbrú


2.5 Innviðir og opinber þjónusta
    Við uppbyggingu gagnaversstarfsemi á Suðurnesjum eru ákveðnir innviðir sem þurfa að vera til staðar svo mögulegt sé að hefja slíkan rekstur. Í þessu samhengi eru helstu atriðin aðgengileg og nægjanleg raforka og gagnaflutningsgeta. Einnig má nefna þjónustuþætti svæðisins eins og greiðar flugsamgöngur og skipaferðir. Aðrir þjónustuþættir snerta væntanlegt starfsfólk eru m.a. menntakerfi, heilbrigðisþjónusta og ýmis félagstengd þjónusta.

2.5.1 Raforka
Landsnet

    Landsnet var stofnað á grundvelli raforkulaga sem samþykkt voru á Alþingi árið 2003. 18 Hlutverk fyrirtækisins er að annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfisins. Á Íslandi er aðeins eitt skilgreint flutningskerfi raforku en mörg svæðisbundin dreifikerfi. Flutningskerfi Landsnets tekur við raforku beint frá aflstöðvum og flytur hana til stórnotenda og dreifiveitna. Orka af flutningskerfinu er afhent til dreifiveitna á 57 stöðum og til stórnotenda á fjórum stöðum víðs vegar um landið. Dreifiveitur flytja rafmagnið síðan áfram um eigið dreifikerfi til notenda. Helstu viðskiptavinir Landsnets eru m.a. Hitaveita Suðurnesja, Landsvirkjun, Norðurorka, Orkuveita Reykjavíkur, RARIK, Orkusalan og Samorka. Landsnet á og rekur allar megin flutningslínur rafmagns á Íslandi.

Hitaveita Suðurnesja (HS)
    Innan HS eru tvær aðskildar rekstrareiningar, HS Orka og HS Veitur. 19 HS Orka rekur tvö orkuver sem framleiða raforku, hitaveituvatn og jarðsjó 20 með jarðvarma. Annars vegar er Svartsengi og hins vegar Reykjanesvirkjun. Svartengi hóf raforkuframleiðslu árið 1976 með jarðgufu, og var fyrsta orkuver landsins til að tvinna saman raforkuframleiðslu og orkuvinnslu til húshitunar. Heildarafl til raforkuframleiðslu er um 75 MW. Reykjanesvirkjun hóf raforkuframleiðslu inn á flutningskerfi landsins í maí 2006. Uppsett afl virkjunarinnar í dag er 100 MW. Nær öll framleiðsla beggja virkjana er seld til Norðuráls í Hvalfirði. HS Veitur sér um dreifingu á heitu vatni, neysluvatni og raforku á öllum Suðurnesjum.
    Í maí 2009 komust KADECO og HS Veitur að samkomulagi um yfirtöku á veitukerfum vatnsveitu og rafveitu á svæðinu. 21 HS hafði annast alla þjónustu við veitukerfin frá brottför Bandaríkjahers af svæðinu. Samkvæmt samkomulaginu sér HS um uppbyggingu á nýju 50 Hz dreifikerfi raforku á svæðinu ásamt viðeigandi endurbótum á vatnsveitu svæðisins. Gengið er út frá þeirri forsendu og kröfu að slík vinna verði kláruð 1. október 2010.

Landsvirkjun
    Landsvirkjun selur rafmagn til stóriðjunotenda og sölufyrirtækja á almennum markaði. Meðal viðskiptavina eru orkufyrirtæki landsins sem og stóriðjunotendur. Landsvirkjun framleiðir rafmagn í 16 virkjunum á landinu, 13 þeirra eru vatnsaflsvirkjanir, tvær jarðvarmavirkjanir og ein eldsneytisvirkjun. Raforkusala Landsvirkjunar inn á flutningskerfi Landsnets nam 12.345 GWst árið 2008 þar sem hlutur vatnsafls í framleiðslu raforku nam 11.866 GWst (96%) og jarðvarmavirkjana 479 GWst (4%). Heildarframleiðsla rafmagns í landinu árið 2008 var 16.467 GWst og nemur hlutur Landsvirkjunar þá um 75%. Raforkuframleiðsla í landinu skiptist þannig að 75,5% eru unnin með vatnsafli og 24,5% með jarðgufu. Þess má geta að heildarrafmagnsafl á landinu árið 2008 var um 1.880 MW. 22
    Gert er ráð fyrir að raforkuþörf gagnaversins verði á milli 80–140 MW. Þetta magn er á milli 4% og 7% af heildarrafmagnsafli landsins sem bendir til þess að þörf gagnaversins eru vel innan raforkugetu landsins.

2.5.2     Fjarskipti
    Á fjarskiptamarkaði starfa fjölmörg félög en helstu þjónustufyrirtækin eru Síminn, Vodafone, Tal og Nova. 23 Þessi fyrirtæki bjóða að hluta eða öllu leyti upp á almenna símaþjónustu, farsímaþjónustu og netþjónustu. Viðskiptavinir þessa fyrirtækja eru bæði einstaklingar og fyrirtæki. Starfsemi gagnaversins er háð því að hægt sé að flytja mikið magn gagna til og frá landinu. Miklu máli skiptir því fyrir Verne að fjarskiptanetið og tengdir innviðir séu til staðar til að þjónusta starfsemina. Fjarskiptaþjónusta fer að mestu um sæstrenginn Farice og Danice. Verið er að innleiða Greenland Connect og CANTAT-3 er varaleið ef Farice rofnar eða bilar.
    Farice hf var stofnað í september 2002 í þeim tilgangi að undirbúa og reka sæstrenginn FARICE-1. 24 FARICE-1 er sæstrengur sem tengir saman Ísland, Færeyjar og Skotland. Íslenski strengurinn var tekinn í notkun í mars árið 2004 og tók við af CANTAT-3 sæstrengnum sem í dag er notaður sem varastrengur fyrir Færeyjar og Ísland.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2.16 - Sæstrengir
Heimild: Invest in Iceland


    Flutningsgeta þessa sæstrengs er um 2 x 2,5 Gb/s á meðan FARICE-1 sæstrengurinn hefur um 720 Gb/s í flutningsgetu. DANICE er sæstrengur sem liggur frá Íslandi til Danmerkur og er hann lagður með það í huga styðja við rekstur netþjónabúa á Íslandi. 25 DANICE sæstrengurinn hefur um 5,1 Tb/s í flutningsgetu. Greenland Connect er sæstrengur á vegum TeleGreenland símafélagsins sem verið er að prufukeyra og liggur hann á milli Bretlands og Kanada með tengingu við Ísland og Grænland. 26 Tilgangur Greenland Connect er að þjóna grænlenskum notendum og stærri fyrirtækjaaðilum. Strengurinn er 4.598 km langur og með flutningsgetu um 1,9 Tb/s.
    Uppbygging og þróun sæstrengja, bandvídd þeirra, og vöxtur gagnavera eru að miklu leyti háð hvoru öðru. Með aðkomu fyrirtækja eins og gagnavera er líklegt að tenging og bandvídd tenginga Íslands við önnur lönd muni aukast. Slík þróun mun hafa jákvæð áhrif á fyrirtæki í öðrum geirum og laða að fleiri fyrirtæki sem gera kröfur um bandvídd og áreiðanlegar tengingar.

