Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 80. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 607  —  80. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Davíðs Stefánssonar um forvarnir og viðbrögð við kynbundnu ofbeldi.

     1.      Hversu miklum fjármunum er varið árlega í annars vegar forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi og hins vegar viðbrögð við afleiðingum kynbundins ofbeldis?
    
Félags- og tryggingamálaráðuneytið vinnur að framkvæmd þeirra aðgerða í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá september 2006 vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis sem falla undir málefnasvið þess. Áætlunin er til fjögurra ára og gildir til ársins 2011. Um er að ræða aðgerðir sem stjórnvöld hyggjast beita sér fyrir á gildistíma aðgerðaáætlunarinnar til að fyrirbyggja heimilisofbeldi og kynferðislegt ofbeldi og bæta aðbúnað þeirra er orðið hafa fyrir ofbeldi eða eru í áhættuhópi hvað þetta varðar. Samráðsnefnd fjögurra ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir stjórn félags- og tryggingamálaráðuneytisins, fylgir áætluninni eftir. Aðgerðaáætlunin lýtur bæði að forvörnum og viðbrögðum við afleiðingum kynbundins ofbeldis. Félags- og tryggingamálaráðherra hyggst leggja til að umrædd aðgerðaáætlun verði endurmetin í upphafi árs 2010 í ljósi reynslu síðustu ára.
    Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur árlega haft 9,5 millj. kr. til umráða vegna þeirra verkefna sem falla undir málefnasvið þess síðastliðin þrjú ár, eða samtals 28,5 millj. kr. Þau verkefni sem þegar hafa verið framkvæmd eru eftirfarandi:

Fræðslurit um ofbeldi í nánum samböndum.
    Þekking, fræðsla og menntun þeirra sem vinna að málefnum kvenna sem verða fyrir ofbeldi í nánum samböndum hefur mikilvægt forvarnagildi. Ofbeldi í nánum samböndum – Orsakir, afleiðingar, úrræði er heiti fræðslurita fyrir fagstéttir sem félags- og tryggingamálaráðuneytið gaf út í janúar 2009 fyrir tilstuðlan samráðsnefndarinnar um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum í nánum samböndum. Markmið útgáfunnar er að efla fræðslu og þekkingu þeirra sem sinna og vinna með konum sem hafa verið beittar ofbeldi af nákomnum aðilum. Fræðsluritin eru fimm talsins. Eitt þeirra fjallar á almennan hátt um ýmsar staðreyndir varðandi ofbeldi gegn konum í nánum samböndum, rannsóknir sem gerðar hafa verið, birtingarmyndir ofbeldisins og afleiðingar þess. Þetta rit er einkum ætlað til kennslu. Hin ritin fjögur eru skrifuð með það að markmiði að nýtast tilteknum stéttum í starfi. Eitt ritanna er fyrir ljósmæður, annað fyrir aðrar heilbrigðisstéttir, þriðja fyrir starfsfólk félagsþjónustu og fjórða ritið er ætlað lögreglunni. Sjá nánar: www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/4153.

