Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 286. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 523  —  286. mál.
Breytingartillögurvið frv. til l. um breyt. á l. nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku
bankanna 2008 og tengdra atburða.

Frá Þór Saari.     1.      Við 1. gr. B-liður orðist svo: Í stað 2. og 3. mgr. koma sex nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Alþingi kýs sex þingmenn í nefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, einn úr hverjum flokki, ásamt þingmanni utan flokka. Enginn nefndarmanna skal hafa átt sæti á Alþingi fyrir október 2008 eða hafi óumdeilanlega nokkur tengsl við þá atburði eða gerendur þeirra atburða sem getið er í heiti laganna. Nefndin skal í störfum sínum:
                  a.      móta viðbrögð Alþingis við niðurstöðum skýrslunnar, þar á meðal hvaða lærdóma eigi að draga af þeim atburðum sem urðu haustið 2008, aðdraganda þeirra og afleiðingum,
                  b.      kanna grundvöll ábyrgðar á þeim atburðum sem leiddu til falls bankanna, kerfishruns og djúpstæðrar kreppu í fjármálalífi þjóðarinnar sem og algers samfélagslegs siðrofs,
                  c.      móta tillögur og leggja til breytingar á lögum og reglum í því skyni að koma í veg fyrir að atburðir af því tagi, sem urðu hérlendis haustið 2008, endurtaki sig.
                      Um þingmannanefndina gilda ákvæði þingskapa um fastanefndir, eftir því sem við á, en nefndin setur sér að öðru leyti verklagsreglur. Hún skilar tillögum og skýrslum til Alþingis.
                      Nefndin skal kanna einstaka þætti skýrslunnar og getur gert tillögur um úrbætur, sem einstakar fastanefndir fjalla frekar um og útfæra í lagaform, eða óskað eftir því að ríkisstjórn láti undirbúa heildarendurskoðun laga á ákveðnum sviðum.
                      Nefndin skal láta rannsaka einstaka þætti málsins betur sem og atriði sem rannsóknarnefndin hefur ekki fjallað sérstaklega um ef tilefni gefur til. Hún felur þá einum eða fleiri sérfróðum aðilum umsjón framhaldsrannsóknarinnar. Reglur II., III. og VI. kafla þessara laga gilda um slíka framhaldsrannsókn eftir því sem við á, þar á meðal um rannsóknarheimildir, þagnarskyldu og birtingu upplýsinga sem háðar eru þagnarskyldu.
                      Nefndin skal svo fljótt sem auðið er taka afstöðu til þess hvort einhverjum hluta rannsóknargagna verði skilað síðar til Þjóðskjalasafns en áætlað er ef til framhaldsrannsóknar kemur. Þeir sem annast framhaldsrannsókn eiga aðgang að öllum þeim gögnum sem rannsóknarnefndin hefur aflað. Komi til slíkrar rannsóknar skal skýrslu um hana skilað til Alþingis og hún kynnt opinberlega.
                      Þingmannanefndin skal ljúka störfum fyrir 1. maí 2010.
     2.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein sem verður 15. gr. a og orðast svo:
                      Alþingi kýs nefnd fimm valinkunnra manna utan þings sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings. Nefndin hafi það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem snerta alþingismenn og ráðherra, núverandi og/eða fyrrverandi, og fjölskyldur þeirra. Nefndin skal fjalla um öll atriði sem snerta Alþingi sjálft sem stofnun og koma fram í skýrslunni.
                      Nefndin skal í störfum sínum:
                  a.      koma með tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslunnar, þar á meðal hvaða lærdóma megi draga af þeim atburðum sem urðu haustið 2008, aðdraganda þeirra og afleiðingum,
                  b.      kanna grundvöll ábyrgðar á þeim atburðum sem leiddu til falls bankanna, kerfishruns og djúpstæðrar kreppu í fjármálalífi þjóðarinnar sem og algers samfélagslegs siðrofs,
                  c.      móta tillögur að breytingum á lögum og reglum í því skyni að koma í veg fyrir að atburðir af því tagi, sem urðu hér á landi haustið 2008, endurtaki sig.
                      Nefndin setur sér eigin verklagsreglur og skilar tillögum og skýrslum til þingmannanefndarinnar sem kveðið er á um í 15. gr. og kynnir þær opinberlega.
                      Nefndin skal ljúka störfum fyrir 15. mars 2010.
     3.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                      Við lögin bætist ný grein sem verður 18. gr. og orðast svo:
                      Við birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis skulu öll gögn sem aflað hefur verið færð á Þjóðskjalasafn Íslands og þau gerð opinber. Tryggt verði að allar upplýsingar að baki skýrslunni sem og að baki skýrslum beggja nefnda skv. 15. gr. og 15. gr. a verði opnar öllum frá fyrsta birtingardegi. Ákvæði laga um persónuvernd skulu ekki gilda um upplýsingar þessar nema í algerum undantekningartilvikum og skulu þá rækilega rökstudd með tilliti til mikilvægustu persónuverndarsjónarmiða.