2.5.3 Menntun
    Á Suðurnesjum eru reknir tíu grunnskólar, fjórtán leikskólar, fjórir tónlistarskólar og tveir framhaldsskólar. Í Reykjanesbæ er einnig Háskólinn Keilir, Tölvuskóli Suðunesja og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.
    Reykjanesbær rekur níu leikskóla sem eru allir mismunandi að stærð. Mikil íbúafjölgun kallar á byggingu nýrra leikskóla og stækkun og endurbætur á þeim eldri og hefur nú þegar einn leikskóli verið færður í nýrra og stærra húsnæði.
    Fjölbrautarskóli Suðurnesja (FS) býður upp á fjölbreytt bóklegt og verklegt nám. Skólinn var stofnaður árið 1976 við sameiningu Iðnskóla Keflavíkur og framhaldsdeildar Gagnfræðaskóla Keflavíkur. Skólinn er rekinn í samvinnu ríkis og sveitarfélaganna á Suðurnesjum. 27
    Háskólinn Keilir var stofnaður vorið 2007 og hefur aðsetur á fyrrum varnarsvæði bandaríska hersins. Keilir er byggður á fjórum mismunandi skólum auk Háskólabrúar sem er undirbúningsnám fyrir háskólanám. Skólarnir eru Heilsu- og uppeldisskóli, Orku- og tækniskóli, Samgöngu- og öryggisskóli og Skóli skapandi greina. Einnig hefur Keilir milligöngu um útleigu á námsmannaíbúðum og fóru fyrstu íbúðirnar í útleigu 2007 en allir nemar íslenskra háskóla hafa aðgang að íbúðunum. 28
    Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum hefur verið starfandi síðan 1997. Markmið miðstöðvarinnar eru að efla endur- og símenntun Suðurnesjamanna, samstarf atvinnulífs, skóla og tengsl grunn- og endurmenntunar. 29 Þar er meðal annars hægt að stunda fjarnám frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri. Í Keflavík er Tölvuskóli Suðurnesja sem rekinn hefur verið frá 1993.

2.5.4 Heilbrigðisþjónusta
    Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) rekur fullbúið sjúkrahús í Reykjanesbæ. HSS rekur einnig heilsugæslustöðvar og heldur úti þjónustu á svæðinu. 30 Stefna HSS er að mæta 80% af þjónustuþörf á svæðinu, þó þurfa íbúar sem krefjast sérstakrar sérfræðiþekkingar að sækja hana til Reykjavíkur. Apótek eru starfrækt á Suðurnesjum auk þess sem tannlæknaþjónusta er í boði á svæðinu.

2.5.5 Félagsþjónusta
    Sveitafélög á Íslandi bera ábyrgð á félagsþjónustu fyrir fjölskyldu og einstaklinga skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, húsaleigubætur, málefni aldraðra, málefni fatlaðra og barnaverndar.

2.5.6 Almannavarnir og öryggismál
    Reykjanesbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar reka sameiginlega Brunavarnir Suðurnesja. Sandgerði og Grindavíkurbær reka hinsvegar sín eigin slökkvilið. Á Keflavíkurflugvelli er einnig starfrækt slökkvilið. Á vegum Sambands Sveitarfélaganna á Suðurnesjum er starfrækt sameiginleg almannavarnarnefnd.

2.5.7 Sorphirða og sorpeyðing
    Sveitarfélögin reka í sameiningu sameignarfélagið Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sem sér um sorphirðu og sorpeyðingu á Suðurnesjum.

2.5.8 Flugvellir
    Á Miðnesheiði er Keflavíkurflugvöllur sem er miðstöð millilandaflugs. Flugvöllurinn er á 25 km 2 svæði sem hefur fjórar flugbrautir. Umferð hefur aukist mikið á undanförnum árum, eða rúmlega 30% frá árinu 2001. 31 Helstu flugfélög flugvallarins eru Icelandair og Iceland Express en mörg önnur erlend flugfélög hafa viðkomu þar.
    Icelandair rekur bæði farþegaflug og flugfrakt. Icelandair flýgur í áætlunarflugi til um 27 áfangastaða, þar af sjö í Norður Ameríku og 20 í Evrópu. 32 Helstu áfangastaðirnir eru New York, Boston, Orlando, Toronto, Seattle, Minneapolis, Osló, Kaupmannahöfn, Stokkhólm, Helsinki, París, Berlín, Frankfurt, London og Amsterdam. Í flestum tilvikum er um beint flug að ræða og því að ljóst net flugleiða til og frá landinu auðveldar til muna að stunda viðskipti á alþjóðlegum grunni. Flugfraktþjónusta Icelandair undir nafninu Bluebird Cargo flýgur innan Evrópu, Norður Afríku, Miðausturlanda og Norður Ameríku.
    Iceland Express flýgur til um 20 áfangastaða bæði í Norður Ameríku og Evrópu. 33 Helstu áfangastaðir, oftast í beinu flugi, eru New York, Osló, Kaupmannahöfn, París, London, Lúxemborg, Berlín og Barcelona.
    Þrátt fyrir að þessi flugfélög séu lítil á heimsmælikvarða þá er tenging þeirra við Norður- Ameríku og Evrópu veigamikill þáttur í tengingu við viðskiptaheiminn.

2.5.9 Hafnir
    Reykjanesbær rekur fimm hafnir og eru þær Helguvíkurhöfn, Höfn í Grófinni, Keflavíkurhöfn, Njarðvíkurhöfn og Hafnir. Einnig eru hafnir í Sandgerðisbæ, Vogum og Grindavík. Á Suðurnesjum eru því í heild átta hafnir, fimm fiskihafnir og þrjár smábátahafnir.
    Keflavíkurhöfn er nýlega endurbyggð höfn með grjótvarnargarði og er auðveld innsigling. Boðið er upp á aðstöðu fyrir léttbáta, skemmtiferðaskip og útgerð og er góð tenging við þjónustu og verslanir í bænum. Keflavíkurhöfn er jafnframt tollhöfn. Vegna nálægðar sinnar við Keflavíkurflugvöll býður höfnin upp á séraðstöðu til farþega- og áhafnaskipta. Viðlegukantur er fyrir allt að 165 m löng skip með djúpristu að 7 til 13 m ásamt fjölda annarra viðlegukanta fyrir smærri skip. 34

2.5.10 Vegir
    Á Suðurnesjum eru allir stofnvegir komnir með varanlegt slitlag. Svæðið er fremur snjólétt og samgöngur almennt góðar. Greiðfært er til Reykjavíkur þar sem lögð er áhersla á að halda veginum að Keflavíkurflugvelli færum allan ársins hring.

