Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 248. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 402  —  248. mál.




Svar



samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Kemur til greina að endurskoða framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til barnmargra sveitarfélaga, svo sem Álftaness? Ef svo er, hvenær?

    Jöfnunarsjóður sveitarfélaga starfar á grundvelli III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Um 70% af lögbundnum tekjum sjóðsins er í dag varið til greiðslu jöfnunarframlaga þar sem íbúafjöldi í hverju sveitarfélagi er lagður til grundvallar við útreikning framlaganna auk annarra þátta. Í þessu sambandi er rétt að benda sérstaklega á útgjaldajöfnunarframlög sjóðsins og framlög til reksturs grunnskóla í kjölfar yfirfærslunnar 1. ágúst 1996.

Útgjaldajöfnunarframlög.
    Framlögunum er ætlað að lýsa bæði almennum og sérstökum kostnaði í rekstri sveitarfélaga á grundvelli ákveðinna viðmiða. Um 44% framlaganna renna til jöfnunar á grundvelli fjölda íbúa á aldrinum 0–16 ára þar sem þjónustuþörfin er talin einna mest. Eftir því sem íbúarnir á tilteknu aldursskeiði eru fleiri því hærra hlutfall af heildinni fær viðkomandi sveitarfélag.

Jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla.
    Við útreikning almennra framlaga til reksturs grunnskóla er fjöldi barna á grunnskólaaldri í sveitarfélögum lagður til grundvallar ásamt öðrum þáttum. Fjölgun og fækkun barna hefur því áhrif í útreikningi framlaganna.
    Eins og sjá má af framansögðu er í dag tekið tillit til barnmargra sveitarfélaga við útreikning einstakra framlaga úr Jöfnunarsjóði og á það við Sveitarfélagið Álftanes eins og önnur sveitarfélög.

Endurskoðun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Í ársbyrjun 2009 skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra starfshóp til að endurskoða gildandi laga- og reglugerðarákvæði um sjóðinn. Markmið með endurskoðuninni er að tryggja markvissari jöfnunaraðgerðir, betri nýtingu tekjustofna sveitarfélaga og aðlögun jöfnunarkerfisins að nýjum verkefnum sveitarfélaga og breytingum sem kunna að verða á næstu árum í umhverfi sveitarfélaga og geta haft áhrif á jöfnunarþörf, svo sem fækkun sveitarfélaga með sameiningum. Um heildarendurskoðun á öllu regluverki sjóðsins er að ræða og því munu reglur við útreikning framangreindra framlaga sjóðsins einnig verða teknar til skoðunar. Áætlað er að hópurinn ljúki störfum í lok febrúar nk.