Greinargerð.


    Hreyfingin leggur áherslu á að höfð sé í huga sú umræða sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu varðandi hvaða aðilar það eru sem bera höfuðábyrgð á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi. Það er mat þinghóps Hreyfingarinnar að hætt sé við að tengsl og hagsmunaárekstrar muni gera trúverðugleika þingmannanefndarinnar að engu. Til að mark verði takandi á störfum nefndarinnar er það grundvallaratriði að þingmenn ákvarði ekki það verklag er varðar aðra þingmenn sem og ráðherra í þeirri vinnu sem framundan er.
    Með kosningu nefndar fimm manna utan þings, sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings, sem hefur það hlutverk sem breytingartillögur Hreyfingarinnar gera ráð fyrir er auk þess tryggt að Alþingi verði ekki sett í þá stöðu að veita sjálfu sér aðhald heldur fái stofnunin sjálf og hlutaðeigandi aðilar nauðsynlegt utanaðkomandi aðhald.
    Þá er vert að hafa í huga að þingið nýtur lítils trausts meðal borgara landsins og frumvarp forsætisnefndar óbreytt mun ekki verða til þess að þingið auki veg sinn og virðingu meðal landsmanna. Þvert á móti mun þetta verða til þess að breikka enn gjána á milli þjóðar og þings.
    Þeir atburðir sem hér hafa átt sér stað eru þess eðlis að nauðsynlegt er að tryggja að þeir geti ekki endurtekið sig. Því er mikilvægt að aðgangur að þeim gögnum sem til verða við vinnu rannsóknarnefndarinnar sé eins opinn og frekast sé kostur svo hægt verði að rannsaka málið til fullnustu og læra af mistökum fortíðarinnar.
    Þar sem hlutverk og skyldur þingmannanefndarinnar eru ekki nægjanlega afmörkuð er hætt við því að rannsóknarskýrslan fái ekki viðeigandi meðferð. Það kann að hafa þær afleiðingar að þeir aðilar sem bera ábyrgð í því máli sem hér er til umfjöllunar verði ekki látnir axla þá ábyrgð. Að auki eru engin tímamörk sett á vinnu þingmannanefndarinnar. Þess vegna er mikil hætta á því að störf hennar geti dregist út í hið óendanlega eða uns ráðherraábyrgð fyrnist. Í því samhengi ber að hafa í huga leyfð tímamörk um málshöfðun skv. 14. gr. laga um ráðherraábyrgð, en umrædd þingmannanefnd mun ein hafa ákvörðunarvald um hvort landsdómur verður kallaður saman vegna mála sem Alþingi kann að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra.
    Þinghópur Hreyfingarinnar telur að það verði að loka fyrir alla möguleika á að Alþingi tefji að taka afstöðu til rannsóknarskýrslunnar eða að skýrslunni verði sópað undir teppið. Ekki fæst séð að framlagt frumvarp uppfylli þau skilyrði.