2.5.11 Tómstundir, útivist og menning
    Ýmis starfsemi er starfrækt á Suðurnesjum og er aðgengi að starfseminni almennt mjög gott. Sveitarfélögin bjóða upp á fjölbreytta þjónustu og má þar nefna skátafélög, björgunarsveitir, íþróttafélög, sundlaugar, félagsmiðstöðvar og margt fleira.
    Á Suðurnesjum eru starfræktir fimm golfvellir. Grindavík býður upp á fjölbreytt svæði þar sem að má nálgast veiðar, golf og leigja kajak. 35

2.5.12 Ferðaþjónusta
    Á svæðinu er heilsulindin Bláa lónið en það var stofnað árið 1992 og er meginmarkmið félagsins að vera í forystu um uppbyggingu heilsu- og ferðaþjónustu á Íslandi. Öll starfsemi félagsins byggir á einstakleika og eiginleikum jarðsjávarins í Bláa lóninu. 36 Bláa lónið er þekkt um allan heim og laðar að sér mikinn fjölda af ferðamönnum ár hvert.

3 Hagræn áhrif á samfélagið
Ákjósanleg staðsetning

    Áhugi Verne á Íslandi sem staðsetningu fyrir gagnaver byggist á hagstæðum aðgangi að endurnýjanlegum orkugjöfum, sterkum innviðum og góðri menntun tæknifólks. Líkt og í álframleiðslu þá er orkuþörfin mikil í rekstri gagnavera aðallega vegna orkuþarfar á tölvubúnaði. Önnur atriði sem skipta einnig miklu máli eru fjarskipti við útlönd (gagnaflutningar) þ.e.a.s. gæði tengingar við önnur lönd og áreiðanleiki þeirra. Dagleg starfsemi gagnaversins krefst einnig vel menntaðs starfsfólks og aðgengi að bestu tækniþjónustu sem völ er á. Skattkerfið og stöðugt rekstrarumhverfi eru önnur atriði sem ráða úrslitum þegar kemur að velja staðsetningu gagnavers. Ísland hefur verið valið sem staðsetning gagnavers Verne vegna eiginleika og getu til að þjóna áðurnefndum þörfum.
    Ákvörðun Verne að hefja rekstur á Suðurnesjum hefur fjölmörg jákvæð áhrif á landið og landssvæðið í för með sér. Fyrir landið í heild tengjast áhrifin m.a. því að auknar líkur eru á frekari erlendum fjárfestingum sem munu hafa jákvæð áhrif á viðhorf heimsins gagnvart Íslandi sem ákjósanlegum fjárfestingakosti. Að laða að erlendar fjárfestingar er langtímaverkefni og þarfnast stefnumarkandi ákvarðanatöku og skýrra markmiða af hálfu stjórnvalda. Helsta markmið ríkistjórn nú er að koma á stöðugleika og vinna að styrkingu krónunnar. Fjárfesting Verne í gagnaveri er skref í þessa átt.
    Auk skatttekna til ríkisins er ávinningur Suðurnesja auknar tekjur til sveitarfélagsins í formi fasteignagjalda, útsvars og annarra gjalda. Fyrirtækið, sem skráð er til heimilis í Reykjanesbæ, mun kaupa umtalsverða orku og gagnaflutningsþjónustu í tengslum við starfsemina. Gera má ráð fyrir kaupum á öðrum vörum og efni við byggingarframkvæmdir, ekki síst á meðan á uppbyggingu stendur. Þar að auki er talið að margföldunaráhrif starfa geti verið á bilinu 2–2,5 þ.e.a.s. þann fjöldi starfa sem skapast hjá Verne auk annarra starfa í samfélaginu.

3.1 Rekstur á gagnaveri
    Verne gerir ráð fyrir að byggja upp gagnaverið í fjórum byggingum, eða „campus“ á þróunarsvæði Ásbrúar við Reykjanesbæ. Nú þegar hefur fyrirtækið fest kaup á tveimur byggingum sem voru á svæðinu og stefnir að byggingu tveggja til viðbót. Gert er ráð fyrir að það að koma upp fjórum fullbúnum byggingum taki um sjö ár. Gert er ráð fyrir að lóð undir gagnaverið verði samtals 180.000 m² (18 ha) en tölvusalir gagnaversins, sem hýsa m.a. allan nauðsynlegan tækjabúnað og önnur kerfi viðskiptavina, verði um 20.000 m². Alls mun gagnaverið nota frá 80–140 MW sem fer eftir fjölda stöðva í notkun á innleiðingartímabilinu. Verne gerir ráð fyrir að þurfa að ráða um 100 starfsmenn til að sinna gagnaversstarfseminni og um 80–120 byggingarstarfsmenn. Til að reka gagnaverið þarf tæknimenntað fólk, þ.m.t. háskólamenntað á sviði tölvu- og verkfræði og tengdum sérfræðisviðum.

3.1.1 Fjárfesting og innleiðing
    Fyrirhugað er að breyta tveimur vörugeymslum sem Verne keypti af KADECO í gagnaver og byggja tvær byggingar til viðbótar á aðliggjandi landi. Fyrsta byggingin verður skipt í sex álmur. Stjórnendur Verne áætla að verkefnið muni verða framkvæmt í þremur fösum. Í fyrsta fasa gerir Verne ráð fyrir að eldri byggingarnar tvær verði tilbúnar til notkunar árið 2010 og að sú fjárfesting muni nema um 100 m USD. Í öðrum fasa er gert ráð fyrir að fyrsta byggingin verði fullnýtt í árslok 2012. Í þriðja og seinasta fasa er gert ráð fyrir að allar fjórar byggingarnar verði komnar í fullan rekstur í árslok 2016. Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting Verne vegna gagnavers á þróunarsvæði Ásbrúar muni verða rúmlega 87 ma ISK (700 m USD).
    Sundurliðun á umræddri fjárfestingu er sett fram á Mynd 3.1 að neðan. Verne gerir ráð fyrir að meirihluti fjárfestingarinnar fari í raflagnir og rafkerfi, jarðvinnu, kælibúnað og loftræstingu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 3.1 - Hlutfall af fjárfestingu
Heimild: Verne Holdings ehf.