Rannsókn á ofbeldi í nánum samböndum.
    Rannsóknir á kynbundnu ofbeldi leiða til aukinnar þekkingar á eðli, umfangi og afleiðingum þess. Er það nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að vinna að forvörnum og skýrri stefnumótun á þessu sviði. Rannsóknir leiða einnig til upplýstrar umræðu um viðfangsefnið og geta þannig orðið mikilvægur þáttur í að brjóta niður þann þagnarmúr sem hefur þótt einkenna þennan málaflokk.
    Félags- og tryggingamálaráðuneytið ber samkvæmt aðgerðaáætluninni eitt ábyrgð á að framangreind rannsókn verði gerð. Markmiðið er að umfang og eðli kynbundins ofbeldis hér á landi verði rannsakað í þeim tilgangi að kanna hversu útbreitt það sé, til hvaða aðgerða sé rétt að grípa og að sérstaklega verði litið til samanburðar við önnur lönd að þessu leyti. Undirbúningur rannsóknarinnar fór fram í ráðuneytinu, en Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd í Háskóla Íslands var falið að framkvæma rannsóknina.
    Rannsóknin skiptist í sex hluta. Fyrsti hlutinn var umfangskönnun sem fór þannig fram að hringt var í 3.000 konur á aldrinum 18–80 ára með tilviljunarkenndu úrtaki úr þjóðskrá. Rannsóknin var gerð í september–desember 2008. Svarhlutfall var 68%. Sjá nánar: www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/4329.
    Auk símakönnunar var ákveðið að rannsaka hvaða viðbrögð og þjónustu konur, sem beittar hafa verið ofbeldi í nánum samböndum, fá hjá þeim stofnunum samfélagsins sem þær leita til. Slík rannsókn hefur ekki áður verið gerð hér á landi en rannsóknin var gerð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga og barnavernd annars vegar og grunnskólum hins vegar. Báðar þær rannsóknir fóru fram með viðtölum við starfsmenn í nokkrum sveitarfélögum og lauk í október 2009. Sjá nánar: www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/4532.
    Þá er hafinn undirbúningur á rannsókn hjá heilbrigðisþjónustunni. Gert er ráð fyrir að hún hefjist í ársbyrjun 2010 og áætlað að henni ljúki sumarið sama ár. Einnig er ætlunin á næsta ári að gera rannsókn hjá félagasamtökum sem fást við ofbeldi gegn konum, svo sem hjá Samtökum um kvennaathvarf og Stígamótum. Ætlunin var að gera rannsókn hjá lögreglu, en sú könnun er þegar í vinnslu hjá öðrum aðila og mun félags- og tryggingamálaráðuneytið fá skýrslu um hana hjá Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd.

Leiðbeinandi aðgerðaáætlun fyrir sveitarfélög.
    Mikilvægt er að sveitarfélög landsins starfi markvisst að forvörnum, þar á meðal fræðslu til almennings, svo koma megi í veg fyrir kynbundið ofbeldi meðal íbúa þess. Hafin er vinna á vegum fyrrnefndrar samráðsnefndar að gera slíka áætlun með sveitarfélögum. Sérstök undirnefnd samráðsnefndarinnar heldur utan um þá vinnu. Í þessari áætlun munu meðal annars koma fram leiðir að forvörnum og skimun á ofbeldi og afleiðingum þess. Ein af þeim leiðum er að koma á þverfaglegu samstarfi í þessum málaflokki. Mjög mikilvægt er að tryggja að nærþjónusta við þolendur sé skilvirk og ljóst sé hvert leita skuli aðstoðar ef á þarf að halda. Þá er ekki síður mikilvægt að ólíkir þjónustuaðilar innan sveitarfélaganna tryggi gott samstarf sín á milli.

Karlar til ábyrgðar.
    Í maí 2006 skrifaði þáverandi félagsmálaráðherra undir samning um framkvæmd verkefnisins Karlar til ábyrgðar. Markmið verkefnisins er að gerendur sem beitt hafa konur kynbundnu ofbeldi eigi kost á meðferð í þeim tilgangi að rjúfa mynstrið og að þeir fái meðferð og aðstoð séu þeir reiðubúnir að leita sér hjálpar vegna þess að þeir hafa beitt ofbeldi. Um er að ræða eina sérhæfða meðferðartilboðið fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum hér á landi. Reynslan af slíku meðferðarstarfi er góð, bæði hér á landi og erlendis, en talið er að árlega séu um 1.100 konur beittar ofbeldi af hálfu maka eða fyrrverandi maka. Sálfræðingar annast meðferðarstarfið. Áhersla er lögð á að gerendur komi sjálfviljugir í meðferð og axli sjálfir ábyrgð á ofbeldinu. Meðferðin byggist á einstaklingsviðtölum og getur staðið frá sex mánuðum til tveggja ára.
    Samhliða meðferðarstarfinu starfar sérstök verkefnisstjórn með þátttöku Jafnréttisstofu, heilbrigðisráðuneytis og Samtaka um Kvennaathvarf og er fulltrúi Jafnréttisstofu verkefnisstjóri. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er meðal annars að skilgreina þróun verkefnisins til framtíðar í samráði við meðferðaraðila, fylgjast með daglegri starfsemi og standa fyrir mati á árangri verkefnisins. Árlega eru veittar 6,5 millj. kr. í umrætt verkefni.