3.1.2 Efnahagslíf
    Með því að laða að fjárfestingar og fyrirtæki eins og Verne er verið að stuðla að frekari erlendri fjárfestingu hérlendis í framtíðinni. Slík aðkoma erlends fjármagns er lykilatriði við uppbyggingu á Íslandi og styrkir alþjóðlegt samstarf hins opinbera og einkaaðila. Með auknu samstarfi og fjárfestingum má gera ráð fyrir tekjuaukningu innlendra aðila auk þess sem það er til þess fallið að bæta ímynd Íslands og atvinnulífsins erlendis. Nauðsynlegt er fyrir Ísland að auka alþjóðlegt samstarf með því að laða að erlent fjármagn og stuðla að styrkingu krónunnar.

3.1.3 Skatttekjur og aðrar tekjur
    Verne mun eins og önnur fyrirtæki á landinu borga tekjuskatt af hagnaði. Tekjuskattur er í dag 15% og miðað við það skatthlutfall og áætlanir Verne mun fyrirtækið borga 65,8 m USD í skatt samanlagt á tímabilinu 2012–2019 eða um 8,2 ma ISK miðað við gengi þann 30. október 2009. Hugsanlegt er að skattprósenta á fyrirtæki muni hækka á næstunni en það verður til hækkunar á þeim tölum sem hafa verið settar fram hér. Skattarnir sem fyrirtækið greiðir renna í ríkissjóð og hafa því óbein efnahagsleg áhrif á Suðurnes.
    Verne mun einnig borga fasteignaskatt og fasteignagjöld af fasteignum sínum eftir að rekstur er hafinn í byggingunum. Byggingarnar verða, eins og áður hefur komið fram, fjórar alls. Tvær byggingar hafa verið keyptar af KADECO og breytt og tvær byggingar verða byggðar sérstaklega til að hýsa starfsemina. Samkvæmt útreikningum stjórnenda Verne mun fyrirtækið borga 11,8 m USD í fasteignaskatta og gjöld á tímabilinu 2010–2019 eða ríflega 1,5 ma ISK miðað við gengi 30. október 2009.
    Verne áætlar að 180 til 220 manns fái störf á Íslandi á uppbyggingartímabilinu sem er sjö ár. Gert er ráð fyrir um 100 tæknistörfum og um 100 byggingastörfum. Miðað við tölur Hagstofu Íslands þá voru tæknisérfræðingar 37 með að meðaltali um 500 þúsund krónur í mánaðarlaun við árslok 2008. Á sama tíma voru iðnaðar- og verkamenn með að meðaltali á milli 340 og 480 þúsund krónur í mánaðarlaun. Starfsmenn félagsins munu borga tekjuskatt af sínum launum. Tekjuskatturinn skiptist í tekjuskatt sem rennur í ríkissjóð og útsvar sem fer til sveitarfélags þar sem launþegi er búsettur. Tekjuskatturinn er 24,1% og útsvar er mismunandi eftir sveitarfélögum. Í Reykjanesbæ er útsvar 13,28% en er á bilinu 12,10%–13,28% í sveitafélögum landsins. Áætlaður launakostnaður Verne er um 125 m USD eða um 96 m USD þegar launatengd gjöld hafa verið dregin frá. Ætla má að skatttekjur ríkis og sveitarfélaga vegna starfsmanna Verne verði rúm 37% af þessum 96 m USD eða í kringum 36 m USD sem er um 4,4 ma ISK. Tekjur ríkis yrðu miðað við þessar forsendur um 2,8 ma ISK og tekjur sveitarfélaga miðað við 13,28% útsvar um 1,6 ma ISK. Áætlað er að Verne og starfsmenn þess muni greiða samanlagt um 14 ma ISK í tekjuskatt og fasteignagjöldum.
    Verne mun að auki kaupa raforku frá Landsvirkjun. Stjórnendur áætla að félagið muni kaupa raforku á áðurnefndu tímabili fyrir fjárhæð á bilinu 244-291 m USD eða á bilinu 30–36 ma ISK miðað við gengi þann 30. október 2009.
    Þar fyrir utan mun Verne kaupa þjónustu Farice sem býður upp á gagnaflutninga í gegnum sæstreng, auk þess sem upplýsingatæknifyrirtæki ættu að geta selt þjónustu sína til viðskiptavina Verne. Þessi upptalning er ekki tæmandi og gera má ráð fyrir að fleiri fyrirtæki muni geta aukið sölu með tilkomu gagnaversins.

3.1.4 Íbúaþróun
    Ekki er talið að starfsemi gagnaversins muni hafa afgerandi áhrif á íbúaþróun Suðurnesja þar sem um er að ræða 180 til 220 störf á svæði þar sem búa um 12.613 vinnufærir einstaklingar auk þar sem nokkuð atvinnuleysi er á svæðinu. Starfsemin mun auka fjölbreytni atvinnulífs á svæðinu og mun hjálpa við að vinna gegn brottflutningi fólks af svæðinu. Líkur eru á að tæknimenntað fólk sjái sér hag í að setjast að á svæðinu þar sem krafa er um sérfræðiþekkingu við rekstur gagnaversins og er skortur af slíku starfsfólki á Suðurnesjum.

3.1.5 Atvinnumál
    Við aðkomu Verne er gert ráð fyrir að um 100 hátæknistörf og um 100 byggingastörf muni skapast. Við októberlok voru 1.564 manns atvinnulaus á Suðurnesjum. Innan þessa hóps voru 720 iðnaðar- og verkamenn og 140 sérfræðingar og sérmenntað starfsfólk. Sé atvinnulausum skipt eftir atvinnugreinum voru 326 einstaklingar í mannvirkjagerð og 21 í upplýsingatækni og fjarskiptum án atvinnu. Í þessu samhengi er rétt að nefna að möguleiki er á flutningi fólks á svæðið ef skortur er á sérfræðingum. Einnig eru góð tækifæri á endurmenntun fólks á svæðinu við Keili.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 3.2 - Atvinnuleysi eftir starfsstétt og atvinnugrein
Heimild: Byggðastofnun


    Ef gengið er út frá þeirri forsendu að allt starfsfólk muni koma frá Suðurnesjum má draga þá ályktun að atvinnuleysi gæti lækkað um 12% til 14%. Þó er líklegt að starfsfólk muni bæði koma frá Suðurnesjum og að hluta frá höfuðborgarsvæðinu. Mestu áhrifin eru á atvinnulausa iðnaðar- og verkamenn á svæðinu. Miðað við 328 atvinnulausa í mannvirkjagerð þá er mögulegt að verkefni á vegum Verne myndi tímabundið lækka þann fjölda um 25% til 35% ef allir starfsmennirnir kæmu af Suðurnesjum.

3.1.6 Húsnæðis- og skipulagsmál
    Gagnaver á Ásbrú mun fyrst og fremst hafa áhrif á húsnæðis- og skipulagsmál á svæðinu við Ásbrú. Fyrirhugað er að byggja tvær byggingar fyrir hýsingu búnaðar viðskiptavina auk þess sem stoðdeildir starfseminnar munu vera hýstar í nærliggjandi húsnæði.
    Verne mun byggja spennistöðvarbyggingu á svæðinu sem mun hýsa tengivirki Landsnets sem mun ekki hafa aðstöðu á svæðinu að öðru leiti. Vænta má framkvæmda í tengslum við gagnaflutninga auk þess sem mögulegt er að þjónustufyrirtæki færi starfsemi nær gagnaverinu þegar það hefur hafið rekstur.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 3.3 - Framtíðarskipulag á Ásbrú
Heimild: KADECO


3.1.7 Opinber þjónusta og innviðir
    Gert er ráð fyrir fjárfestingum í innviðum vegna starfsemi Verne á Ásbrúarsvæðinu. Hér má nefna nauðsynlegar breytingar til að þjóna þeim þörfum sem fylgja starfsemi gagnaversins t.d. bygging á nýju tengivirki inn á Landsnet.

Raforka
    Verne kemur til með að kaupa umtalsvert magn raforku af Landsvirkjun vegna reksturs gagnaversins. Samvinna er við Landsnet um að byggja upp tengivirki til að þjóna starfsemi gagnaversins.

Fjarskipti     
    Verne mun á næstu árum verða stórnotandi að fjarskiptaþjónustu til og frá Íslandi. Sæstrengir til Evrópu og Bandaríkjanna og flutningsgeta þeirra eru mikilvægir fyrirtækinu svo hægt sé veita þá þjónustu sem Verne ætlað að veita erlendum viðskiptavinum sínum.     

Menntun     
    Tilkoma gagnaversins mun ekki hafa bein áhrif á menntun á Suðurnesjum en mun þó auka framboð á tækni- og verkfræðistörfum. Gagnaverið mun því hafa hvetjandi áhrif á tæknimenntun á Suðurnesjum og skapar tækifæri fyrir Keili að auka áherslu á slíka menntun.

Heilbrigðis- og félagsþjónusta
    Bein áhrif gagnavers á heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum eru engin. Hins vegar getur tilkoma gagnaversins óbeint bætt heilbrigðisþjónstuna þar sem skatttekjur sveitarfélaganna og ríkis aukast. Auknar tekjur geta þýtt að hærri fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu sem ætti að þýða betri þjónustu. Nálægð góðrar heilbrigðisþjónustu eykur einnig gæði gagnaversins sem starfsvettvangs bæði fyrir fasta starfsmenn og viðskiptavina sem þurfa tímabundið að starfa í tengslum við gagnaverið.
    Bein áhrif á félagsþjónustu tengjast fyrst og fremst aðflutningi starfsmanna á svæðið en auknar tekjur sveitarfélagsins styðja við þann aukna kostnað sem kann að hljótast í tengslum við félagsþjónustuna. Gagnaverið hefur áhrif til lækkunar á atvinnuleysi sem minnkar álag á félagsþjónustuna.

Almannavarnir og öryggismál
    Ekki er reiknað með því að nýtt gagnaver auki til muna álag á almannavarnakerfi svæðisins. Ný starfsemi mun þó hafa áhrif á brunavarnir og skipulag þeirra á svæðinu. Auk þess munu umsvif Vinnueftirlitsins aukast og reglulegt eftirlit með almenun öryggismálum á vinnustað mun aukast, bæði hjá stofnunum sem sinna þeim málaflokki auk öryggisþjónustu einkafyrirtækja.

Sorphirða og sorpeyðing
    Starfsemi gagnavers er ekki þess eðlis að þar falli til meira sorp en almennt getur talist og áhrif á sorphirðu og sorpeyðingu á Suðurnesjum því minniháttar.

Flugvellir     
    Ekki má búast við að mælanleg breyting verði á Keflavíkurflugvelli vegna gagnaversins. Leiða má líkum að því að tekjur flugvallarins aukast í tengslum komur viðskiptavina gagnaversins til landsins, sú aukning er hinsvegar illmælanleg. Nálægð gagnaversins við flugvöllinn mun hins vegar hækka það þjónustustig sem gagnaverið býður upp á.

Hafnir
    Hafnir á Suðurnesjum munu líklegast ekki verða fyrir áhrifum af tilkomu gagnaversins.

Vegir
    Vegir munu að öllum líkindum vera lagðir á svæðinu við fyrirhugaðar nýjar byggingar til stækkunar gagnaversins.
    Í umræðunni er að setja á laggirnar lest sem myndi keyra frá Suðurnesjum til Reykjavíkur. Aukin starfsemi á Suðurnesjum mun virka sem lóð á vogarskálar í þeirri umræðu.

Tómstundir, útivist og menning
    Ekki er líklegt að tilkoma gagnaversins muni hafa áhrif á tómstundir, útivist og menningu á Suðurnesjum nema óbeint í gegnum skatttekjur.

Ferðaþjónusta
    Viðskiptavinir gagnaversins munu líklega hafa áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu. Illmælanlegt er hve mikil þau áhrif munu verða. Áhrifin eru háð hversu mikið fulltrúar viðskiptavina munu vera á Íslandi. Telja verður að tilkoma gagnaversins muni vekja athygli erlendis og þannig hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á Suðurnesjum sem og annarsstaðar á landinu.

3.2 Margföldunaráhrif
    Efnahagslegur ávinningur af framkvæmd sem þessari felst ekki síst í fjölgun starfa og aukninni framleiðslu sem skapast við umsvif í kringum byggingu gagnavers og rekstrar þess í framtíðinni. Þannig má gera ráð fyrir margföldunaráhrifum í samfélaginu við það að Verne byggir upp gagnaver og að atvinnutækifærum fjölgi í tengslum við það. Margvíslegar rannsóknir hafa farið fram á alþjóðlegum vettvangi á slíkum margföldunaráhrifum en einnig hafa verið framkvæmdar greiningar á Íslandi á undanförnum árum í tengslum við uppbyggingu stóriðju, t.d. í tengslum við framkvæmdir við álver Fjarðaráls á Reyðarfirði. Í tengslum við þá framkvæmd gerði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu um þjóðhagsleg áhrif álverksmiðju á svæðinu, en í þeirri skýrslu eru settir fram margfaldarar fyrir framleiðslu og fjölda ársverka. 38
    Margfaldararnir byggja á einföldu línulegu sambandi á milli beinna, óbeinna og afleiddra áhrifa sem margfeldi af hinum beinu áhrifum. Sambandinu er lýst þannig:

VB + VÓ + VA = M ´ VB


    Þannig verða bein, óbein og afleidd áhrif ( VB + VÓ + VA) af aukningu í beinum áhrifum ( VB), jöfn margfeldinu M af beinu áhrifunum, þar sem M er umræddur margfaldari. Áhrifin sem um ræðir geta verið krónutölur, ársverk eða aðrar hagstærðir og er VB þá viðbótin sem fæst við nýja framkvæmd (t.d. gagnaver Verne).