Neyðarkort.
    Kortið var fyrst gefið út árið 2005 en var endurútgefið sumarið 2008. Kortið ber heitið „Við hjálpum“ og á því eru símanúmer sem þolendur kynbundins ofbeldis geta hringt í þarfnist þær hjálpar. Kortið er á íslensku, ensku, pólsku, rússnesku og taílensku. Karlanefnd Femínistafélags Íslands hefur séð um að dreifa kortinu á útiskemmtunum um verslunarmannahelgar. Eintök af kortinu voru jafnframt send til fjölmargra stofnana, sveitarfélaga og annarra aðila og þeir hvattir til að hafa þau aðgengileg þeim sem til þeirra leita og kortin gætu hugsanlega komið til góða.
    Árlega er gert ráð fyrir fjárframlagi úr ríkissjóði á grundvelli fjárlaga til Kvennaathvarfsins í Reykjavík og Stígamóta. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2009 fékk Kvennaathvarfið í Reykjavík 43,1 millj. kr. og Stígamót 35,7 millj. kr.
    Þess má einnig geta að félags- og tryggingamálaráðherra hefur veitt styrki í þennan málaflokk af ráðstöfunarfé sínu. Árið 2008 veitti þáverandi ráðherra tæpar 8,5 millj. kr. í styrki til félagasamtaka sem sinna forvarnaverkefnum gegn kynbundnu ofbeldi gagnvart konum og kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum eða verkefnum sem ætluð eru til að veita þolendum aðstoð og stuðning. Verkefnin sem um ræðir styðja við markmið áætlunar ríkisstjórnarinnar á þessu sviði. Styrkir til samtaka sem aðstoða þolendur kynbundins ofbeldis voru veittir Samtökum um kvennaathvarf, Stígamótum og Sólstöfum, kvennaathvarfi á Vestfjörðum. Styrkir til forvarnaverkefna voru veittir samtökunum Blátt áfram til námskeiðahalds fyrir starfsfólk sem vinnur með fötluðum börnum og Þekkingarsetri styrktarfélagsins Áss til námskeiðahalds fyrir þroskaheft og heyrnarlaus börn og ungmenni.

     2.      Hvaða skilgreiningar notar ráðuneytið til að afmarka annars vegar forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi og hins vegar viðbrögð við afleiðingum þess?
    
Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki stuðst við ákveðnar skilgreiningar um forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi og viðbrögð við afleiðingum þess en leggur ávallt áherslu á að fylgjast vel með þeirri þróun sem á sér stað á þessu sviði hverju sinni, meðal annars með samráði við frjáls félagasamtök. Í því sambandi má nefna að sú breyting var gerð á skipan Jafnréttisráðs með lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, að Samtök um kvennaathvarf og Stígamót eiga þar einn sameiginlegan fulltrúa. Ráðinu er ætlað að vera félags- og tryggingamálaráðherra sem og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum er tengjast jafnrétti kynjanna. Í athugasemdum við frumvarpið er varð að þeim lögum er tekið fram að það þyki sérstaklega mikilvægt að Samtök um kvennaathvarf og Stígamót eigi þar fulltrúa enda sé það eitt af markmiðunum að unnið sé gegn kynbundnu ofbeldi. Enn fremur hefur fulltrúi ráðuneytisins tekið þátt í samstarfi á vettvangi Evrópuráðsins um smíði nýs samnings um að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gegn konum og ofbeldi í nánum samböndum (e. draft convention on preventing and combating violence against women and domestic violence).