Framleiðslu- og ársverkamargfaldarar
    Í skýrslu Hagfræðistofnunar eru leiddir út margfaldarar framleiðsluaukningar og fjölgunar ársverka út frá svokölluðu lokuðu líkani þar sem tekið er tillit til beinna, óbeinna og afleiddra áhrifa. Margfaldara nokkurra atvinnugreina sem settir eru fram í skýrslunni má sjá í töflu 3.1:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 3.1 - Margfaldarar framleiðslu og ársverka
Heimild: Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, „Þjóðhagsleg áhrif álverksmiðju Fjarðaáls á Reyðarfirði“, 2005.


    Framleiðslumargfaldari ákveðinnar atvinnugreinar segir til um hversu mikið heildarframleiðsla í hagkerfinu eykst að því gefnu að eftirspurn eftir framleiðslu þeirrar atvinnugreinar aukist um t.d. eina krónu. Á sama hátt segir ársverkamargfaldari til um hversu mörgum heildarársverkum er búist við ef skapast eitt ársverk í atvinnugrein (heildarársverk innifela ársverk atvinnugreinarinnar).

Margföldun ársverka í gagnaveri Verne
    Bygging og rekstur gagnavers Verne mun kalla fram margföldunaráhrif í fleiri en einni af ofangreindum atvinnugreinum. Umtalsverð byggingarstarfsemi mun vera í gangi fyrstu árin á meðan á uppbyggingu gagnaversins stendur og að einhverju leiti í framhaldinu sem viðhaldsvinna. Eftir að rekstur er hafinn munu margföldunaráhrifin vera meira í líkingu við áhrif þjónustugreina eins og „þjónustu vegna atvinnureksturs“ eða „ýmis þjónustustarfsemi“.
    Verne áætlar að meðalfjöldi ársverka við byggingu gagnaversins verði um 100 manns á árunum 2010–2016. Byggt á áætluðum margfeldisáhrifum í byggingariðnaði má reikna með að byggingaframkvæmdirnar gætu skapað önnur 171 störf.
    Margföldunaráhrif tengd rekstri gagnaversins er erfitt að meta nákvæmlega en þau gætu verið á bilinu 2,19–2,97 ef tekið er mið af tveimur neðstu atvinnugreinaflokkunum sem nefndir eru í töflu 3.1. Ef miðað er við meðalgildi heildarmargfaldara þessara flokka fyrir ársverk, 2,58 má búast við að um 158 störf skapist til viðbótar við þau 100 sem búist er við í tengslum við rekstur gagnaversins þegar það er fullbyggt.
    Heildar óbein atvinnusköpun gæti þannig numið allt að 330 stöðugildum. Byggt á ofangreindu gæti verkefni Verne lækkað núverandi atvinnuleysi allt að 35% sé gengið út frá þeirri forsendu að allt starfsfólk muni koma frá Suðurnesjum.

Önnur einföld nálgun
    Jón Steinsson aðstoðar prófessor við Columbia háskóla í Bandaríkjunum hefur einnig sett fram einfalt líkan sem má nota til að meta margföldunaráhrif á ársverk á afmörkuðu svæði (litlu sveitar-/bæjarfélagi). 39 Jón setur fram einfaldar forsendur fyrir nálguninni; að öll framleiðsla nýja verkefnisins sé til útflutnings, að bæjarfélagið sé lítill hluti landsins og að laun starfsmanna séu meðallaun bæjarfélagsins. Auk þess skilgreinir hann y sem hlutfall tekna starfsmanns af vöru og þjónustu sem framleidd er á svæðinu, og x heildarfjölda starfa nýja vinnustaðarins. Margföldunaráhrifunum er þannig lýst sem:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ef um 50% tekna færi í neyslu vöru og þjónustu sem framleidd er í heimabyggð væri margfaldarinn 2,0. Reikna má með að neysla vöru og þjónustu sé hærri í þeim tilfellum þar sem laun eru yfir meðallagi og þannig væri margfaldarinn 2,22 ef neysla vöru og þjónustu í heimabyggð væri 55% og 2,50 ef hún væri 60%. Neysluhlutfallið y má leiða út á nákvæmari hátt þar sem tekið er tillit til hlutfalla einka- og samneyslu auk fjárfestinga.

3.3 Áhrif á aðrar atvinnugreinar
    Eitt af meginmarkmiðum KADECO fyrir Ásbrúarsvæðið er að byggja upp tæknigarða sem leggja áherslu á græna orku. Samhliða því er stefnt að því að auka fjölbreytni þeirra fyrirtækja sem hefja rekstur hérlendis frá því að hafa fyrst og fremst byggt upp stóriðju á seinustu árum. Aðkoma Verne að Ásbrú er því skref í þessa átt.
Klasamyndun á Suðurnesjum
    Michael Porter, prófessor í Harvard háskóla og rithöfundur, skilgreinir klasa sem landfræðileg þéttni tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana á sérhæfðum sviðum sem eiga bæði í samkeppni og samvinnu. 40 Porter nefnir ennfremur að fyrirtæki og innviðir landsins þróast og verða samkeppnishæfari með klasamyndun. Klasar hafa almennt áhrif á samkeppnishæfni með því að auka framleiðni fyrirtækja og atvinnugreina, efla nýsköpunarstarfsemi og hvetja til stofnunar nýrra fyrirtækja sem styrkja og þróa áfram klasann.
    Eins og hefur komið fram þá aukast líkurnar á að fleiri fyrirtæki horfi til Íslands sem fjárfestingakosts ef Verne hefur starfsemi sína hérlendis. Í þessu samhengi er ekki átt við að stefna ríkisins sé að byggja kjarna af gagnaverum heldur frekar kjarna af fyrirtækjum sem hafa sameiginlega eiginleika og þarfir. Áhuginn og aðkoma Verne að fjárfestingu hérlendis er eðlileg þróun sem partur af mótun klasa á Íslandi þar sem endurnýjanlegir orkugjafar er kjarninn. Kjarni klasans laðar að fyrirtæki úr ýmsum atvinnugreinum með beinar og óbeinar tengingar á milli. Ákvörðun um slíka uppbyggingu snýst ekki um skammtímaávinning heldur beinist hún frekar að því að ákveða raunhæfa langtímastefnu landsins miðað við samanburðar og samkeppnisforskot. Þar sem Ísland er meðal fremstu landa í endurnýjanlegum orkugjöfum og tengdri starfsemi þá er klárlega tækifæri til að skapa heildstæðan klasa byggt á þeim eiginleikum.
    Eins og má sjá á Mynd 3.4 þá eru margir aðilar sem koma að því að mynda heildstæðan klasa. Hafa ber í hug að klasi er fyrirbæri þar sem aðilar þurfa að vera sveigjanlegir og virkir til að vera samkeppnishæfir. Hægra megin má sjá þá aðila sem sækjast eftir notkun og þjónustu frá klasa og þar eru m.a. gagnaver eins og Verne. Einnig má sjá að annar klasi, upplýsingatækni, tengist endurnýjanlegri orku og gagnaversstarfseminni.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 3.4 - Klasamyndun
Heimild: Greining KPMG

    Porter tekur einnig fram að ein áhrifaríkasta leið til að stuðla að beinni erlendri fjárfestingu sé klasauppbygging þ.e.a.s. laða að fyrirtæki í tengdri starfsemi samhliða fjárfestingum í innviðum og öðrum sviðum innan klasaumhverfinu. Uppbygging á Ásbrú er mikilvægur grunnur að upphafi slíkrar klasamyndunar.

Athygli stórra alþjóðlegra fyrirtækja
    Ákvörðun Verne að fjárfesta hérlendis mun vekja áhuga alþjóðlegra fyrirtækja sem hefðu ekki annars litið til Íslands með fjárfestingar í huga. Markaður fyrir gagnaver er ört vaxandi og þjónusta þeirra höfðar til stórra fyrirtækja (Forbes Global 2000 fyrirtækja). 41 Áhugi slíkra félaga mun opna augu manna enn frekar fyrir Íslandi sem fjárfestingarkosti og ákjósanlegu rekstrarumhverfi.

3.4 Fjárfestingarstefna Íslands
    Núverandi fjárfestingarstefna Iðnaðarráðuneytis og Fjárfestingastofu 42 er að laða að eftirsóknarverðar nýfjárfestingar í grænni atvinnustarfsemi, hátækniiðnaði, nýsköpun og öðrum skapandi greinum. 43 Starfsemi Verne er því vel í takt við þessa stefnu þar sem gagnaverið er umhverfisvænt, orkufrekt- og mun nýta sér fjarskiptatækni í miklum mæli. Með þessari starfsemi mun fjölbreytni í atvinnulífi aukast á Íslandi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal X.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild til samninga
um gagnaver í Reykjanesbæ.

    Markmið frumvarpsins er að veita iðnaðarráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands heimild til að ganga til samninga við Teha Investments, Novator, Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. um byggingu og rekstur gagnavers að Ásbrú í Reykjanesbæ í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Ákvæði samningsins skulu gilda eigi lengur en 20 ár frá undirritun samningsins. Viðskiptahugmund Verne Holdings ehf. er að bjóða upp á heildsölu á gagnaversþjónustu þar sem alþjóðlegum stórnotendum gagnavera er veittur aðgangur að gagnahýsingarþjónustu en slík þjónusta krefst meðal annars innviða eins og orku, kælingar, rýmis fyrir tölvubúnað, öryggis og innbyggðrar tengingar til að starfrækja netþjóna.
    Í skýrslu KPMG um samfélagsleg áhrif gagnaversins er gert ráð fyrir að fjárfestingarþörf fullbúins gagnavers sé um 700 millj. bandaríkjadala og er reiknað með að 180–220 störf skapist á vegum Verne Holdings ehf. við framkvæmdina þegar mest er. Þar af er áætlað að 100 störf skapist á vegum félagsins þegar rekstur er kominn á fullan skrið og á sjö ára uppbyggingartímabili er reiknað með að um 100 störf skapist í byggingariðnaði. Alls er reiknað með að stærð bygginga gagnaversins verði um 20.000 m² og orkuþörf upp á 80–140 MW. Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir að fyrsta áfanga verkefnisins verði lokið 2010 sem muni kosta um 100 millj. bandaríkjadala. Áætlað er að 108 millj. bandaríkjadala tekjur skili sér á tímabilinu 2010–2019 í formi tekjuskatts frá félaginu, tekjuskatts starfsfólks og fasteignagjalda. Þá er gert ráð fyrir að félagið kaupi raforku á þessu sama tímabili fyrir um 30–36 milljarða kr. auk þess sem gert er ráð fyrir að margföldunaráhrif tengd rekstri og uppbyggingu gagnaversins geti leitt af sér 150–160 viðbótarstörf.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að þrátt fyrir að almennar skattareglur skuli gilda um starfsemi gagnaversins í Reykjanesbæ verði því veittar ýmsar ívilnanir í formi frávika frá reglum um skatta og gjöld. Eru þau frávik þó að mestu leyti sambærileg þeim sem heimiluð hafa verið vegna fjárfestingarsamninga sem gerðir voru vegna álveranna á Grundartanga, á Reyðarfirði og í Helguvík. Ekki er þó gengið jafnlangt í ívilnunum samkvæmt frumvarpinu, t.d. gagnvart tekjuskatti lögaðila, og gert hefur verið í eldri fjárfestingarsamningum. Undanþágur þessar falla niður að öllu leyti eftir 20 ár og verður þá heimilt að semja upp á nýtt. Frávik þau sem gert er ráð fyrir að Verne Holdings ehf. skuli njóta frá reglum um skatta og gjöld samkvæmt frumvarpinu snúa að eftirfarandi þáttum en í greinargerð frumvarpsins er fjallað nánar um einstök skattaleg ákvæði frumvarpsins:
     1.      Að tryggt sé að tekjuskattshlutfall verði ekki hærra en 15% fyrstu fimm ár gildistíma fjárfestingarsamningsins, 18% næstu fimm ár og 25% síðustu tíu árin.
     2.      Sérreglur varðandi fyrningu eigna.
     3.      Undanþágu frá iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi.
     4.      Sérreglur varðandi stimpilgjald og skipulagsgjald.
     5.      Sérreglur varðandi útreikning fasteignaskatts.
     6.      Undanþágu frá rafmagnsöryggisgjaldi.
     7.      Ýmsar takmarkanir varðandi upptöku nýrra skatta.
    Í tengslum við frumvarpið fór fram vinna á vegum iðnaðarráðuneytisins þar sem fjárhagslegt umfang þessara tilteknu skattalegu ívilnana var metið. Í stórum dráttum er þar lagt mat á tekjur hins opinbera næstu 20 árin annars vegar miðað við gildandi skattareglur og hins vegar miðað við þau frávik frá þeim sem samningurinn gerir ráð fyrir. Samkvæmt niðurstöðum þeirrar úttektar er fjárhagsleg ívilnun frumvarpsins metin að núvirði á um 5,4 millj. bandaríkjadala á þessu 20 ára tímabili. Sé miðað við að gengi bandaríkjadals gagnvart íslensku krónunni sé 124, þá gera þetta alls um 670 m.kr. yfir tímabilið eða um 33,5 m.kr. að meðaltali á ári. Stærstu liðirnir snúa í fyrsta lagi að því að gert er ráð fyrir að félaginu verði veitt undanþága frá rafmagnsöryggisgjaldi en það er metið sem ívilnun að fjárhæð 2,2 millj. bandaríkjadala. Í öðru lagi er gert ráð fyrir sérreglum varðandi fasteignaskatta en það er metið sem ívilnun að fjárhæð 1,3 millj. bandaríkjadala. Í þriðja lagi gert ráð fyrir að félaginu verði veitt undanþága frá iðnaðarmálagjaldi sem er metið sem 1,1 millj. bandaríkjadala ívilnun. Þá er í fjórða lagi gert ráð fyrir að tekjuskattshlutfall gagnaversins skuli ekki vera hærra en 15% fyrstu fimm árin en það er metið sem ívilnun að fjárhæð 0,6 millj. bandaríkjadala þar sem gert er ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila skuli hækka í 18% á árinu 2010. Aðrir þættir vega minna. Ekki er hægt að segja fyrir um það hvort ákvæði um að tekjuskattshlutfall vegna starfsemi gagnaversins í Reykjanesbæ verði ekki hærra en 18 eða 25% á tímabilinu muni fela í sér ívilnun. Að öllu samanlögðu má því gera ráð fyrir, verði frumvarpið óbreytt að lögum og ráðist verður í framkvæmdirnar, að tekjur ríkissjóðs muni aukast og afkoma ríkissjóðs þar af leiðandi batna.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi umtalsverð bein áhrif á útgjaldahlið ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum að öðru leyti en því að greiðslur vegna atvinnuleysisbóta gætu orðið minni en ella næstu árin.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Forbes Global 2000 er árleg flokkun Forbes á 2000 stærstu skráðum fyrirtækjum í heiminum byggt á tekjum, hagnaði, eignum og markaðsvirði.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Invest in Iceland Agency
Neðanmálsgrein: 3
    3 www.idnadarraduneyti.is/radherra/raedur-greina-KJ/nr/2787
Neðanmálsgrein: 4
    4 e. facility utilization
Neðanmálsgrein: 5
    5 Mckinsey & Company, „Revolutionizing Data Center Energy Efficiency“ (2008).
Neðanmálsgrein: 6
    6 Environmental Protection Agency, Report to Congress (2007)
Neðanmálsgrein: 7
    7 e. Foreign Direct Investment
Neðanmálsgrein: 8
    8 www.byggdastofnun.is
Neðanmálsgrein: 9
    9 mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1091667
Neðanmálsgrein: 10
    10 Umfjöllun og gröf taka til stærstu atvinnugreina en eru ekki tæmandi fyrir atvinnugreinar.
Neðanmálsgrein: 11
    11 www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=d97259c1-f707-44e0-a215-724ef6804d15
Neðanmálsgrein: 12
    12 www.fmr.is
Neðanmálsgrein: 13
    13 reykjanesbaer.is/
Neðanmálsgrein: 14
    14 www.sandgerdi.is/
Neðanmálsgrein: 15
    15 www.sv-gardur.is/ og www.vogar.is/
Neðanmálsgrein: 16
    16 www.hagstofan.is
Neðanmálsgrein: 17
    17 www.asbru.is
Neðanmálsgrein: 18
    18 www.landsnet.is
Neðanmálsgrein: 19
    19 www.hs.is
Neðanmálsgrein: 20
    20 Jarðsjór úr allt að 2000 metra djúpum borholum er settur í gegnum ferli til framleiðslu á heitu vatni og rafmagni. Jarðvökvann er ekki hægt að nota til beinnar upphitunar vegna seltu og mikils steinefnainnihalds. Jarðvökvinn er því notaður til upphitunar á ferskvatni og framleiðslu á rafmagni.
Neðanmálsgrein: 21
    21 Ársskýrsla KADECO 2008
Neðanmálsgrein: 22
    22 16.467 GWst eru 16,5 m MWst sem deilist með fjölda klukkustunda á ári eða 8.760 sem gefur u.þ.b. 1.880 MW á ári.
Neðanmálsgrein: 23
    23 www.pfs.is
Neðanmálsgrein: 24
    24 www.farice.is
Neðanmálsgrein: 25
    25 www.invest.is
Neðanmálsgrein: 26
    26 www.tele.gl
Neðanmálsgrein: 27
    27 www.fss.is
Neðanmálsgrein: 28
    28 www.keilir.net/
Neðanmálsgrein: 29
    29 www.mss.is
Neðanmálsgrein: 30
    30 www.hss.is/
Neðanmálsgrein: 31
    31 www.kefairport.is
Neðanmálsgrein: 32
    32 www.icelandair.is
Neðanmálsgrein: 33
    33 www.icelandexpress.is
Neðanmálsgrein: 34
    34 reykjanesbaer.is/upload/files/Greinargerð_090525(1).pdf og hass.is/Hafnir/Keflavik/
Neðanmálsgrein: 35
    35 nat.is/golf/golfvellir_a_islandi.htm
Neðanmálsgrein: 36
    36 www.bluelagoon.is/
Neðanmálsgrein: 37
    37 Tæknar skv. Hagstofu Íslands
Neðanmálsgrein: 38
    38 Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, „Þjóðhagsleg áhrif álverksmiðju Fjarðaáls á Reyðarfirði“, 2005.
Neðanmálsgrein: 39
    39 Viðauki: Jón Steinsson, Columbia Háskóli, „Afleidd störf í litlu bæjarfélagi“
Neðanmálsgrein: 40
    40 Michael Porter. On Competition. (1998)
Neðanmálsgrein: 41
    41 Forbes Global 2000 er árleg flokkun Forbes á 2000 stærstu skráðum fyrirtækjum í heiminum byggt á tekjum, hagnaði, eignum og markaðsvirði.
Neðanmálsgrein: 42
    42 Invest in Iceland Agency
Neðanmálsgrein: 43
    43 www.idnadarraduneyti.is/radherra/raedur-greina-KJ/nr/2787